13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6494 í B-deild Alþingistíðinda. (5897)

456. mál, Byggðastofnun

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vildi við 3. umr. þessa máls bæta nokkuð við það sem áður hefur komið fram af minni hálfu varðandi byggðamálin og það frv. sem hér liggur fyrir um Byggðastofnun.

Það hefur verið dregið fram í þessari umr. af talsmönnum Alþb. og fleirum að langmesta áhyggjuefni í byggðamálum um þessar mundir er staða atvinnuveganna út um landið annars vegar og hins vegar sú þensla sem ríkir á Reykjavíkursvæðinu. Þetta er í rauninni byggðamálið í dag eins og það blasir við í sinni nöturlegu mynd með tilheyrandi fólksflótta utan af landi til höfuðborgarsvæðisins með stöðnun í þeim atvinnugreinum sem landsbyggðin byggir á, með stöðnun í framkvæmdum jafnt á vegum einstaklinga sem atvinnufyrirtækja þar eð þessir aðilar hafa lítið sem ekkert bolmagn til að standa fyrir uppbyggingu og halda áfram að byggja fyrir framtíðina, t. d. með viðlíka hætti og þó var kleift á síðasta áratug. Þetta gildir einnig um sveitarfélögin út um landið, en umsvif á þeirra vegum eru til muna minni en verið hefur um langt skeið og mörg þeirra eiga í verulegum rekstrarerfiðleikum og safna skuldum.

Þetta er myndin sem við blasir gagnvart landsbyggðinni annars vegar, en hér á Reykjavíkursvæðinu, þangað sem fjármagninu er beint vegna ríkisstjórnarstefnunnar, er allt annað upp á teningnum. Hér blómstra atvinnugreinar, fyrst og fremst á sviði verslunar og þjónustu, í áður óþekktri mynd og hingað safnast fólkið utan af landi í æ auknum mæli.

Það kom fram í máli hv. 10. landsk. þm. Kjartans Ólafssonar áðan að íbúðarhúsabyggingar hafa aukist á Reykjavíkursvæðinu þrátt fyrir þá miklu erfiðleika sem allir húsbyggjendur eiga við að stríða og að þessi þróun hefur verið í gangi um nokkurra ára skeið á sama tíma og þveröfug mynd blasir við úfi á landi þar sem samdrátturinn er það sem er ríkjandi og þessi mál hafa snúist við frá því sem áður var. Hv. þm. Kjartan Ólafsson dró upp enn skýrari mynd af því en ég gerði við 2. umr. þessa máls hvernig fjármagnið, hvernig sparifjármyndunin hefur þróast í landinu í tíð þessarar ríkisstj. annars vegar á landsbyggðinni og hins vegar hjá bankastofnunum í Reykjavík og grennd. Þetta eru hin stóru áhyggjuefni. Þetta eru megindrættirnir í byggðastefnu eins og hún hefur þróast að undanförnu. Því hlýtur það að vera krafa okkar, sem hugsum um hag Íslands alls og þá landsbyggðarinnar í þessu samhengi sérstaklega, að hér verði breytt um stefnu, að atvinnuvegirnir, frumvinnslugreinarnar fái eðlilegar rekstraraðstæður og hætt verði að blóðmjólka þær með þeim hætti sem gert hefur verið í tíð núverandi ríkisstj. með ákvörðunum stjórnvalda fyrst og fremst.

En vissulega er eðlilegt að hugsað sé til fleiri þátta þegar verið er að fjalla um byggðastefnu til lengri tíma litið. Af þeim ástæðum m. a. hefur dregist inn í þessa umræðu spurningin um hvar eigi að velja Byggðastofnun aðsetur, þeirri stofnun sem frv. gerir ráð fyrir að taki við af Byggðasjóði. En það er aðeins einn angi á stórum meiði, einn hluti af mjög stórum þætti sem eðlilegt er að rætt sé um í sambandi við byggðamálin. Þ. e.: hvernig getur hið opinbera haft áhrif á búsetuþróun í landinu og velgengni byggðarlaganna með því að dreifa stjórnsýslu og þjónustu á vegum hins opinbera um landið eftir því sem skynsamlegt getur talist og viðráðanlegt?

