13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6502 í B-deild Alþingistíðinda. (5899)

456. mál, Byggðastofnun

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég átti auðvitað ekki von á því að hv. 2. þm. Norðurl. e. tæki neinum sönsum. Þá hefði mær brugðið vana sínum. Ég var aðeins að benda honum á að í fyrsta lagi jaðraði till. við að vera óþingleg, í öðru lagi væri hún óþörf og í þriðja lagi heimskuleg. En þetta nægir honum ekki.

Má ég minna á það, af því að hann minntist á bundið slitlag til Akureyrar, að sá sem vaskast hefur barist fyrir því heitir Sverrir Hermannsson og ágreiningur okkar Halldórs E. Sigurðssonar á sínum tíma vegna Borgarfjarðarbrúar var ekki vegna nauðsynjar á Borgarfjarðarbrú, heldur vegna þess að ég vildi byrja á því að leggja bundið slitlag norður til Akureyrar af því að það stóðst nokkurn veginn á kostnaður við brúna og þetta bundna slitlag.

Ég er ekki að leggja stein í götu þess að stofnanir flytji til Akureyrar. En þessi hv. þm., sem lengi er búinn að eiga sæti í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, hvað hefur hann lagt af mörkum þar og hvaða tilraun hefur hann gert til þess að flytja stofnunina norður? Væntanlega hefur hann eitthvað búið í haginn fyrir þá starfsemi sína í öll þessi ár, en ætlar ekki að vinna málið í tilhlaupi með hv. 3. þm. Reykv. á síðustu stundu afgreiðslu þessa máls.

Ég vil gjarnan leggja þessu máli lið. Ég hefði áhuga á stofnanadreifingu og það væri vissulega ánægjulegt ef af þessu gæti orðið. Ég benti hins vegar á að ég teldi mig hafa verið bundinn, af því sem ég er flm. þessa frv. um Byggðastofnun þar sem ekki er tekið fram hvar hún skuli rísa, og fyrir því er það að ég hlaut að greiða atkv. eins og ég gerði þótt ég hefði að sínu leyti áhuga á því að þessi till. næði fram að ganga. En ég bendi enn fremur á að hér hafa ráðh., einn úr hvorum stjórnarflokki, lýst því yfir að ef stjórn í byggðastofnuninni nýju tæki ákvörðun um að hún skyldi rísa á Akureyri skyldi ekki standa á þeim að styðja framgang þess máls. Ég hef ekkert á móti tillögugerðinni annað en það að hún getur stórspillt fyrir framgangi þessa máls, vegna þess að verði till. felld, eins og ég tel mikla hættu á með vísan til afgreiðslu fyrri till., þá er þegar búið að leggja stein í götu þessa framfaramáls. Það er áreiðanlega ekki það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. ætlar sér.

En annars vil ég, herra forseti, með einni setningu segja að það tekur nokkuð í hnúkana að hlusta á málflutning hv. Alþb.-manna hér í hv. deild og það á þessu kvöldi. Klukkan hálfníu byrjar hv. 5. þm. Austurl. sár og ákaflega móður að kvarta yfir því að nú þurfi hann að fá upplýsingar um það hvort hann komist heim til sín 17. júní. Á eftir honum kemur hv. 3. þm. Reykv. og kvartar yfir allri málsmeðferð og aðallega því að ekki skuli vera samið við stjórnarandstöðu um hvaða mál gangi hér fram. Það vill svo til að ég var þar nær um allmörg ár þar sem samningar fóru fram um lok Alþingis, bæði frestun fyrir áramót og eins lok Alþingis, og mér er fullkunnugt um hvernig þau kaup gerðust og á hvaða eyri. Það er mikill misskilningur ef menn halda að Gunnar heitinn Thoroddsen, fyrir hönd hv. 3. þm. Reykv. og 5. þm. Austurl., hafi samið um það við stjórnarandstöðuna hvaða mál skyldu ganga fram. Ekkert slíkt var tekið í mál, enda beinlínis gegn þingræðinu að meiri hl. þurfi og eigi að beygja sig fyrir minni hl. að því leyti.

Nú alla þessa viku bregður svo við að haldið er uppi linnulausu málþófi og hann var ekki fyrr búinn að láta sig langa heim til sín, hv. 5. þm. Austurl., en hann byrjaði eina maraþonræðuna við 3. umr. um byggðastofnunarlagafrv. Ég á alveg eins von á því að þessu haldi áfram og þá er að taka því vegna þess að höfuðmál ríkisstj. ganga fyrir um afgreiðslu en ekki hvað þeim þóknast, þessum herrum, að halda uppi marklausu og löngu málþófi. Þetta vil ég að komi fram og skora svo á hv. 2. þm. Norðurl. e. að taka ekki þátt í málþófinu með vitlausum tillöguflutningi hér.