12.06.1985
Neðri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6408 í B-deild Alþingistíðinda. (5804)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Allt s. l. sumar þóttust foringjar stjórnarflokkanna vinna að endurskoðun samstarfssamnings og mótun tillagna eða verkefnalista sem frekara samstarf byggðist á. Að vísu gekk eitthvað illa að finna samráðsfundum stað og stund. Foringjarnir voru til skiptis í útlöndum og eitthvað skorti á að boðveitukerfin innan flokkanna verkuðu eins og til var ætlast. En loksins fæddust tillögurnar, tímamótatillögur, eins og formenn stjórnarflokkanna kölluðu þær á fundi með fréttamönnum í byrjun september s. l.

Við erum nú svo jákvæðar í Kvennalistanum að við eyddum töluverðum tíma í að reyna að finna eitthvað gott og raunhæft í þessum tillögum. Það reyndist því miður erfitt, enda bersýnilegt að þær voru reistar á óskhyggju fremur en raunsæi. Ein skrautfjöðrin var Þróunarfélagið hf. og sú hugmynd er nú komin hér í frv.-formi. Tók það afrek 7–8 mánuði og er enn eitt dæmið um óviðunandi vinnubrögð stjórnarflokkanna á þessu þingi. Hugmyndin er í sjálfu sér góð og tilgangurinn göfugur, eða eins og segir orðrétt í 1. gr. frv., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er hafi það markmið að örva nýsköpun í íslensku atvinnulífi og efla arðsama atvinnustarfsemi. Hlutafé félagsins verði a. m. k. 200 millj. kr.“

Nú hefur reyndar verið talað um að þetta hlutafélag hafi miklu meira fé til umráða, enda dugir þetta skammt til þess að þjóna þeim tilgangi sem boðaður er eða markaður er hér í 1. gr. Sem sagt, tilgangurinn er göfugur, en spurningin er hvort honum verði náð með þeirri leið sem hér er lögð til.

Sannleikurinn er sá að hlutafélag til að örva nýsköpun í atvinnulífi verkar einfaldlega eins og pólitískt vindhögg meðan sjávarútvegurinn er látinn berjast í bökkum og í sömu andrá er staðið gegn eðlilegri þróun í menntakerfinu og rannsóknarstarfsemi í landinu. Það er á þeim sviðum sem við þurfum fyrst og fremst á uppbyggingu að halda. Þar er grunnurinn undir framtíð þessa þjóðfélags.

Nú er auðvitað hugsanlegt að t. d. rannsóknarstarfsemi hljóti einhverja náð væntanlegrar forustu þessa hlutafélags sem hér er lagt til, eins og reyndar ýjað er að í grg., en úr því getur reynslan ein skorið. Við rennum í rauninni algerlega blint í sjóinn og getum engan veginn fest hendur á hvaða gagn megi verða af þessu félagi. Ríkið verður aðeins hluthafi, getur aðeins reynt að hafa áhrif á stefnuna. Í rauninni er ekkert sem tryggir að hér verði um að ræða nýsköpun og eflingu atvinnulífsins.

Engin stefna er mörkuð um athafnasvið félagsins en slíkt er að mínu mati nauðsynlegt ef menn eiga að geta gert sér grein fyrir áhrifum þess í samræmi við tilganginn sem tilgreindur er í 1. gr. Auk þess er hér um furðu litla upphæð að ræða. Heyrst hafa tölurnar 500–700 millj. kr., þar af um 200 millj. sem ríkið legði fram. Þetta er auðvitað ekki há upphæð miðað við yfirlýstan tilgang frv. Ég benti á það í útvarpsumræðum hér í gærkvöld að hér er verið að tala um heildarráðstöfunarfé sem nemur ekki nema um það bil andvirði flugstöðvarinnar sem verið er að reisa á Keflavíkurflugvelli.

Herra forseti. Ég sé raunar ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þetta frv. Að athuguðu máli tel ég réttast að reynt verði til þrautar að gera það betur úr garði og styð að því verði vísað til ríkisstj.