Hér var í byrjun síðasta áratugar fjallað mikið um þessi mál og gerðar á vegum stjórnvalda þá mjög umfangsmiklar tillögur um tilfærslur ríkisstofnana, heilla stofnana, frá Reykjavík út í landshlutana. Þessar tillögur hlutu ekki náð fyrir augum stjórnvalda og eflaust má segja um sumar þær hugmyndir, sem þar komu fram, að þær hafi verið of stórhuga miðað við þær aðstæður sem þá ríktu og menn hafi kannske af þeim sökum ekki gefið þessum málum þann gaum sem skyldi í framhaldi af þessari tillögugerð.

Ég nefndi það fyrr við umr. þessa máls að ég legði megináhersluna á það í sambandi við þjónustu á vegum hins opinbera að koma ákveðnum verkefnum, sem nú eru á vegum ríkisins, til sveitarfélaga og til héraðsstjórna sem hugsanlegs þriðja stjórnsýslustigs í landinu. Jafnframt því verði ákveðnum þjónustuþáttum á vegum ríkisins beint út í landshlutana, þáttum sem skynsamlegt þykir að ríkið standi fyrir áfram, og þeim þáttum verði komið fyrir þar sem verkefnin liggja úfi í landshlutunum sjálfum. Þetta hefur stundum verið kölluð útibúastefnan og má benda á ákveðin dæmi fyrir slíkri stefnu sem allvel hafa gefist, eins og t. d. sú þróun sem orðið hefur á vegum Rafmagnsveitna ríkisins svo dæmi sé tekið þar sem um hefur verið að ræða fjórðungssvæði með nokkuð sjálfstæðri uppbyggingu og ábyrgð á viðkomandi rekstrarsvæði. Austurland og Austurlandsveita sem hluti af Rafmagnsveitum ríkisins er dæmi um slíkt.

Ég hef minnst á iðnráðgjafarstarfsemina þar sem ríkið veitir samtökum sveitarfélaga ákveðinn stuðning í ráðgjafarstarfsemi sem er bundin við landshluta eða kjördæmi. Ég held að mönnum beri saman um að af þeirri viðleitni sem upp var tekin með lögum um iðnráðgjafa hafi veruleg hreyfing sprottið í sambandi við iðnþróun út um landið og umhugsun um nýsköpun í atvinnulífi.

Þetta eru aðeins fá dæmi. Það má einnig benda á viðleitni til þess hjá vissum rannsóknastofnunum atvinnuveganna, eins og Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, að flytja hluta af starfsemi sinni út á land. Allt hefur þetta gefist nokkuð vel, að mínu mati, en á þessu sviði þyrfti að taka miklu betur á en verið hefur, færa slíka þætti út hvort sem ríkið stendur að þeim kostnaðarlega séð áfram sem ekki þarf að vera ef menn tryggja tekjustofna fyrir sveitarfélög eða héruð, fylki eða hvað menn vilja kalla hugsanlegt þriðja stjórnsýslustig sem væri þess megnugt að taka við verkefnum af ríkisvaldinu.

Ég hef í till. sem liggur fyrir hv. Sþ. gert grein fyrir hugmyndum mínum um þessi efni. Ég held að hér sé í rauninni miklu stærra mál á ferðinni en halda mætti miðað við þær takmörkuðu undirtektir sem fengist hafa við þessari stefnu af stjórnvalda hálfu og í umr. á hv. Alþingi upp á síðkastið. Það eru ekki aðeins verkefnin sem um er að ræða, heldur fólkið sem starfar við þau, menntað fólk sem mikill fengur er að að fá út í byggðarlögin, og að sjálfsögðu þær tekjur sem fylgja fyrir sveitarfélög og byggðarlög af aukinni starfsemi og auknum umsvifum. Ég legg því afar mikla áherslu á að þannig verði tekið á byggðamálum í framtíðinni að um þetta verði mótuð mun skýrari stefna og stigin skref með skipulögðum hætti frá ári til árs til að dreifa þannig verkefnum út um landið.

