13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6481 í B-deild Alþingistíðinda. (5893)

456. mál, Byggðastofnun

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að mönnum gefist á nýjan leik kostur á að greiða atkv. um hvort Byggðastofnun skuli hafa aðsetur í höfuðborginni eða utan Reykjavíkur. Ég lýsti yfir stuðningi við 2. umr. við till. um að stofnunin yrði staðsett á Akureyri, en að sjálfsögðu er að þeirri till. felldri ekki nema gott um það að segja að á það fái að reyna á nýjan leik hvort meiri hl. hv. þm. Nd. kýs að halda fast við að stofnunin skuli vera í Reykjavík og hvergi annars staðar, þó Byggðastofnun sé, eða ganga þannig frá málum að henni sé ætlað að starfa í einhverju þeirra byggðarlaga sem hún á að þjóna.

En það eru ýmis önnur mál sem ég vildi minnast á í þessari umr. um lagasetningu um Byggðastofnun. Ég verð að leggja á það ærið þunga áherslu að miðað við það alvarlega ástand sem uppi er í flestum byggðarlögum vítt og breitt um landið utan höfuðborgarsvæðisins hvað varðar atvinnumál, afkomu ekki aðeins fólksins sem vinnur fyrir sínum launum dag hvern, heldur einnig fyrirtækjanna flestra hverra, þá er það ákaflega rýr niðurstaða af hálfu ríkisstj. að ætla sér að ganga frá málum með því einu að hnika starfsemi Byggðasjóðs, sem verið hefur, yfir í það form sem gert er ráð fyrir með Byggðastofnun. Sú breyting er veigalítil og því miður er ekki að finna í þessu frv. neitt það sem getur talist líklegt til að snúa við þeirri óheillavænlegu þróun í byggðamálum sem hér hefur átt sér stað á undanförnum árum og þá alveg sérstaklega síðustu tvö ár sem núv. ríkisstj. hefur setið að völdum. Þetta væri sök sér ef jafnhliða væru á ferðinni önnur mál, önnur frv. af hálfu ríkisstj. sem þarna kynnu að marka dýpri og heillavænlegri spor, en því miður er því ekki að heilsa.

Ég hygg að flestum hv. þm. séu ofarlega í huga þeir miklu fjármagnsflutningar og fólksflutningar frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sem átt hafa sér stað þessi síðustu ár. Ég er sannfærður um það að þar er um að ræða áhyggjuefni ekki aðeins hjá þm. stjórnarandstöðunnar, heldur einnig margra þm. stjórnarflokkanna. Það efast ég ekki um og ég efast ekki heldur um að það fyrirfinnist einhver vilji til þess að leitast við að snúa þessari óheillaþróun við, en því miður virðist sá vilji ekki ná að koma á marktækan hátt fram í verki.

Ég held að þó við leitum aftur í tímann að dæmum sem kynnu að vera sambærileg varðandi fólksflutninga og fjármagnsflutninga milli landshluta séu þau ekki finnanleg þótt farið sé allmarga áratugi aftur í tímann. Hér hefur við 2. umr., sem ég átti kost á að taka þátt í, verið rætt um brottflutning fólks á síðasta ári frá kjördæmum úti um landið og hingað á höfuðborgarsvæðið sem var meiri en nokkurt ár í 25 síðustu ár. Það eitt segir mikla sögu. Samt hygg ég að fjármagnsflutningarnir séu jafnvel enn þá meira lýsandi um það sem þarna er að gerast. Við þekkjum það öll, sem sæti eigum í þessari virðulegu þingdeild nú, að undirstaða atvinnulífsins í byggðarlögum flestum hverjum, þéttbýlisstöðunum hringinn í kringum landið er sjávarútvegurinn. Og það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum hv. þm. hvað þar hefur verið að gerast, þar sem þau fyrirtæki sem stóðu illa fyrir hafa mörg hver komist á heljarþröm með nauðungaruppboð yfirvofandi þar sem verst er ástatt og fleiri eru á sömu braut. Og þeir sem einhvern vilja hafa haft til að kynna sér þetta alvarlega ástand hafa ekki heldur komist hjá því að sjá og heyra og fá upplýst hver þróunin hefur verið hjá þeim fyrirtækjum í sjávarútvegi sem stóðu sum hver tiltölulega vel fyrir fáum árum, höfðu góða eiginfjárstöðu, en þar sem eignir hafa verið að étast upp í stórum stíl þessi síðustu ár og verða að engu. Ég ætla ekki að fara út í neina ítarlega upplýsingamiðlun í þeim efnum í þessari ræðu þó að það væri vissulega hægt, en minnast hér svolítið nánar á aðrar hliðar þessa máls, byggðaþróunarinnar, til að draga fram hvernig þau verkefni horfa við sem væntanlegri Byggðastofnun hlýtur við hlið annarra stjórnarstofnana að verða ætlað að sinna. Ég aflaði í dag upplýsinga um það frá Húsnæðisstofnun ríkisins hvað byrjað hafi verið á mörgum nýjum íbúðum í kjördæmunum sex utan Reykjavíkur og Reykjaness á árunum 1983 og 1984. Ég hygg að það geti verið fróðlegt fyrir alþm. sem eru í þann veginn að ganga frá lagasetningu um Byggðastofnun að fá að heyra hvernig þau mál standa.

