13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6488 í B-deild Alþingistíðinda. (5895)

456. mál, Byggðastofnun

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við höfum enn einu sinni orðið vitni að því þegar sjálfkjörinn yfirforseti Nd., hæstv. iðnrh., setur ofan í við okkur hina og þar með talið virðulegan forseta fyrir að kunna ekki með það að fara hvaða mál eru þingleg og hver ekki. Ég er á því að þessi till. sé fullkomlega þingleg. Það er verulegur merkingarmunur á þessari till. og þeirri brtt. sem felld var við 2. umr. En auðvitað er gott að hafa slíkan sjálfkjörinn forseta til aðstoðar í þd. og greiðir það sjálfsagt fyrir þingstörfum þegar menn af fúsum og frjálsum vilja og miklum áhuga leggja sitt óbeðnir af mörkum svo iðulega sem raun ber vitni með hæstv. iðnrh.

Reyndar er ég að nokkru leyti sammála hæstv. iðnrh. um að það orki tvímælis að kveða sérstaklega á um að heimilt sé að staðsetja eina stofnun. Sérstaklega orkar það tvímælis, að mínu mati, að haga þessu eins og brtt. á þskj. 1258 kveður á um, þ. e. tekin verði inn í lögin sérstök heimild til að staðsetja þessa stofnun utan Reykjavíkur. M. ö. o. má skilja það svo að sé ekki í lögunum sérstök heimild til þess skuli hún vera í Reykjavík. Hvers vegna eru menn þá að flytja um þetta ákveðna brtt.? Ég tel að það gegni öðru máli þegar nefndur er sérstakur staður vegna þess að með samþykkt slíkrar brtt. lýsir Alþingi ákveðnum vilja um þann sérstaka stað. Í því felst þessi munur.

Ég verð að benda hæstv. iðnrh. á að þau rök. sem voru notuð af ekki ómerkari mönnum en hæstv. forsrh. gegn brtt. hv. þm. Svavars Gestssonar og Halldórs Blöndals við 2. umr., voru þau að eðlilegra væri að fela stjórninni að taka þessa ákvörðun. Í framhaldi af því má segja að eðlilegt sé að þessir hv. þm., að vísu nú í annarri röð, flytji brtt. um að stjórninni sé heimilt að gera þetta sama. Út af fyrir sig get ég því vel sætt mig við brtt. þeirra þm. Halldórs Blöndals og Svavars Gestssonar og fyrst og fremst á þeirri forsendu að þar er lýst yfir ákveðnum vilja, að mínu mati, um að stjórn stofnunarinnar skoði þennan kost.

Hitt er svo umhugsunarefni ef menn eru komnir í þau spor hér á Alþingi að þeir sjái ástæðu til að setja það sérstaklega inn í lög, sem að öðru leyti geyma engin ákvæði um staðsetningu viðkomandi stofnunar, að heimilt sé að hafa hana einhvers staðar annars staðar en í Reykjavík. Það er verulegt umhugsunarefni ef menn eru komnir í þau spor að þeir telji það nauðsynlegt að setja inn sérstök heimildarákvæði í þessum efnum. Er þar með verið að segja, eins og ég sagði áðan, að í raun og veru gangi öll frv. um stjórnarstofnanir, sem ekki geyma önnur ákvæði, út frá því að stofnanirnar séu staðsettar í Reykjavík? Er það í raun og veru í hugum manna þegar svona er komið?

