13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6431 í B-deild Alþingistíðinda. (5810)

353. mál, afnám misréttis gagnvart konum

Frsm. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Utanrmn. skilar svofelldu nál. um till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda samning um afnám alls misréttis gagnvart konum:

„Nefndin hefur fjallað um till. og er sammála um að mæla með því að hún verði samþykkt.“

Það væri ástæða til að hafa nokkurt mál um þessa till. og þennan samning sem verður að teljast merkilegt skref í þá átt að tryggja raunverulegt jafnrétti manna, ekki aðeins útrýmingu misréttis heldur einnig skref í áttina til jafnréttis. Þetta mun vera flutt að frumkvæði hæstv. utanrrh. og félmrh. og hefur hæstv. félmrh. þegar látið gera breytingar á íslenskum lögum svo þau samrýmist þessum samningi.

Það verður varla sagt að afnám misréttis sé langt komið í veröldinni. Það eru vafalítið næsta fá ríkin sem fullnægja skilyrðum um það. Þar kemur til venja og hefðir sem eru oft og tíðum langtum sterkari en löggjöf.

Það er hugsunarhátturinn sem mestu máli skiptir.

Ég held að við getum verið sammála um að Íslendingar standi framarlega í þessum málum þó margt standi þar til bóta. En alþjóðasamningar eru lítils virði nema þeim sé framfylgt. Þó geta þeir verið hvati og grundvöllur aðgerða. Það er hin mikla þýðing sem þeir hafa. Ég vil hvetja til þess að hið háa Alþingi samþykki þessa þáltill. og samningurinn verði staðfestur og megi það verða til þess að bæta hér mannlíf, auka hér jöfnuð og jafnrétti og breyta hugsunarhætti, rífa okkur úr viðjum vana og hefðar til þess að takast á við nýja tíma.

Ég vil geta þess að hv. þm. Guðmundur Einarsson sat fundi utanrmn. og er sammála því að mæla með samþykkt till.