12.06.1985
Neðri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6381 í B-deild Alþingistíðinda. (5803)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé ekki fjarri lagi að lýsa megi ástandinu á Íslandi í dag, hvað varðar möguleika á nýsköpun í atvinnulífi og aðstöðu okkar til þess að sækja þar fram, með fjórum orðum: miklir möguleikar — litlir peningar. Og það má segja að nokkru leyti um það frv. sem hér er til umfjöllunar einnig. Það fjallar um mikla möguleika en gerir í raun ráð fyrir litlum peningum. Það hefur vakið athygli mína að það sem af er þessari umræðu um hlutafélag til að örva nýsköpun í atvinnulífi hafa menn lítið staldrað við þann augljósa sannleik: hversu litla peninga á að leggja af mörkum í þessu margauglýsta og mikla átaki sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér að gera til nýsköpunar í atvinnulífi. Þvert á móti hef ég grun um að mörgum finnist þetta vera allmyndarleg upphæð, séu svona nokkuð hreyknir af því að það eigi að stofna hlutafélag, eitt allsherjar þróunarfélag sem hafi hvorki meira né minna en 200 millj. kr. hlutafé. En þetta er auðvitað það sem heitir á alþýðumáli skítur á priki, herra forseti, þetta er dropi í hafið. Og mér finnst þetta sérstaklega litlar tölur með tilliti til þess hvaða tegund atvinnurekstrar það er sem hæstv. ríkisstj. hefur helst beint sjónum sínum að og bindur helst vonir sínar við að verði landi og þjóð til blessunar, þ. e. stóriðja. Það vita auðvitað allir og sjálfsagt hæstv. iðnrh., sem hér skrafar á bak við mig, manna best, að í stóriðjuuppbyggingu eru miklir peningar á ferðinni. Og hæstv. iðnrh. hefur verið með stórkostlegar áætlanir um uppbyggingu samtengdra orku- og iðjuvera, kannske álvers af stærðinni 100–150–180 þús. tonn og tilheyrandi orkuver fyrir það. Hvað láta menn sér detta í hug, að þetta sé mikil fjárfesting, svona gróft reiknað? Ég hygg að ekki sé fjarri lagi að það sé á bilinu 14–20 milljarðar króna sem þyrfti til þess að koma upp einu svona batteríi, við skulum segja svona 15–18 milljarðar. Og svo er hæstv. ríkisstj. að miklast af hlutafélaginu sem á að hafa 200 millj. kr. til ráðstöfunar, það er að segja af sínu eigin fé.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, herra forseti, að hér er í raun um mjög litlar fjárhæðir að ræða. Það er að vísu þannig að ef þetta átak dreifðist til nokkurra smærri fyrirtækja þá dugar það eðli málsins samkvæmt betur heldur en ella, en það er þó alveg ljóst að það verða engar stórar rósir gerðar með því fé sem liggur að baki stofnunar þessa fyrirtækis.

Það er auðvitað athyglisvert enn fremur að hæstv. ríkisstj., þessi ríkisstjórn einkaframtaksins, dyggilega studd af ungliðunum í Sjálfstfl. sem kenna sig nú við brjóstvörn einkaframtaksins í landinu, hún setur allt sitt traust á ríkið. Hún hefur enga von um það, þessi hæstv. ríkisstj., að nýsköpun í atvinnulífi á Íslandi verði fyrir forgöngu annarra en ríkisins. Og ég er ekki frá því að ég sé henni sammála. Ég hef að vísu meiri trú á ýmsum samtökum fólksins og þátttöku sveitarfélaga og einstaklinga heldur en hæstv. ríkisstj. En það er engu að síður mín skoðun að nauðsynlegt sé og eðlilegt að ríkið eigi þarna hlut að máli, og það verði tæplega ætlast til þess, a. m. k. ekki eins og einkafjármagninu er dreift í landinu í dag, að það verði gert með öðru móti. Því miður eru þeim fyrirtækjum sem ég hefði best treyst til að ná árangri á þessu sviði ekki búin þau rekstrarskilyrði að. þau geti mikið.

Ég er hér t. d. að tala um fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi og fyrirtæki sem þjónusta þennan afvinnuveg í heimabyggðum. Ég er alveg viss um að þar er jarðvegur og þar eru möguleikar fyrir mikla nýsköpun í atvinnulífi, bæði úrvinnslu afurða þessara fyrirtækja og uppbyggingu ýmiss konar þjónustuiðnaðar sem við þau og í tengslum við þau starfa. Og það er nú svo merkilegt að þegar farið er yfir sviðið og athugað hvaða greinar íslensks iðnaðar hafa þó staðið sig best á undanförnum árum, þá standa í mínum huga tvær nokkuð upp úr. Það er annars vegar úrvinnsluiðnaður landbúnaðarvaranna, ullar- og skinnaiðnaðurinn, sem hefur bætt við sig langmestum mannafla allra íslenskra iðngreina, og hins vegar er það ýmis iðnaður í tengslum við og sem þjónar sjávarútveginum. Það hefur sprottið upp þó nokkuð myndarlegur útflutningsiðnaður sem byggir að hluta til á þeirri stöðu sem innanlandsmarkaðurinn gefur í þessum efnum og á þeirri reynslu og því verkviti sem við Íslendingar búum enn þá yfir í sjávarútvegi.

Ég get nefnt sem dæmi útflutning á veiðarfærum, fiskikössum og öðru slíku. Svo má nefna tölvuvogir, rafeindaiðnað sem tengist sjávarútveginum. Ég hygg að það séu ekki mörg dæmi um íslenskan iðnað sem á allra síðustu árum hefur unnið jafnmikið að vöruþróun og staðið sig álíka vel og þessar greinar.

Þess vegna er ég að tala um þetta, herra forseti, að í þessu nýsköpunartali manna finnst mér stundum að menn gleymi því hvar við stöndum, hvar við Íslendingar kunnum til verka, hvar við Íslendingar höfum stóran heimamarkað. Það er m. a. í sjávarútvegi. Allur búnaður í fiskvinnslustöðvar og í skipin og öll þau tæki sem notuð eru í þessari eiginlegu stóriðju okkar Íslendinga eru mjög umfangsmikil. Það er því alveg augljóst að þau fyrirtæki sem hasla sér völl á þessu sviði hafa verulegan markað hér innanlands til að styrkja sig með og auðvelda sér leiðina til útflutnings. Þetta sanna dæmin frá liðnum árum um þau fyrirtæki sem sprottið hafa upp og til að byrja með e. t. v. eingöngu framleitt fyrir innanlandsmarkað en síðan náð að færa út kvíarnar.

Ég held að nýsköpun í íslensku atvinnulífi megi ekki verða svo háfleyg að hún gleymi því sem fyrir er og gleymi þeim möguleikum sem okkar hefðbundna atvinnustarfsemi býður upp á. Mér finnst menn stundum tala ofurlítið um þetta í rósrauðri framtíð einhverra splunkunýrra atvinnugreina sem við höfum frétt af einhvers staðar utan úr heimi. Nú er ég ekki að lasta það að menn fylgist vel með, séu með á nótunum á sem allra flestum sviðum. En ég er að benda á það, herra forseti, að hollur er heimafenginn baggi og ætti sá sem hér stendur eitthvert fjármagn aflögu til þess að leggja í nýsköpun í atvinnulífi, þá held ég nú að mér yrði það fyrst fyrir að skoða þær greinar sem við Íslendingar höfum stundað um aldir og þar sem við kunnum til verka og sjá hvort þar væru ekki einhverjir þeir möguleikar sem nýta mætti betur en gert er.

Og þrátt fyrir allt tal um erlendar skuldir og bága stöðu þjóðarbúsins er staða þessarar stóriðju okkar Íslendinga, sem í raun framleiðir yfirgnæfandi meiri hlutann af þeim vörum sem afla okkur gjaldeyristekna og miklu meiri tekna en henni eru yfirleitt reiknaðar, býsna sterk, vegna þess að inn í tölur um gjaldeyrisframleiðslu er stóriðjuframleiðsla reiknuð en hún er einnig einn stærsti aðilinn í gjaldeyriseyðslunni, þannig að þegar nettógjaldeyrisframlegð atvinnugreina á Íslandi er reiknuð út hygg ég að staða sjávarútvegsins sé jafnvel enn sterkari en menn telja. Þrátt fyrir þetta ber sjávarútvegurinn af sínum fjárfestingum einungis um 16% af öllum erlendum skuldum þjóðarinnar. Og það er auðvitað merkilega lágt hlutfall, herra forseti, þegar tillit er tekið til þess hversu stór þessi atvinnugrein er bæði í landsframleiðslunni og útflutningsframleiðslunni. Sýnir það hversu afkastamikil og arðbær þessi stóriðja er í raun fyrir þjóðarbúið, að hún skuli skapa öll þessi verðmæti án þess að hafa þurft að taka meira fé að láni til að byggja sig upp.

Til hliðar við þetta skoðar maður svo dæmið um orkugeirann sem ber um helming af öllum erlendum skuldum þjóðarbúsins. Og það er óhjákvæmilegt að maður staldri ofurlítið við þennan samanburð, herra forseti, ekki síst með tilliti til þess að hér er á ferðinni frv. ríkisstj. sem mænir helbláum augum til stóriðjunnar og stóriðjunnar einnar.

Ég var að rifja það upp hér áðan, áður en hæstv. iðnrh. gekk úr salnum, hvað það kostaði að byggja upp eitt svona batterí sem hann er með í hug sínum og reyndar mörg, svona stóriðjubatterí, orkuver og iðjuver sem skapar kannske störf handa 4–500 manns í besta falli, þó fer sú tala lækkandi ár frá ári vegna aukinnar sjálfvirkni í þessum greinum, en kostar 15–18–20 milljarða króna að byggja upp.

Ef við Íslendingar tækjum nú þá ákvörðun að í staðinn fyrir að byggja upp eitt svona stóriðjubatterí, hvort sem það ætti nú að standa við Eyjafjörð eða einhvers staðar annars staðar, ætluðum við á svipuðum tíma og það tekur að byggja slíka virkjun og slíkt iðjuver, á 5–8 árum skulum við segja, að verja hliðstæðri fjárhæð til nýsköpunar og uppbyggingar á öðrum sviðum í atvinnulífi, við merktum okkur m. ö. o. 18 milljarða króna, hliðstæða tölu við þá sem færi í stóriðjubatteríið, við merktum okkur hana til þess að gera átak á öðrum sviðum, í smærri fyrirtækjum, í endurskipulagningu og úrvinnslu í þeim greinum sem fyrir eru, þá er ég ekki frá því, herra forseti, að ýmsum þætti vænkast sinn hagur ef til reiðu væru slíkir fjármunir í þessi verkefni. Þeir sjóðir sem eiga að stuðla að uppbyggingu og nýsköpun í þessum greinum á Íslandi í dag hafa yfir að ráða nokkrum tugum eða nokkrum hundruðum milljóna og verða að neita fjöldanum öllum af umsóknum árlega. Það hlýtur því að vera mikil spurning hvort það er réttlætanleg og skynsamleg stefna að draga jafnmikið fé í jafndýrar fjárfestingar sem skapa jafnfá störf.

Þá vakna einnig efasemdir um þjóðhagslegt mat, þjóðhagslegan arð af því að haga málunum þannig. Iðnþróunarfélög þau sem að störfum eru um allt land setja sér strangari skilyrði fyrir arðsemi í þeim fyrirtækjum sem þau stuðla að að komið verði á fót heldur en menn gera um stóriðjuna og munar þar gjarnan nokkrum prósentum. Þannig hefur t. d. Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar, þrátt fyrir ströng skilyrði hvað þetta varðar, komið á fót þó nokkrum fyrirtækjum, sem nú skapa störf um byggðir Eyjafjarðar, fyrir svo örlítið brot af þeim fjárfestingartölum sem um er að ræða í stóriðju að enn hlýtur sá samanburður að vekja mann til umhugsunar.

Það er lítið talað um íslenskan landbúnað, herra forseti, þegar rætt er um nýsköpun í atvinnulífi á Íslandi. Og reyndar heyrist því oft slegið fram að okkar hefðbundnu greinar séu komnar að endimörkum og þar verði engin framþróun lengur og ekkert fólk muni bætast við í störf þar í besta falli, jafnvel verði frekar um samdrátt að ræða. Menn halda kannske að ræðumaðurinn sem hér stendur sé orðinn vitlaus að fara að tala um íslenskan landbúnað og nýsköpun í íslensku atvinnulífi. En það verður þá að hafa það. Ég skal standa undir því.

Ég er þeirrar skoðunar að í íslenskum landbúnaði, rétt eins og í íslenskum sjávarútvegi, felist miklir möguleikar sem ónýttir séu og þegar menn ræða nýsköpun í atvinnulífi á Íslandi eigi menn ekki að gleyma þessum elsta og stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar lengst af. Ég á hér auðvitað ekki bara við búskapinn sjálfan og framleiðslu á vörunum þar, heldur einnig við ýmsar afleiddar greinar, ekki síst iðnaðinn sem, eins og ég rakti hér áðan, hefur staðið sig á síðasta áratug best allra íslenskra iðngreina að mínu viti, bæði hvað varðar að bæta við sig mannafla og auka hlutdeild sína í útflutningi. Láta mun nærri að á síðasta ári hafi verðmæti útflutnings sem rekur sig til hráefna frá íslenskum landbúnaði verið um 2 milljarðar kr. og fólk sem er beint í störfum á þessu sviði er á milli 2 og 3 þúsund. Þetta er ekki lítil upphæð og þetta er ekki ólaglegur árangur þegar haft er í huga hvað tiltölulega stutt saga liggur hér að baki.