Upplýsingar Húsnæðisstofnunar eru þær, að á árinu 1983 var í kjördæmunum sex utan Reykjavíkur og Reykjaness byrjað á 416 nýjum íbúðum. Á árinu 1984 var þessi tala komin niður í 387 íbúðir. Einar sér segja þessar tölur kannske ekki mjög mikið, en þegar við höfum samanburðinn, og í þeim efnum er ég hér einnig með tölur frá Húsnæðisstofnun ríkisins, þá segja þær mikið. Og hver skyldi sá samanburður vera? Ef við tökum til samanburðar næstu fimm ár á undan, þ. e. árin 1978–1982, var til jafnaðar á ári byrjað á 804 nýjum íbúðum í þessum sex kjördæmum eða helmingi fleiri en verið hefur að jafnaði síðustu tvö ár. Það hefur orðið helmings samdráttur í þessum efnum. Þessar tölur mættu menn gjarnan hafa í huga og horfa á. Og það væri hægt að fara lengra aftur í tímann ef menn héldu að þarna hefði verið hvað íbúðarbyggingar varðar alveg sérstakt blómaskeið 1978–1982, en séu tekin næstu fimm ár á undan er talan reyndar hærri, þá er hún um það bil 1000, liðlega 1000 íbúðir sem byrjað var á að jafnaði í kjördæmunum sex. Þróunin er sem sagt sú að frá því að hafa áður verið 1000 íbúðir á ári á síðasta áratug fer talan niður í 801 á árunum 1978–1982. Það var kannske ekki svo stóralvarlegt, en síðan heldur hún áfram að falla og það er ekkert lítið heldur um fullan helming. Það er hin dauða hönd ríkisstjórnarstefnunnar, frjálshyggjunnar sem er undirstaða ríkisstjórnarstefnunnar, sem þarna veldur mestu um og er að sjálfsögðu ekki annað en eitt merkið um það hrun sem yfir landsbyggðinni vofir ef svo heldur áfram sem verið hefur. Þessari landeyðingarstefnu þarf að snúa við.

Það er annar samanburður sem vert er að líta á einnig varðandi þennan þátt áður en lengra er haldið. Skyldi hafa átt sér stað samdráttur í íbúðarbyggingum hér á höfuðborgarsvæðinu með eitthvað svipuðum hætti og úti á landsbyggðinni? Við vitum öll, sem sæti eigum hér í þessari virðulegu stofnun, að mikill fjöldi fólks á höfuðborgarsvæðinu hefur svo sannarlega átt í miklum erfiðleikum vegna húsnæðismála, vegna bygginga eða kaupa sem ráðist hefur verið í til að leysa þessar frumþarfir. En það er líka mikill fjöldi fólks á höfuðborgarsvæðinu sem þessir erfiðleikar hafa ekki snert, sem hefur fullar hendur fjár og meira en það og sem byggir stærra húsnæði en nokkru sinni fyrr. Tölurnar líta þannig út að á sama tíma og íbúðarbyggingar hrynja niður úti um landið er byrjað á fleiri íbúðum í Reykjavík á síðasta ári en verið hefur um mjög mörg undanfarin ár, 807 íbúðum, en það er hæsta talan frá 1978. Allt eru þetta upplýsingar frá Húsnæðisstofnun.