Það er í hugmyndum sem ég hef lagt fyrir að finna dæmi um verkefni sem ég tel að eðlilegt væri að koma út í landshlutana hið allra fyrsta, koma þar upp útibúum eða fela verkefnin nýju stjórnsýslustigi, héraðsstjórnum, ef samkomulag getur orðið um slíka skipan sem ég teldi raunar mjög æskilegt að yrði. Meðal málaflokka sem ég bendi á í þessu sambandi eru t. d. húsnæðismálin. Ég tel að þau verkefni sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefur með höndum gætu mörg hver átt mun betur heima úti í landshlutunum á sérstökum útibúum eða í tengslum við aðra starfsemi sem þar yrði byggð upp, miklu frekar en hið stóra bákn Húsnæðisstofnunar í höfuðborginni, þó að vissulega sé þar á margan hátt vel unnið.

Húsnæðismálin eru verkefni á hverju svæði, tækniráðgjöf varðandi þau, fjárhagsleg ráðgjöf og hvað eina sem snertir húsbyggingar. Hvers vegna erum við að halda þessum verkefnum hér í höfuðborginni í stað þess að færa þau nær fólkinu út í byggðirnar?

Almannatryggingar eru annað slíkt svið sem eðlilegt er að fært verði út í héruðin og vel mætti hugsa sér að héraðsstjórnir tækju við slíkri starfsemi að verulegu leyti þótt ákveðna samræmingu á skipulagi megi hugsa sér og að tengsl séu við meginstofnun í þessum málum sem áfram gæti haft aðsetur í höfuðstað landsins.

Þriðji þátturinn sem ég nefni hér eru skipulagsmálin. Viss vísir er að því á vegum samtaka sveitarfélaga í nokkrum landshlutum að taka í sínar hendur skipulagsmálin, bæði varðandi skipulag þéttbýlis, en eins víðtækari skipulagsverkefni sem sem betur fer er svolítið farið að huga að þótt það sé í mjög litlum og allsendis ófullnægjandi mæli. Þarna er um að ræða sjálfsagt verkefni til þess að færa út í héruðin og margt getur tengst slíku, ekki aðeins starfsemi arkitekta, sem eru þeir sem sinna með beinum hætti skipulagsmálunum, heldur margs konar undirbúningsvinna og áætlanagerð sem þarf að vera undanfari skilmerkilegs skipulags.

Fjórði þátturinn sem ég nefni hér eru sjálf byggðamálin. Þá kem ég að atriði sem gengur í nokkuð aðra átt en er í þessu frv. og þeim brtt. sem fluttar hafa verið við það, en ég vil a. m. k. koma á framfæri í orðum. Mér er mjög til efs að þau verkefni sem Byggðastofnun þessari eru ætluð, þ. e. að taka við verkefni Byggðasjóðs og áætlunargerð á hans vegum, eigi að vera í einni sérgreindri stofnun. Ég get að vísu vel hugsað mér að ein stuðningsstofnun sé til staðar við þessi mál sem má gjarnan heita Byggðastofnun mín vegna, en ég tel að verkefnum, þróunarverkefnum og áætlunargerð, sem tengjast byggðamálunum á hverju svæði, svo og útdeiling fjármagns, sem hingað til hefur verið innan Byggðasjóðs og gert er ráð fyrir að verði undir stjórn þeirrar byggðastofnunar sem frv. gerir ráð fyrir, verði deilt upp og þau verði í rauninni afhent landshlutunum, samtökum sveitarfélaga eða héraðsstjórnum sem nýju stjórnsýslustigi. Ég held að það séu miklu meiri líkur á því að undirbúningur slíkra verkefna fari fram innan svæðanna sjálfra og því fjármagni, sem þarna yrði til ráðstöfunar til stuðnings margháttaðri starfsemi sem verið er að koma á fót og reyna að fá til að skjóta rótum í landshlutunum, verði deilt út af fólki á svæðunum sjálfum, útdeilingin verði á þess vegum og þess ábyrgð. Ég hef miklu meiri trú á því en að deila slíku fjármagni út af hálfu stjórnar einnar byggðastofnunar, hvort sem hún á aðsetur við Rauðarárstíg eða norður á Akureyri.

Hitt styð ég svo heils hugar, og hef gert það með atkvæði mínu hér, að verði frv. þetta lögfest verði Byggðastofnuninni ætlað að rísa eða verða byggð upp á Akureyri eins og tillögur hafa verið gerðar um. Það er í rauninni ákveðin táknræn ákvörðun, ákveðið lágmark af hálfu Alþingis sem skref til að sýna vilja þingsins til að koma slíkri starfsemi út af höfuðborgarsvæðinu.