Það voru hér á Alþingi árið 1972, herra forseti, samþykkt lög um Tækniskóla Íslands. Þá voru menn ekki á ólíkum buxum að skoða hug sinn um hvað væri hægt að gera til valddreifingar og til dreifingar stofnana um þjóðfélagið. Formaður menntmn. Ed. sem þá var, þm. sem hét og heitir enn hv. þm. Ragnar Arnalds, mun þá ásamt fleirum hafa beitt sér fyrir því að inn í lög um Tækniskóla Íslands, sem eru lög nr. 66 og samþykki voru 29. maí árið 1972, var sett ákvæði til bráðabirgða. Þetta ákvæði til bráðabirgða hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Menntmrh. skal beita sér fyrir því að undirbúin verði ný löggjöf um skipulag verk- og tæknimenntunar á framhaldsskóla- og háskólastigi. Skal m. a. taka til athugunar hvort ráðlegt sé að stofnaður verði tækniháskóli og taki hann við öllu tæknifræðinámi, sem nú fer fram í Tækniskóla Íslands, og verkfræðinámi Háskóla Íslands. Ráðh. skal jafnframt láta rannsaka ítarlega hvort ekki sé tiltækilegt að tækniháskóli verði starfræktur á Akureyri.“

Svo mörg voru þau orð, herra forseti, og þetta var árið 1972. Það má segja að hér hafi verið á ferðinni ákvæði ekki ósvipað því sem þeir hv. þm. Halldór Blöndal og Svavar Gestsson flytja brtt. um, þ. e. að einum ákveðnum aðila í stjórnkerfinu sé heimilt að athuga að flytja viðkomandi stofnun til Akureyrar. Það er svo merkilegt að sami staðurinn er nefndur í bæði skiptin.

Nú vitum við það báðir, virðulegi forseti, að ekki er risinn tækniháskóli á Akureyri og hillir lítt undir það þannig að ekki er það alltaf gefin veiði, fremur sýnd, að setja slík heimildar- eða bráðabirgðaákvæði inn í lög. Því höfum við reynsluna af. Ég lýsti því reyndar við 2. umr., herra forseti, að ég hefði ekki nokkra trú á því að þessi draumur yrði að veruleika ef frá því yrði ekki gengið á hinu háa Alþingi, a. m. k. tiltölulega litla von um að það yrði, og sú skoðun mín stendur óhögguð.

Það breytir ekki því að ég teldi frekar ávinning en hitt, þrátt fyrir niðurstöðu atkvæðagreiðslu í 2. umr., að fá inn ákvæði eins og það sem brtt. þeirra hv. þm. Halldórs Blöndals og Svavars Gestssonar fjallar um. En það er þó umhugsunarefni hvort það er rétt, ef menn á annað borð hafa einhvern áhuga og einhvern vilja í þessum efnum, að setja slík óljós og opin ákvæði. Í ljósi reynslunnar virðast þau ákaflega haldlítil og ekki skipta öllu máli hvort menn setja eitthvað slíkt inn í lög eða ekki. Reynslan sýnir okkur það.

Það getur vel verið að það sé rétt, og það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hæstv. iðnrh., að stjórnskipulega séð og lagalega séð sé óþarft að taka sérstök ákvæði um slíkt inn í lög. Þannig vil ég a. m. k. skilja það. En spurningin er: Eru menn einu hænufeti nær þessu markmiði með því að nefna þetta sérstaklega, þó það sé einungis um heimildarákvæði að ræða, eða ekki? Ég hallast frekar að hinu síðara, að það sé af tvennu illu skárra en ekki neitt að hafa slíkt ákvæði en að hafa frv. óbreytt eins og það liggur fyrir.

