15.10.1984
Efri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

10. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Úr því að hv. 4. þm. Vestf. talaði beint til mín úr ræðustól hefði mig gjarnan langað til að fá hann hingað í salinn ef þess væri kostur. (Forseti: Það er verið að sækja hv. 4. þm. Vestf.)

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, af því að orðum hv. 4. þm. Vestf. var beint beint til mín, taldi ég nauðsynlegt að koma hingað upp. Það er háttur okkar, sem eldri eru, að tala oft til þeirra yngri með þeim hætti að afsaka misgjörðir þeirra sem misskilning og sýna þeim þá þannig ákveðinn velvilja. Skilningur minn á stjórnarskrá og þingsköpum þarf ekki endilega að vera misskilningur þó hv. 4. þm. Vestf. þyki svo.

Nú er það þannig að við þekkjum báðir til sögulegrar tilurðar nefnda á Alþingi þannig að við þurfum ekki að rifja þá sögu upp. Stjórnarskráin fjallar ekki um nefndarstörf Alþingis. Það er okkur báðum fullkunnugt um. Nefndirnar verða til vegna þeirra verkefna sem hrannast upp og nauðsynlegt þykir að vinna með þeim hætti sem þær gera. Það er ákveðin hliðstæða milli þeirra n. sem starfa í Sþ. og þeirra n. sem starfa í þd. Sams konar n. starfa þar með allmiklu samræmi að undanskilinni atvmn. sem fjallar um þó nokkuð stóra og marga málaflokka. Hliðstæða fjvn. Sþ. eru fjh.- og viðskn þd. Það er þannig að þingsköp fjalla sáralítið um hlutverk þessara n. eða verksvið að öðru leyti en því sem sagt er um störf n. í Sþ. og að í þingsköpum stendur um þdn. ekkert annað en það að hvor þd. skuli og kjósa fastanefndir til að fjalla um ákveðnar tegundir mála og skuli það gert á öðrum þingfundi hvorrar deildar, þ.e. kjósa. Þá er spurningin um túlkun tegundar mála og þar sem það er mín túlkun að hér sé um gjaldamál að ræða legg ég til að það fari til fjh.- og viðskn. Ef það er túlkun manna að tegundir mála fari eftir því hvort það stendur í heiti málsins landbúnaður, útvegur eða eitthvað annað get ég fallist á að það verði að vísa þeim til þeirra n. sem sams konar heiti bera. Ég verð að beygja mig fyrir þeirri röksemd hv. 4. þm. Vestf. að þá eigi síður við að vísa málum þvers og kruss, þ.e. hafi mál farið áður til einhverrar n. sé eðlilegt að það fari til hennar aftur. Má þá minna á það að afgreiðsla þessa máls í fyrra var með þeim hætti að ég lagði til að það færi til hv. fjh.- og viðskn. og þd. ákvað að það færi til hv. landbn.

Í sambandi við orð hv. 4. þm. Vestf. um rökstuðning minn við stjórnarskrá hef ég ekkert annað að segja en að hann hefði kannske átt að hlusta eilítið betur á það sem ég sagði. Ég sótti engan annan stuðning í stjórnarskrána en þann að með lögum skyldi ákveða gjöld og útgjöld ríkisins og síðan að ákveðnar sögulegar forsendur réðu því hvernig störf hefðu skipast hér á þingi og það væri einfaldlega mín skoðun að á meðan fjvn. Sþ. og fjh.- og viðskn. deilda væru starfandi ættu þær að fjalla um gjöld og útgjöld á vegum ríkisins. Það kann vel að vera að í allflestum tilfellum þurfi lög eða lagafrv. útgjalda af hálfu ríkisins eða gjaldtöku, en það ætti ekki að breyta því að þau mál þyrfti að skoða með tilliti til heildarafkomu ríkissjóðs. Það getur náttúrlega hugsast, og það finnst mér réttmætur skilningur, að n. fjalli um málasvið eins og landbúnað og útveg eða annað því um líkt eins og nöfn þeirra gera ráð fyrir í þingsköpum, en þá mætti líka spyrja hvort fjh.- og viðskn. ætti yfir höfuð að fjalla um nokkuð annað en skattamál eða þá það sem viðkemur gerð fjárlaga. Þessir hlutir eru ekki fastákveðnir. Ákveðnar starfsvenjur hafa skapast. Ekki hafa verið dregnar neinar ákveðnar línur með samþykktum hér í þd.

Ég má minna á það máli mínu til stuðnings að ef menn höfða til starfsvenja er þó nokkuð töng hefð fyrir því hér á þingi að málum sé vísað til n. með tilliti til þess í hvaða n. flutningsmaður situr. Má segja að hliðrað sé til með tilliti til þess að hann hafi áhuga á því að fjalla um málið í þeirri n. sem hann situr í þó að málið heyri henni ekki nákvæmlega til samkv. skilgreiningu.