Staðan er þannig nú í skinnaiðnaði að fullnýtt eru öll þau skinn sem falla til á Íslandi og rúmlega það. Iðnaðardeild Sambands ísl. samvinnufélaga hefur hafið innflutning á skinnum til vinnslu frá nálægum löndum, Færeyjum og Grænlandi, en þar gefast skinn einna líkust þeim sem við höfum hér og eru talin þau bestu í heimi, enda verðlögð sem slík. Engu að síður ætla menn nú að fara að skera þennan atvinnuveg niður við trog, sérstaklega sauðfjárbúskapinn sem leggur til þessi verðmætu hráefni. Það hlýtur að flokkast undir nýsköpun í íslensku atvinnulífi, eða hvað?

Þessi mál, nýtt frv. til laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á landbúnaðarafurðum og nýja þróunarfélagið, eru nánast samferða hér í þinginu, lögð fram af hæstv. ríkisstj. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það eigi að athuga þá möguleika sem felast m. a. í þessum afleiddu greinum landbúnaðarins, og auðvitað þyrfti og ætti að skoða það áður en menn taka ákvörðun um að skera þessa atvinnugrein niður við trog, því að fyrir utan þann iðnað sem byggir á þessum hráefnum er það auðvitað fjölda, fjölda margt annað sem landbúnaðinn varðar sem hér ætti að gaumgæfa, t. d. að hve miklu leyti er hægt að gera landbúnað á Íslandi óháðan erlendum aðföngum, þannig að þjóðhagsleg hagkvæmni og gjaldeyrissparnaður sem í því felst að stunda hér landbúnað aukist. Ég hygg að á því sviði séu einnig miklir möguleikar, rétt eins og hefur verið að gerast allra síðustu árin í sjávarútveginum, að iðnaður í tengslum við hann og iðnaður sem þjónustar hann hefur lagt til meira af tækjum og búnaði til þessarar atvinnugreinar en áður gerðist. Væri það einnig hægt í landbúnaðinum, að framleiða á Íslandi meira af ýmsum þeim tækjum og vörum sem flokkast undir aðföng þessarar atvinnugreinar.

Þessu fylgir svo, ef menn ráðast í þetta verkefni, alkunn hringrás sem þm. sjálfsagt kannast við. Hún er sú að nýjum iðngreinum, sem hasla sér völl á nýju sviði og taka upp nýja framleiðslu, fylgir aukning í öðrum iðngreinum, t. d. þeim sem framleiða tæki og búnað fyrir þær iðngreinar sem verið er að koma á fót. Þannig getur slík hringrás orðið víxlverkandi eða keðjuverkandi og leitt til þess að þessi vöxtur breiðist út og dreifist út um allt þjóðlífið og einkum og sérstaklega innan iðnaðargeirans.

Við frv. þetta sem hér er til umræðu, herra forseti, og er mál nr. 455 er brtt. flutt af nokkrum þm. Alþb., auk mín hv. þm. Geir Gunnarssyni, Hjörleifi Guttormssyni, Guðrúnu Helgadóttur og Svavari Gestssyni. Brtt. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á eftir 1. gr. komi ný gr. er verði 2. gr. og orðist svo:

Heimili og varnarþing hlutafélagsins er á Akureyri.“

Nú kann einhver að segja að það leiði ekki af sér nýsköpun í íslensku atvinnulífi hvar stofnun eins og þessi er staðsett. En vissulega má flokka það undir nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Ég hef hér talað nokkuð um iðnað og á Akureyri er ein ríkasta iðnaðarhefð í öllum bæjum á Íslandi. Þar er aðsetur iðnaðardeildar Sambands íslenskra samvinnufélaga sem er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu og veitir hátt í þúsund manns atvinnu við ýmiss konar verksmiðjuiðnað í stöðvum sínum á Akureyri.

Einn af forustumönnum þessarar iðnaðardeildar tjáði mér það fyrir nokkrum dögum að þau áhrif hefðu verið hreint lygileg sem það hafði á bæjarlífið á Akureyri þegar iðnaðardeildin flutti höfuðstöðvar sínar norður, þ. e. skrifstofudeildir og aðra þjónustu sem rekstri iðnaðardeildarinnar fylgdi. Þetta mun hafa verið hér suður í Reykjavík, herra forseti, um langa hríð, sennilega við Sölvhólsgötu. En vegna þess hve umfangsmikill iðnreksturinn var orðinn á Akureyri ákvað þetta merka fyrirtæki, Samband ísl. samvinnufélaga, að flytja höfuðstöðvar iðnaðardeildar sinnar norður. Og það hafði ótrúleg áhrif að sögn þessa fróða manns, þar bættust við ný störf o. s. frv.

Sú ákvörðun Sambandsins mætti verða gott fordæmi þess að byggja upp þetta nýja hlutafélag á Akureyri og sjá hvort ekki leiddi svipað af því eins og þegar iðnaðardeildin flutti sína starfsemi norður. Nú mun þetta hlutafélag sem slíkt að líkindum ekki ætla að standa fyrir umtalsverðum atvinnurekstri heldur eiga hlutdeild að því að koma honum á fót og örva o. s. frv., eins og hér er sagt í heiti frv. Þess vegna er það ekkert sjálfgefið að það verði óskaplega mikið að umfangi, láti sig e. t. v. fyrst og fremst fjármálahliðina og þróunar- og upplýsingahliðina varða. Ég tel að einmitt þetta ætti að auðvelda það fremur en hitt að staðsetja svona fyrirtæki einhvers staðar annars staðar en endilega hér í Reykjavík. Menn skulu líka huga að því að það er ekkert víst að niðurstaðan af starfi þessa þróunarfélags verði endilega fyrst og fremst iðnaður í Reykjavík. Eða er það? Er það e. t. v. þess vegna sem menn sjá á því tormerki að hafa þetta fyrirtæki annars staðar? Er það e. t. v. vísbending um það sem koma skal? Er það vísbending um það að aðstandendur frv. sjái framtíðina þannig fyrir sér fyrst og fremst að verkefni þess liggi hér á höfuðborgarsvæðinu? Það er óhjákvæmilegt að spyrja að þessu, herra forseti.

Við höfum rétt nýverið afgreitt frá okkur annað frv., einhvers konar systurfrv. eða litla bróður þessa frv. sem hér er til umræðu. Góðir menn höfðu einnig hugmyndir uppi um það að færa Byggðastofnun norður á Akureyri. Verður tæpast um það deilt að verkefni þeirrar stofnunar liggur þó fyrst og fremst á landsbyggðinni. Minni hluti, að vísu, þm. í þessari hv. deild felldi þessa till. hér rétt áðan. Þar með er sá kostur úr sögunni í bili að við skulum ætla. Því tækifæri hefur a. m. k. verið hafnað að ganga frá því hér og nú að Byggðastofnun verði staðsett á Akureyri. En enn gefst mönnum kostur til að skoða hug sinn og þá um það hvort ekki sé vænlegt að byggja upp þetta þróunarfélag, nýtt fyrirtæki, á þessum margnefnda stað, nú eða einhvers staðar annars staðar. Næðist um það samstaða hér með öllum flokkum, öllum hv. þm. þessarar deildar, að hafa þetta fyrirtæki t. d. á Egilsstöðum þá skal ekki standa á mér að styðja það. Það sem fyrst og fremst vakir fyrir mér er sú stefnumarkandi ákvörðun, sú viljayfirlýsing sem í slíkri samþykkt mundi felast, um það að menn vildu dreifa starfsemi og þjónustu hins opinbera meira um landið. En betur að þessu síðar, herra forseti.

Vegna þess sem ég rakti hér áðan möguleikana í íslenskum sjávarútvegi og íslenskum landbúnaði og ýmsum greinum tengdum þessum tveimur, þá teldi ég það einmitt mjög heppilegt að þetta fyrirtæki starfaði einhvers staðar í blómlegu héraði úti á landi. Og aðstæður eru líka þannig í okkar þjóðfélagi hvað byggðamál varðar að þörfin fyrir átak, fyrir nýsköpun er margfalt meiri á landsbyggðinni en hér í Reykjavík. Um það verður naumast deilt. Ég bið þá hæstv. forsrh. að lýsa því hafi hann aðra skoðun. Er hæstv. forsrh., sem mun vera yfirmaður Framkvæmdastofnunar ríkisins sem nokkuð fæst við að skoða þessi mál, mér ekki sammála um það að þörfin fyrir átak í atvinnulífi, fyrir nýsköpun sé í raun miklu meiri úti á landsbyggðinni ef við ætlum að halda einhverju sem kallast getur jafnvægi í byggð landsins?

Nú er það þannig að rétt rúm 40% íbúa landsins búa utan stór-Reykjavíkursvæðisins sem svo er nefnt, tæp 60% innan þess. Engu að síður er stærð þeirra árganga sem eru að koma á vinnumarkaðinn úti á landi 48% á móti 52% hér og valda þessu ýmsir ágætir eiginleikar okkar landsbyggðarmanna, svo sem meiri frjósemi og hef ég ekki fleiri orð um það. En þetta ætti að gera mönnum ljóst að hlutfallslega, miðað við íbúafölu, er þörfin fyrir ný störf úti á landi miklu meiri á næstu árum heldur en hér á stór-Reykjavíkursvæðinu. Þetta ættu menn að hafa í huga. Þannig þykist ég, herra forseti, hafa sýnt fram á það að bæði þörfin fyrir og möguleikarnir á nýsköpun í atvinnulífi séu í raun fremur fyrir hendi úti á landi, það sé vænlegra að hasla sér völl í þeim greinum þar sem við Íslendingar kunnum til verka og stöndum framarlega. sá atvinnurekstur, einkum og sér í lagi sjávarútvegurinn, er dreifður hringinn í kringum landið og einungis í tiltölulega litlum mæli hér á höfuðborgarsvæðinu, a. m. k. að tiltölu við íbúafjölda.

Auðvitað er hægt að hugsa sér, herra forseti, að þjónustan sem slík leysi þessi mál. En það gengur nú svona og svona að fá skilning á því að flytja þurfi þjónustustofnanir og dreifa þurfi þeim öðruvísi um landið en gert hefur verið. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að það gæti verið stór liður í því að leysa þessi mál. En menn lifa náttúrlega aldrei á því eingöngu að þjónusta hverjir aðra. Og þessi þjóð mun aldrei ná langt og verða feit af því að við verslum hver við annan. Ég held að það endi með ósköpum þó að flest bendi nú til þess um þessar mundir að menn stefni á þá framtíð.

Nei, ég held að allir eigi að gera sér það ljóst að við þurfum að styrkja undirstöður okkar atvinnulífs, þær greinar sem verðmætin leggja til í upphafi, þær greinar sem framleiða afurðir sem síðan geta orðið öðrum að hráefni og að viðfangsefni við úrvinnslu og í þjónustu. Þessar greinar eru sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður fyrst og fremst og af þessum þremur eru tvær að yfirgnæfandi meiri hluta til á landsbyggðinni og sú þriðja, iðnaðurinn, er þar reyndar í þó nokkuð miklum mæli, t. d. á Akureyri þar sem verulegur útflutningsiðnaður er staðsettur sem byggir á aðföngum frá landbúnaði.

Ég held, herra forseti, að það sé einnig skynsamlegt að ræða ofurlítið skólamál í tengslum við nýsköpun í atvinnulífi. Það er nefnilega þannig að mennt er máttur og mennt er fjárfesting, fyrir utan það að vera hugsjón og göfugt viðfangsefni, og það verður aldrei mikil nýsköpun í íslensku atvinnulífi ef við vanrækjum menntun þjóðarinnar, ekki síst verkmenntunina. Íslendingar eru miklir bókamenn eins og allir vita. Voru hér á árum áður einnig miklir latínumenn. Það þótti göfugra öðrum námsgreinum að vera vel að sér í latínu, sögu og íslensku og ýmsum slíkum greinum. Ég hygg að þetta hafi býsna lengi loðað við og er ég ekki að lasta það út af fyrir sig. Það er falleg hugsun að vilja vera vel að sér í þessum göfugu greinum. En þjóð eins og Íslendingar sem á jafnmikið undir framleiðslustörfum, byggir á framleiðslu matvæla fyrst og fremst eins og við gerum, hún má heldur ekki vanrækja sína verkmenntun.

Ég hygg að þeim málum hafi ekki verið sinnt sem skyldi, herra forseti. Átak til að örva nýsköpun í atvinnulífi ætti fyrst og fremst, og í raun og veru í upphafi, að vera átak í menntun. Það ætti að vera átak til þess að mennta og þjálfa hæft starfsfólk til þess að standa síðan fyrir og taka þátt í slíkri nýsköpun.

Ég vil nefna einn skóla sem mér og virðulegum forseta er vel kunnugur. Það er Verkmenntaskólinn á Akureyri. Það er í fyrsta sinn sem verkmenntastofnun er skírð svona göfugu nafni, nafni svo göfugrar ættar, menntaskóli. Yfir slíku nafni hefur lengi verið ljómi í hugum Íslendinga. Það hefur þótt virðing að geta kallað sig stúdent. Ég vona, herra forseti, að þetta sé boðberi nýrra tíma, að það boði bjartari framtíð í þessum efnum að þarna er risinn verkmenntaskóli. Þetta sé viðurkenning yfirvalda á því að verkmennt er jafngöfug og ekki síður en önnur mennt. Hún er jafnþörf og hún á jafnmikinn rétt á sér.

