13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6444 í B-deild Alþingistíðinda. (5836)

222. mál, stofnun og rekstur smáfyrirtækja

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Mér þótti hv. þm. Birgir Ísleifur Gunnarsson taka nokkuð sterkt til orða áðan, einkum og sér í lagi með tilliti til þess að ég er sannfærður um að einn af veikustu hlekkjunum í íslensku atvinnulífi er að fyrirtækjunum er ekki nægilega vel stjórnað. Það ásamt því að kunna ekki nógu mikið fyrir sér í sölumálum tel ég þá þættina í atvinnulífsmynd okkar sem hafi því miður orðið út undan. Mér fannst ekki koma nægilega ríkur skilningur á því í máli hv. þm. Birgis Ísleifs.

Þó að menn viti kannske hvar þeir eigi að fá heitt og kalt vatn í Reykjavík og hvar þeir eiga að sækja um lóð, þá er það nú reyndar svo að hér eru í gildi alls konar reglugerðir og lagabálkar sem Alþingi hefur staðið að að samþykkja. Á þessu þurfa þeir sem atvinnurekstur stunda að kunna skil til þess að vita hvernig þeir eiga að feta sig rétta braut með tilliti til laga og reglugerða sem í gildi eru. Við þm. verðum æði oft varir við að ýmsir þeir sem í atvinnurekstri standa eða vilja stofna til atvinnurekstrar þekkja þetta ekki og þeir þekkja ekki kerfið í landinu. Þeir óska eftir aðstoð í því sambandi. Ýmsir eru því aðstoðar þurfi.

Þegar litið er á þessi atriði held ég að það sé ljóst að þörf sé fyrir fræðslu um þessi mál. 1. liður þeirrar till. sem hér hefur verið flutt fjallar einmitt um fræðslu af þessu tagi. 2. liðurinn fjallar um það að veita mönnum aðgang að sérfræðiþjónustu með hagkvæmum hætti. Ég er ekki heldur í neinum vafa um að það getur verið mörgum stjórnendum fyrirtækja hollt. Í þriðja lagi er í till. minnst á hinn fjárhagslega grundvöll í sambandi við stofnun smáfyrirtækja. Eins og hv. þm. er vafalaust kunnugt, og ég er ekki í neinum vafa um að hv. þm. Birgir Ísleifur Gunnarsson veit það, eru í mörgum löndum sérstakir sjóðir, sérstakar stofnanir sem hafa það verkefni með höndum. Það má kannske halda því fram að úr því öll fyrirtæki eru smá á Íslandi, þar með talið ÍSAL, hafi þessu verkefni verið sinnt eftir því sem unnt er, en ég er ekki sannfærður um að það hafi verið gert með skipulegum hætti eða ekki geti verið þörf á því að hyggja að því frekar. En hin tvö atriðin, sem fram eru talin, varðandi fræðslu og sérfræðiþjónustu eiga áreiðanlega rétt á sér. Þess vegna finnst mér þessi till. góð og ástæðulaust annað en að samþykkja hana. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa verið flutt um það efni.