13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6547 í B-deild Alþingistíðinda. (5908)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Hjörleifur Guttormsson (frh.):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu mjög þakklátur fyrir það að fá hér orðið til að halda áfram ræðu minni, þó að svo standi á að nokkuð er komið fram á nýjan dag hér á Alþingi, því að björt er nóttin og í rauninni tæpast mikill munur dags og nætur.

Þannig var að ég hafði óskað eftir því í umr.hæstv. iðnrh. yrði viðstaddur framhald málsins og beðið hæstv. forseta um að hlutast til um að svo gæti orðið. Ég treysti því að því hafi verið komið til skila og að hæstv. iðnrh. verði viðstaddur umr. og vildi biðja virðulegan forseta um að hlutast til um að svo geti orðið þar sem ég ætla að leggja fyrir hann ákveðnar fsp. sem tengjast náið því máli sem hér er til umr. (Forseti: Hæstv. iðnrh. hefur fjarvistarleyfi á þessum fundi. Hæstv. forsrh. er viðstaddur umr., enda hefur hann lagt þetta mál fram, og hann er vafalaust reiðubúinn til að svara öllum þeim spurningum sem snerta það mál sem hér er á dagskrá.) Er það svo, herra forseti, að ekki séu tök á því að hæstv. iðnrh. verði viðstaddur umr.? (Forseti: Ekki þennan hluta umr. Hann hefur fjarvistarleyfi á þessum fundi.) Það kemur mér allnokkuð á óvart að svo skuli vera, fyrst að málið er þó tekið á dagskrá, því ég hafði beðið hæstv. forseta Ingvar Gíslason um það sérstaklega að tryggja að hæstv. ráðh. yrði viðstaddur framhald umr. (Forseti: Hæstv. iðnrh. hefur ekki lagt þetta mál fyrir þessa hv. deild. Hæstv. forsrh. er viðstaddur og hann mun svara öllum þeim spurningum sem við koma þessu máli.) Þarna er nokkuð óvanalega á máli haldið varðandi mál sem vissulega er lagt fram af forsrh., en snertir alla ráðh. atvinnumála í reynd. Þess vegna hefði verið ástæða til þess að hæstv. landbrh. væri einnig við umr., en ég hafði ekki farið fram á það sérstaklega. Mér finnst þá ekkert óeðlilegt að ég óski eftir því að umr. yrði frestað hér um þetta mál þangað til hæstv. iðnrh. gæti verið hér viðstaddur. (Forseti: Forseti getur ekki orðið við því. Hæstv. forsrh. er viðstaddur til að svara fyrir það mál sem hér er á dagskrá. Ef einhverjar sérstakar spurningar um þetta mál varða hæstv. iðnrh. er hægt að beina þeim fsp. til hans við 3. umr. þessa máls. Þetta er 2. umr. málsins. Þessari umr. verður fram haldið.)

Herra forseti. Ég uni að sjálfsögðu úrskurði hæstv. forseta um þetta efni þó að mér finnist vera mjög óeðlilegt í rauninni að standa þannig að máli eftir að fram hefur komið af minni hálfu fyrr við þessa umr. að óskað væri viðveru tiltekins annars ráðh. hér. Raunar hafði ég leitað eftir því að hann gæti verið viðstaddur þegar eftir að ég hóf mál mitt við þessa umr. en svo var ekki. Hann hafði þá farið af þingfundi og ég treysti því að hæstv. forseti hlutaðist til um það að við framhald umr. mætti haga svo til að hæstv. iðnrh. yrði viðstaddur. Mér finnst því vera vægast sagt heldur sérkennilega á máli haldið af hálfu hæstv. forseta, en ég uni að sjálfsögðu hans úrskurði. Það má vera að hægt sé að bæta úr með því að beina fsp. til hæstv. forsrh. um vissa þætti, en þó eru hér atriði sem snerta verksvið hæstv.. iðnrh. og ég hefði miklu fremur kosið að geta átt við hann orðastað um einmitt við þessa umr. málsins.

