13.06.1985
Neðri deild: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6471 í B-deild Alþingistíðinda. (5873)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. félmn. um frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Nefndin hefur orðið sammála um afgreiðslu málsins. Hún flytur reyndar brtt. ásamt tveimur þm. sem ekki eiga sæti í n. Þessar brtt. eru á þskj. 1160.

Mál þetta var lagt fram snemma í haust á þinginu og var reyndar lagt fram á síðasta þingi jafnframt. Þess skal getið að fundina um þetta mál sátu auk nm. hv. þm. Svavar Gestsson, 3. þm. Reykv., sem sat fundina í stað Guðmundar J. Guðmundssonar, og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, en hún er flm.brtt. á þskj. 1160 ásamt hv. þm. Kristínu Kvaran og öllum nm. í félmn.

Nefndin kallaði til sín tvo aðila, fulltrúa jafnréttisráðs, Guðríði Þorsteinsdóttur, og formann Kvenréttindafélags Íslands, Esther Guðmundsdóttur, og jafnframt var farið ítarlega í frv. og auk þess frv. sem nokkrir hv. þm. hafa flutt um sama efni. Það frv. er orðrétt eins og nefnd skilaði því til félmrn. á sínum tíma, en sú nefnd starfaði allt frá því að hún var skipuð af þáv. félmrh., hv. þm. Svavari Gestssyni, undir forustu Vilborgar Harðardóttur.

Mér finnst, herra forseti, ástæða til að geta þess að í nefndinni komu fram ótal tillögur til breytinga á frv., en að lokum reyndist mögulegt að sætta nm. og reyndar fulltrúa allra þingflokka á að standa eingöngu að þeim brtt. sem lýst er á þskj. sem ég áður nefndi.

Í fyrsta lagi er tekin inn í 3. gr. nánast ný mgr. eða það bætist við fyrri mgr. að sérstakar tímabundnar aðgerðir, sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, gangi ekki gegn lögunum eins og þau verða ef þetta frv. nær fram að ganga. Í þessu felst auðvitað veigamikil breyting og frá því er skýrt í nál. í hverju hún er fólgin. Það þýðir að verði brtt. samþykkt er viðurkennt í lagatexta að slíkar aðgerðir, sem grundvallast á sérstökum ákvörðunum, séu ekki brot á lögunum, en sumir lögfræðingar hafa haldið því fram að reyndar sé slíkt mögulegt skv. gildandi lögum.

Það skal tekið fram sérstaklega að sumir þeir sem standa að þessari brtt. eru gegn þeirri stefnu að beita slíkum aðgerðum, en telja þó að ástæða sé til að hafa slíkt ákvæði í lögunum ef upp skyldu koma atvik sem leiddu til þess að heppilegt gæti talist að beita ákvæði á borð við þetta. Má segja að hugmynd þessara flm. sé svipuð og kom fram í máli hæstv. utanrrh. þegar rætt var hér á hv. Alþingi um alþjóðasamning um afnám mismununar gagnvart konum en fyrr í dag samþykkti Sþ. einmitt heimild fyrir ríkisstj. að fullgilda þann samning sem gerður var á vegum Sameinuðu þjóðanna 18. des. 1979.

Það skal tekið fram að ákvæði á borð við þetta eru nú í lögum annars staðar á Norðurlöndum, þar sem sérstök löggjöf hefur verið sett um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, eða í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Þá er 2. brtt. á þskj. 1160 og hún rýmkar málshöfðunarrétt jafnréttisráðs. Skv. brtt. fær jafnréttisráð heimild til málshöfðunar í samráði við aðila, en í frv. segir að ráðið þurfi umboð aðilans til þess að geta höfðað mál ef viðkomandi aðili telur sig hafa verið órétti beittan. Þetta orðalag þýðir að jafnréttisráð getur haft samband við viðkomandi aðila, en verður að virða neitun hans.

Ákvæði eins og þetta eru í lögum annars staðar á Norðurlöndum og þar er reyndar skýrt tekið fram að það verði að viðurkenna neitun viðkomandi aðila þannig að jafnréttisráð hefur ekki fullt frjálsræði til að taka þau mál til meðhöndlunar á þennan hátt eins og því sýnist og verður að virða forræði sakar þess sem telur sig hafa verið órétti beittan.

3. brtt. er hins vegar um framkvæmdaáætlun. Það er lagt til að jafnréttisráð geri tillögu í þessum málaflokki. Síðan er ætlunin að félmrh. leggi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn fyrir ríkisstj. Þessi áætlun verði send jafnréttisnefndum sveitarfélaga þar sem þær starfa og síðan lögð fram á Alþingi til umr., en þess á milli eða annað hvert ár fái Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála. Hér er um að ræða nýmæli og breyting frá gildandi lögum, breyting sem við teljum að hafi verulega þýðingu því það er öllum ljóst að einmitt í þessu máli á það sérstaklega við að umr. á hinu háa Alþingi og reyndar í þjóðfélaginu öllu hljóta að vera best til þess fallnar að ýta á að fullt jafnrétti verði milli karla og kvenna og að mismunun hverfi sem öllum er ljóst að er í raun þótt lög segi annað.

Ég vil enn fremur, herra forseti, taka það fram þótt ekki sé getið um það sérstaklega í frv. að það nái ekki til einkalífs telja nm. að það liggi í hlutarins eðli. Slíkt orðalag er reyndar í norsku lögunum, en ástæðulaust þótti að setja ákvæði í þessi lög jafnfráleitt og það er að lögin gildi um einkalíf fólks, enda er það lögverndað af stjórnarskrá.

Það er von nm. að sú samstaða sem hefur náðst í þessum mikilvægu málum geti verið gott fordæmi. Hér er um það að ræða að þm. úr öllum flokkum standa að frv. á því ári sem kvennaáratug Sameinuðu þjóðanna lýkur. Við teljum að slíkt sé mikilvægt og sýni að á hinu háa Alþingi ríki skilningur á því að gera þurfi enn átak til þess að mismunun hverfi á rétti karla og kvenna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að rekja í löngu máli þær brtt., sem komu fram í nefndinni, sem voru allmargar og sjást kannske best á þeim mun sem er á frumvörpunum sem voru til umræðu í nefndinni, þ. e. frv. á þskj. 48 og þmfrv. á þskj. 109. Það er verulegur munur í vissum atriðum, en í öðrum einungis sá að í grg. stjfrv. er tekinn texti sem er í þmfrv., en þmfrv. byggir á niðurstöðu nefndarinnar sem vann að samningu þessa máls og ég gat um áður.

Ég vil taka fram sérstaklega að í nefndinni gerði ég tilraun til þess að fá samþykkt ákvæði um að jafnréttisráð væri kosið af Alþingi. Það yrði skipað sjö mönnum, sex kjörnum af Alþingi, en einum skipuðum skv. tilnefningu Hæstaréttar. Þessi till., ásamt ýmsum fleirum sem fram komu í nefndinni, fékk ekki nægan stuðning, en ég kýs að nefna hana hér því að hún hefur ekki komið fram opinberlega áður.

Ég vil svo að lokum þakka meðnm. mínum og þeim flm. utan nefndarinnar sem standa að brtt. á þskj. 1160 og vænti þess að með þessu, ef samþykkt verður, séum við að leggja okkar lóð á vogarskálina til þess að misrétti í þeim efnum, sem frv. tekur til, verði eytt sem allra fyrst.