Fimmta atriðið sem ég nefni hér og tel að unnt væri að taka á með allt öðrum hætti en nú er, með mun skilmerkilegri hætti en nú er, eru fræðslumálin, skólamálin, menntamálin, hvað menn vilja kalla þau. Vissulega er vísir að slíku með fræðsluskrifstofum í einstökum landshlutum. Þær hafa að mínu mati þegar sannað gildi sitt og verið mjög til heilla fyrir mótun fræðslustarfs í viðkomandi umdæmum. En þarna þarf að gera mun betur og fela heimaaðilum, nýju stjórnsýslustigi, lýðræðislega kjörnum stjórnum, verulega sjálfsstjórn í menntamálunum á sínu svæði, verulega stjórn, og einnig þá útdeilingu fjármagns í því skyni innan svæðanna sjálfra.

Ég nefni enn málefni sem tengist þessu, það má segja að það tilheyri menningarmálunum, og það eru málefni safna sem farið er að gefa gaum í mun ríkari mæli en verið hefur úti um landið. Við höfum ekki fengið, því miður, inn í þingið nýtt frv. um Þjóðminjasafn Íslands eða réttara sagt nýtt frv. til þjóðminjalaga eins og ég hygg að það hafi átt að heita, en ég veit að í því frv. , sem búið er að liggja í skúffum hæstv. menntmrh. í eitt og hálft ár, að ég hygg, og er afrakstur af starfi nefndar sem fyrrv. hæstv. menntmrh. skipaði, er að finna mjög athyglisverðar tillögur um ákveðna sjálfsstjórn þessara mála úti í landshlutunum í tengslum þó við Þjóðminjasafn Íslands sem stuðnings- og samræmingaraðila.

Á Austurlandi hefur verið komið upp ákveðnum vísi að slíkri samræmdri starfsemi með stuðningi Samtaka sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi þar sem er hin svokallaða Safnastofnun Austurlands. Henni er kjörin stjórn á hverjum ársfundi Samtaka sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og hún fær til ráðstöfunar ákveðið fjármagn, ákveðinn styrk frá þessum samtökum. Þetta er eins konar yfirstjórn safnamála þar í fjórðungnum og menn hafa sammælst þar um ákveðið skipulag þessara mála eftir að þessi safnastofnun tók til starfa. Hún ræður ekki yfir neinu einu safni, heldur er hún samræmingar- og stjórnunaraðili og ráðgjafaraðili sem á að hafa bolmagn til að hafa menntaðan sérfræðikraft í sinni þjónustu til að liðsinna hinum litlu safneiningum víða um fjórðunginn. Þetta er dæmi um menningarþátt sem á að hlúa að og á að fá sína sjálfsstjórn úti í landshlutunum. Og svo má lengi telja upp einstaka þætti á sviði menningarmála þar sem heimamenn geta tekið til hendi og eiga að fá hluta af því fjármagni til sjálfstæðrar ráðstöfunar sem nú er veitt til miðstöðva á höfuðborgarsvæðinu.