Þá er ekki óeðlilegt að einhver spyrji: Fyrst svona miklum fjármunum er varið til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði í einum hluta landsins, en svona litlu í öðrum hluta landsins, skyldi þá ekki það fólk sem litlum fjármunum hefur varið til íbúðarbygginga hafa lagt þeim mun meiri peninga inn á verðtryggða reikninga í bönkunum og verið að tryggja sig með þeim hætti? Ef allt hefði verið eðlilegt um ástand í byggðamálum og kjaramálum milli þessara tveggja hluta landsins, höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar, þá hefði slíkt vissulega getað verið hugsanlegt. Ég sá ástæðu til þess, eftir að hafa hlýtt á 2. umr. um Byggðastofnun, að kanna þetta mál svolítið líka. Og það eru satt að segja ekki fatlegar niðurstöður sem þar koma í ljós fyrir þá sem hafa borið ábyrgð á stjórn landsins síðustu tvö ár og telja sig hafa verið að vinna í þágu landsbyggðarinnar. Þeir eru vissulega til í stjórnarliðinu sem hafa þann vilja, en getan hefur ekki verið meiri en þetta vegna þess að aðrir hafa ráðið stjórnarstefnunni í raun.

Eins og við öll þekkjum var á dögum síðustu hæstv. ríkisstj. undir forsæti Gunnars Thoroddsens ýmsu breytt varðandi bankamál, vaxtamál og slíka hluti, og það var m. a. opnað fyrir það að menn gætu lagt inn peninga á verðtryggða reikninga í bönkum sem áður höfðu lengi brunnið upp í verðbólgu á óverðtryggðum reikningum þannig að hver sá sem hylltist til að leggja inn peninga í banka gat eins kveikt í peningunum áður eða a. m. k. verulegum hluta af þeim. Þessi breyting, sem gerð var í tíð síðustu ríkisstj., hlaut að leiða til þess að raunvirði innstæðna hjá bönkum og sparisjóðum færi vaxandi. Það gat ekki öðruvísi verið. Þessi þróun var nokkuð hæg lengi, en þarna er að sjálfsögðu nú orðið um umtalsverðan mun að ræða frá því sem áður var.

Núv. ríkisstj. hefur stundum við hátíðleg tækifæri og hæstv. ráðh. hælt sér af því að þarna væri þó töluverður ávinningur, að við værum nú að koma upp meira sparifé í landinu og þyrftum þá kannske einhvern tíma að taka minna af erlendum lánum fyrir bragðið. Og gott væri að sú þróun héldi áfram vissulega. En hvar skyldu nú þessar auknu innstæður koma fram? Skyldi það vera hjá fólkinu úti um landsbyggðina, þessu fólki sem ekki hefur varið fjármunum í húsbyggingar, eða skyldi það vera fyrst og fremst hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem líka er verið að byggja svona mikið? Mál standa þannig skv. upplýsingum sem ég hef aflað frá bankaeftirliti Seðlabankans og hef undir höndum að raunvirði innstæðna í bönkum og sparisjóðum yfir landið í heild hefur á árunum 1983 og 1984 hækkað um 3.8 milljarða kr. Þetta eru miklir peningar og ef þessi tala ein segði alla söguna væri full ástæða til að fagna yfir þessum árangri.

Þegar ég nefni þessa tölu er ég ekki að telja með þá krónutölufjölgun sem þurfti að verða á hverjum einstökum reikningi til þess að hann héldi gildi sínu, til þess að hann héldi sama raunvirði. Það hef ég tekið þarna út úr sem sjálfsagt er. En þegar þær hafa verið teknar frá, verðbólgukrónurnar sem fóru bara til að tryggja að ekki lækkaði raungildið á hverjum reikningi, standa eftir hjá bankakerfinu í heild, bönkum og sparisjóðum, 3.8 milljarðar kr. í aukningu á tveimur árum, 1983 og 1984.