Ég var, herra forseti, þar kominn í ræðu minni að ræða sérstaklega möguleika á nýsköpun í sjávarútvegi, sem er aðalatvinnuvegur landsmanna, og hafði rakið nokkur dæmi, tekin eftir forstjóra fyrirtækisins Lýsis hf., um þá mörgu möguleika sem eru til aukinnar verðmætasköpunar í sjávarútvegi í úrvinnslu á sjávarfangi. Þar kom fram í tilteknum fimm dæmum, sem þetta fyrirtæki, Lýsi hf., hefur staðið fyrir, að um gæti verið að ræða margföldun á verðmæti og í rauninni mjög háar upphæðir miðað við þær athuganir sem fram hafa farið á vegum þessa fyrirtækis, Lýsis hf. Viðkomandi forstjóri, sem gerði grein fyrir þessum málum á fundi Rannsóknaráðs ríkisins þann 7. des. s. 1., benti á það í sínu máli, og ég vil ítreka það hér vegna þess að það voru mjög athyglisverðar tölur, að á meðan u. þ. b. sex þúsund manns vinna við innflutningsverslun í landinu eru það aðeins um 250–300 manns sem starfa að útflutningsstarfsemi. Hann benti á að niðurskurður á fjárveitingum til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins, sem orðið hefur á síðustu tveimur árum, bæri vitni um vanmat manna á gildi þessarar starfsemi meðal ráðamanna. Hann benti einnig á að það væru engar töfralausnir til í sambandi við nýsköpun atvinnulífsins þó að menn bindi vonir við atvinnustarfsemi og nýjungar á sviði loðdýraræktar, fiskiræktar og lífefnatækni. Þessir atvinnuvegir fara hins vegar ekki að skila arði fyrr en eftir margra ára skipulagt þróunar- og uppbyggingarstarf og með því að nýta á kerfisbundinn hátt alta tæknilega, stjórnunarlega og markaðslega þekkingu sem við höfum yfir að ráða. Til skemmri tíma væri raunhæfast að breyta fyrirliggjandi þekkingu í söluhæfa vöru og einbeita sér að verkefnum sem við ráðum við og bæta við þá þekkingu og reynslu sem þegar er fyrir hendi.

Þetta og margt fleira mjög athyglisvert kom fram í erindi forstjórans, en ég ætla hér ekki að rekja það frekar. Ég tel hins vegar að mjög margir gætu tekið sér dæmi af því starfi sem innan þessa fyrirtækis hefur verið unnið, svo lýsandi sem þeir möguleikar eru sem þar er vikið að.

Í sambandi við horfurnar í atvinnuvegunum sem eru burðarásinn í atvinnustarfsemi okkar Íslendinga hefur ekki þróunin orðið sem skyldi, eins og ég hef rakið í mínu máli. Núna í dag komu einmitt fram upplýsingar sem ég vil fá leyfi hæstv. forseta til þess að nálgast á borði mínu vegna þess að ég hef ekki tekið þær með í ræðustól.

Varðandi horfur í frumvinnslugreinum okkar, sjávarútvegi og í landbúnaði, liggur fyrir, og má segja að það sé vonum seinna, að a. m. k. annar ríkisstjórnarflokkurinn er hina síðustu daga farinn að viðurkenna þá bágu stöðu sem sjávarútvegur okkar býr við. Það hefur verið á það bent af hálfu stjórnarandstöðunnar nú um langt skeið að rekstraraðstaðan í þessari undirstöðuatvinnugrein okkar er mjög alvarleg og raunar eitt alvarlegasta byggðamálið í landinu og jafnframt er sú staða síst til þess fallin að gera þessum atvinnuvegi kleift að standa fyrir því átaki í nýsköpun, sem svo er kölluð, og rannsóknar- og þróunarstarfi, sem er undirstaða hennar eins og þyrfti að vera.