Það var nokkuð merkileg umræða sem hér fór fram um þetta frv. við 2. umr., en hún hefur orðið enn merkilegri við m. a. ágæta ræðu hv. næstsíðasta ræðumanns þar sem dregnar voru fram ýmsar alvarlegar staðreyndir í þessu máli og ýmsar dökkar tölur sem þýðir víst lítið fyrir menn að neita. Þó þær standi reyndar ekki allar í síðustu ársskýrslu Framkvæmdastofnunar eru þetta engu að síður opinberar tölur sem tala sínu máli. Ég er alveg sammála hv. þm. Kjartani Ólafssyni um að það þarf meira til en samþykkja frv. á borð við þetta. Af sjálfu sér leiðir ekki að við náum að jafna reikningana hvað byggðaröskunina varðar. Og það að færa til einhver nafnspjöld í stofnun við Rauðarárstíg er eitt og sér ekki trygging fyrir því að eitthvað miði í þessu efnum. Auðvitað er það hin opinbera stefnumörkun og það t. d. hversu miklu fé menn vilja ráðstafa til að tryggja ákveðin markmið sem úr sker. Því verður að játa að undanfarin ár hafa verið slæm hvað þetta varðar. Stjórnvöld hafa fallið á prófinu. Og þeim markmiðum sem byggðastefnunni, eins og svo var kölluð, voru sett á öndverðum síðasta áratug hafa menn í raun færst fjær síðustu árin hvað varðar það að verja ákveðnum hluta af þjóðartekjum eða af fjárlagaupphæð til þessa verkefnis. Nú vantar mikið á að Byggðasjóður t. d. fái það fjármagn sem hann hefði samkvæmt þeirri stefnumörkun.

Það væri reyndar ánægjulegt, forseti, að rekja hvernig ákveðnar hugmyndir í byggðamálunum urðu til og hvernig t. d. stofnun sem hét Félag ungra framsóknarmanna átti sinn þátt í því á þeim tíma að hrinda þeim úr vör sem og stefnumörkun vinstristjórnarinnar svonefndu sem sat á fundunum 1971–1974 og það átak sem hún gerði og afleiðingar þess átaks á byggðaþróunina í landinu. Auðvitað urðu mikil kaflaskil við áratugaskiptin frá 1960 til 1970 og margt má af sögunni læra frá og með þeim tíma og til þessa dags og e. t. v. óþarft og ástæðulaust að fara mikið lengra aftur til að skoða þann samanburð sem við höfum af þessum 15 árum eða svo.

Það er t. d. umhugsunarefni hvers vegna það jafnvægistímabil í byggð landsins, sem tókst að skapa um miðjan síðasta áratug, varð jafnskammvinnt og raun ber vitni. Þannig tókst í fyrsta sinn á árinu 1975 að snúa við áratuga langri þróun fólksfækkunar í dreifbýli og á landsbyggð og ná jöfnuði sem hélst nokkurn veginn í fimm ár. En þá fór að halla á ógæfuhliðina aftur og það tiltölulega hratt. Ég hygg að menn hafi í bjartsýni sinni á árunum 1975–1979–1980 slegið því föstu að sú gífurlega uppbygging sem orðið hafði í atvinnulífi landsbyggðarinnar með endurnýjun togaraflotans og uppbyggingu í frystihúsunum sem og ákveðnu átaki í samgöngumálum og uppbyggingu í landbúnaði o. s. frv. væri upphaf nýrra tíma í þessum efnum og þetta mundi allt hlaða utan á sig, það yrði tilsvarandi vöxtur í þjónustu og ýmsum öðrum störfum sem mundu flytjast út til landsbyggðarinnar í kjölfarið á þessu átaki í framleiðslugreinunum og nú væri í raun fyrir þessu séð um langa framtíð. A. m. k. heyrðust slíkar bjartsýnisræður á þessum árum. Það er mér minnisstætt. Það getur verið að þær hafi verið blandnar nokkurri óskhyggju og einhverju óraunsæi, en þetta voru menn a. m. k. að leyfa sér að vona.

Það þarf ekki að rekja það frekar að slíkar óskir hafa ekki ræst og menn horfa nú, þvert á móti, framan í einhverja hrikalegustu byggðaröskun sem orðið hefur síðan teknar voru upp skipulegar talningar á búferlaflutningum í þessum efnum og það einungis á örfáum árum, eins og ég rakti, eftir að þetta var í sæmilegu jafnvægi um árabil.