Það er verið að byggja upp þennan skóla norður á Akureyri, þennan verkmenntaskóla, og það gengur að sumum finnst heldur rólega. Við vitum það þm. úr þessu kjördæmi, Norðurlandskjördæmi eystra, hvar Akureyri er staðsett, að margir þar vildu sjá stærri fjárhæðir renna til þess að byggja upp þennan vonarstein verkmenntunar á Norðurlandi. En þess vegna er ég að minnast á það, herra forseti, að ég teldi skynsamlegt að verja einhverju af því fé sem menn ætla að láta ganga til nýsköpunar í atvinnulífi til þess að byggja upp menntastofnanir og þá ekki síst verkmenntastofnanir. Það kann að vera að það mundi ekki skila á allra næstu árum þeim sama árangri í verðmætasköpun fyrir þjóðina að leggja t. d. af þeim milljónum sem þetta fyrirtæki á að fá, við skulum segja 30–50 millj. á allra næstu árum, til þess að byggja upp Verkmenntaskólann á Akureyri. Einhver mun sjálfsagt segja: Já, en góði maður, fyrir þessar 50 millj. er hægt að stofna tvö fyrirtæki, annað í fóðuriðju og hitt í gúmmíframleiðslu, svo ég nefni dæmi, og þau gætu veitt 8 til 10 manns störf. Og eftir nokkur ár gætu þessi fyrirtæki verið farin að skila svo og svo miklum arði. — Þetta er sjálfsagt alveg rétt. En til lengri tíma lítið er það sannfæring mín, herra forseti, að nokkur hundruð vel menntaðir stúdentar úr verknámi frá Akureyri væru betri fjárfesting og mundu skila meiru í framtíðinni heldur en það þó við tækjum nokkrar milljónir og kæmum þeim fyrir í einu eða tveimur litlum fyrirtækjum, vegna þess að undirstaða framfara á þessu sviði er, eins og ég áðan sagði, vel menntað og vel þjálfað fólk til þess að taka þátt í og vera aðilar að þessu nýsköpunarátaki í atvinnulífinu.

Stöðu Háskóla Íslands ætti einnig að ræða í tengslum við þetta frv. til laga um að örva nýsköpun í atvinnulífi. Ég held að sú þjóð sem ekki á góðar menntastofnanir, og þá sérstaklega og ekki síst háskóla, verði undir í framtíðinni í þeirri samkeppni sem yfir stendur og fyrir dyrum er áreiðanlega um hlutdeild á hinum alþjóðlegu mörkuðum. Menn hafa rætt ofurlítið um háskóladeild á Akureyri, herra forseti. Það er allt í lagi að ræða hana aðeins í tengslum við umræður um verkmenntaskóla á sama stað og í tengslum við umræður um Háskóla Íslands. Nú kann einhver að segja: En hvaða erindi á umræða um háskóladeild á Akureyri inn í umræður um nýsköpun í atvinnulífi? — Ég vil segja það við þann góða mann, ef einhver skyldi vera sem segði sem svo, að fátt held ég að yrði Akureyri mikilvægara, þegar til lengri tíma er litið, en að sett yrði á fót menntastofnun á borð við háskóla þar. Ef sú stofnun næði að vaxa og dafna, ráða til sín vel menntað fólk, fólk með þá bestu menntun sem fáanleg er í landinu til þess að stunda þar kennslustörf, til að annast þar rannsóknir og til þess að taka þar þátt í atvinnulífinu að einhverju leyti, herra forseti, þá gæti slíkt orðið uppspretta meiri verðmæta en mörg þúsund tonn af steinsteypu.

Það er nefnilega þannig að ein góð hugmynd, ein góð aðferð í framleiðslu getur verið meira virði en margar stofnanir og margir rúmmetrar af steinsteypu. Auðvitað fá ýmsir góðar hugmyndir og menn þurfa ekki endilega að vera háskólalærðir til þess að láta sér detta eitthvað sniðugt í hug. En svona almennt séð held ég þó að þeim mun betur menntaðir, þeim mun lærðari sem menn eru, þeim mun líklegra sé að menn geti lagt eitthvað gagnlegt til málanna á þessu sviði eins og reyndar svo mörgum öðrum. Þess vegna fyndist mér það mjög gleðilegt og mjög eðlilegt, herra forseti, að á sama tíma og verið væri að byggja upp þessa stofnun, þetta hlutafélag um þróun atvinnulífs á Akureyri, þá yrði þar einnig sett á fót háskóladeild sem ekki síst legði áherslu á ýmsar tækni- og verkmenntunargreinar. Ef þetta tvennt yrði gert og færi hönd í hönd þá yrði þar kannske jarðvegur og andrúmsloft sem mundi örva menn til dáða á þessu sviði. Þá yrðu þar kannske til hugmyndir. Jafnvel þó að ekki nema ein snjöll hugmynd yrði þar til gæti það skilað meiri verðmætum heldur en tíu ára strit þessa fyrirtækis sem hér er verið að ræða um eitt og sér.

Ég held, herra forseti, að það þurfi að ræða þetta allt í samhengi. Það er nefnilega ekki til neinn „hókus pókus“ í þessum efnum, það er mikill misskilningurinn. Og þetta er ekki auðvelt. Þetta er þvert á móti erfitt, herra forseti. Það er ekki talið óeðlilegt úti í hinum stóra heimi að af hverjum tíu kostum sem skoðaðir eru vandlega í þessum efnum reynist e. t. v. ekki nema þrír sæmilega framkvæmanlegir og að tíu árum liðnum sé ekki nema einn þeirra enn þá við lýði eða enn þá starfandi. Svo erfið og vandrötuð er þessi gata, herra forseti. Það er meira en bara að stofna hlutafélag og segja „hókus pókus“. Menn verða að vita hvaða forsendur þarf til að slíkt starf geti skilað árangri. Og menn verða að gera sér grein fyrir því að þetta átak þarf að gera á mörgum sviðum.

Það er auðvitað virðingarvert og ágætt að hæstv. ríkisstj. stofni hlutafélag eða beiti sér fyrir stofnun hlutafélags. En ég þykist hafa sýnt fram á það, herra forseti, að það eitt og sér er ekki gulltrygging þess að Íslendingar verði orðnir hámenntuð iðnaðarþjóð í fararbroddi í nýsköpun atvinnulífs eftir örfá ár. Það þarf meira til.

Ég teldi ekki óeðlilegt, herra forseti, að þegar næst verður tekið til við að ræða fjárlög hér á hinu háa Alþingi eftir ekki ýkja marga mánuði, það er komið fram á sumar, þá látum við einhverjir þm. á það reyna hvort átaki til nýsköpunar atvinnulífs fylgi sá hugur af hálfu hæstv. ríkisstj. að hún sé t. d. reiðubúin að leggja aukið fé í uppbyggingu Verkmenntaskólans á Akureyri. Ég teldi mjög eðlilegt að láta á það reyna. Það gæti verið æskilegur prófsteinn á þann hug og þann skilning sem hæstv. ríkisstj. hefur í þessum málum.

Það er auðvitað lofsvert að hluta af þessu fjármagni á að veita til rannsókna, að mér skilst, og ýmissa annarra hluta. Við eigum ágæta og hæfa rannsóknarmenn sem við ákaflega erfiðar aðstæður hafa skilað merkilega miklu hlutverki og eru jafnvel á sumum sviðum í fararbroddi í veröldinni. En það verða ekki þessir rannsóknarmenn og það verða ekki háskólakennararnir sem starfa í nýju verksmiðjunum, sem starfa í nýju fyrirtækjunum. Það verður fólkið sem núna er í grunnskólunum og gagnfræðaskólunum og kannske í Verkmenntaskólanum á Akureyri þegar það sest niður til náms næsta haust. Það verða þeir, herra forseti, sem annaðhvort eru nýkomnir eða eru á leiðinni út á atvinnumarkaðinn sem munu, ef af verður, starfa í nýju fyrirtækjunum og nýju fabrikkunum sem leiðir af samþykkt þessa frv. Og það er þetta fólk ekki síst sem ég er að tala um þegar ég er að tala um Verkmenntaskólann á Akureyri og aðrar slíkar stofnanir, fjölbrautaskólana vítt og breitt um land og Háskóla Íslands.

Ég veit að það þarf auðvitað ekki að segja hæstv. forsrh., sem er verkfræðingur að mér er sagt, meira að segja rafmagnsverkfræðingur, og meira að segja lærður í Ameríku að mér er sagt, frá þessu. Hann skilur þetta og veit. Engu að síður þótti mér rétt að rifja þetta upp og boða það, herra forseti, að þegar við næst tökum til við að ræða fjárveitingar hér á hinu háa Alþingi, þá tel ég eðlilegt að á það verði látið reyna hvaða skilningur og hvaða hugur fylgir máli hjá hæstv. ríkisstj. í þessum efnum.

En það reynir miklu fyrr á það, herra forseti, hvort þessi virðulega þingdeild er tilbúin til þess að staðsetja þetta nýja hlutafélag á Akureyri. Og ég bíð mjög spenntur eftir þeirri atkvæðagreiðslu sem væntanlega verður um brtt. sem ég og nokkrir hv. þm. aðrir hafa flutt. Ég býst við að einhverjir verði til þess að skríða í skotgrafirnar eins og venjulega og segja að þetta sé nú óráðlegt og þetta sé nú erfitt og það sé nú eðlilegra að stjórnin ákveði þetta, það sé nú ekki rétti staðurinn hér á Alþingi. Sem sagt vísi málinu frá sér, treysti sér ekki til að taka ákvörðunina.

En mér finnst það þeim mun alvarlegra, herra forseti, að viðhafa slíkan málflutning nú og í þessu tilfelli, heldur en það var í tilfetlinu áðan, þ. e. um Byggðastofnun. Hér erum við að tala um eitt kjörið tækifæri til að gera eitthvað í þessum efnum og láta einhverja drauma rætast í þessum efnum, vegna þess að hér á að fara að byggja upp nýja stofnun, nýtt hlutafélag á að verða til. Það er enginn einasti maður í störfum hjá þessu hlutafélagi í dag. Það er ekki nokkur manneskja á launaskrá hjá Þróunarfélaginu í dag. Það býr enginn maður í Reykjavík, í húsi úti á Seltjarnarnesi eða inni við Laugalæk sem er í starfi hjá Þróunarfélaginu. Þess vegna þarf enginn maður að pakka ofan í kassa og enginn maður að flytja norður á Akureyri þó að ákvörðun verði tekin um það að setja þetta fyrirtæki á stofn þar.

Þetta er nokkur munur, að því er mér skilst, frá því er var um Byggðastofnunina, þá við ræddum hana áðan. Einhverjir menn vinna á svokallaðri byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins og hafa sennilega hugsað sér að starfa áfram við þessa væntanlegu Byggðastofnun. Og ef þessir menn hefðu ætlað að fylgja þessari stofnun undir hinu nýja nafni þá hefðu þeir auðvitað orðið að flytjast með henni norður til Akureyrar, gaf auga leið, herra forseti. Mér er ekki alveg grunlaust um að einhverjir hv. þm., sem hér sögðu ákveðið nei áðan, hafi sett þetta fyrir sig, hafi notað þetta sem viðbáru til þess að skjóta sér undan að taka ákveðna ákvörðun. Þessi ástæða, þessar viðbárur eiga ekki við hvað þetta varðar. Ég held reyndar að þær hafi verið léttvægar í fyrra tilfellinu. Það hafi verið heybrókarháttur að þora ekki að líta fram hjá þeim. En hér geta menn engu slíku skotið fyrir sig. Það er enginn maður á launaskrá hjá Þróunarfélaginu í dag.

Svo mætir Þróunarfélaginu, ef það kæmi norður, herra forseti, sannarlega góður hugur. Það er vitað. Bæjarstjórn Akureyrar hefur boðið það sérstaklega velkomið. Og þeirri ósk bæjarstjórnar Akureyrar að fá að hýsa þetta fyrirtæki, fá að reyna að styðja við bakið á því, hefur verið vel tekið víða. Hún hefur verið studd af fólki frá öðrum stöðum á landsbyggðinni. Það er vandi vel boðnu að neita, herra forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst menn þurfa að færa einhverjar gildar ástæður fyrir því að neita svona góðu heimboði. Það er eiginlega hálfgerður dónaskapur að þiggja ekki heimboð sem boðið er af svona góðum hug.

Ég er á því, herra forseti, að staður eins og Akureyri, með fjölbreytt atvinnulíf, með öfluga útgerð, með blómleg landbúnaðarhéruð á bak við sig, með mikinn iðnað, með ríka iðnaðarhefð, með menntaskóla, með verkmenntaskóla, og vonandi einnig með háskóladeildir eftir örfá ár, sé aldeilis ákjósanlegur staður fyrir fyrirtæki af þessu tagi. Aldeilis ákjósanlegur staður. Það eru góðar samgöngur til og frá Akureyri í allar áttir, út og suður. Það eru meira að segja ágætis samgöngur hingað til Reykjavíkur ef þetta fyrirtæki skyldi þurfa að taka að sér einhver verkefni þar. Ég held að Akureyri sé mjög vel í sveit sett hvað varðar þjónustu við landið, Austfirði og Vestfirði þar með talda, Suðurland einnig. Sumir eru að tala um að malbika Sprengisand. Hvað sem úr því verður er það ljóst að frá Akureyri má að mínu viti starfrækja þetta fyrirtæki með alveg jafnmiklum árangri og jafnvel enn frekar en einhvers staðar annars staðar frá. Stærð bæjarfélagsins er einnig heppileg að mínu viti. Þar skapast að líkindum nánari tengsl mannlífs, atvinnulífs og skóla heldur en gerist í miklu stærri byggðarlögum eins og því sem við erum staddir í nú, herra forseti. Ég held því að það mæli margt með því en fátt gegn því að þetta fyrirtæki verði staðsett þar.

