13.06.1985
Efri deild: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6461 í B-deild Alþingistíðinda. (5855)

5. mál, útvarpslög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hugsa að vinnubrögðin í kringum allt þetta mál verði lengi í minnum höfð. Í fyrsta lagi tel ég að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í nefnd í Nd. muni verða í minnum höfð um það hvernig eigi ekki að starfa að málum eða hvernig eigi að starfa að málum til að skapa sem mestan glundroða í kringum þau. Nú er nærfellt víst að þetta mál verður afgreitt frá Alþingi, það horfir a. m. k. í það, með minni hl. atkv. þannig að þessi útvarpslög, sem á að fara að samþykkja, njóti ekki stuðnings meiri hl. þingsins. Mér sýnist allt stefna í það. Það er afar óheppilegt og það er afar slæmt. Ég er fylgjandi því frelsi sem þessi lög gera ráð fyrir að verði aukið frá því sem var þegar ríkisútvarp og sjónvarp hafði eitt rétt til að útvarpa og sjónvarpa. Ég er fylgjandi því að þannig skuli að því staðið. En þessi lög, sem nú er verið að samþykkja, eru þannig úr garði gerð, ég hef áður bent á það hér, að mörg ákvæði þeirra eða sum fá ekki staðist. Gildistökuákvæðin eru út í hött og rugl. Þess vegna er ekki hægt að segja já. Samviska manns segir að ef Alþingi lætur lög þessi fara frá sér með þeim hætti sem nú gerist sé það því til ævarandi háðungar. Þess vegna, herra forseti, ekki vegna þess að ég sé á móti því frelsi, síður en svo, sem lögin gera ráð fyrir, heldur vegna þess hvernig þessi lög eru tæknilega úr garði gerð, þá segi ég nei.