13.06.1985
Efri deild: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6449 í B-deild Alþingistíðinda. (5847)

5. mál, útvarpslög

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt hefur algert frelsi varðandi auglýsingar verið mjög viðkvæmur þáttur í öllu þessu máli, þ. e. varðandi frv. til útvarpslaga. Ég ætla ekki að fara að vitna mjög til umr. í þessu efni, en vil leyfa mér að vitna til þeirra nál. sem fram komu fyrir 2. umr. þessa máls í hv. Ed.

Það er þá fyrst til að taka að í nál. hv. þm. Eiðs Guðnasonar stendur, með leyfi forseta:

„Af hálfu Alþfl, voru í Nd. fluttar fjölmargar brtt. við útvarpslagafrv. M. a. voru fluttar tillögur um að svonefnd boðveitukerfi ættu að vera í eigu sveitarfélaga og vera það sem á ensku hefur verið nefnt „common carrier“, þ. e. að vera öllum opin sem uppfylla ákveðin skilyrði. Allar tillögur um þetta efni voru felldar. Því var lýst yfir af hálfu Alþfl, að þm. hans styddu auglýsingafrelsi í nýjum útvarpsstöðvum að því tilskildu að sett yrðu ákvæði um boðveitur í eigu sveitarfélaga. Ef ekki yrði fallist á ákvæðin um boðveitur yrði afstaðan til auglýsingafrelsis endurskoðuð. Nú verður enn látið á þetta reyna í Ed. og yfirlýsingin um afstöðu til auglýsingafrelsis, verði ekki fallist á ákvæði um boðveitur í eigu sveitarfélaga, stendur óhögguð.“

Enn fremur vil ég leyfa mér að vitna til nál. hv. þm. Ragnars Arnalds. Þar stendur, með leyfi forseta, og er

það 3. liður í nál.:

„Útvarpsstöðvar án auglýsinga.

Þingflokkur Alþb. bendir á að ráðstöfun útvarps-réttar er í höndum almannavaldsins og hlýtur að verða það áfram. Svigrúm til almennrar útvarpsstarfsemi er í raun takmarkað og því hlýtur Alþingi að sníða henni stakk með nýjum útvarpslögum. Vegna þessara takmarkana telur Alþb. með öllu óeðlilegt að útvarpsstarfsemin sé gerð að markaðsvöru í gróðaskyni. Því leggst flokkurinn ákveðið gegn því áð handhöfum útvarpsheimilda verði leyft að selja þriðja aðila aðgang að senditíma með hvers kyns viðskiptaauglýsingum eða annarri verslun með dagskrártíma í svæðisbundnum útvarpsstöðvum. Sýnt hefur verið fram á með skýrum rökum hvernig unnt er að fjármagna rekstur útvarpsstöðva án auglýsingatekna. Fjölmörg dæmi eru um það erlendis að útvarpsstöðvar séu reknar án auglýsinga. T. d. eru auglýsingar ekki heimilaðar í útvarpi í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.“

Í nál. 1. minni hl. menntmn. þessarar hv. deildar, sem undirritað er af hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, sem situr raunar ekki lengur á þingi, aðalmaður er kominn inn, hefur tekið sitt sæti, stendur, með leyfi forseta:

„Með því að heimila þeim aðilum, sem leyfi fá til útvarps, að afla tekna með auglýsingum er hætt við að einn af megintekjustofnum Ríkisútvarpsins skerðist verulega, sem væntanlega hefur þá í för með sér minni þjónustu.“

Enn fremur stendur í nál. hv. þm.:

„Kvennalistinn er mótfallinn þeirri meginhugsun sem felst í frv. um ný útvarpslög og óttast að óbreytt grafi þau undan Ríkisútvarpinu og verði til þess að fjársterkir aðilar fari með sigur af hólmi í frumskógi samkeppninnar sem eflaust mun fylgja í kjölfarið.“

Ég vil leyfa mér að vitna til Bandalags jafnaðarmanna og brtt. sem fluttar voru af þeirra hálfu við 2. umr. Það komu fram brtt. við 3. gr. frv. svo og margar aðrar greinar þess eins og kunnugt er. Að vísu má segja að stefna Bandalags jafnaðarmanna sé öndverð við aðra í þessum málum. Hins vegar er vikið að stjórnmálaumr. í þeirra brtt. Þar er að vísu gert ráð fyrir því að menntmrh. setji reglur um jafnan tíma er gilda skuli við stjórnmálaumræðu. Ég segi fyrir mitt leyti að ég undrast nokkuð þá stefnu Bandalags jafnaðarmanna að auka, að mínum dómi, miðstýringu í þessum málum. Eftir því sem ég hef hlerað orðræðu þm. Bandalags jafnaðarmanna vilja þeir fremur draga úr en auka miðstýringu yfirleitt, auka fremur ábyrgð fjöldans en treysta fámennisvald.

