13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6436 í B-deild Alþingistíðinda. (5824)

268. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Frsm. (Björn Dagbjartsson):

Herra forseti. Nefndin hefur fjallað um þessa till. og fengið fjölmargar umsagnir, alls 25, að mestu frá heilbrigðisnefndum, sveitarstjórnum og náttúruverndarnefndum sveitarfélaga. Allar þessar umsagnir voru jákvæðar, enda vart við öðru að búast, að vísu notuð mismunandi sterk lýsingarorð.

Það er ljóst að hér er um mjög mikið fjárhagsmál að ræða sem ekki verður afgreitt með einfaldri þáltill. Það eru mjög mismunandi aðstæður, eins og menn vita, þar sem fiskimjölsverksmiðjur eru staðsettar. Því var lýst t. d. í bréfi frá Raufarhöfn að hár skorsteinn hefði þar bjargað mjög miklu og raunar tekið fyrir kvartanir um mengun frá verksmiðju staðarins. Annars staðar í djúpum fjörðum Austurlands eru mjög veruleg brögð að mengun frá loðnubræðslum og fiskimjölsverksmiðjum. Það er einnig kunnugt um að mælingar á brennisteinstvíildi á fyrirhuguðum stað fyrir kísilmálmverksmiðju hafa sýnt mjög greinilegt útslag þegar brædd er loðna á Reyðarfirði eða Eskifirði. Hvort það er yfir hættumörkum er mér ekki kunnugt um.

Kostnaður vegna fyrirbyggingar loftmengunar og einnig til orkusparnaðar skiptir tugum milljóna á verksmiðju, það er ljóst, og það er ljóst að það yrði harðsótt að ná því fé inn hjá verksmiðjunum sjálfum eða gera þær kröfur að þær legðu það fé fram. Jafnframt hefur það reynst nokkuð harðsótt að ná inn á lánsfjárlögum hvers árs fé sem hægt væri að verja í þessar aðgerðir.

Því var lýst í umsögn frá heilbrigðisnefnd Akureyrar að þær aðgerðir sem framkvæmdar voru við verksmiðjuna á Krossanesi hefðu gjörbreytt ástandinu í mengunarmálum þar. Þá hefur það einnig komið fram í blaðafréttum að 8 millj. kr. ágóði varð af rekstri verksmiðjunnar á Krossanesi þrátt fyrir verulegar yfirborganir sem ljóst var að sú verksmiðja hafði í frammi vegna loðnu á s. l. vertíð. Þessi hagnaður, um 4%, er hægt að sýna fram á að getur stafað hreinlega af orkusparnaði sem þeirri verksmiðju hefur tekist að ná með þeim aðgerðum sem þar hafa verið framkvæmdar.

Nefndin flutti brtt. á sérstöku þskj. þar sem hún taldi rétt að það yrði gerð í það minnsta áætlun um varanlegar úrbætur sem síðar mætti nota til frekari ákvörðunar. Ég sé ekki ástæðu til að lesa þá brtt. og læt máli mínu lokið.