Í Morgunblaðinu, ég hygg að það hafi verið s. l. sunnudag, er vikið að þessu máli eftir langa þögn og dregin fram dæmi sem við Alþb.-menn höfum rakið og fært fram tölur um í sambandi við eiginfjárstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi og hversu hún hefur rýrnað á undanförnum tveimur árum og raunar til lengri tíma litið því að ákveðin öfugþróun var hafin þar fyrir myndun núv. ríkisstj. svo öllu sé til haga haldið. Í leiðara Morgunblaðsins í dag er að þessu vikið og ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna aðeins til þess sem þar kemur fram, en þar segir:

„Flest sjávarútvegsfyrirtæki eiga í miklum erfiðleikum vegna slæmra rekstrarskilyrða og skuldasöfnunar gengin mörg ár. Aflatakmarkanir, innlendur kostnaðarauki umfram verðþróun á sjávarvörumörkuðum, offjárfesting og óhagstæð gengisþróun hafa gert fyrirtækjum í sjávarútvegi að ganga á eignir og safna skuldum. Skuldir sjávarútvegs, sem námu 42% af eignum í ársbyrjun 1981, voru komnar í 55% um s. l. áramót. Undirstöðuatvinnuvegur, sem gefur þrjár af hverjum fjórum krónum í útflutningstekjum og þjóðin reisir velmegun sína að meginhluta á, sætir rekstrarlegum afarkostum,“ segir hér í leiðara Morgunblaðsins.

Og ég vil bæta því við að þegar þessar prósentur eru hér fram reiddar eru skammtímaskuldir, að ég hygg, ekki með taldar skv. þeim upplýsingum sem fram komu í Morgunblaðinu næstsíðasta sunnudag.

Síðan er í þessum leiðara sérstaklega fjallað um stöðuna að öðru leyti og segir m. a.:

„Ekki er ofsagt þótt staðhæft sé að erfið rekstrarskilyrði í sjávarútvegi hafi leikið þær verr“ — þ. e. bæjarútgerðir — „en einkarekstur, enda felur rekstrarformið ekki í sér sömu hvata til árvekni og árangurs.“

Í framhaldi af þessu er í leiðara Morgunblaðsins rætt um stöðu bæjarútgerðar, m. a. í Hafnarfirði, en þar hafa staðið sem kunnugt er yfir miklar sviptingar vegna stöðu Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, og sem ekki þurfti að koma á óvart leggst höfundur leiðara Morgunblaðsins ekki á sveif með hinu félagslega rekstrarformi en lýsir sérstökum áhyggjum yfir bágri stöðu einkafyrirtækja í sjávarútvegi. Það má segja að það sé vonum seinna að þetta málgagn einkaframtaksins í landinu, aðalstuðningsblað einkaframtaksins í landinu að maður skyldi halda, skuli fyrst nú hinar síðustu vikur hafa uppgötvað hvernig þróunin hefur verið og hvernig komið er í rauninni fyrir fyrirtækjum í sjávarútvegi og þarf ekki bæjarútgerðir til til þess að sýna fram á erfiða og mjög alvarlega rekstrarstöðu hjá fyrirtækjum, oft og tíðum gömlum og grónum fyrirtækjum sem byggð hafa verið upp á áratugum en nú eru að tapa sínu eiginfé að verulegu leyti.

Þetta er í sambandi við stöðu sjávarútvegsins þó að það séu margir þættir þar sem ástæða er til að ræða betur við þessa umr. og kem ég þá frekar að því síðar.

Varðandi landbúnaðinn, en ég hef ítrekað lýst yfir áhyggjum mínum yfir þeirri stöðu sem þar ríkir, koma í dagblaðinu NT í dag fram upplýsingar sem ekki vekja bjartsýni. Ég skal ekki leggja mat á þær í einstökum atriðum, en ég gat um þær aðeins í umræðum um annað mál. Þar er um að ræða grein eftir Guðmund Stefánsson landbúnaðarhagfræðing þar sem hann dregur upp þýðingu landbúnaðarins í okkar þjóðarbúskap og útlitið í sambandi við stöðu hefðbundinna greina. Hann segir þar, með leyfi forseta, að útlit sé fyrir 13% sölusamdrátt í kindakjötssölu, sem er millifyrirsögn í hans grein, og um það segir síðan:

„Hvað varðar sauðfjárræktina, þá er útlitið mun dekkra þar. Á árinu 1984 dróst kindakjötssalan mjög saman eða sem nemur nærri 1100 tonnum. Þetta er 10% sölusamdráttur og á þessu ári er helst útlit fyrir enn meiri samdrátt eða 11–13%. Ef svo færi yrði heildarsalan nálægt 8500 tn. eða aðeins 35 kíló per íbúa. Sá sölusamdráttur sem hér um ræðir er nálægt því að svara til framleiðslu 350–400 sauðfjárbænda.

