13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6445 í B-deild Alþingistíðinda. (5837)

222. mál, stofnun og rekstur smáfyrirtækja

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að þrátt fyrir hinar miklu annir sem eru nú á Alþingi og þrátt fyrir að komið sé fram á sumar skuli hæstv. forseti gefa Sþ. tóm til að fjalla um atvinnumálin almennt og er sjálfsagt að taka þátt í þeim umr. Það er alveg laukrétt að Alþingi þarf að gefa sér meiri tíma til slíkra umræðna og ég tel nauðsynlegt líka, til þess að eyða misskilningi sem fram hefur komið, að leggja þar nokkur orð í belg.

Ég vil í fyrsta lagi segja að mér finnst sú árátta hvimleið sem sumir þm. hafa, eins og m. a. kom skýrt fram í máli hv. 4. landsk. þm. áðan, að gera öðrum mönnum upp skoðanir þótt þeir séu ekki sammála í öllum atriðum. Það liggur ljóst fyrir, það sannar mátflutningur sjálfstæðismanna fyrr og síðar, stefna Sjálfstfl., saga hans, að sá jarðvegur sem Sjálfstfl. spratt upp úr var jarðvegur þeirra manna í þessu þjóðfélagi sem hafa trú á því að þá vegni þjóðarheildinni best þegar einstaklingarnir hafa sem mest svigrúm til athafna. Við þykjumst geta bent á að velgengni þjóðarinnar hafi verið mest þegar frelsið var mest, þegar losað var um verslunarhöftin, þegar menn gátu spreytt sig á þeim verkefnum sem hugur þeirra stóð til. Það sem gerir Sjálfstfl. eins sterkan í þessu landi og raun ber vitni er sú staðreynd að hugsjónir sjálfstæðisstefnunnar fara saman við sögu þjóðarinnar, hugsjónir þjóðarinnar eins og þeim er best lýst í íslenskum skáldskap allt frá öndverðu og má vel tala um ýmsar vísur í Hávamálum þessu til stuðnings.

Auðvitað er það rangt, sem hv. 4. landsk. þm. segir, að sjálfstæðismenn hafi þá oftrú á stóriðju að þeir vilji ekki af þeim sökum ýta undir að smáfyrirtæki geti dafnað. Auðvitað veit hv. þm. að þetta er algerlega rangt. Hann veit að það var síður en svo afleiðingin af álverinu við Straumsvík að smáfyrirtækin í Hafnarfirði legðu upp laupana. Ég held að enginn maður geti komið með þau rök á borðið að dregið hafi úr atvinnustarfsemi í Hafnarfirði vegna þess að álverið kom þar fyrir sunnan. Þetta er útúrsnúningur. Þvert á móti varð þetta álver til þess að nýr kraftur færðist í þá byggð og fjárhagur bæjarins styrktist, bæði bæjarsjóðs og þeirra fyrirtækja sem þar eru og fólksins sem á þeim stað býr.

Við getum líka talað um það t. d. að Kísiliðjan við Mývatnssveit sé stóriðja í þeim skilningi að sá rekstur sker sig mjög úr miðað við annan rekstur norður þar og vegna þess að þar er um útflutningsframleiðslu að ræða í stórum stíl. Þetta fyrirtæki hefur, bæði í Mývatnssveit og eins á Húsavík, mjög treyst undirstöður atvinnulífsins og bætt hag smáfyrirtækjanna.

Við getum bent á fleiri staði. Það vita þeir sem kunnugir eru t. d. við Eyjafjörð að sá mikli samdráttur sem varð í þorskveiðum eftir 1981 og 1982 olli því að helmingi færri þorskar voru dregnir þar á land á s. l. ári en tveim árum áður. Þetta hafði mjög afdrifarík áhrif á stöðu smáfyrirtækjanna við fjörðinn, að þessi sem sumir vilja kalla mestu stóriðju okkar, fiskveiðarnar, fiskverkunin, skyldi dragast svo saman. Og þeir menn sem þarna standa fyrir rekstri, standa fyrir smáfyrirtækjunum, skilja það betur en flestir aðrir hvílík lyftistöng það yrði fyrir Akureyri, fyrir þessi fyrirtæki ef samningar tækjust um að stóriðja risi við Eyjafjörð. Þetta er mergurinn málsins. Ég er mjög ánægður yfir því að ég sé að hv. 3. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, hefur kvatt sér hljóðs. Ég þykist vita að hann hafi gert það einmitt til þess að undirstrika þau sjónarmið sem ég hef hér sett fram. Við höfum unnið vel að mörgum málum fyrir Norðlendinga og ég efast ekki um að við getum einnig unnið vel að því að treysta undirstöður norðlenskrar byggðar. Ég vil vekja athygli á því, sem er raunar mjög fátítt, að um þetta atriði, uppbyggingu stóriðjunnar, eru sammála helstu talsmenn einkaframtaksins og helstu talsmenn Kaupfélags Eyfirðinga. Milli þessara aðila er ekki tortryggni hvað þetta snertir.

Ef litið er nokkur ár aftur í tímann, ef farið er 10–15 ár aftur í tímann eða lengra, ef rifjaðir eru upp þeir tímar þegar álverið reis í Straumsvík á árunum fyrir 1970 er þess að minnast að það voru mjög skiptar skoðanir milli ýmissa þeirra sem stóðu fyrir fyrirtækjum norður við Eyjafjörð um hvort stórrekstur á borð við álver mundi verka til örvunar þessum atvinnurekstri eða drepa fyrirtækin í samkeppninni um vinnuaflið. Menn óttuðust m. ö. o. að sá atvinnurekstur sem þar var fyrir gæti ekki keppt við stóriðjuna um vinnuaflið. Ástæðurnar fyrir þessu voru þær að það hefur komið í ljós í þeim stóriðjufyrirtækjum sem hér eru að þau greiða hærri laun en allar aðrar starfsgreinar í landinu, allur annar rekstur í landinu, nema þá sjávarútvegurinn, fiskveiðarnar, þegar best lætur. Auðvitað þýða þessar auknu atvinnutekjur, þessi bætti efnahagur fólksins meiri hraða í viðskiptum, meiri veltu, meiri peninga og kemur þannig beint smáfyrirtækjunum til góða, hvort sem þessi smáfyrirtæki eru á sviði verslunar, almennrar þjónustu eða í iðnaði einhvers konar.

Það er sem sagt orðin hugarfarsbreyting. Menn sem standa fyrir atvinnurekstrinum norður þar eru ekki lengur smeykir um að stóriðjuver mundi draga vinnuaflið frá þessum rekstri eins og áður og líta miklu fremur til hins, að slíkur rekstur muni styðja undirstöðu byggðarinnar. Þetta vil ég að fram komi. Ég tel nauðsynlegt að undirstrika þau sjónarmið að auðvitað kemur ekki til greina fyrir vítt sjáandi mann, sem hefur víðan sjóndeildarhring, að útiloka af sérvisku einhvern atvinnurekstur, taka einn atvinnurekstur fram yfir annan af sérvisku, heldur eigum við á hverjum tíma að reyna að haga okkar málum svo að við nýtum hver þau atvinnutækifæri sem við höfum, sem við höldum hverju sinni að skili þjóðarbúinu mestum arði. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að fram komi.