13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6446 í B-deild Alþingistíðinda. (5841)

222. mál, stofnun og rekstur smáfyrirtækja

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað að kveðja mér hljóðs í sambandi við þessa till., en svo er hægt að tala hér að menn neyðist til að biðja um orðið til að vekja athygli á þeirri sérvisku sem sumir hv. þm. er haldnir.

Það var áðan talað um oftrú á stóriðju. Hvað hefur komið fram, t. d. hjá síðasta ræðumanni, andað en oftrú á stóriðju? Var það eitthvað annað sem hann talaði um í sambandi við atvinnumál en stóriðju? Ég skil þá ekki orðið mælt mál ef þetta er ekki oftrú.

Átta menn sig ekki á því að ein af auðlegðum þessa lands er hreint land og hreint loft, hreint vatn? Það er m. a. s. orðið útflutningur. Það eru gjaldeyristekjur af þessu. Ég held að menn ættu að hugleiða hvað þeir eru að fjalla um.

Svo eru menn að tala um að hér séu ekki stórfyrirtæki. Halda menn að hér séu kannske stórfyrirtæki eins og hjá tugmilljónaþjóðum? Þegar þeir tala er eins og þeir geri ráð fyrir því. Þeir eru líklega búnir að vera það mikið erlendis að þeim finnst að hér hljóti að verða að stofna fyrirtæki eins og eru hjá milljónaþjóðum. Svona eiga menn ekki að tala og ekki að hugsa.

Og menn þurfa að athuga vel og vandlega að gera ekkert það sem spillt getur lofti eða vatni eða landi og hugleiða það fremur en allt annað. Eru menn hættir að fylgjast með því hvað er að gerast í Evrópu? Vita menn ekki að í fyrra var sagt að þriðjungurinn af skógunum væri að deyja vegna mengunar? Í ár er sagt að helmingurinn sé að deyja.

Vitið þið hvað ferðamennirnir eru að sækja til Íslands? Haldið þið að þeir séu að koma til þess að skoða stórrekstur? Þeir koma hingað til þess að sjá heiðskíran himin, til þess að sjá ósnortna náttúru, til þess að njóta þess að vera í ómenguðu landi. Við höfum mikil tækifæri einmitt vegna þess að við höfum haldið þannig á málum fram að þessu að við höfum ekki spillt náttúrunni, ekki mengað landið nema lítillega. Menn ættu að hugsa um það. Okkar möguleikar eru í því að framleiða matvöru vegna þess að hér er ómengað land enn þá og ég vona að hamingjan komi í veg fyrir að þar verði breyting á.