13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6533 í B-deild Alþingistíðinda. (5904)

456. mál, Byggðastofnun

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal með ánægju svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint.

Í fyrsta lagi spurði hv. 3. þm. Reykv. um áætlanadeild Framkvæmdastofnunarinnar og hvað henni væri ætlað þegar Framkvæmdastofnun er lögð niður í núverandi mynd. Hv. þm. komst alveg réttilega að orði þegar hann lýsti starfsemi deildarinnar. Það er rétt að það hefur ekki orðið sá árangur af starfsemi deildarinnar sem menn vonuðu. Ég hygg að það sé hárrétt að það er fyrst og fremst vegna þess að ýmsir ráðherrar og rn. hafa ekki kosið að nota þjónustu áætlanadeildarinnar eins og vonir voru í upphafi bundnar við. Og hv. þm. rakti þau verkefni sem deildin var með 1984. Athyglisvert er, ég leyfi mér að benda á það, að þau verkefni voru fyrst og fremst á sviði sjávarútvegs- og samgöngumála, að vísu mannfjöldaspá og nokkur önnur, en ég hygg að stærstu verkefnin hafi verið á þessum tveimur sviðum. Það er því kannske ekki alveg ástæðulaust að ég kaus, þegar ég fór með þessa tvo málaflokka, að leita nokkuð til áætlanadeildar um verkefni einmitt á þessum tveimur sviðum, þ. e. á sviði sjávarútvegsmála og samgöngumála, þó að að sjálfsögðu hefði verið unnt að vinna þessi verkefni í t. d. samgrn. Samgrn. er heldur fámennt og það hefði þá orðið að fjölga þar mönnum eða leita annað. Þarna held ég að sé nokkur skýring á því hvernig þessi deild hefur þróast.

En ætlunin er að Þjóðhagsstofnun taki við sumum verkefnum, eins og mannfjöldaspá og þess háttar, sem áætlunardeildin hefur verið með. Gert er ráð fyrir að einstök rn. hafi veg og vanda af áætlanagerð í hinum ýmsu atvinnugreinum. Ég vona að þetta svari hv. þm.

Hann tók það reyndar fram að hann væri ekki að spyrja um framtíð starfsfólks. Ég vil leggja áherslu á að þess verður að sjálfsögðu vandlega gætt að það ágæta starfsfólk sem þarna er hafi forgang að störfum hjá hinum nýju stofnunum.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði mig um þær nýju tillögur sem liggja fyrir. Mín skoðun er að vísu óbreytt frá því sem áður var. Ég tel þessar tillögur algerlega óþarfar og fullkomlega á valdi stofnunarinnar að kjósa henni heimili og varnarþing. Ég get endurtekið að ef ég hef eitthvað með þau mál að gera þegar það gerist mun ekki standa á mér að samþykkja að stofnunin fari á góðan stað á landsbyggðinni.

Ég get vel hugsað mér að fylgja till. Ólafs Þ. Þórðarsonar og ef hún er samþykkt sem brtt. við fyrri brtt. finnst mér sjálfsagt að fylgja þeirri till. Þetta er mín persónulega skoðun. Ég tala að sjálfsögðu ekki fyrir ríkisstj. Ég hef ætíð verið fylgjandi því að stofnanir verði staðsettar á landsbyggðinni þegar það sýnist vera hagkvæmara og fært af ýmsum ástæðum sem ég þarf ekki að rekja hér. Ég vil alls ekki að atkv. mitt megi túlka svo að þessa stofnun megi ekki staðsetja á landsbyggðinni sem ég lít á að mætti gera ef ég greiddi atkv. gegn þeirri till. þannig breyttri. En ég álít að stjórnin hafi heimild til að staðsetja stofnunina annars staðar ef hún kýs en á Akureyri, kannske á Selfossi eða Borgarnesi.

Ég vil svo þakka þessar ágætu og fróðlegu ræður og ég tek undir það með hv. þm. sem sagði í lok sinnar ræðu að það væri vissulega ekki ástæðulaust að menn sem bera byggðir þessa lands fyrir brjósti töluðu ítarlega um þau mál. Mér þótti alveg sérstaklega fróðlegt að heyra lýsingu sama hv. þm. frá Nýja–Sjálandi. Mér sýnist að við gætum mikið af þeim lært og væri fróðlegt ef við gætum fengið ítarlegri upplýsingar á þinginu um það sem þar hefur gerst. Ég hef aldrei ferðast svo langt, en ég veit að hv. þm. hefur dvalist þar í eitt ár eða meira svo að hann er áreiðanlega okkar fróðastur um það athyglisverða land. Það er áreiðanlega hægt að koma inn ræðum um það land, hygg ég, jafnvel á þessu þingi.

En ég vil svo segja að ég ber hag dreifbýlisins ekki síður fyrir brjósti en hv. þm. og vona að það verði aldrei svo að hann þurfi að ganga einn sér til dægrastyttingar um Norðurland eystra. Það væri illa farið, því er ég honum sammála, ef þetta land er ekki byggt, ef það er ekki nokkurn veginn allt vel byggt, en ég er miklu bjartsýnni hins vegar að því leyti til. Ég held að þegar snúist verður við þeim erfiðleikum sem eru í landbúnaði með öflugri uppbyggingu nýrra búgreina, sem reyndar er nú unnið að, og hún fer að bera góðan árangur, þá snúist sú þróun sem í landbúnaðinum hefur verið við. Þó hygg ég að það langsamlega mikilvægasta sé öflugur sjávarútvegur. Það er athyglisvert að þegar áður hefur verið slíkur samdráttur í sjávarútvegi sem nú hefur ætíð hallað undan fæti fyrir dreifbýlið. Þess vegna held ég að langhraðvirkasta leiðin til að efla dreifbýlið sé að efla sjávarútveginn og það felst vitanlega í þeirri nýsköpun og öllu því sem við erum að tala um og tölum væntanlega áfram um í nótt.