12.06.1985
Efri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6375 í B-deild Alþingistíðinda. (5781)

213. mál, virðisaukaskattur

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það fer auðvitað ekkert á milli mála að hér er mikið stórmál á ferðinni sem miklu mundi breyta, en því miður ekki til hins betra. Ljóst er að ef frv. þetta yrði samþykkt mundi vöruverð í landinu stórhækka og þeir sem til þekkja telja að skriffinnska við innheimtu skattsins mundi verða margfalt meiri en við innheimtu söluskatts. Ég er innilega sammála þeirri ákvörðun stjórnarliða að vísa þessu frv. til ríkisstj. af þeirri ástæðu að málið sé vanhugsað og þarfnist nánari skoðunar. Satt best að segja held ég að þetta gæti átt við æði mörg önnur stjfrv. sem flutt hafa verið seinustu dagana og mundi mjög vera því fylgjandi að eitthvað af þeim málum, sem standa í vegi fyrir því að þingi ljúki, fengi sömu afgreiðslu.