Sérstaklega vil ég biðja menn að hugleiða augnablik hvar þörfin er, hvar þeir telja að átak til nýsköpunar í atvinnulífi eigi fyrst og fremst að fara fram á næstu árum og áratugum. Staðsetning fyrirtækis hér í Reykjavík, sem fyrst og fremst á að starfa úti á landi, er að mínu viti tímaskekkja og röng hugsun, það er ekki rökrétt, herra forseti. Fyrirtæki sem á að beita sér sérstaklega fyrir nýsköpun í tengslum við okkar sjávarútveg, á að beita sér fyrir því að setja á fót fyrirtæki sem framleiða vinnsluvélar, framleiða búnað fyrir fiskvinnsluna, það er mjög vel sett á Akureyri. Við Eyjafjörðinn er öflug útgerð togara og báta. Þar er unninn bolfiskur, flatfiskur, rækja o. s. frv. Þar er stærsta niðursuðufyrirtæki landsins í sjávarútvegi með mörg hundruð manns á launaskrá og mikinn tækjakost, fyrirtæki sem gengur vel og stækkar við sig. Þar er þessi öflugi iðnaður í tengslum við sjávarútveg. Þar og í nágrenninu er farið að framleiða bæði úr plasti og járni og ýmsum öðrum vörum ýmiss konar varning sem notaður er í skipunum og fiskvinnsluhúsunum og meira að segja farið að flytja hann út. (Forseti: Ég vil leyfa mér að spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni. Það var hugmyndin að gera hlé á fundi þar til kl. 5.) Þó að ég vildi gjarnan hjálpa forseta þá hafði ég ættað mér að fjalla hér um fáein mál til viðbótar. (Forseti: Þá gerum við hlé á þessum fundi þar til kl. 5.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Það getur nú sett óvana og lítt þjálfaða þm. eins og þann sem hér stendur nokkuð út af laginu að þurfa að kljúfa ræður sínar í tvennt eða jafnvel í fleiri parta, eins og borið hefur við í umræðum hér einstöku sinnum á undanförnum dögum. En við virðulegan forseta er að sjálfsögðu ekki að sakast þó að þingtíma vorum sé skipt í nokkra parta jafnvel á einum og sama deginum. Þetta getur jafnvel orðið til þess að menn rifji óvart upp eitthvað af því sem þeir áður höfðu sagt, muni jafnvel ekki alveg hvar þeir voru staddir í ræðu sinni. Þetta leiðir jafnvel til þess að ræður verði eitthvað lengri en ella.

Ég var nokkuð að ræða ýmsar hliðargreinar þessa máls, þessa frv. til laga um að stofna nýtt þróunarfélag, er ég taldi eðlilegt og nauðsynlegt að ræða hér í samhengi við stofnun þessa fyrirtækis. Og einn efnisþáttur, sem ég man fyrir víst, herra forseti, að ég átti eftir að fjalla um að verulegu leyti, var að ræða þetta frv. í tengslum við launastefnu ríkisstj. Launin er mjög stór liður í öllum atvinnurekstri. Auðvitað er það misjafnt en þó er ekki óalgengt að laun séu helmingur, þriðjungur og allt upp í 70% eða meira af útgjöldum einstakra atvinnufyrirtækja og launin sem hlutfall af þjóðartekjum eru gjarnan í þessum hærri kanti. Nú var það ein fyrsta og nánast einasta aðgerð þessarar ríkisstj. í efnahagsmálum, fyrir utan það að innleiða vaxtaokur, sem svo hét áður en heita nú bara háir vextir eða raunvextir, að lækka launin í landinu. Þessi ríkisstj. beitti sér fyrir því að lækka launin í landinu. Menn geta sjálfsagt deilt um það hve mikið hún lækkaði þau en enginn ber á móti því að kaupmáttur launa rýrnaði, laun lækkuðu í landinu við tilkomu þessarar ríkisstj. Og hvaða áhrif hafa aðgerðir sem þessar, aðgerðir eins og launalækkun, á atvinnulífið? Jú, ýmsir töldu, og réttlættu m. a. þessa aðgerð með því, að launalækkunin væri nauðsynleg til þess að atvinnulífið gæti hreinlega gengið. Menn sögðu: Auðvitað vænkast hagur atvinnufyrirtækjanna eftir því sem launin lækka vegna þess að þá verður meira ettir til annarra hluta. En er þetta nú endilega svo? Er jafnan svona einföld?

Herra forseti. Er ekki nóg að hafa einn fund í gangi í einu? Þetta er ekki sagt vegna neinnar andúðar á Ed. mönnum. En ég tel eðlilegra að þeir haldi sína fundi í Ed. og við fundi okkar hér í Nd.

Svona er þetta sem sagt með launin, herra forseti, að þau verða varla skilin frá umræðum um atvinnumál og stöðu atvinnuveganna og nýsköpun og þróun í atvinnulífi. Í einföldustu mynd sinni segja sumir að 10% launalækkun þýði 10% bættan hag atvinnufyrirtækjanna eða sem því svari, að þetta færist þarna ósköp einfaldlega á milli. En við skulum aðeins skoða þá jöfnu nánar. Nú er það svo að flestöll fyrirtæki inna af höndum einhverja þá starfsemi sem eitthvað er greitt fyrir, framleiða vöru sem einhver á að kaupa o. s. frv., bjóða upp á þjónustu sem einhver á að greiða fyrir o. s. frv. En til þess að kaupa þessa vöru þarf fólkið auðvitað að hafa laun, hafa peninga handa á milli. Ef launin eru lækkuð hjá fólkinu í landinu hefur það minni peninga handa á milli til þess að borga vöru, til þess að kaupa þjónustu o. s. frv. Þannig upphefst ein mikil hringrás og keðjuverkun sem ekki sér strax fyrir endann á.

Nú er af tæknilegum og þingskapalegum ástæðum, herra forseti, ekki hægt að bregða hér upp glærum eða litskyggnum og öðrum slíkum hjálpartækjum sem mjög væri gagnlegt að hafa til að útskýra fyrir hv. þd. hversu flókið og margbreytilegt þetta samspil getur verið. En þetta nær síðan auðvitað enn þá lengra, einkum og sér í lagi ef ákveðið launastig verður viðvarandi, þ. e. varir um margra ára bil. Segjum nú sem svo að einhver þjóð í heiminum sé svo óheppin að fá yfir sig ríkisstjórn sem lækki laun fólksins um 30%. Ég ætla ekki að nafngreina neina sérstaka þjóð. Við skulum bara setja upp dæmi, að einhvers staðar takist nú svo illa til að til valda komi ríkisstjórn sem láti það verða eitt af sínum fyrstu verkum að lækka launin í landinu um 30% og síðan festist það launastig í sessi og verður viðvarandi. Hvaða áhrif er það líklegt til að hafa á atvinnulífið? Jú, fyrir utan öll þessi augljósu áhrif sem varða minni veltu fjármuna í þjóðfélaginu, eins og ég benti á hér áðan, þá hefst ákveðin aðlögun. Jafnt og þétt og hægt og rólega hefst ákveðin aðlögun að því launastigi sem viðgengst í þjóðfélaginu á hverjum tíma, þ. e. atvinnulífið og ýmsar aðrar stærðir í efnahagslífinu, magn vöru og þjónustu o. s. frv. tekur að aðlaga sig að þessu launastigi og þessum kaupmætti sem boðið er upp á. Og reynslan sýnir því miður, herra forseti, að á tiltölulega stuttum tíma aðlagast atvinnureksturinn að þessu lága eða þessu nýja eða breytta launastigi. Og ég held því miður, herra forseti, að það sé það sem er að gerast á Íslandi í dag.

Íslenskt atvinnulíf er í stórum dráttum að aðlaga sig að láglaunastefnu þessarar ríkisstj. og þannig er það smátt og smátt að verða ófært um að greiða hærri laun, eins og það kannske gerði áður, og það gæti því tekið jafnvel áratugi að koma hjólum atvinnulífsins og hringrás fjármuna í þjóðfélaginu, fjármuna af vöru og þjónustu, á það stig sem áður var. Þetta er nokkuð alvarlegur hlutur, herra forseti, þessi víxlverkun og þessi aðlögun sem á sér stað þegar einni stærð í efnahagslífinu eins og laununum er raskað með þessum hætti.

Við höfum fyrir okkur ýmis nokkuð hláleg dæmi, og þó ekki hláleg, þau eru eiginlega sorgleg, t. d. dæmið um Singapore, af því að hæstv. iðnrh. var að þramma hér um salinn. Það hefur verið talað um að nú væri

boðið upp á Singapore-kjör á Íslandi. Og hvað þýðir það? Það þýðir það að atvinnurekstur sem ekki er fær um að keppa um laun, keppa að því að greiða laun eins og best gerast á Vesturlöndum, hann getur borgað þau laun sem viðgangast á Íslandi. Við getum kannske talað um 1. flokks og 2. flokks atvinnurekstur hvað þetta varðar. Þá er í 1. flokknum sú tegund atvinnurekstrar sem er það ábatasöm, það vel tæknivædd og það arðgæf að hún getur greitt sínu starfsfólki mjög góð laun, við skulum segja meðallaun eins og þau gerast á Vesturlöndum. Síðan er 2. flokkur, sem ræður ekki við þetta, sem er ekki nógu arðgæfur, sem er ekki það tæknivæddur, sem ræður ekki yfir þeirri markaðsþekkingu og alhliða kunnáttu að ábatinn af starfsemi hans standi undir slíkum launagreiðslum. Þetta er 2. flokkurinn og hann er að finna eðli málsins samkvæmt á þeim stöðum þar sem launin eru lág, vegna þess að hann haslar sér þar völl. Hann fær ekki þrifist á hinum stöðunum. Og hvað er ég með þessu að segja? Ég er að segja það að með því að lækka launin á Íslandi og ætla íslensku launafólki að vinna fyrir kannske 30% lægri launum að raungildi en það gerði fyrir tveimur árum erum við kannske allt í einu að gera ýmiss konar atvinnurekstri það mögulegt að festa hér rætur, atvinnurekstri sem er í raun 2. flokks, sem ræður ekki við að bjóða sínu starfsfólki þau launakjör sem við viljum hér hafa.

Hæstv. iðnrh. varð einna fyrstur til þess að viðurkenna í verki þessi áhrif af launastefnu ríkisstj. Ég hygg að stjórnin hafi ekki verið orðin mjög margra mánaða gömul þegar hæstv. iðnrh. var farinn að auglýsa Ísland sérstaklega úti í heimi. Og hver var beitan, herra forseti? Jú, það voru lág laun. Vegna þess að á Íslandi væru borguð miklu lægri laun en í nálægum löndum, þeim löndum sem eru á okkar markaðssvæði, þá væri það hagstætt fyrir ýmiss konar atvinnurekstur að setja sig hér niður. Hér gæti jafnvel þrifist ýmiss konar atvinnurekstur, vegna hinna lágu launa, sem ekki fengi staðist og ekki gæti verið með starfsemi sína í gangi í nálægum löndum. Og iðnrh. ákvað af skarpskyggni sinni að nota sér þessa möguleika og setti í gang auglýsingaherferð úti í heimi um hin lágu laun á Íslandi.

Ég get nefnt annað dálítið hlálegt dæmi, herra forseti. Það sagði við mig ágætur maður hér um daginn að nú væri svo komið að sennilega væri mögulegt að flytja út kjúklinga frá Íslandi. Ég sagði: Ertu vitlaus, maður? Heldur þú að það sé hægt að flytja út kjúklinga frá Íslandi, atvinnugrein sem byggir alfarið á innfluttu fóðri? Hvernig á það að geta staðist að við getum borið flutningskostnað á fóðri til landsins og kjúklingum út aftur og keppt við nálægar þjóðir á þessu sviði?

Jú, það er vegna hinna lágu launa á Íslandi, sagði hann. Jafnvel þó að laun séu ekki mjög stór liður í kjúklingarækt, að mér skilst, þá var það þó þannig í reikningsdæmi þessa ágæta manns að vegna þess hvað launin voru miklu lægri en í nálægum löndum, þá væri jafnvel möguleiki að flytja inn fóður frá Danmörku, ala hér kjúklinga og flytja þá aftur út til að keppa á markaðinum í Danmörku. Ég er nú einungis að nefna þetta dæmi, herra forseti, vegna þess fáránleika sem ég tel að það í raun endurspegli, hvílík hneisa það getur orðið íslenskri þjóð að ætla hér í þessum hópi þjóðanna á Vesturlöndum að bjóða upp á þessi Singapore-kjör.

Því er ég svo að nefna þetta í tengslum við þetta frv. um þróunarfélög að auðvitað skiptir það launastig sem hér er og stjórnvöld stefna að í landinu miklu máli þegar verið er að ræða nýsköpun í atvinnulífi. Þau ríki sem kannske hvað hæst laun greiða, Bandaríkin, Svíþjóð, Sviss, Japan o. s. frv., ganga að því sem gefnu að til þess að einhver atvinnurekstur sé þar arðbær, fái þar þrifist, verði hann að vera fær um að greiða þau laun sem þar tíðkast. Þau hafna því þeim kostum í atvinnuuppbyggingu sem ekki standast þessa hörðu kröfu. Þar er þeim kostum hafnað sem ekki geta greitt allt að því þrefalt hærri laun en greidd eru á Íslandi nú. Þeir eru dæmdir úr leik. Þeir standast ekki þær ströngu kröfur sem þessar þjóðir setja þeim atvinnurekstri sem þær vilja byggja upp í sínu landi. En hvernig eru kröfurnar hér hjá hæstv. ríkisstj.? Það eru láglaunakröfur sem hér eru reistar fyrir atvinnuvegina. Það er því óhjákvæmilegt, herra forseti, að spyrja aðstandendur þessa frv. hvaða markmið þeir vilji setja þeim fyrirtækjum hvað þetta varðar sem þeir ætla að stuðla að með þessu nýja þróunarfyrirtæki. Vilja þeir setja nýjum atvinnurekstri á Íslandi einhver önnur og svolítið háleitari markmið heldur en þau að borga þau lúsarlaun sem viðgangast nú á Íslandi? Eða ætla þeir að nota þau sem breytu í þessu nýja reikningsdæmi, launin eins og þau eru á Íslandi? Á t. d. að sætta sig við það að hvert það fyrirtæki í nýjum iðnaði sem skilað getur 10% afkastavöxtum miðað við launin eins og þau eru nú á Íslandi teljist bærilegur kostur? Eða ætla menn e. t. v. að hafa þessa hlutfallstölu eitthvað hærri vegna þess að þeir vilja keppa að hærri launum og betri lífskjörum hér í framtíðinni?

