13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6439 í B-deild Alþingistíðinda. (5829)

222. mál, stofnun og rekstur smáfyrirtækja

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Hér kemur fram að álit meiri hl. hv. atvmn. er að till. feli ekki í sér neitt nýtt sem geti skipt sköpum. Það nýja við till. og sem skiptir sköpum að mati mínu er að í henni felst átak, stefnumörkun, frumkvæði, hvatning. sams konar hvatning og liggur að baki öðrum meiri háttar átökum sem hafa orðið í íslensku efnahags- og atvinnulífi, eins og í sjávarútvegi, eins og í stóriðju. Það er verið að skapa nýtt andrúmsloft. Fólk á að brenna í skinninu af löngun eftir að leita nýrra leiða. Það er það sem þessi till. felur í sér og það er það sem skiptir sköpum. Það er upphafið að herferð sem hvetur til nýjunga.

Í nál. meiri hl. er einnig sagt „í trausti þess að ríkisstj. hafi uppi markvissar aðgerðir...“ Ég verð að segja að ekki ber ég það traust til þessarar ríkisstj., miðað við það sem sést hefur af verkum hennar innan þings og utan og verkstjórn hennar á sínu fólki og öðrum, að hún muni sinna þessu máli svo að fullnægjandi sé. Þvert á móti tel ég að ástæða hefði verið til að Alþingi ræki á eftir því með samþykkt þessarar till. og færi fram á það að ríkisstj. sinnti þessu máli.

Í máli frsm. meiri hl. kom fram að hann teldi að hér væri á ferðinni till. um að koma einhverju á brjóstið á ríkisvaldinu. Það kemur fram í till. að lagt er til að tímabundin, ódýr þjónusta sé veitt. Hún er tímabundin, ég legg á það mikla áherslu. Það kemur líka fram í grg. að það er jafnmikilvægt atriði og að koma þessum rekstri af stað að gera hann færan um að standa á eigin fótum. Það kemur mjög greinilega fram í grg. með till. Þar er lögð á það áhersla að fyrirtækjum sé leyft að bera arð og að þeim séu að öðru leyti sköpuð þau skilyrði að þau geti verið bæði sér og öðrum til sóma.

Þessi stjórnmálamaður hafði af því áhyggjur að ríkisvaldið tæki frumkvæði í þessum efnum. Það vill nú þannig til að mjög margar ríkisstjórnir hafa ekki haft af því samviskubit að taka til hendinni í þessum efnum. Hér er t. d. bók sem heitir „The small firm“, litla fyrirtækið, og er nýlega komin út. Þar er skýrt frá markvissum aðgerðum í líklega einum tíu, tólf löndum, þ. á m. Bretlandi, Norðurlöndunum, Bandaríkjunum, þar sem sett var á fót sérstök stofnun til að sinna málefnum smáfyrirtækja fyrir líklega tveimur áratugum. Þetta hefur víða verið forgangsmál í pólitík. Ég nefni Bretland þar sem Thatcher-stjórnin sem ekki hefur nú beinlínis verið orðuð við það að tak,a á brjóst sér einn eða neinn til eldis, hefur gert þetta að sérstöku baráttumáli. Hún hefur sett á fót ýmiss konar þjónustu, ódýra, tímabundna þjónustu. Þó að það standi í forsvarsmönnum þessarar stjórnar hefur hún komið þessari þjónustu á fót og þykist sjá af því mikinn árangur og mun halda áfram slíkri þjónustu og beinum fjárhagsstuðningi sem hún telur sig alts ekki þurfa að skammast sín fyrir. Ef það er mat íslensku ríkisstjórnarinnar að ríkisvaldið eigi ekki að taka frumkvæði af þessu tagi skýtur það mjög skökku við það sem gerist í öðrum þjóðlöndum þar sem það hefur þvert á móti verið forgangsverkefni að sinna

þessu á þennan hátt.

Ritstjóri tímaritsins Economist, það stendur í grein 16. febrúar, hefur ekki heldur af því neitt samviskubit að sinna þessum málum sérstaklega. Þar skrifar aðstoðarritstjórinn, Norman Macrae, grein þar sem hann nefnir 25 atriði sem hann vill beina til stjórnmálamanna og fólks í viðskiptalífinu. Þetta eru 25 atriði um hvað gera megi til að styðja við rekstur smáfyrirtækja. Þessi Norman Macrae hefur ekki heldur verið þekktur fyrir að mæla því sérstaklega bót að taka einn eða neinn og leggja á brjóst ríkisvaldsins. Hér er hins vegar um það að ræða að menn viðurkenni það hlutverk ríkisvaldsins að hafa frumkvæði um tímabundnar aðgerðir, að hafa frumkvæði um að móta umhverfið og hvetja til reksturs af þessu tagi. Það væri fróðlegt að lesa upp úr grein Norman Macrae þar sem eru 25 uppástungur um hvað ríkisvald og aðrir geti gert til að styðja við stofnun og rekstur smáfyrirtækja.

Að lokum gæti ég vitnað til greinar í International Business Week, sem kom út 27. maí s. l., fyrir rúmum hálfum mánuði, þar sem er fjallað sérstaklega um árangur Bandaríkjanna í þessum efnum. Þar er sérstök úttekt gerð á rekstri smáfyrirtækja í Bandaríkjunum, birt um það grein sem lýsir þessu bæði almennt og einnig í ýmsum smærri atriðum, tekur fyrir ákveðin dæmi og birtir síðan lista yfir hundrað lítil fyrirtæki sem talið er að séu dæmigerð um hinn nýja vöxt atvinnulífsins.

Ég ætla ekki að gera þetta mál lengra að sinni, þetta hefur komið inn í umræður að undanförnu og þess vegna ástæðulaust að lengja umræður í Sþ. vegna þess, en þetta eru dæmi um að stjórnvöld um öll Vesturlönd telja sig alls ekki þurfa að skammast sín fyrir að taka upp ódýra tímabundna sérfræðiþjónustu og fjárhagslegar aðgerðir til að styðja við þessi fyrirtæki. Ég held að komið sé að því að Íslendingar líti sérstaklega á þennan þátt efnahagslífsins af sömu ákefðinni og þeir hafa horft á stóriðjureksturinn að undanförnu. Það er ýmislegt sem bendir til þess að það sé einmitt rekstur af þessu tagi sem sé að taka við af stóriðjunni. Ef stóriðjuglýjan færðist af augum ýmissa þeirra sem hafa orð fyrir ríkisstj. í þessum efnum gæti kannske verið að menn sæju sólina.