Og þá er það næst spurningin: Hvernig ætli skiptingin hafi verið á þessum 3.8 milljörðum? Svo að við höfum þetta alveg nákvæmt er rétt að taka fram að sú tvískipting, sem ég hef á blaði fyrir framan mig frá bankaeftirliti Seðlabankans, er á þann veg að byggðirnar sunnan Hafnarfjarðar í Reykjaneskjördæmi, þ. e. Suðurnesin, eru taldar með landsbyggðinni, en höfuðborgarsvæðið, Reykjavík til Hafnarfjarðar og upp í Mosfellssveit, er talið sér. Þannig er þessi tvískipting. Þá skulum við fyrst hafa í huga að á öðru svæðinu, þ. e. höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík og þessum hluta Reykjaneskjördæmis upp í Mosfellssveit og suður í Hafnarfjörð, munu búa um 54% landsmanna, 53.4 var það 1. des. 1983 og er sjálfsagt komið yfir 54% núna, en á Suðurnesjum og í kjördæmunum sex utan Reykjavíkur og Reykjaness búa aftur á móti um 46% landsmanna. Þá skulum við skoða fyrst hvernig innstæður í bönkum og sparisjóðum í ársbyrjun 1983 skiptust milli þessara tveggja svæða. Skiptingin var á þann veg að höfuðborgarsvæðið, sem hafði þá um 54% íbúanna, var með 61.9% af bankainnstæðunum, en landsbyggðin, sem hafði 46.5% íbúanna, var með 38.1% af innstæðunum. Ég hygg að enginn sé hissa á þessum tölum, þær hafi ekki verið neitt fjarri því sem menn gátu gert sér í hugarlund, að þetta væri nokkru hærra í Reykjavík á hvert nef. Það er reyndar oft sagt og að nokkru með réttu að hið svokallaða sparifé sé fyrst og fremst peningur hins almenna manns, sem einn af hæstv. ráðh. talar stundum um sem litla manninn, reyndar hæstv. fjmrh., en engu að síður er það svo að með tilliti til þess að hér á höfuðborgarsvæðinu er mikið fjármagn í umferð, þá er kannske ekki að undra þótt höfuðborgarsvæðið sé miðað við hvert nef eitthvað heldur hærra en landsbyggðin. Maður er ekki hissa á því þó að maður vildi gjarnan að það væri á hinn veginn. En svo koma þessir tæplega 4 milljarðar sem bættust við á árunum 1983 og 1984 í bankana, í sparisjóðina. Og hvernig halda menn nú að skiptingin þar hafi verið? Nú skal ég koma að því.

Hún var þannig, að í stað þess að höfuðborgarsvæðið hafði í upphafi þessa tímabils 61.9% af heildarinnstæðunum hækkaði súlan hjá höfuðborgarsvæðinu upp í 77.8% sé litið á skiptingu þeirra 3.8 milljarða er við bættust á síðustu tveim árum. Hinn parturinn af landinu, þeir hérna suður með sjó fyrir sunnan Hafnarfjörð og fólkið í öllum kjördæmunum sex út um allt land, fólkið sem ekki hefur treyst sér til að ráðstafa fjármunum í húsbyggingar upp á síðkastið, hefur ekki heldur séð sér fært að ráðstafa miklum fjármunum inn á þessa verðtryggðu sparnaðarreikninga vegna þess að það hefur ekki haft peningana til. Og í stað þess að þess hlutur í innlánum var við upphaf árs 1983 38.1% er hlutur þessara byggðarlaga aðeins 22.2% í heildaraukningu síðustu tveggja ára. Hvar halda menn að þetta endi ef þessi þróun heldur áfram? Ég held að allir hefðu gott af að skoða þetta, bæði á línuritum og súluritum, og það væri hægt að fá góða menn til að taka hæstv. ráðh. á námskeið svo að þeir áttuðu sig á því hvað þarna er í raun og veru að gerast. Og vitneskja um það mætti gjarnan hafa nokkur áhrif á löggjöf sem varðar Byggðastofnun, á löggjöf sem er ætlað að draga nokkuð í sambandi við byggðaþróunina í landinu. Hér á höfuðborgarsvæðinu varð sú þróun á þessum tveimur árum, 1983 og 1984, að raunvirði innstæðna í bönkum og sparisjóðum hækkaði um 22.3% sem þýðir í peningum nær 3 milljarða kr., 2950 millj. nákvæmlega til tekið. Ef aukningin hefði átt að vera sú sama hjá Suðurnesjamönnum, hjá Austfirðingum, Vestfirðingum, Norðlendingum og þeim á Vesturlandi og á Suðurlandi, þá hefði átt að koma inn í bankana og sparisjóðina þar líka 22.3% aukning sem hefði þýtt 1812 millj. kr. — og þá er ég alltaf að tala um það sem kom inn í þessar innlánsstofnanir umfram verðbólgukrónurnar sem gengu til þess að halda reikningunum við. Ég er að tala um raunaukningu. En það komu ekki 1812 millj. kr. Það komu aðeins 844 millj. Það er um það bil milljarður, um það bil 1000 millj. kr. sem þarna vantar, bara á þessum eina lið, bankainnstæðunum, rétt tæplega milljarður kr. Hvað skyldi vanta á öðrum liðum? Hvað skyldi vanta upp á að eignir fólks í íbúðarhúsnæði til dæmis að taka hafi haldið verðgildi sínu til jafns við hliðstæðar eignir á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma? Það væri gaman að reikna það dæmi út. Ég vona að einhver annar hv. þm. gæti orðið til þess, jafnvel fyrir þinglokin þótt dæmið sé máske dálítið flókið.