Ég held að skýringarnar á þessu séu margar. Þær liggja m. a. í hinum miklu fjármagnstilflutningum í þjóðfélaginu, eins og hér hefur réttilega verið rakið, en ég held að þær liggi einnig og ekkert síður í hinu, sem er auðvitað tengt, að það sem menn gáfu sér í eina tíð, að þjónustan og ýmsar afleiddar greinar frá framleiðslugreinunum mundu fylgja í kjölfarið og byggjast upp, gerðist ekki. Í stórum dráttum séð gerðist það ekki því að á sama tíma og störf bættust nær eingöngu við í fiskveiðum og fiskvinnslu úti á landsbyggðinni og héldu þannig uppi fólksfjölgun þar bættist við ótrúlegur fjöldi starfa í þjónustugreinum á höfuðborgarsvæðinu og svo merkilega vill til að sú þróun heldur áfram þrátt fyrir að dregið hafi úr fjárfestingunni og hún nánast stöðvast í sjávarútveginum og uppbygging frystihúsa sé nú nánast stöðvuð, eitt eða tvö hús í byggingu úti á landi og þá helst ekki nema að verði að endurnýja það sem brunnið hefur eða svo, þá heldur þetta þjónustuhjól, ef svo má að orði komast, áfram að snúast á Reykjavíkursvæðinu. Það er mönnum auðvitað umhugsunarefni. T. d. bættust á síðasta áratug um 10–11 þús. störf við í þjónustugreinum á stór-Reykjavíkursvæðinu á sama tíma og þau voru rúmlega þúsund úti á landi. Þetta eru auðvitað svakaleg hlutföll, herra forseti.

Ég er að nefna þetta hér vegna þeirra umræðna og þeirra átaka sem hér hafa orðið um þann möguleika að færa Byggðastofnun út fyrir höfuðborgarsvæðið. Menn eins og þ. á m. sá sem hér talar hafa iðulega sagt sem svo: Ef ekki tekst á allra næstu árum og helst strax á morgun að spyrna við fótum og brjóta ísinn í þessum efnum er þetta nánast tapað stríð. Og ég er þeirrar skoðunar t. d. í tengslum við endurskoðun á Framkvæmdastofnun ríkisins og nýjar stofnanir sem út af henni spretta að náist enginn árangur í þessum efnum, allt hjakki í sama farinu, menn skjóti sér á bak við þetta og hitt og komi sér hjá því að taka á þessum málum verði ekki mikil von til þess að árangur náist á næstu árum þegar tækifærin ganga mönnum úr greipum á þann hátt.

Það hallar reyndar það hratt á ógæfuhliðina hvað þetta varðar að enn þá erfiðara verður að snúa þessu við ef það tekst ekki á allra næstu árum. Ég verð að segja það eins og er að ef ekki tekst núna t. d. að gera eitthvað í þessa veru á Eyjafjarðarsvæðinu, sem er þó langstærsta þéttbýlissvæði landsins fyrir utan Reykjavík, er ekki mikil von til þess að það takist annars staðar eða í annan tíma. Nú er veruleg fólksfækkun á Norðurlandi eystra. Ég bið menn að athuga það. Virðulegur forseti og hæstv. forsrh. ættu báðir að hugsa um það augnablik að Norðurland eystra tapaði á fimmta hundrað manns, það fór meira en einn maður á hverjum einasta degi í burtu frá Norðurlandi eystra, á síðasta ári. Þannig er þetta sterkasta svæði utan höfuðborgarinnar og stærsti þéttbýliskjarni utan stór-Reykjavíkursvæðisins statt og þar er svo illa komið: fækkun upp á 1.2% á þessu svæði á sama tíma og fjölgun er upp á 0.7% í Reykjavík. Hún bendir auðvitað ekki til þess, hæstv. forseti, að það verði mikið auðveldara að gera þetta eftir 10 ár eða 15 ár því þá verða hlutföllin sennilega orðin enn þá óhagstæðari.