Það hefði verið fróðlegt að heyra álit hæstv. forsrh. sem er víst með á launum hjá sér 25 manna sérfræðinganefnd eða þar um bil til að spá í framtíðina. Hvað hefur sérfræðinganefndin sagt hæstv. forsrh. í þessum efnum? Hefur hún einhver markmið fyrir þetta Ísland framtíðarinnar sem hæstv. forsrh. er að reyna að búa til m. a. með störfum þessarar nefndar? Ég held, herra forseti, að það eigi ekki að sleppa hæstv. ríkisstj. við það að ræða ofurlítið þennan þátt atvinnulífsins um leið og þessi frv. fara hér í gegnum þingið. Hún á auðvitað að svara fyrir það ekki aðeins hér á hinu háa Alþingi heldur á hún einnig að svara íslensku þjóðinni því hvaða lífskjör hún hyggst bjóða henni í framtíðinni fái hún að ráða, hvaða markmið hún vill setja þessari starfsemi sinni um nýsköpun í atvinnulífi.

Herra forseti. Vegna þess að þm. eru svo upplýstir og greindir menn þá veit ég að ég þarf ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta samhengi launanna og annarra þátta, annarra breytustærða í atvinnurekstrinum og efnahagslífinu. En ég held að menn ættu að hugleiða þetta aðeins ekki síst þegar menn ræða markmiðssetningu í tengslum við þetta mál. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að hæstv. ríkisstj. leggi fram svona frv. og leggi til þess fjármuni án þess að hafa sett sér einhver markmið um útkomu úr því átaki til nýsköpunar sem hún er hér að hrinda af stað.

Ég vil vitna, herra forseti, í mjög fróðlega skýrslu um atvinnumál frá forseta Alþýðusambands Íslands. Hún er nefnilega til víðar en á Morgunblaðinu. Ég er með hana hér í möppu hjá mér og hef oft lesið í henni og reynt að læra af því sem þar er sett fram. Þar er t. d. talað um stefnumótun og markmið og að hverju eigi að stefna. Forseti Alþýðusambands Íslands telur fjögur atriði öðrum þýðingarmeiri í þessum efnum. Þau er atvinnuöryggi, traustur kaupmáttur, réttlát skipting og félagslegt öryggi og áhrif. Þessi fjögur kjarnaatriði telur forseti Alþýðusambandsins að eðlilegt sé að hafa til hliðsjónar þegar talað er um stefnumörkun í atvinnuuppbyggingu.

Síðan er ýmislegt fleira í þessari fróðlegu skýrslu, herra forseti, sem gagnlegt væri að vitna hér til. Það er lofsvert að mínu viti þegar samtök launafólks láta sig þessi mál varða með beinum hætti eins og Alþýðusamband Íslands hefur hér gert. Reynsla liðinna ára sýnir líka að ekki veitir af. Að mínu viti er auðvitað enginn betur til þess fallinn en einmitt samtök vinnandi fólks í landinu að reyna að stýra þessari þróun. Það væri einnig fróðlegt að fá fram í tengslum við þessa umr., ekki síst ef hæstv. forsrh. með sína miklu þróunarnefnd á bak við sig vildi svara einhverju til um það, hvaða hlutföll hinna mismunandi atvinnugreina hann telur eðlilegt að verði hér í framtíðinni á landinu. Telur hann t. d. eðlilegt að bankastarfsemi og tryggingarþjónusta vaxi með sama hraða á næstu árum og áratugum eins og verið hefur undanfarið? Árið 1963 störfuðu við bankastarfsemi aðeins 1.8% vinnandi fólks í landinu. En hvað heldur virðulegur forseti að margir hafi gegnt slíkum störfum tæpum 20 árum síðar, 1981? Það voru 6.6%. Þetta er dálagleg aukning, herra forseti. Telur hæstv. forsrh: og þróunarsérfræðingar hans það eðlilegt að bankastarfsemi og tryggingarumsvif vaxi hlutfallslega jafnört á næstu 20 árum og þau gerðu á síðustu 20 árum? Þá verða 12–14% vinnandi fólks í landinu starfandi í þessum stofnunum. Það þarf ekki að rekja fyrir þm. hversu mjög ýmiss konar þjónustuumsvif hafa vaxið. Væntanlega gæti átak til nýsköpunar í atvinnulífi beint störfum aftur inn á framleiðslubrautir eins og ég m. a. rakti hér áðan. En þá þurfa menn líka að hafa sjónir á því og setja því einhver markmið að fjárfestingin á þessu sviði beinist inn á þær brautir.

Þá er ég komin að öðrum efnisþætti, herra forseti, sem ég ætlaði að fara hér örfáum orðum um. Það eru fjárfestingarnar sjálfar og áhrif þeirra á lífskjörin og atvinnuuppbygginguna og hvernig hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér að standa að þeim málum.

Nú er til félagsskapur í landinu, herra forseti, sem heitir Landsmálafélagið Vörður. Ég er ekki mjög kunnugur högum þess félagsskapar og get nú ekki sagt að það valdi mér miklu hugarangri. En bók fékk ég senda eða bækling frá þessu félagi hér um daginn. Félagið hefur greinilega haldið ráðstefnu í húsi sem heitir Valhöll 1. desember 1984. Það hefur haldið ráðstefnu um fjárfestingar á Íslandi. Þetta er verðugt viðfangsefni. Ég hefði að vísu kosið, ef ég hefði stýrt þessari ráðstefnu, að þar yrði lagt út af ákveðnum öðrum grundvallarsjónarmiðum. En hvað um það, herra forseti. Hér er ýmis fróðleikur sem ég tel ekki óeðlilegt að vitna til í þessu sambandi. Þannig heita t. d. erindin sem flutt voru á ráðstefnunni nokkuð fróðlegum nöfnum.

Pétur H. Blöndal tryggingasérfræðingur fjallaði um orsakir fjárfestingarmistaka. Árni Arnason framkvæmdastjóri fjallaði um efnið: Á að ríkja opinber stjórnun fjárfestingarmála á Íslandi? Þetta er mjög góð spurning. Á að ríkja einhver opinber stefna, einhver stjórnun í fjárfestingarmálum á Íslandi eða á að sleppa þessu lausu? Hvað hefur hæstv. ríkisstj. hugsað sér í þessum efnum? Hún segir hér í grg. með þessu frv. að ríkið eigi aðeins að vera einn hluthafi í þróunarfélaginu og reynir nú að gera heldur lítið úr hlut ríkisins að mér finnst, ekki síst vegna þess að framar í frv. er það alveg morgunljóst að ríkið á að leggja til allt fjármagn. Ætlar ríkisvaldið í gegnum aðild sína að þessu fyrirtæki að stýra fjárfestingum á Íslandi með einhverjum hætti, nýfjárfestingum þá væntanlega, eða ætlar það að sleppa þeim lausum? Svo er hér gamall kunningi okkar. herra forseti, Lárus Jónsson bankastjóri. Hann fjallar um fjárfestingu á Íslandi og ábyrgð stjórnmálamanna. Þá erum við kannske komnir að þeim kjarna sem við erum að ræða hér, eða ég er að reyna að ræða, hver ábyrgð stjórnmálamannanna eigi að vera í sambandi við fjárfestingar.

Ríkisstj. ætlar að beita sér fyrir því að setja ákveðin ákvæði inn í stofnsamning væntanlegs hlutafélags, svo sem eins og þau að félaginu skuli m. a. heimilt að taka þátt í gerð og fjármögnun forkannana og hagkvæmnisathugana, að félagið eigi frumkvæði að og/eða taki þátt í stofnun, endurskipulagningu og sameiningu fyrirtækja o. s. frv. Þessum ákvæðum ætlar ríkisvaldið í krafti síns hlutafjár í þessu fyrirtæki að koma inn í stofnsamning þróunarfélagsins. Þar með er að nokkru leyti svarað spurningunni sem ég bar upp hér áðan. Ríkisvaldið ætlar að vera með puttana í þessu og stýra þessu í gegnum þennan stofnsamning og gegnum þetta félag. Og þar með eru stjórnmálamennirnir að taka ábyrgð á fjárfestingunni.

Svo á hér gamall þulur, Ólafur Björnsson prófessor, erindi sem heitir „Hverjar eru afleiðingar fjárfestingarmistaka fyrir lífskjör á Íslandi?“ Það er líka nokkuð merkileg spurning því að það er auðvitað alveg ljóst, m. a. af því samhengi sem ég rakti hér áðan um víxlverkun launa og annarra stærða í efnahagslífinu að stýring fjárfestinganna, hvort þær beinast í arðbær fyrirtæki eða ekki, hefur afgerandi áhrif á lífskjör síðar meir eins og það hefur afgerandi áhrif á lífskjörin hvort við stefnum í framtíðinni að því að byggja hér upp arðbæran og nýtískulegan atvinnurekstur sem getur borgað há laun, eða við sættum okkur við einhvers konar Singapore-fyrirtæki sem borga þriðja heims laun, þ. e. lág laun, hvort við reynum að laða til okkar og koma á fót fyrirtækjum af 1. eða 2. flokki, hvort við förum leið hæstv. iðnrh. og auglýsum úti í heimi eftir fyrirtækjum sem séu á höttunum eftir lágum launum, eða hvort við reynum sjálfir að byggja hér upp arðbæran atvinnurekstur sem getur staðist þær kröfur sem við setjum okkur í þessum efnum.

Pétur H. Blöndal tryggingastærðfræðingur fjallaði um orsakir fjárfestingarmistaka og fann þær helst í sjávarútvegi, taldi að minnka mætti núverandi fiskiskipaflota nokkuð án þess að afli flotans minnkaði við það. Hann fann þær enn fremur í landbúnaði: Hefur verið og er enn í gangi gegndarlaus fjárfesting í traktorum og öðrum tækjum, hlöðum, og öðrum útihúsum o. s. frv., sagði tryggingastærðfræðingurinn. Hann fann offjárfestingu í íbúðarhúsnæði, reyndar alveg sérstaklega hér á suðvesturhorninu. Síðan fann hann nokkur sérstök dæmi, eins og Kröflu, Krýsuvíkurskólann, Þörungavinnsluna, byggðalínur o. s. frv.

Þessi listi vakti athygli mína, herra forseti, ekki vegna þess sem þarna er talið því að það er gamalkunn staðhæfing og röng að verulegu leyti eins og við vitum báðir. T. d. er fjárfesting í sjávarútvegi ótrúlega lítið hlutfall af erlendum skuldum þjóðarinnar miðað við umsvif þess atvinnurekstrar í verðmætasköpun. En það vakti athygli mína að á lista tryggingafræðingsins vantar hluti eins og banka. Þessi ágæti tryggingastærðfræðingur fann ekki banka á listanum yfir þá aðila sem hafi offjárfest í íslensku þjóðfélagi á liðnum árum. Hann fann ekki verslunina á þessum lista og þó held ég að þessi maður búi í Reykjavík og hafi daglega fyrir augunum stórmarkaðina og hallirnar sem hér eru að þjóta upp eða þegar komnar upp. Samt fann hann ekki verslunina á þessum lista.

Hann nefndi ekki heldur orkumannvirki, hann nefndi ekki orkugeirann sem þó hefur um helming af erlendum skuldum þjóðarinnar á sínu syndaregistri. Hann nefndi ekki olíufélögin, þessi tryggingafræðingur eða stærðfræðingur. Hann mundi ekki eftir olíufélögunum þegar hann var að tala um offjárfestingu á Íslandi, o. s. frv. o. s. frv. Þetta er nokkuð athyglisvert, herra forseti.

Niðurstaðan af þessari umfjöllun minni um fjárfestingar á Íslandi er m. a. sú, að þrátt fyrir miklar fjárfestingar undanfarna áratugi, sem eru óumdeilanlega mjög miklar, þá höfum við ekki sett okkar atvinnurekstri nógu skýr mörk, ekki nógu skýr markmið um þau afköst sem við ætlum honum, a. m. k. ekki á öllum sviðum, og því hefur farið sem farið hefur. Og sérstaklega hallast nú á merinni síðustu tvö árin, eftir að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar innleiddi sína láglaunastefnu og íslenskur atvinnuvegur hóf að aðlaga sig þeim lágu launum.

Fjárfestingar í hlutfalli af landsframleiðslu eru stærð sem er mikið notuð í samanburði milli þjóða í þessum efnum, þ. e. hversu miklu hlutfalli af sinni landsframleiðslu þjóðirnar verja á hverju ári til beinna fjárfestinga. Ísland er í hópi þeirra þjóða sem á síðustu 20 árum eða svo hafa varið hvað hæstum hundraðshluta sinnar landsframleiðslu til fjárfestingar. Nánast öll þessi ár hefur íslenska þjóðin verið í hópi þeirra þjóða sem mestu hafa varið til fjárfestinga af sinni landsframleiðslu. Það hljóta því að vakna, herra forseti, spurningar sem þessar: Var þessi fjárfesting nógu arðbær? Var henni nógu vel stýrt? Eða var henni kannske ofstýrt? Þá er einnig fróðlegt að gera sér grein fyrir því að landsframleiðslan hefur vaxið á Íslandi allan þennan tíma allmyndarlega. M. ö. o., við erum að tala hér um hátt hlutfall af vaxandi landsframleiðslu.

