13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6432 í B-deild Alþingistíðinda. (5815)

474. mál, umsvif erlendra sendiráða

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. utanrmn. hefur æðioft á liðnum vetri fjallað um umsvif erlendra sendiráða og raunar aflað sér mikilla upplýsinga um hvernig málum er háttað meðal ýmissa annarra þjóða í samskiptum milli ríkja. Að vísu eru þær upplýsingar sem við fengum í nefndinni einungis munnlega fluttar af okkur þar sem um trúnaðarmál er að ræða gagnvart þeim ríkisstjórnum og þjóðum sem hafa látið okkur þessar upplýsingar í té. Málið hefur sem sagt verið mikið rætt og skoðað og tilefnið var m. a. tillöguflutningur hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um þetta efni sem menn kannast við.

En utanrmn. varð sammála um að flytja sjálf'stæða till. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að leggja áherslu á að umsvif erlendra sendiráða séu jafnan innan hæfilegra marka og felur ráðh. að fylgjast með því að svo sé og gera, ef þörf krefur, með samningum eða einhliða, ráðstafanir í þessu skyni á grundvelli laga nr. 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, og laga nr. 30/1980, um breytingu á lögum nr. 19/1966, um eignarrétt og. afnotarétt fasteigna, með sérstakri hliðsjón af íslenskum aðstæðum.“

Þetta er vandmeðfarið mál. Ég skal aðeins geta um þau lagafyrirmæli sem vitnað er til í tillgr.

Með aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasambönd, sem var gerður í Vín 18. apríl 1961, og lögum nr. 16/1971, sem heimiluðu aðildina og gáfu samningnum lagagildi hér á Íslandi, var skapaður formlegur grundvöllur til afskipta íslenska ríkisins m. a. af stærð sendiráða hér á landi. Í 11. gr. samningsins er annars vegar gengið út frá því að gerður sé sérstakur samningur um stærð sendiráða eða eins og segir: „Getur móttökuríkið krafist þess, að stærð sendiráðs verði sett takmörk,“ eins og komist er að orði í greininni, en takmörkin skulu þó samkvæmt greininni vera þau er móttökuríkið „telur hæfilegt og eðlilegt með hliðsjón af aðstæðum og ástandi í móttökuríkinu og þörfum hlutaðeigandi sendiráðs.“

Stærð sendiráða hér á landi hefur verið með þeim hætti að yfirleitt hefur ekki verið talið að þau færu fram úr þeirri viðmiðun sem hérna er nefnd. Það er þó einungis að því er varðar sendiráð það sem er fjölmennast, þ. e. sovéska sendiráðið, að frá árinu 1981 hefur verið miðað við að það fjölgaði starfsmönnum ekki. Við útgáfu nýrra persónuskilríkja hefur verið sannreynt að um væri að ræða starfsmenn sem kæmu í stað annarra sem væru farnir eða á förum. Með þessu er ekki endilega lagt á það mat hvort núverandi starfsmannafjöldi sé nauðsynlegur.

Að því er varðar aftur á móti húsnæði sendiráða kveður Vínarsamningurinn, í 21. gr., á um það að móttökuríkið skuli auðvelda sendiríkinu að afla sér í landi þess fasteigna eða húsakynna og hefur íslenska utanríkisþjónustan uppfyllt það skilyrði. Sendiráðin hér, að tveimur undanskildum, eru í eigin húsnæði.

Um húsnæðið er fjallað í lögum þeim sem vitnað er til í tillgr., þ. e. lögum nr. 30/1980. Þá var breytt eldri lögunum um eignar- og afnotarétt fasteigna og sett sú regla varðandi fasteignakaup sendiráða að kaupsamninga eða afsöl fyrir fasteignum skyldi leggja fyrir dómsmrn. og öðlist gerningurinn ekki gildi fyrr en rn. hefur samþykkt hann með áritun sinni. Að því er snertir framkvæmd þessa ákvæðis hefur dómsmrn. markað þá afstöðu að það telji „að túlka beri hin nýju lagaákvæði, sem að framan getur, þannig að ætlast sé til þess að reynt sé að gæta hæfilegs samræmis um húsnæðiskaup milli erlendra sendiráða, svo og verður að hafa í huga að skyldur til nokkurrar öryggisgæslu aukast með aukinn húseign sendiráða.“

Jafnframt hefur dómsmrn. tekið fram, þegar fjallað hefur verið um kaup fimmtu húseignar sovéska sendiráðsins, að í þessu sambandi verði að geta þess „að svo virðist sem að allmiklu misvægi stefni að því er umsvif sendiráðs Sovétríkjanna varðar og telur rn. nauðsynlegt að hafa þær aðstæður í huga framvegis.“

Ég held að ekki sé ástæða til að ég fari öllu lengra út í þetta mál. En það kom til umræðu, bæði opinberlega og í nefndinni, og getur ekki verið neitt launungarmál, hvort einhvers konar gagnkvæmni kynni að ríkja. T. d. vita menn að það er takmarkað nokkuð ferðafrelsi íslenskra sendimanna a. m. k. í einu ríki. Til þess var ekki tekin bein afstaða hvort eitthvað slíkt kæmi til greina af okkar hálfu, en tillgr. held ég að segi það sem segja þarf í þessu efni.

Bæði þessi lagafyrirmæli, sem ég hef frá greint, og væntanleg samþykkt Alþingis hér í dag munu auðvelda aðhald og gera utanrrn. og dómsmrn., að svo miklu leyti sem það kemur til kasta þess, auðveldara um aðhald í þessu efni.

Þar sem ég geri ráð fyrir að þetta sé síðasta mál sem ég tala fyrir fyrir hönd hv. utanrmn. á þessu þingi, en nefndin afgreiddi fyrir nokkrum vikum öll þau mál sem til hennar hafa komið, langar mig að þakka sérstaklega meðnefndarmönnum og einkum og sér í lagi þó hæstv. utanrrh. og ráðuneytisstjóra utanrrn., Ingva Ingvarssyni, og skrifstofustjóra Ólafi Egilssyni sem hafa unnið gífurlega mikið starf á vegum nefndarinnar. Fundir hafa verið tíðir og margir í utanrmn. T. d. voru þeir í fyrrasumar einir níu, að ég hygg, og þá ekki síst fjallað um réttargæslu á Jan Mayen-svæðinu. En þá gerðu Efnahagsbandalagsþjóðir í annað skipti tilraun til að ráðast inn á íslenskt yfirráðasvæði og það þurfti að halda vel á spöðunum til þess að það yrði ekki hefð að unnt væri að brjóta Jan Mayen-samkomulagið, en nm. létu sig ekkert muna um það að koma að sumarlagi til einna níu funda, sem sumir hverjir voru langir og strangir, og utanrrn. vann mjög dyggilega að málum, það vita allir menn í utanrmn.