Sala annarra kjöttegunda hefur gengið sæmilega og sala svínakjöts hefur aukist verulega undanfarin ár. Sá sölusamdráttur,“ segir Guðmundur Stefánsson,

„sem við stöndum nú frammi fyrir þarf ekki endilega að vera varanlegur, en ýmislegt styður þó að varanlegar breytingar á neysluvenjum séu að verða. Að því styðja hlutir eins og sú mikla lækkun niðurgreiðslna sem orðið hefur undanfarin tvö ár og valdið hefur því að þær vörur sem niðurgreiddar hafa verið hafa hækkað í verði til neytenda langt umfram aðrar vörur.

Þá má nefna rýrnun kaupmáttar, sem óhjákvæmilega hefur áhrif á sölu búvara, samsetning þjóðarinnar hefur breyst og hlutfallsleg aukning orðið í eldri aldursflokkum. Einnig má nefna að framboð á vörum sem keppa við landbúnaðarvörur hefur stóraukist um leið og samkeppnisstaða búvara hefur veikst.

Það er því ekki ólíklegt að úr neyslu búvara dragi og hugsanlegt er að sú þróun sem orðið hefur undanfarin tvö ár sé aðeins fyrirboði þess sem koma skal.“

Ég vek athygli á því sem hér er sagt. Þetta eru vissulega dökkar horfur.

Enn fremur segir hann og víkur þá að því frv. sem er boðað, frv. til l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara:

„Miðað við þær breytingar sem boðaðar eru í frv. þarf kúm að fækka nálægt 2700 og er þá miðað við að ekki verði samdráttur í neyslunni. Þetta þýðir ca. 160 meðalframleiðendur- en fyrir hverja milljón lítra sem salan dregst saman um þarf kúm að fækka um tæp 300 og bændum um nær 20.

Ef 3% samdráttur yrði í sölu mjólkurafurða þyrftu því samtals um 220 framleiðendur að hætta, en síðan er ljóst að kynbætur munu auka nyt kúnna og það mun síðar leiða til enn frekari fækkunar.

Eins og málum er nú háttað,“ segir Guðmundur enn fremur í grein sinni, „má gera ráð fyrir að innan skamms verði að takmarka framleiðslu kindakjöts við 9000–9500 tn. Til að framleiða þetta magn við núverandi aðstæður þarf ca. 435 þús. fjár, en með fækkun fjár má gera ráð fyrir að afurðir aukist og fjárfjöldinn þyrfti þá ekki að vera nema rétt um 400 þús. — jafnvel minni.“

Ég hef hér ekki nákvæmar tölur um núverandi fjölda búfjár í landinu, en ég hygg að hann liggi ekki fjarri 800 þús. ef hann er ekki þaðan af meiri, þannig að hér er í raun um gífurlega fækkun að ræða. — Hann segir síðan um þetta:

„Við stöndum því innan tíðar frammi fyrir þeirri staðreynd að innan tiltölulega fárra ára muni bændum við hefðbundinn búskap fækka um mörg hundruð og verða e. t. v. 2004–2500, jafnvel enn færri. Þetta eru tölur sem við verðum að taka alvarlega og þetta er ekki spádómur, heldur framreikningur á stærðum sem nánast liggja fyrir. Ég hygg að fæstir hafi í raun gert sér grein fyrir hve þessi vandi, sem við er að etja í landbúnaðinum, er stór og hversu víðtæk áhrif samdrátturinn í landbúnaðinum mun hafa. Það er hætt við að ýmsir neyðist til að ganga frá eignum sínum og ekki er vafi á að heilar byggðir muni hreinlega fara í eyði. Menn eru eðlilega uppteknir og áhyggjufullir vegna þess vanda sem við er að glíma í dag. Ég er þó því miður hræddur um að vandi morgundagsins sé enn meiri — miklu meiri. Hvað er þá til bjargar? Eru einhverjar nýjar leiðir út úr vandanum?“