Herra forseti. Er virðulegum forseta kunnugt um hvar hæstv. forsrh. er staddur? Er hann hér í húsi? (Forseti: Forseti hyggur að hæstv. forsrh. sé á fundi með þingflokksformönnum og forsetum deilda og Sþ.) Ég geri að sjálfsögðu ekki kröfu til þess að hæstv. forsrh. sitji hér þindarlaust undir ræðuhöldum og ekkert er við það að athuga þó að menn skjóti sér á braut héðan úr þingsalnum svona stund og stund. Það getur verið af fullkomlega eðlilegum ástæðum sem menn þurfa að bregða sér hér fram fyrir. Mér þykir hins vegar óeðlilegt að við höldum þessari umr. mjög lengi áfram án þess að hæstv. forsrh., guðfaðir þessa frv. og reyndar allra króganna þriggja sem hér eru ræddir, sé hér einhvers staðar nálægur. Ég mun nú halda áfram máli mínu örstutta stund, en fari ekki að hilla undir hæstv. forsrh. fljótlega mundi ég verða að fara fram á það að fá frestun á þessari umr. og eiga við hann orðastað síðar því að ég hef hér ákveðnar spurningar sem ég hafði hugsað mér að leggja fyrir hæstv. forsrh. undir lok máls míns. (Forseti: Það er skiljanlegt að hv. þm. vilji hafa hæstv. forsrh. nærri. En hæstv. iðnrh., sem er nú mjög skynugur, er hér nærstaddur og gæti kannske leyst úr einhverjum vanda þar til hæstv. forsrh. birtist þá.) Herra forseti. Ég dreg ekki í efa að það sé rétt mat hjá virðulegum forseta að hæstv. iðnrh. sé skynugur og það jafnvel skynugur mjög og vissulega er hann myndugur fulltrúi ráðherraliðsins. Ég mun því fyllilega sætta mig við það að halda áfram máli mínu nú enn um stund án viðveru hæstv. forsrh. og ekki síst með tilliti til þess að viðstaddur er mjög skynugur hæstv. iðnrh.

Ég held að þessi atriði öll þrjú, sem ég hef hér sérstaklega gert að umræðuefni nú í stuttu máli, herra forseti, þ. e. launin og launastefnan, fjárfestingarnar og markmiðin og skilyrðin sem menn setja fyrir atvinnurekstrinum, þau eigi öll að ræðast saman og í tengslum við þetta mál. Annað sé óeðlilegt því að sá veldur miklu sem upphafinu veldur og það er alveg ljóst að þegar ýtt er úr vör átaki eins og því sem hæstv. ríkisstj. hér telur sig vera að gera, þá þurfa menn að sjá fyrir því hvernig þeir ætla að stýra hlutunum, hvaða markmiðum þeir ætla að ná fram. Er það t. d. ekki jafnvel verr farið en heima setið, herra forseti, að koma á lappirnar einhverjum þeim tegundum atvinnurekstrar sem ekki standast þær kröfur sem gerðar eru til atvinnurekstrar í nálægum löndum? Eigum við Íslendingar yfirleitt að undirgangast slíkt? Eigum við að láta slíkt gerast hér á 9. áratug þessarar aldar?

Ég held ekki, herra forseti. Hvað sem menn segja um misskiptingu auðs í heiminum erum við hér hluti af hinum vestræna heimi, við erum ein Norðurlandaþjóðanna og við höfum mest samskipti og berum okkur helst saman við þjóðir í Evrópu og Norður-Ameríku eðli málsins samkvæmt. Það er því óeðlilegt og óheppilegt að lífskjör hér á Íslandi séu mun lakari en þau gerast meðal þessara þjóða. Ég segi þetta sérstaklega vegna þess, herra forseti, að auðvitað erum við Íslendingar mjög vel settir miðað við allan þorra jarðarbúa hvað lífskjör varðar og skilyrði öll til mannlífs. En fram hjá hinu verður ekki litið að á meðan skipting jarðargæðanna er eins og hún er og lífskjörin eru jafngóð, samanborið við ríki þriðja heimsins, og þau eru hér í nálægum löndum, þá verðum við í þessum samanburði, og það stendur upp á okkur með það, að reyna að hafa lífskjör og aðstæður almennings svipaðar og þær eru í nálægum löndum. Við höfum reynsluna af því, t. d. frá tíð viðreisnarstjórnarinnar, hvaða afleiðingar það hefur, hvernig það endar ef lífskjörin og atvinnuástandið á Íslandi er mun lakara en í nálægum löndum. Þá þrýtur þolinmæði fólksins fyrr eða síðar og það fer að hverfa úr landi. Enginn okkar hygg ég vilji sjá það fara að gerast á nýjan leik í verulegum mæli.

Herra forseti. Það hefði verið gaman að lesa hér erindi Lárusar Jónssonar bankastjóra og fyrrv. alþm. um fjárfestingu á Íslandi og ábyrgð stjórnmálamanna. (Iðnrh.: Lát heyra.) Sá skynugi, hæstv. iðnrh., vill fá að heyra erindið og ég hef svo sem ekkert á móti því að lesa það fyrir hann. Ég veit að vísu að hann á innangengt í Valhöll og gæti sjálfsagt náð sér í þetta erindi sem Landsmálafélagið Vörður lét prenta í bók sem það gaf út eftir þessa ráðstefnu. (Iðnrh.: Ég hef lesið það.) Nú, hann hefur m. a. s. lesið það. En það er aldrei að vita nema það sé hollt og þarft fyrir hæstv. iðnrh., þó aldrei nema minnugur sé og skynugur, að eitthvað af þessu væri rifjað upp fyrir honum. Lárus Jónsson var, eins og menn vita hér, í eina tíð virðulegur alþm., formaður fjvn. og búinn að starfa í þeirri nefnd mjög lengi. Hann má því gerst vita hvaða ábyrgð stjórnmálamenn hafa og taka á fjárfestingum í landinu, sem starfsmaður, formaður og varaformaður með meiru í fjvn. Alþingis um langa tíð. Þessi ágæti bankastjóri og fyrrv. þm. segir einmitt hér á einum stað í sínu erindi, með leyfi forseta:

„Þegar menn velta þessari spurningu fyrir sér“ — hann varpar fyrst fram spurningunni hvort íslenskir stjórnmálamenn beri meiri eða minni ábyrgð á ákvörðunum um fjárfestingu eða fjárfestingarmistök en starfsbræður þeirra erlendis og síðan segir hann: „Þegar menn velta þessari spurningu fyrir sér verður fyrst fyrir að minna á að fjárfesting er meiri á Íslandi en í flestum nágrannalöndum.“ — Ég endurtek: fjárfesting er meiri á Íslandi en í flestum nágrannalöndum. — „Við þetta bætist að opinber fjárfesting er einnig hlutfallslega meiri á Íslandi og pólitísk sjónarmið í úthlutun lána úr fjárfestingarsjóðum eru önnur og meiri en yfirleitt annars staðar. Af þessu ætti að vera óhætt að draga þá ályktun að íslenskir stjórnmálamenn beri snöggtum meiri ábyrgð á stefnunni í fjárfestingarmálum en starfsbræður þeirra í öðrum vestrænum löndum.“

Svo mörg voru þau orð fyrrv. þm. og virðulegs bankastjóra Lárusar Jónssonar. Þetta eru athyglisverðar fullyrðingar af hálfu reynds stjórnmálamanns, manns úr fjvn. og manns sem nú situr á valdastóli í bankakerfinu. Það vekur okkur til umhugsunar um það, hv. þm., sem hér ræðum frv. til l. um þátttöku ríkisins í hlutafélagi til að örva nýsköpun í atvinnulífi, að ábyrgð okkar er mikil bæði hvað varðar það að afgreiða frv. eins og þetta sem lög frá Alþingi og einnig mikil hvað varðar þá miklu stýringu sem að því er virðist er á fjármagni til fjárfestinga af hálfu stjórnmálamanna á Íslandi.

Herra forseti. Nú hef ég senn haldið fram ræðu minni í þrjá stundarfjórðunga og nú er nokkuð um liðið síðan hæstv. forsrh. gekk úr salnum. Mundi vera hægt að grennslast fyrir um það, á meðan ég vík örlítið að öðru atriði, hvort styttist í það, að hæstv. forsrh. geti heiðrað okkur með nærveru sinni hér við þessa umr. (Forseti: Það skal gert.)

Ég þykist hafa fært að því rök, herra forseti, að það sé ekki sama sem gefið að allur nýr atvinnurekstur sé af hinu góða og sé æskilegur. Ég þykist hafa fært fyrir því rök, herra forseti, að séu menn ekki nægilega kröfuharðir um skilyrðin, um markmiðin sem menn setja, þá geti jafnvel verið verr af stað farið en heima setið og það sé ekki hyggilegt fyrir okkur Íslendinga, sem búum hér í miðjum hinum vestræna heimi með mikil samskipti við nálæg lönd, að stefna að atvinnulífi, reisa hér fyrirtæki sem ekki standist fyllilega samanburð við þann sem bestur gerist í nálægum löndum. Því mundu óhjákvæmilega fylgja mikil og margvísleg vandamál sem við eigum að reyna að forðast eftir því sem kostur er, í öllu falli ekki leita eftir því sérstaklega að slíkur atvinnurekstur komist hér á fót, eins og hæstv. iðnrh., sá mjög skynugi maður, hefur gert með auglýsingum sínum út um heim um lágu launin á Íslandi og kosti þess fyrir erlent fjármagn að setja hér niður fætur sína vegna þess að það þurfi ekki að borga mörlandanum eins hátt kaup og þegnum annarra nálægra þjóða.

Það er misskilningur hjá hv. 2. þm. Reykv. og varaformanni Togo-deildarinnar að hér séu selamál til umræðu. (FrS: Hver er formaður Togo-deildarinnar?) Það var rætt hér í gærkvöld eða fyrrakvöld, síðla nokkuð, um selamál undir liðnum þingsköp. En hér er til umfjöllunar frv. til l. um þátttöku ríkisins í hlutafélagi til að örva nýsköpun í atvinnulífi. Þetta er 455. mál, lagt fram í Nd., þskj. 774, svo að hv. 2. þm. Reykv. hafi það nú alveg á hreinu.

Það væri síðan mjög eðlilegt og nauðsynlegt, herra forseti, að ræða nokkuð um erlendar skuldir, skuldastöðu þjóðarbúsins og þann stakk sem miklar erlendar skuldir sníða okkur í þessum efnum. Það má ljóst vera, herra forseti, að aðstaða íslensku þjóðarinnar er önnur nú en hún til að mynda var í lok stríðsáranna síðari þegar Íslendingar áttu inni á erlendum bankareikningum verulegar upphæðir í beinhörðum peningum, verulegar upphæðir í beinhörðum gjaldeyri. Þá voru líka mikil átök og miklar sviptingar í íslensku þjóðlífi um það hvernig ætti að ráðstafa fjármununum. Þá voru það innistæður en nú er það frekar ráðstöfun á skuldum. Sem betur fer og til heilla fyrir íslenska þjóð voru framsóknarmenn beygðir í því máli og til valda kom ríkisstjórn sem ákvað að ráðstafa innistæðum til myndarlegrar uppbyggingar í atvinnulífi, svonefnd nýsköpun. (ÓÞÞ: Og mesta skömmtun sem nokkurn tíma hefur verið á Íslandi kom á eftir.) Bíðum nú við. (ÓÞÞ: Stærstu skömmtunarseðlar sem gefnir hafa verið út.) Hvort mun þetta vera virðulegur skrifari vor? (Forseti: Já, það skal staðfest að þetta er virðulegur skrifari vor og hann er beðinn um að sitja á strák sínum með frammíköll.) (ÓÞÞ: Það skal gert.) Ég er ekki að reyna að hafa áhrif á röggsama og mynduga fundarstjórn, herra forseti, en ég þoli það vel að hv. skrifari skjóti inn orði og orði á meðan ég flyt mál mitt. (Gripið fram í: Er þoka í Dimmuborgum nú?) Þannig var þetta, herra forseti, í þessa tíð, sem er að vísu nokkuð fyrir mitt minni sem eðlilegt er því að ég er ekki maður mjög aldraður, þegar Íslendingar hófu að ráðstafa innistæðum sínum í stríðslok og eftir stríð, að þau sjónarmið urðu ofan á að verja þeim til kaupa á framleiðslutækjum og til fjárfestingar í framleiðsluatvinnugreinum og þannig áfram eins og kunnugt er.

Nú eru erlendar skuldir þjóðarinnar 63%. Ég hef þetta eftir ekki ómerkari manni en hæstv. forsrh., sem í útvarpsumræðunum í gær sagði nokkurn veginn orðrétt að erlendar skuldir væru nálægt 63%. (Gripið fram í.) Virðulegur skrifari er einnig forvitinn eða hnýsinn eins og það hét í minni sveit. Sennilega er það fróðleiksþorsti skrifarans sem veldur því að hann vill fá að vita hvaða skilaboð gangi hér á milli manna í deildinni. En ætli það verði nú ekki að vera millum þeirra sem þau eiga, herra forseti?

En hér er mættur hæstv. forsrh. okkur öllum til mikillar ánægju og ég vildi þá beina til hans ákveðnum spurningum, beinum spurningum. Ég hef reyndar sett talsverðan hluta af máli mínu fram í spurnarformi, en það hafa ekki verið tölusettar spurningar, ekki númeraðar 1, 2, 3 0. s. frv. Mjög margt af því sem ég hef hér rætt, um áhrif launastefnu á atvinnulífið, um fjárfestingar og áhrif fjárfestinga á lífskjör, um markmið, um skilyrði, um þau markmið sem menn setja atvinnurekstri, ættu auðvitað erindi til hæstv. forsrh. sem beinar spurningar. En ég veit ekki hversu hann treystist til að taka þátt í umr. og svara þeim eða lýsa skoðunum sínum á þeim. Við vitum þó að hann lumar á ýmsum fróðleik, m. a. upplýsingum frá sérfræðingahópi sínum, sem ásamt með hæstv. forsrh. er að reyna að rýna inn í framtíðina, hina íslensku framtíð. Og hér er vissulega verið að fjalla um íslenska framtíð, þ. e. nýsköpun og þróun atvinnulífs á Íslandi framtíðarinnar.

