13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6446 í B-deild Alþingistíðinda. (5838)

222. mál, stofnun og rekstur smáfyrirtækja

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það mátti skilja af orðum hv. 2. þm. Norðurt. e. að tíma þingsins væri ekki of vel varið til þeirrar umr. sem hér fer fram í dag. Hér höfum við tekið til meðferðar mál sem hafa komið úr nefndum. Fyrir þingið hafa verið lagðar milli 130 og 140 þáltill. Það hafa komið úr nefndum um 20 þáltill. Flestar þessar till. eru bornar fram af þm. í stjórnarandstöðunni.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. talar um mikið annríki hér og það er hverju orði sannara. Það er fyrst og fremst vegna stjfrv. En forseti þingsins telur að það verði að gera það sem hægt er til þess að fullnaðarafgreiðslu fái þau mál úr þingnefndum sem fram hafa komið og það eru örfá mál. Þess var vænst að við gætum jafnvel lokið þessum málum í dag með þeim hætti að hafa fundinn stuttan, en það hefur verið gert ráð fyrir að þessum fundi lyki ekki síðar en kl. 4. En það fer allt eftir því hvað mönnum sýnist um það að tala mikið í slíkum umr. sem þessum. Ef menn tala mjög mikið getur brugðið til beggja vona um það að við getum á þessu þingi afgreitt allar till. sem hafa komið úr nefndum nema þingið haldi áfram fram yfir Jónsmessu. Þetta vil ég að gefnu tilefni að hér komi fram.