Ég nefni enn eina stofnunina. Ég vil ekki nota orðið „bákn“, því að það hefur oft óþarflega neikvæða merkingu þegar menn tala um bákn, þótt viðkomandi stofnun sé allstór. Það er Hollustueftirlit ríkisins og margt sem því tengist. Mikið af þeirri starfsemi getur átt heima úti í landshlutunum með ákveðnari hætti en verið hefur þó að vissulega hafi með nýjum lögum þar að lútandi verið ætlast til þess að sveitarfélög sameinuðust um heilbrigðisfulltrúa skv. ákveðnu skipulagi. Ég held að ýmsir þættir heilbrigðis- og hollustueftirlits og annað opinbert eftirlit, öryggiseftirlit þ. á m., eigi heima úti í landshlutunum sjálfum, úti í héruðunum, og það fjármagn sem þar er um að ræða. Rafmagnseftirlit ríkisins er enn ein slík stofnun sem mjög eðlilegt væri að hefði meira sjálfræði úti í landshlutunum og meira af þeirri starfsemi sem nú fer fram í Reykjavík mætti flytjast þangað.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að málstök af því tagi sem ég er að mæla fyrir yrðu byggðaþróun í landinu mjög til heilla og ég vil stuðla að því að Alþingi ráðstafi fjármagni, sem ríkið nú útdeilir og fjvn. Alþingis deilir út í smáatriðum og við einstakir þm. kjördæma eigum hlut að að skipta niður, til samtaka fólksins, til lýðræðislega kjörinna stjórna úti í landshlutunum sem taki á sig það vald, þá ábyrgð og þá vegsemd að deila fjármagninu út. Þetta fjármagn getur komið með beinum hætti úr ríkissjóði skv. ákvörðun af hálfu Alþingis, af hálfu og að fengnum tillögum fjvn., en það má einnig hugsa sér, og það tel ég raunar ekki síður æskilegt, að héraðsstjórnir, að héruðin fái með sjálfsstjórn sinni ákveðna sjálfstæða tekjustofna í sínar hendur og taki um það ákvörðun á sínum vegum hvernig þeim sé varið.

Ég sækist ekki eftir því sem alþm. að vera að deila niður fjármagni t. d. til skóla í mínu kjördæmi. Ég tel að lýðræðislega kjörin samkoma heimaaðila sé í rauninni miklu eðlilegri og vænlegri aðili til að standa að slíku en við hér suður á Alþingi þó svo að við gerum það eftir bestu getu og bestu samvisku. Ég hef vissulega heyrt um það áhyggjur í sambandi við umræður um þessi mál og hugmyndir, eins og ég hef viðrað þær hér, að allt eins megi búast við því að t. d. héraðsstjórnir, sem kannske spönnuðu svæði allt að einu kjördæmi eins og þau nú líta út, hugsuðu ekki sem skyldi um veikustu svæðin, um þau svæði sem sérstaklega þurfi að gæta að. Ég óttast þetta ekki svo mjög. Ég held að réttlætiskennd fólksins úti um landið sé það rík að þeir sem til væru kvaddir gætu tekið á þessum málum af ekki minna réttlæti en reynt er af hv. þm. á Alþingi. Vafalaust tekur slík endurskipulagning stjórnsýslunnar í landinu vissan tíma. Slík ný tök stjórnsýslunnar þurfa sinn aðlögunartíma, má kalla það, og málin þurfa að leita nýs jafnvægis ef valdið er fært út til nýrra eininga, eins og ég hef sett fram hugmyndir um.

En ég óttast sem sagt ekki að slík valddreifing verði ófarsæl fyrir landsbyggðina og byggðaþróun. Ég er miklu fremur þeirrar skoðunar að hún efli menn til sjálfsbjargar, til dáða úti um landið og verði til þess að skapa eðlilegt mótvægi við þá starfsemi sem fram fer í höfuðstað Íslands.

Enginn taki orð mín svo að ég sé andstæðingur Reykjavíkur sem höfuðstaðar í landinu og líti þá starfsemi sem hér fer fram, hvort sem það er á menningarsviði eða á öðrum sviðum, öfundarauga vegna þess að hún fari hér fram eða vegna þess fólks sem við hana vinnur hér. Svo eru málin ekki. En ég tel þessa þróun, sem nú er í gangi og við blasir eins og málin nú þegar liggja, óheillavænlega fyrir Ísland allt, einnig fyrir höfuðstaðinn og nágrenni hans og það fólk sem hér býr. Því er ég þeirrar skoðunar að taka hefði þurft með allt öðrum stefnumótandi hætti á byggðamálum en gert er í því frv. sem hér liggur fyrir um Byggðastofnun. Það virðist satt að segja sem afskaplega lítil hugsun hafi verið lögð í þetta mál, a. m. k. ekki neinir nýir ferskir vindar hafi leikið um hugi þeirra manna sem um þetta hafa fjallað eða þeirra sem lögðu mat á tillögur þeirra. Því miður, verð ég að segja. Hér er fyrst og fremst verið að kippa einum þætti út úr Framkvæmdastofnun, marka hann af, með nánast sama hætti og áður lá fyrir. Og það felst engin stefnumörkun í þessu frv. sem geti vakið vonir um að tekið verði með öðrum hætti eða auknum þrótti á þessum málum, eins og svo sannarlega væri þó ástæða til. Því miður, verð ég að segja.