Fyrsta spurningin sem ég ætlaði að leggja fyrir hæstv. forsrh. varðar í raun þá brtt. sem ég hef flutt ásamt fjórum öðrum hv. þm. um það að ákveða við sjálfa lagasetninguna hvar þetta fyrirtæki eigi heimili og varnarþing. Spurninguna í tengslum við það vil ég orða svo til hæstv. forsrh.: Er hann hlynntur breyttri dreifingu á ríkisstofnunum, opinberum stofnunum og þjónustustofnunum um landið frá því sem nú er? Telur hann það eðlilegt markmið, telur hann að að því eigi að keppa að reyna að dreifa þessari þjónustustarfsemi öðruvísi um landið, þ. e. hafa meira af henni utan Reykjavíkursvæðisins en nú er? Þetta er í sjálfu sér einföld spurning um grundvallarafstöðu í þessu efni og ég þarf að sjálfsögðu ekki að spyrja hæstv. forsrh. frekar ef svar hans við þessu væri nei. En ég vil gjarnan gefa mér það að svo sé ekki, m. a. vegna þess að ég hef grun um að hann sé formaður Framsfl., þessi hæstv. ráðh., telji hann ekki óeðlilegt að þessi dreifing verði með nokkuð öðrum hætti en nú er. Því vil ég spyrja hann, og það varðar beint verkefni þessa frv. eða nýja hlutafélags, ef af verður og þetta er spurning nr. 2: Hvar telur hæstv. forsrh., og þá á ég við landfræðilega hvar, að verkefnin fyrir þetta nýja hlutafélag muni fyrst og fremst liggja? Telur hann að verkefnin og möguleikarnir og þörfin liggi fyrst og fremst í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu eða telur hann að verkefnin og þörfin og möguleikarnir liggi ekki síður úti um landið, í borg og í bæ, og í sveitum út um allt land? Því að það hlýtur að ráða nokkru um afstöðu manna til þess að þetta fyrirtæki verði staðsett fremur á einum stað en öðrum ef menn telja að öll verkefni þess liggi á einum og sama staðnum.

Ég er auðvitað alveg sammála hæstv. forsrh. um það, og um það er varla nokkur ágreiningur, að ef öll verkefni þessa fyrirtækis verða hér í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu, þá er alveg rétt að hafa það staðsett hér. Þá er einmitt rétt að undirstrika það með því að ákveða að það verði staðsett hér. Og ef menn eru þessarar skoðunar teldi ég eðlilegast að menn hreinlega flyttu um það frv., settu um það lög að hér skuli fyrirtækið standa vegna þess að hér ætli þeir því starfsvettvang.

Ég vil hins vegar vona að áfram verði hæstv. forsrh. mér sammála um það að verkefni, möguleikar og þörf fyrir nýsköpun í atvinnulífi liggi ekki síður úti á landi en hér í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu. Ég rakti það áðan að ég teldi möguleikana ekki síst liggja í tengslum við okkar grundvallaratvinnuvegi og þá möguleika sem þar eru til framsóknar. Séum við enn sammála, ég og hæstv. forsrh., vil ég spyrja hann 3. spurningar og 3. spurning er þessi: Telur hæstv. forsrh., að því nú gerðu að 17 þm. hér í Nd. hafa greitt atkv. gegn því að Byggðastofnun starfi á Akureyri, telur hæstv. forsrh. þá eðlilegt með tilvísan til þess að hann hafi svarað 1. og 2. spurningu játandi, að þróunarfélagið væntanlega verði staðsett á Akureyri? Telur hann þá eðlilegt úr því að menn treystust ekki til að velja hinu fyrirtækinu þar stað eins og hann hafði sjálfur stungið upp á og talið eðlilegra? Ég vek á því sérstaka athygli að það voru orð hæstv. forsrh. íslenska lýðveldisins, Steingríms Hermannssonar, sem urðu fyrst og fremst til þess að hér var flutt brtt. um það að Byggðastofnun yrði á Akureyri, þegar hann í umræðum um þetta þróunarfélag lýsti því sem sinni skoðun að eðlilegra væri að af þessum tveim stofnunum yrði frekar Byggðastofnunin á Akureyri. Nú hefur þessi skoðun, þessi uppástunga hæstv. forsrh. ekki náð hér fram að ganga. Brtt. þessa efnis við frv. til laga um Byggðastofnun var felld. Þess vegna hlýt ég að spyrja: Breytir þetta afstöðu hæstv. forsrh.? Er hann þá tilbúinn til þess að stuðla að því með lagasetningu hér að þróunarfélagið væntanlega, sem ég kýs að kalla svo, verði á Akureyri? Ef hæstv. forsrh. ætlar að skríða ofan í þá skotgröf, en það hefur hann stundum gert, að óeðlilegt sé að ákveða þetta í lögum, þannig reyndi hæstv. forsrh. að verja sig hér í gærkvöld, þá vil ég spyrja hann: Telur hann eitthvað því til fyrirstöðu að setja inn í grg. þessa frv. þau ákvæði sem ríkisvaldið hyggst beita sér fyrir að verði í stofnsamningi hins nýja hlutafélags? Telur hæstv. forsrh. þá eitthvað því til fyrirstöðu að ríkið, í krafti síns hlutafjár, beiti sér fyrir því að inn í stofnsamning hins nýja hlutafélags komi ákvæði um staðsetningu fyrirtækisins? Sjái hæstv. forsrh. einhverja lögformlega galla á því, einhverja stjórnskipunarlega galla á því að setja þetta inn í sjálf lögin, sér hann þá einhverja galla og einhverja meinbugi á því að sefja þetta inn í þau ákvæði, hafa þetta eitt af þeim ákvæðum sem ríkið ætlar að ná fram í stofnsamningi hlutafélagsins? Ég vil fá alveg hrein og skýr svör við þessu. Það eru þessir tveir möguleikar að mínu viti fyrst og fremst sem við höfum hér í höndunum við afgreiðslu þessa frv. Það er þegar komin fram brtt. um hið fyrra, sem mér finnst hreinlegast og eðlilegast, þ. e. að löggjafinn ákveði það hér og nú að þetta fyrirtæki verði staðsett á þessum nefnda stað. Hinn möguleikinn bíður og er fyrir hendi og auðvelt að flytja um það brtt. ef menn ná að sameinast um það.

Ég vek á því athygli að ríkisvaldið ætlar sér, í krafti síns hlutafjár, að setja þessu nýja hlutafélagi ýmis skilyrði. Við getum kallað það eins og það heitir á máli stærðfræðinnar eða verkfræðinnar „randskilyrði“ til þess að það sé alveg öruggt að hæstv. forsrh. skilji hvað ég er að fara. Ákveðin randskilyrði verða sett fyrir starfsemi fyrirtækisins og innan þeirra hreyfir það sig síðan. Þessu fyrirtæki er t. d. ætlað að kaupa hlutabréf og/eða skuldabréf atvinnufyrirtækja, að útvega eða veita áhættulán og ábyrgðir vegna stofnunar, rekstrar og þróunar fyrirtækja, að taka þátt í og/eða styrkja hagnýtar rannsóknir á nýjungum í atvinnulífi og tilraunir með þær og aðstoða við öflun og sölu á réttindum til hagnýtingar þeirra o. s. frv. Þessir liðir eru ekki færri en sjö sem ríkisvaldið ætlar að beita sér fyrir að verði settir inn í stofnsamning fyrirtækisins.

Það er sérstaklega tekið fram að ríkisvaldið ætli ekki að skíra fyrirtækið með lögunum. Það eigi væntanlega hluthafafundur að gera, að ráða atriðum eins og þeim hvað á barnið að heita og væntanlega ýmsum öðrum framkvæmdalegum atriðum málsins. En staðsetning hlutafélagsins er ekki eitt af þessum framkvæmdalegum atriðum. Ákvörðun um staðsetningu þessa fyrirtækis og reyndar annarra slíkra er stefnumarkandi, er byggðapólitískt ákvörðunaratriði eins og ég hef margítrekað bent á í umræðum um þessi mál, herra forseti. Það er byggðapólitískt mál hvort það nær fram að ganga nú í tengslum við endurskoðun Framkvæmdastofnunar ríkisins að eitthvað af þeirri starfsemi sem þar á að stokka upp eða koma á fót komist út á land. Og fram hjá því verður ekki gengið að með því að skjóta sér bak við einhverjar væntanlegar stjórnir eða væntanlegan hluthafafund eru alþm. að afsala sér tækifæri til að taka þessa byggðapólitísku ákvörðun.

Ég hygg, herra forseti, að það muni liggja ljóst fyrir og ég geri mér m. a. s. vonir um það að verulegur hluti íslensku þjóðarinnar átti sig á því að nú þessa dagana standa þm. á Alþingi frammi fyrir möguleikanum á því að taka slíka byggðapólitíska ákvörðun. Ég verð að segja það alveg eins og er, herra forseti, vegna þess að ég hef fylgst nokkuð með þessum málum undanfarin ár, að mér er til efs að þm. hafi á allra síðustu árum staðið frammi fyrir jafnafgerandi ákvörðunaratriðum í þessum efnum, þar sem línurnar eru jafnhreinar og klárar. Annaðhvort meina menn eitthvað og vilja menn eitthvað í þessum efnum eða ekki, það er alveg ljóst.

Herra forseti. Ég nenni nú varla að rökræða enn við hæstv. forsrh. um það hvort stjórnskipunarlega eða lögfræðilega sé eitthvað athugavert við það að löggjafarvaldið ákveði með lögum staðsetningu slíkra stofnana eða fyrirtækja. Ég vitnaði í lagasafnið máli mínu til stuðnings hér í fyrrakvöld og benti á að það er í lögum um fjölmargar stofnanir sagt til um hvar þær eru staðsettar. Stundum er það auðséð af lögunum og öðrum ákvæðum laganna að gengið er út frá staðsetningu á ákveðnum stað. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. enn með vísan til laga um Hafrannsóknastofnun: Hvernig mundi hann túlka ákvæði í þessum lögum á þá leið að sagt væri í nýrri grein: Heimilt er hinu nýja hlutafélagi að setja á fót útibú í Reykjavík. — Ef við settum ekkert annað inn í lögin hvað þetta staðsetningaratriði varðaði heldur en þetta: Heimilt er hinu nýja hlutafélagi — eða þróunarfélagi eða hvað það nú væri — að setja á fót útibú í Reykjavík — þá væri á ferðinni algerlega hliðstætt ákvæði og sett var inn í lög um Hafrannsóknastofnun ríkisins á síðasta ári. En þar snéri þetta öfugt og sagt var: Heimilt er Hafrannsóknastofnun að setja á fót útibú utan Reykjavíkur.

Ég mundi, herra forseti, sætta mig við ákvæði af þessu tagi sem tæki af öll tvímæli um vilja löggjafans til þess að leita eftir staðsetningu fyrir þetta fyrirtæki utan Reykjavíkur. Ég hef flutt till. um að það verði á Akureyri en nái menn samstöðu um að finna þessu fyrirtæki stað annars staðar, á Ísafirði, eða á Egilsstöðum, á Blönduósi, á Sauðárkróki eða einhvers staðar annars staðar, herra forseti, þá mundi ég að sjálfsögðu standa að slíku samkomulagi væri það í boði vegna þess — og ég undirstrika það — að í mínum huga er hér fyrst og fremst baráttan og slagurinn um það að ná því byggðapólitíska atriði fram að við viljum stefna að dreifingu opinberra stofnana um landið, að dreifingu þessara þjónustuþátta sem borgaðir eru úr sameiginlegum vasa allra landsmanna, því að dreifing þessara þátta er óeðlileg í dag.

Ég tala hér ekki sem andstæðingur Reykjavíkur þó að ég taki svo til orða að ég muni sætta mig við ákvæði eins og þau að tryggt væri að stofnunin yrði einhvers staðar annars staðar en í Reykjavík. En það er bara einfaldlega, herra forseti, sá veruleiki sem við búum við að þessar stofnanir og þessi þjónusta hefur hrúgast hér upp langtum meira en eðlilegt getur talist að mínu viti, í mjög skekktum hlutföllum miðað við búsetudreifinguna í landinu og í skekktum hlutföllum miðað við það hvaðan skattpeningar þegnanna koma. Þannig leggur að sjálfsögðu fólkið við Eyjafjörð, í þeirri fjölmennu byggð, stærsta þéttbýlissvæði utan Reykjavíkur. sitt af mörkum til sameiginlegra útgjalda þjóðarbúsins og á þess vegna eðlilega kröfu ekkert síður en aðrir á því að þjónusta og umsvif hins opinbera komi því til góða í eðlilegum mæli. Þetta mætti þá, herra forseti, verða fjórða spurning mín til hæstv. forsrh., hvort hann gæti þá lögformlega sætt sig við að inn í lögin yrði tekið slíkt ákvæði. Og þá má segja að möguleikarnir séu orðnir þrír sem við höfum til þess að láta Alþingi lýsa yfir þeim vilja sínum að stefna að dreifingu opinberra stofnana um landið: Sá fyrsti, nærtækasti og eðlilegasti er að við ákveðum það hreinlega í lögunum hvar þessi stofnun stendur. Annar er sá að ríkið verði látið beita sér fyrir því að inn í stofnsamning hlutafélagsins verði tekið slíkt ákvæði og í þriðja lagi þessi óbeina aðferð, að setja það inn í lög að aðalstöðvar fyrirtækisins skuli vera einhvers staðar annars staðar en hér í Reykjavík eða á suðvesturhorni landsins. Með því að segja að fyrirtækinu sé heimilt að starfrækja útibú eða sel eða deild eða hvað það nú héti hér á þessu svæði eru menn auðvitað að segja að höfuðstöðvarnar verði einhvers staðar annars staðar.

