12.06.1985
Efri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6375 í B-deild Alþingistíðinda. (5780)

213. mál, virðisaukaskattur

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur lengi haft til athugunar frv. til l. um virðisaukaskatt sem raunar er gamall kunningi bæði hér í þingsölum og úti í þjóðfélaginu og mikið hefur verið um rætt. Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að ljóst sé af rökum, sem færð eru fram í nál., að frekari undirbúning þurfi og athugun á máli þessu og leggur því til að því verði vísað til ríkisstj.

Ég skal ekki hafa um þetta öllu fleiri orð, en vek athygli á því að það eru mjög merkilegar upplýsingar í þessu nál., sem nýlega hafa borist til n., um virðisaukaskatt í ýmsum Evrópuríkjum. Þar kemur á daginn, það sem mönnum hefur líklega ekki verið almennt ljóst hér, að í flestöllum löndum öðrum en Norðurlöndunum, er mismunandi hár virðisaukaskattur og kannske mjög lágur eða enginn á brýnustu nauðsynjar, en aftur hækkaður á lúxusvörum. Þetta hafa menn talið að væri mjög illt og erfitt að framkvæma, en ljóst er að það tekst þó að gera það í fjölmörgum löndum. Ekki síst af þeirri ástæðu telja nm. að þetta mál þurfi að skoða betur.