13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6441 í B-deild Alþingistíðinda. (5832)

222. mál, stofnun og rekstur smáfyrirtækja

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Mér þykir leitt ef hv. þm. Garðar Sigurðsson hefur lesið þáltill. án þess að gera sér grein fyrir því að verið sé að tala um átak. Það má vel vera að við þm. BJ hefðum þurft að bæta inn einhverjum hástigslýsingarorðum í þáltill. sjálfa til þess að opna augu hans fyrir því að þar er verið að tala um hluti sem skipta miklu máli. Af grg. sjálfri, bæði upplýsingum um hvern sess þessi mál skipi erlendis, upplýsingum um hvaða möguleikar séu og að nýir tímar séu að renna upp í þessum efnum, en upplýsingar um þetta eru í grg., ætti fólki að vera ljóst að hér er verið að tala um hluti sem gætu skipt miklu máli, en hástigslýsingarorðin eru ekki í tillgr. sjálfri og má vera að það hafi orðið til þess að ekki kviknaði á þræðinum hjá hv. þm.

Hv. þm. vék að ódýrri sérfræðiþjónustu og átti það bersýnilega að vera sneið vegna upplýsinga sem hafa borist um sérfræðiþjónustu úr stóriðjubransanum að undanförnu. Ég hef vikið að því í máli mínu áður þar sem smáfyrirtæki hefur borið á góma að ég óska þess að það myndist svipuð skjaldborg og áhugi um rekstur smáfyrirtækja og myndast hefur um stóriðju í landinu án þess að því fylgi það Versala-líferni stóriðjuhirðarinnar sem manni hefur virst vera í ýmsu. Ég biðst undan því. Ég er þess fullviss að hægt er að aðstoða fólk hvar sem er á þessu landi án þess að því þurfi að fylgja þeir reikningar sem gerðir hafa verið að umtalsefni hér áður.

Að lokum ætlaði ég að minnast á það sem hv. þm. hafði að segja um stjórn aðgerða. Í kaflanum um stjórn aðgerða í grg. er lögð megináhersla á frumkvæði heimafólks og vísað til hugmynda okkar um þróunarstofur landshlutanna. Það kemur heim og saman við það að það litla sem hefur gerst í þessum efnum af hálfu ríkisvalds á undanförnum árum hefur verið fyrir frumkvæði heimamanna þar sem eru iðnþróunarráðgjafar og iðnþróunarfélög. Það er veikur vísir, en alls ekki það átak sem þarf að verða í þessum efnum. Við erum að biðja um átak frumkvæði og stuðning frá ríkisvaldinu.

Ég var reyndar að vona, þegar ég sá meirihlutaálitið, að hv. 4. þm. Suðurl. hefði séð sóma sinn í að vera ekki á því. Nú hefur hann leiðrétt það. Þar með hefur hann slegist í hóp þeirra sem ekkert sjá annað en stóriðjuna sem úrlausn í íslenskum efnahagsmálum þrátt fyrir það að á hverjum degi, svo að segja, berist okkur fregnir um hörmungarástandið á þeim bæ.