Herra forseti. Þessari ríkisstj. verður ekki hælt fyrir það að vera sérstaklega vönd að vinnubrögðum. Nú mun vera 12. júní og ekki sér enn fyrir endann á því hvenær þessu Alþingi ljúki. Ég er ekki að setja út á það þó þm. séu hér að störfum eins og þeir eru kjörnir til og fá kaup fyrir. En sú hefur verið venja hér í þinghaldi að því væri löngu lokið um þetta leyti og margir þm. munu hafa gert ráð fyrir því, a. m. k. framan af vetri að svo yrði einnig nú. En hæstv. ríkisstj. hefur kosið að haga málum þannig — og það er nú einu sinni hún sem mestu ræður um þetta og hefur þingrofsréttinn — að hún leggur nú mjög seint á þinginu fram fjöldann allan af frv. sem eru misjafnlega vel — ég vil jafnvel segja í sumum tilfellum: illa unnin frv. Hér er um verulega stór mál að ræða að ýmsu leyti, ýmiss konar uppstokkun á stjórnkerfi og ýmiss konar breytingar, og þingheimi er ætlað að afgreiða þessi mál að því er best verður séð á mjög naumum tíma. Mörg þessi frv. koma svo seint fram að það gefst ekki tími til að senda þau út til umsagnar eins og almenn og góð þingvenja er í nefndarstörfum. Því er hafnað aftur og aftur af hálfu nefndarformanna meiri hlutans að senda út mál til umsagnar eins og eðlilegt hlýtur þó að teljast og hin góða þingvenja mælir fyrir um. Þess í stað eru málin olnboguð hér í gegn á stuttum tíma með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, herra forseti, því að enginn veit í raun hversu vönduð þau eru nema hafa skoðað þau sæmilega fyrst. Ég er ekki endilega að segja að af þessu verði miklir skellir og hér sé á ferðinni eitthvað sem muni hafa hroðalegar afleiðingar í för með sér. Ég er einfaldlega að segja, herra forseti, að það er erfitt að vera þess fullviss að hlutirnir séu í lagi nema þeir séu skoðaðir fyrst og það sæmilega vandlega: Og það á auðvitað ekki að kasta til höndum í löggjafarstarfi, af hvaða toga sem það er, og allra síst þegar menn taka sér það fyrir hendur vegna þess að þeir settu inn í einhvern stjórnarsáttmála einhver ákvæði um að umbylta og umsnúa ýmsum hlutum í hinu opinbera stjórnkerfi.

Þess vegna segi ég þetta, herra forseti, að hér eru t. d. þessi þrjú frv. á ferðinni saman í gegnum þingið. Svo fréttir maður — ýmist er það utan úr bæ eða þá í Ed. eða einhvers staðar annars staðar — að á ferðinni eru sjóðafrumvörp og endurskoðun á þessu og hinu og allt hlýtur þetta auðvitað að tengjast. Þetta er spurning um stefnumörkun meira og minna á hinum ýmsu sviðum. En myndin er ekki á nokkurn hátt heildstæð, herra forseti. Það er verið að raða brotunum saman og það er erfitt fyrir þm., ekki síst þegar tíminn er jafnnaumur og raun ber vitni, að gera sér heildstæða mynd af því hvaða breytingar eru hér í raun og veru á ferðinni, vegna þess að þetta er í mörgum frv., dreift út um hvippinn og hvappinn, sum þeirra eru jafnvel ekki komin fram enn að því er sagt er. Nú er sem sagt 12. júní. Þess vegna held ég, herra forseti, að það sé óþarfi að hæla þessari ríkisstj. fyrir skipuleg og vönduð vinnubrögð.

Við ræddum hér nokkuð, herra forseti, fyrir fáeinum dögum um þingsköp. Og í tengslum við umræður um þingsköp var rætt um virðingu Alþingis. Ég held að þessi vinnubrögð hæstv. ríkisstj. auki ekki virðingu Alþingis. Ég óttast að það sé af öðrum ástæðum sem hæstv. ríkisstj. knýr svo mjög á um það að ýmis mál, illa skoðuð og lítt grunduð, fái hraðferð í gegnum þingið. Mér finnst það í raun ekki eðlilegar áherslur sem hæstv. ríkisstj. leggur í þessum störfum sínum. Því að auðvitað er það ríkisstjórnarinnar, vegna þess mikla valds og þeirra miklu áhrifa sem hún hefur á störf þingsins, að halda utan um og verja og viðhalda virðingu Alþingis. Það er í raun og veru einskis annars manns hlutverk fremur — fyrir þá utan virðulegan forseta þingsins — en hæstv. forsrh. að stuðla að þessu markmiði. Ég hef skilið það svo, herra forseti, að hæstv. forsrh. sé oddviti meiri hluta á þingi hverju sinni. Í þingbundnu skipulagi er það svo, að mér skilst, þannig að ábyrgðin er að verulegu leyti hans.

Ég hefði kosið, herra forseti, að við hefðum tíma til að ræða þessi mál miklu ítarlegar og skoða þau í betra samhengi en við bersýnilega getum nú. Þó vil ég spyrja herra forseta tveggja spurninga áður en ég held lengur áfram máli mínu. Í fyrsta lagi er ræðumaður í þeim vanda staddur að hann er ekki alveg viss um hvort hann er að halda hér ræðu í fyrsta eða annað sinn í þessari umr. um þetta mál og það stafar af því að hér urðu samferða nokkur mál. (Forseti: Það er í fyrsta.) Já, nú upplýsir virðulegur forseti að ég sé að halda mína fyrstu ræðu í þessari umr. um málið eins og ég taldi reyndar vera og þakka ég forseta það. Þá er ljóst, herra forseti, að ég get skotist hér aftur í ræðustól ef það skyldi vera eitthvað fleira sem ég vildi láta í mér heyra um þetta mál eða eitthvað sem ég hefði gleymt. Ef svo færi hugsanlega að mér líkuðu ekki alls kostar svör hæstv. forsrh. eða ég vildi inna hann eftir einhverju frekar, þá á ég sem sagt þann möguleika.

Hitt sem ég vildi spyrja herra forseta að núna, vegna þess að það gæti ráðið nokkru um það hvort ég fer að lengja mál mitt mikið úr þessu, er það hvort honum hafi borist til eyrna eitthvað um það hversu langan tíma við munum nú hafa eftir til þingstarfa, þ. e. verðum við að fara að flýta okkur og verða menn að reyna að stytta mál sitt hér sökum þess að búið sé að ákveða eða stefnt sé að að ljúka þingi á einhverjum ákveðnum tilsettum tíma? Ef svo er ekki, herra forseti, þá vil ég auðvitað nota þinglegan rétt minn til að spyrja og ræða þetta mál eins ítarlega og ég tel þarft og skylt. Ég mundi hins vegar verða við óskum, ef hafðar væru uppi, um það að reyna að stytta mál mitt, t. d. ef ákveðið hefði nú verið að ljúka þinginu fyrir einhvern tilskilinn tíma. (Forseti: Ég get að vísu upplýst eitthvað um þetta og þá það helst að því markmiði sem margir hafa sett sér, að þessu þingi lyki nú um helgina, verður ekki náð. Lengra sé ég ekki á þessari stundu. Hins vegar er það mín persónulega skoðun að þetta þing muni naumast standa lengur en eitthvað fram í næstu viku.)

Ég þakka virðulegum forseta svörin. Þau eru alveg fullnægjandi. Það var einmitt þetta atriði sem ég vildi nú fá fram. Það gleður mig, vil ég segja, að ákveðið hefur verið að þingið taki sér þann tíma sem það telur sig þurfa til að ræða þessi mál. Ég er alveg sammála því mati að það væri óráð hið mesta að ætla sér að reyna að ljúka öllu því sem hér liggur í þinginu fyrir þjóðhátíð. Ég er fullkomlega sammála því mati að eigi Alþingi að vera vant að virðingu sinni og skila þessum málum frá sér eins og nauðsynlegt og þarft er, þá þurfi það meiri tíma heldur en lifir nú fram að þjóðhátíð, ekki bara til að ganga skikkanlega frá þeim málum sem hér eru til umræðu og þessu dagskrármáli, heldur og þeim fjölmörgu málum sem eru á dagskrá, m. a. ýmsum ágætum tillögum og málum stjórnarandstöðunnar sem hafa hreyfst óvenjulítið í gegnum þingið núna síðustu dagana. (Gripið fram í: Svo er selveiðin.) Síðan eru órædd hér þingmál um selveiðar auðvitað sem af ákveðnum persónulegum ástæðum ónefnds þm. mega ómögulega daga hér uppi, herra forseti.

En ég hef lagt, herra forseti, fjórar beinar spurningar fyrir hæstv. forsrh. og ég vona að hann sjái sér fært, áður en þingfundi lýkur í kvöld og kappleikur hefst að svara því einhverju, eða þá síðar í umr. ef svo ber undir. Ég hefði einnig haft mjög gaman af því ef hæstv. forsrh. hefði viljað, þó ekki nema í örfáum orðum væri, lýsa sinni afstöðu og sínum viðhorfum til atriða sem ég gerði hér að umtalsefni, eins og t. d. hvaða áhrif launastefna hefur á þróun og afkomu í atvinnulífinu, um tengsl einnar ákveðinnar launastefnu við þessa þætti, hvaða viðhorf og afstöðu hæstv. forsrh. hefur varðandi fjárfestingar og áhrif fjárfestinga á lífskjörin, stöðu þeirra mála á Íslandi og eðlilega stýringu fjárfestinga. Og í síðasta lagi hefði ég mjög gjarnan, vegna þess að ég tel það vera eitt af grundvallaratriðum þessa máls, viljað heyra frá hæstv. forsrh. hver hann telji eðlileg markmið nýs atvinnurekstrar á Íslandi, hvaða kröfur eigi að setja nýjum atvinnurekstri hvað varðar arðsemi og hvað varðar getu til að borga laun. Er hæstv. forsrh. sáttur við það launastig sem er á Íslandi í dag og telur hann eðlilegt að taka inn í arðsemisútreikninga nýrra fyrirtækja launastigið eins og það er hér nú í samanburði við nálæg lönd eða telur hann að þar eigi að setja markið eitthvað hærra? Ef t. d. nýtt fyrirtæki, sem verið er að kanna, er talið geta skilað 10% afkastavöxtum miðað við launin eins og þau eru í dag telur hann það nógu gott eða ekki nógu gott?

Það er reyndar ýmislegt fleira í minni ræðu, herra forseti, sem ég setti fram í spurnarformi og hefði þess vegna verið gaman að fá ákveðna umfjöllun um. En ég held að ég láti þetta duga að sinni. Ég hef nú rætt þetta mál nokkra stund, þó ekki lengur en ég tel fulla ástæðu til, og gæti jafnvel hugsað mér að velta upp enn fleiri hliðum á þessu máli í tengslum við þetta átak sem ég gleðst yfir að hæstv. ríkisstj. er af veikum burðum að reyna að hrinda af stað. Það hefur aldrei í mínum huga komist að annað en ánægja með það að hæstv. ríkisstj. er að reyna að sinna þessum málum. Ég vil taka það alveg sérstaklega fram, herra forseti, að vissulega fagna ég því að ríkisstj. áttar sig á því að þessum málum þarf að sinna einnig, að hún áttar sig á því að það eru tæplega aðrir líklegri til þess að sinna þeim en ríkisvaldið sjálft og það er einfaldlega raunsætt mat að þátttaka ríkisins skuli þarna koma til ef eitthvað eigi að verða úr þessu.

Það er nefnilega svo, herra forseti, að einkagróðinn, sem margir tala nú um, finnst oft ekki þegar á að fara að nota hann eitthvað, þá er hann bara gufaður upp, hann skilar sér ekki, hann kemur ekki inn í atvinnulífið, hann stuðlar ekki að aukinni fjárfestingu. Reynslan frá Bandaríkjunum og þeim hagvexti sem þar hefur orðið núna síðustu mánuðina er órækast vitni um þetta. Þar hafa efnahagssérfræðingar orðið fyrir miklum vonbrigðum með það að sá aukni hagvöxtur og bætt afkoma hefur ekki skilað sér, hvorki í meiri afvinnu né þeim fjárfestingum sem menn í kjölfar þess hefðu vænst. Ég held því miður að sá einkagróði sem er að myndast á Íslandi í dag sé sömu náttúru að verulegu leyti. Það sé t. d. vali að treysta því að þeir aðilar á Íslandi sem nú eru að græða leggi sína fjármuni í sjávarútveginn, því miður. Því miður gengur vídeóleigugróðinn, ef einhver er, ekki upp í tapreksturinn á togurunum eða uppbyggingu í frystihúsunum. Þess vegna er ég sammála hæstv. ríkisstj. um það að óhjákvæmilegt og eðlilegt sé að ríkisvaldið sé gerandi og þátttakandi í þessum málum með einhverjum hætti.

Herra forseti. Þá ætla ég ekki að hafa orð mín fleiri í þessari fyrstu ræðu minni við þessa umr. málsins eða fyrri ræðu. Ég vonast til þess að þessi umr. megi verða okkur gagnleg og skýra þetta mál. Ég tel nauðsynlegt að ríkisstj. skýri betur en gert er með grg. frv. markmið sín og vilja sinn og væntingar í tengslum við þetta mál og ég teldi gagnlegt að þingtíðindin geymdu meiri upplýsingar um afstöðu hæstv. ríkisstj. og skoðanir einstakra þm. á þessu máli þegar það fer hér í gegn, eigi svo að fara, sem við skulum vona, að það verði barn í brók og standi í stykkinu og nái að einhverju leyti að þjóna sínum tilgangi.