Ég get ekki leynt því, herra forseti, að atkvgr. í gær varð mér gífurleg vonbrigði. Ég hafði vonast til þess að skilningur á því að hér þyrfti að taka á og spyrna við fótum væri meiri og ég hafði vonast til þess að meira stæði á bak við ræður ýmissa manna og stefnumörkun, jafnvel heilla stjórnmálaflokka, sem auðvelt væri að vitna í í þessum efnum, en svo að svona tækifæri gengi mönnum úr greipum, þrátt fyrir að ýmsir væru með yfirlýsingar um að þeim væri sú athöfn í sjálfu sér ekki óþekk að flytja þessa stofnun norður til Akureyrar.

En það er á dagskrá þingsins annað mál sem er náskylt þessu. Það er ýmist talað um þríburana eða þrílembingana, herra forseti, þar sem eru afkvæmi Framkvæmdastofnunar, þessi æxlun sem á að verða í Framkvæmdastofnun ríkisins, hvort sem hún er með rótarskotum eða kynjuð, þar sem stofnunin skiptist upp í þrennt, og þessari virðulegu þd. gefst væntanlega tækifæri til þess innan skamms að greiða öðru sinni atkv. um skylda hugmynd, sem sé þá að setja á fót væntanlegt þróunarfélag norður á Akureyri.

Ég held ég þurfi ekki, herra forseti, ég hef gert það áður í ræðum mínum, bæði um þetta mál og annað, að tíunda vænlega kosti þess að gera það. Ég hafði ímyndað mér að menn væru þannig sinnaðir, þannig skapi farnir þegar þeir væru að fjalla um Byggðastofnun að þeir væru öllu fúsari en ella til að hugleiða þessi mál. Það verður auðvitað ekki annað sagt en það er einna nöturlegast af öllu að það skuli vera stofnun sem heitir þessu nafni sem fær þessa útreið. En það þýðir víst ekki að fást um það úr því sem komið er.

Það segir í athugasemdum við þetta lagafrv. að í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstj. séu ákvæði um endurskoðun laga Framkvæmdastofnunar ríkisins o. s. frv. og í samþykkt ríkisstj. frá því í september í haust í öðru fskj. með öðru frv. er þetta og hitt. Þetta er að verða klisjan hér, herra forseti, að við stöndum frammi fyrir hverju stóru frv. á fætur öðru. Vegna þess að þetta og hitt var einhvern tíma ákveðið stendur þing fram á sumar og menn halda langa og mikla fundi, þurfa að afgreiða mál sem ekki eru mjög vel úr garði gerð og ekki mjög vel ígrunduð vegna þess að þar eru ákveðin „prinsip“ á ferðinni. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég hef stundum svolitlar efasemdir um hversu mikið Framsfl. eigi í þessum „prinsippum“ og stefnumörkunum og hversu mikið af þessum frv. sé sérstaklega flutt með tilliti til stefnu Framsfl. og hvers vegna málin ganga fyrir sig þessa síðustu daga eins og þau gera, hvort það sé vegna þess öðru fremur að Framsfl. er aðili að þessari ríkisstj. Mér finnst bragðið af flestum þessum málum, sem við erum hér að ræða, vera þesslegt að þar sé fremur um að ræða ákveðnar frjálshyggjuhugmyndir, jafnvel ofstækishugmyndir, sem ég hélt satt best að segja að Framsfl. væri ekkert sérstaklega hallur undir. Framsfl. hefur löngum skreytt sig fjöðrum í sambandi við byggðastefnuna og jafnvel þóst eiga þó nokkuð í þeirri stefnu. Samt er hann aðili að ríkisstj. sem stendur að þessum málum með þeim hætti sem raun ber vitni, t. d. að þeirri miklu skerðingu á framlögum til Byggðasjóðs sem liggur fyrir. (Forseti: Ég vildi spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðunni.) Ræðumaður á nokkuð eftir af ræðu sinni, en með tilliti til þess að ég er í fyrri ræðu minni í þessari umr. er ég fús til að ljúka nú máli mínu og taka frekar til máls síðar. — [Fundarhlé.]