Ég sagði áðan, herra forseti, að það hefði vantað rétt tæpan milljarð upp á það að inn í innlánsstofnanir úti um landið kæmi hlutfallslega jafnhá upphæð og gerðist á höfuðborgarsvæðinu. Bara til að halda óbreyttum hlut vantaði tæpan milljarð. Það komu 844 millj., en það áttu að koma yfir 1800. Þetta þýðir það að hvert einasta gamalmenni í kjördæmunum sex út um landið eða hér suður með sjó, sem kannske kom með 1000 kr. á mánuði og lagði inn á sinn sparireikning, hefði þurft að koma með 2000 kr. í hvert einasta skipti og reyndar gott betur til að halda í við höfuðborgarsvæðið. Hver einasti einstaklingur á vinnualdri, sem eitthvað gat sparað við sig og lagt inn á verðtryggða reikninga og kom kannske með 20 þús. eftir árið skulum við segja, hefði þurft að koma með 40 þús., helmingi hærri upphæð og rúmlega það, til að halda í við höfuðborgarsvæðið í þessum efnum, hver einasti einn, alltaf helmingi hærra og gott betur. Mér finnst, með þessar staðreyndir allar í huga, að það sé allt of lítið um það að menn láti verða vart við það hér á hv. Alþingi, svo að ég tali nú ekki um úti í fjölmiðlunum og vítt og breitt út um þjóðfélagið, hvað þarna sé í raun og veru að gerast, hvaða landeyðingarstefna sé í gangi, hvaða kjarnavandamál sé uppi í íslenskum þjóðmálum sem er að ég hygg ekki ofsagt hjá hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni við 2. umr. þessa máls að sé stærra mál í íslenskum þjóðmálum en öll önnur ef okkar sjálfstæðismál séu undanskilin. Það sem ég vil undirstrika hér ekki síst er einmitt það hvernig mönnum tekst til í glímunni við þá óheillaþróun, sem ég hef varpað hér svolitlu ljósi á einn angann af. Hvernig til tekst í glímunni í þeim efnum er sennilega til lengri tíma litið stærra sjálfstæðismál en nokkurt annað sem til umfjöllunar hefur verið hér á hv. Alþingi í vetur.