Í nál. 3. minni hl. menntmn., sem er undirritað af hv. þm. Haraldi Ólafssyni, Eyjólfi K. Jónssyni og Árna Johnsen, er vikið að þessum málum almennt. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þeir, sem að þessu nál. standa, eru sammála um að ný útvarpslög eigi að stuðla að eflingu Ríkisútvarpsins, enda eru því lagðar ýmsar nýjar skyldur á herðar í hinu nýja frv., ef að lögum verður. Þeir eru þó ekki sammála um hve víðtækan rétt útvarpsstöðvar skuli hafa til að flytja auglýsingar. Haraldur Ólafsson flytur brtt. um þann lið og er auk þess óbundinn að fylgja brtt. er fram kunna að koma.“

Í niðurlagi nál. stendur, með leyfi forseta:

„Ætla verður að fyrirhuguð útvarpsréttarnefnd fái víðtækt umboð skv. reglugerð til þess að fylgjast með framkvæmd frv., ef að lögum verður, og leggi fram innan þriggja ára hugmyndir að nýjum útvarpslögum þar sem tekið verður tillit til fenginnar reynslu af rýmkaðri útvarpsstarfserni.“

Í framhaldi af þessu hlýt ég að minna á brtt. hv. þm. Haralds Ólafssonar og þá að sjálfsögðu 2. mgr. 4. gr. eins og hann lagði til að hún hljóðaði, þ. e.:

„Sé útsendingum þannig háttað að einungis notendur með sérstakan útbúnað ná þeim er slíkum útvarpsstöðvum óheimilt að birta auglýsingar í dagskrá.“

Þessi till., eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, fékkst ekki samþykkt.

Eins og margoft hefur komið fram er vald útvarpsréttarnefndar allvíðtækt nú þegar í þessu frv. Ég vil leyfa mér að kynna hér brtt. sem víkur að því sem þegar hefur komið fram í minni ræðu. Brtt. hljóðar um það að við 3. gr. frv. bætist nýr liður sem yrði 9. liður og hljóðar svo:

„Útvarpsréttarnefnd er heimilt að ákveða hlutfall auglýsinga í dagskrá.

Hún skal ganga frá samningum við Póst- og símamálastofnun eða sveitarfélög um boðveitukerfi, sem kunna að verða sett upp, er tryggi að þau séu öllum opin að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Útvarpsréttarnefnd setur reglur um jafnan tíma er gilda skuli við stjórnmálaumræðu og pólitíska kynningarstarfsemi.“

Að mínum dómi skýrir þessi brtt. sig sjálf, ekki síst að teknu tilliti til þess hversu hv. þm. eru vel inni í því máli sem hér er til umfjöllunar.

Um samstöðuna í þinginu um þetta mál ætla ég ekki að fara mörgum orðum. Afgreiðsla hv. Ed. og umræðurnar við 2. umr. eru öllum í fersku minni. Vegna umfjöllunarinnar um málið í Nd. væri ekki úr vegi að vitna til nál. hv. þm. Eiðs Guðnasonar þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi er rétt að benda á að málið var afgreitt frá Nd. með þeim hætti að það hafði ekki meirihlutafylgi í deildinni. Aðeins 16 af 40 þm., sem sæti eiga í Nd., treystu sér til að greiða atkv. með frv. Tólf greiddu atkv. gegn því. Ellefu sátu hjá. Einn var fjarstaddur. Þessar staðreyndir lýsa því auðvitað í fyrsta lagi hversu mikið ágreiningsmál hér er um að ræða og í öðru lagi hve miklar efasemdir menn hafa um ágæti frv. eins og það nú liggur fyrir.“

Herra forseti. Samþykkt brtt. sem ég hef nú gert grein fyrir, enda þótt hún taki aðeins að hluta á þeim deiluefnum sem uppi eru varðandi þetta frv., gæti að mínum dómi fært okkur nær þjóðarsátt í þessu mikilvæga máli.