Það er ekki heldur hægt að sjá að þeir sem mótuðu þetta mál og hæstv. forsrh. sem ber það fram hér hafi haft mikið auga á þeim heitstrengingum og samþykktum sem allir formenn stjórnmálaflokka stóðu þó að í sérstakri samþykkt sem gerð var fyrir nokkru í tengslum við stjórnarskrárbreytingu og fylgdi sem sérstök ábending með frv. um breytingu á stjórnarskrá sem lá fyrir 105. löggjafarþinginu. Þar sagði, með leyfi forseta, svo ég aðeins rifji þá samþykkt upp, en hún er ekki löng:

„Þingflokkar ... sem að frv. þessu standa hafa orðið ásáttir um eftirfarandi:

...2. Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. M. a. fái sveitarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin, óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“

Það er a. m. k. komið á annað árið síðan þessi samþykkt var gerð og sú nefnd sem hæstv. forsrh. hafði frumkvæði að að skipuð væri í framhaldi af þessari samþykkt formanna þingflokkanna, hin svokallaða byggðanefnd þingflokkanna, hefur ekki orkað, undir formennsku fyrrv. alþm. Lárusar Jónssonar, að setja fram neinar stefnumarkandi tillögur sem skipti einhverju máli í sambandi við þá stöðu sem ég hef verið hér að ræða og varðar svo mjög byggðamálin í landinu.

Þið hafið, hv. þm., tekið eftir orðalaginu að jafnframt muni þingflokkarnir „beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnilega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“ Það væri langt mál að fara að rekja hvernig þau mál standa. Þau hafa ekki þróast í tíð núv. ríkisstj. til jöfnunar. Það eru fá atriðin a. m. k. sem hægt er að benda á í þeim efnum, ef einhver. Ég get nefnt sem dæmi þróun raforkuverðsins sem svo mjög var umtalað fyrir nokkrum misserum og reyndar árvisst til umræðu á hv. Alþingi. Hefur verið dregið úr mismunun á raforkuverði á milli einstakra veitusvæða, t. d. milli höfuðborgarsvæðisins og orkuveitusvæða Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða? Nei, það hefur ekki gerst. Hér voru teknar ákvarðanir af stjórnarliðinu á liðnum vetri í tengslum við afgreiðslu á frv. um verðjöfnunargjald af raforku m. a. og síðan af hæstv. iðnrh. í tengslum við gjaldskrárákvarðanir. Þó að hann vilji sem minnst nærri þeim koma þá heyra þó allténd Rafmagnsveitur ríkisins undir iðnrn. Þar voru teknar ákvarðanir sem juku verðmun á raforku til almennings frá því sem verið hefur.

Ég hef flutt hér á Alþingi sérstaka tillögu um jöfnun símkostnaðar í landinu sem er einn af þeim þáttum sem eru mjög íþyngjandi fyrir fólkið úti um landsbyggðina. Það þarf, m. a. vegna samþjöppunar stjórnsýslunnar á höfuðborgarsvæðinu, að eyða miklu fleiri krónum í símtöl en fólkið á þessu stóra svæði sem hefur þjónustuna nærri sér, bæði hina opinberu og reyndar margháttaða aðra þjónustu, verslun og viðskipti á þessu stóra svæði. Það er algjör óhæfa að það skuli vera lagður skattur á landsbyggðina með þeim hætti sem gert er af Pósti og síma í sambandi við gjaldsetningu vegna langlínusímtala. Þar er um að ræða tífaldan mun miðað við samtalseiningu, miðað við tímaeiningu. Ætli menn segi ekki að það sé vegna þess að það sé miklu dýrara kerfi sem standi að baki og eru þeir þá of góðir að standa undir því að einhverju verulegu leyti sem ekki hafa flutt hingað til höfuðborgarsvæðisins?

En svo eru málin ekki. Í reynd er það svo, að ef litið væri á tilkostnaðinn hjá Pósti og síma við kerfið í sambandi við landssímann gætu menn ekki fundið út meira en tvöfaldan mun, en ekki tífaldan eins og nú er. Þetta er mál sem unnt væri að kippa í liðinn á Alþingi ef hugur væri til að taka á þessum misréttismálum. Hér liggja fyrir tillögur um það, en þær hreyfast ekki út úr nefnd, á þeim er ekki tekið. Eftir hverju er verið að bíða? Það hlýtur að vera að viljann vanti til að taka á þessum málum.