Mér fannst ástæða til að hafa orð á þessu áður en frv. það um Byggðastofnun sem hér er til 3. umr. fengi sína lokaafgreiðslu, ekki vegna þess að ég eigi von á því að jafnvel með einhverjum hugsanlegum breytingum, sem enn væri hægt að gera á því frv., verði miklu breytt hvað þessi stóru mál varðar, þar þarf margt fleira að koma til, en ég er ekki síst að koma þessum upplýsingum á framfæri hér vegna þess að þrátt fyrir allt hef ég allgóða trú á því að mjög margir í hópi hv. stuðningsmanna núv. ríkisstj., og ég vil ekki undanskilja einstaka ráðh. í þeim efnum, vildu í rauninni gera betur hvað þetta varðar en verkin sýna. Og það er von mín, hvað sem kann að líða langlífi eða skammlífi núv. ríkisstj., að menn reyni, ég vil segja sameiginlega, hvaða stjórnmálaflokki sem menn hafa kosið að skipa sér í, á næstu vikum og mánuðum að kryfja þennan vanda til mergjar í fullri alvöru og svara spurningunni: Ætla menn eitthvað að gera eða ætla menn að láta þetta ganga svona til? Og ég vil segja það sem mína skoðun að ef það lögmál. sem sumir kalla frelsi fjármagnsins í landinu og telja æðra en frelsi á ýmsum öðrum sviðum, sumir hverjir, á eitt að ráða þarna, þá er ekki von á góðu. Og ég tala nú ekki um ef þetta frelsi fjármagnsins á að birtast á þann veg að allir þeir sem hafa eitthvað að falbjóða á sviði þjónustu eða viðskipta innanlands og eru þá að langstærstum hluta til á höfuðborgarsvæðinu eiga áfram að njóta þessa frelsis á svipaðan hátt og orðið hefur í vaxandi mæli nú hin síðustu ár, en hinir, sem sinna framleiðsluatvinnuvegunum í landinu og þá ekki síst ritflutningsframleiðslunni, hafa ekkert sambærilegt frelsi. Gagnvart þeim er þetta frelsistal ekkert annað en innantóm orð. Þeir geta ekki verðlagt sína vöru eins og sá sem stofnar vídeóleigu eða tekur okurlán til að byggja hús og selja hér á höfuðborgarsvæðinu. Þarna er reginmunur á. Og það er ekki spurningin um hvernig eigi að skipta afrakstrinum af undirstöðuframleiðslunni milli eigenda fyrirtækisins og fólksins sem við viðkomandi fyrirtæki vinnur. Einhvern tíma hefði það verið talin ærin deila, ærið deiluefni í einu miðlungsbyggðarlagi fyrir vestan, norðan eða austan. Slíkt er hégómamál eins og nú er komið, miðað við það hvernig verið er að þrengja að bæði launafólkinu og þeim sem hafa lagt sinn metnað í að reka þjóðhagslega nauðsynleg fyrirtæki í sjávarútvegi til að standa undir öllu mannlífi í þessu landi. Það er verið að setja þessa aðila sameiginlega upp að vegg og þrengja þeirra kosti vegna þess að fjármagninu er öllu beint hingað í þjónustugreinarnar, sumar lítt eða ekki nauðsynlegar, sem gefa þjóðarbúinu ekki nokkurn skapaðan hlut. Og ég held að þeir ágætu hv. þm. í Sjálfstfl., — ég segi Sjálfstfl. vegna þess að ég er alveg sannfærður um að það eru margir í þeim flokki sem þarna bera ekkert síður en ég þungar áhyggjur — svo ég ekki tali um í Framsfl. sem á nú allt sitt fylgi eins og það hefur verið í þessum byggðarlögum úti um landið, ættu að skoða hlutina svolítið út frá veruleikanum en láta ekki einhverja draumóramenn, sem hafa tekið frú á að allt sé hægt að leysa með því að gefa fjármagninu nóg frelsi, ráða þessu öllu. Fái postular fjármagnsfrelsisins einir að ráða stefnir í voða.

Ef stjórnvöld telja það ekki sitt verkefni að stýra fjármununum í landinu frá þeim greinum þar sem fyrst og fremst er verið að efla þjóðfélagslega ónauðsynlega eða lítt nauðsynlega þætti, efla eyðsluna og þjóðfélagslega sóun, og til þeirra atvinnugreina sem bera þjóðfélagið allt uppi, ef stjórnvöld telja þetta ekki sitt verkefni, þá eiga þau að fara frá því þetta gerist ekki af sjálfu sér. Þvert á móti er kerfi peningafrelsisins þannig að ef það fær að leika lausum hala og setja sinn svip á alla þróun í landinu, þá virkar það einfaldlega eins og skilvinda, það mokar rjómanum til þeirra sem hugsa um það eitt að ná bara í skjótfenginn gróða, en þeir sem eru að berjast við þann vanda að halda gangandi fyrirtækjum í sjávarútvegi, halda uppi landbúnaði og treysta byggðina fá ekki nokkurn skapaðan hlut nema eitthvert brot af undanrennunni og það lélega undanrennu. Þannig hefur þetta verið, herra forseti, síðustu tvö ár.

Ég held að ég láti þetta duga í bili. Mitt aðalerindi var að koma þeim upplýsingum um nýbyggingar og bankainnstæður, sem ég aflaði mér í gær og í dag, á framfæri við hv. Nd. ef það mætti verða til nokkurrar umhugsunar í þingstörfum þó ekki yrði fyrr en síðar.