Þetta er því miður allt í skötulíki, hvort sem litið er til frv. eða málsmeðferðar varðandi einstaka þætti byggðamálanna, af hálfu núv. hæstv. ríkisstj. og þeirri viðleitni, sem var hér um skeið markvisst haldið uppi til jöfnunar á ýmsum sviðum, hefur ekki verið fram haldið, því miður.

Hæstv. félmrh., sem hlýðir einn ráðh. að ég fæ greint á umr. nú, hugsar e. t. v. til frv. til l. um sveitarstjórnarmál sem hann mælti fyrir í þinginu á fámennum kvöldfundi og hlaut litla umræðu við 1. umr. máls, en málinu síðan vísað til nefndar. Ég neita því ekki að það eru ákveðin atriði í því frv. til sveitarstjórnarlaga, ýmsir kaflar, sem ég gæti alveg tekið undir og eru til bóta frá núverandi horfi, enda verið að lagfæra þar ýmis atriði að breyttum aðstæðum og sem víðtæk samstaða er um, en á öðrum þáttum, sem í rauninni skipta einhverju teljandi máli, sem gætu hreyft eitthvað í byggðamálunum, er ekki tekið þar svo nokkur mynd sé á. T. d. nefni ég samstarf sveitarfélaga í svonefndum héraðsstjórnum sem eru nánast valdalausir eða valdalitlir aðilar án sérstaks fjármagns til ráðstöfunar. Það er þó fráleitast að til þeirra stjórna er ekki kosið með lýðræðislegum hætti. Slíkt er að mínu mati aldeilis útilokað, að ætla að fara að setja upp slíkar stjórnir úti um landið þar sem mismunað er gróflega milli sveitarfélaga sem eiga þar að eiga aðild að. Ekki það að ég vilji ekki sjá hlut strjálbýlustu svæðanna þokkalega tryggðan, það þarf vissulega að gera, en það er ekki gert með því kerfi sem þarna er sett upp. Fyrir nú utan þau landfræðilegu mörk, afskræmismörk, sem sums staðar eru dregin upp sem rammi um þessi héruð. Verður mér þá eðlilega lítið næst heimahögunum, til skiptingarinnar eins og hún er ætluð skv. tillögum í sveitarstjórnarlögunum varðandi Norður- og Suður-Múlasýslur. Hvernig lítur það út að ætta að fara að festa í sessi með víðtækari umsvifum en nú tilheyra sýslunum, sem hafa ekki mjög mikið umleikis, skipan mála sem deilir Fljótsdalshéraði í tvennt, svo dæmi sé tekið? Fjórir hreppar skulu vera í Suður-Múlasýslu og hinir í Norður-Múlasýslu. Hvaða vit er í slíkri skipan mála? Og það er verið að reyna að brúa þetta bil með möguleikum og heimildum í frv. til l. um sveitarstjórnarmálefni, með sveigjanlegu samstarfi þvert á slíkar einingar. Menn eiga ekki að vera að setja upp kerfi sem lítil sem engin von er til að virki í reynd og það þarf að taka með allt öðrum og skilmerkilegri hætti á þessum málum.

Ég endurtek, virðulegur forseti, að stóra áhyggjan varðandi byggðamálin liggur utan við ramma þessa frv., liggur utan við það form sem verið er að fjalla um í frv. Það er efnahagsstefna stjórnvalda. Það er sú skelfilega mynd sem við blasir í meginburðarásum atvinnulíf, úti um landið vegna stjórnarstefnunnar. En þau mál ætla ég að ræða nánar undir öðrum lið sem er á dagskránni og var reyndar í miðjum klíðum í gær, hygg ég hafi verið, þegar umr. um það var frestað. Ég læt því nægja að þessu sinni af minni hálfu þetta innlegg í umræðuna um byggðamálin og tel mig hafa skýrt nánar ýmis sjónarmið af minni hálfu, sjónarmið sem ekki hafa komið fram áður við þessa umræðu.