Og um þetta, sem snertir einmitt það mál sem hér er sérstaklega til umr., segir þessi landbúnaðarhagfræðingur m. a.:

„Ég held að við Íslendingar ættum að staldra við og líta í eigin garð. Hvað kunnum við? Er það nýtækni eins og rafeinda- og líftækni? Nei, það sem við kunnum er fyrst og fremst á sviði frumframleiðslu. Þar höfum við þekkingu og reynslu og nýsköpun atvinnulífsins á fyrst og fremst að beinast að þessum greinum. Við keppum ekki við stórþjóðirnar á almennum grundvelli í líftækni og rafeindatækni, nema þá helst í tengslum við okkar frumframleiðslu.

Undanfarin misseri hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að efla atvinnulíf sveitanna og hefja þar nýsköpun atvinnutækifæra. Ljóst er að ýmissa kosta er völ, en ég held að engum blandist hugur um að sú uppbygging sem orðið hefur í loðdýraræki, fiskirækt o. fl. er engan veginn fullnægjandi þegar litið er á þann samdrátt sem orðinn er og fyrirsjáanlegur er í hinum hefðbundna búskap.“

Síðan fjallar hann um það að mjög skorti á um pólitíska stefnumótun í landbúnaði og raunar einnig í öðrum atvinnugreinum og það megi leiða rök að því að menn hefðu þurft að búa sig fyrr í stakk til þess að mæta þeim aðstæðum sem hér blasa við. Hann dregur ekkert úr möguleikum eða gildi loðdýraræktar og fiskeldis en telur hins vegar að þessar greinar og þá sérstaklega fiskeldið komi því miður ekki til að gagnast mönnum í dreifbýli eða bændum með þeim hætti sem ýmsir hafa kannske bundið vonir við.

Það er því heldur dökk mynd sem dregin er upp í þessari grein af þessum fræðimanni sem hefur ritað talsvert um landbúnaðarmálefni á undanförnum misserum, að ég hef tekið eftir, og ég vil inna hæstv. forsrh. eftir því hvað hann segi um þær horfur sem hér eru upp dregnar, hvort hann telji að þetta sé raunsæ mynd sem þarna kemur fram og með hvaða hætti hann telji að bregðast eigi við þessum aðstæðum, hvaða ráð það eru sem ríkisstj. hefur á döfinni til þess að draga úr þeim gífurlega skelli sem hér virðist vera fram undan ef marka má forspár þessa sérfræðings sem ég vitnaði hér til og sem eru aðstæður sem bætast við annars mjög alvarlegt ástand í sveitum landsins, í hinum hefðbundnu búgreinum. Þær aðstæður eru tilkomnar, eins og í sjávarútvegi, ekki síst vegna stjórnarstefnunnar, þ. á m. stefnunnar í vaxtamálum, sem veldur því að alveg sérstaklega þrengir að þeim bændum sem eitthvað hafa þurft að leggja í fjárfestingar á liðnum árum og eiga því við mjög mikla erfiðleika að etja sem á marga lund eru hliðstæðir því sem er hjá húsbyggjendum.

Ég hef hér, herra forseti, gert grein fyrir því hvert horfa virðist í sambandi við okkar hefðbundnu greinar og ég hef líka fyrr í máli mínu rætt um hvernig á ófullnægjandi hátt hefur verið tekið á rannsókna- og þróunarstarfsemi í landinu. Ég innti hæstv. forsrh. eftir því fyrr við umr. sérstaklega hvernig ríkisstj. hygðist verja því fjármagni, um 50 millj. kr., sem aflað hefur verið heimildar til með lánsfjárlögum, og mörgum hlýtur að leika forvitni á að vita með hvaða hætti er gert ráð fyrir að nýta þessa peninga. Það hefur engan veginn verið staðið við þau markmið sem sett voru með samþykkt sérstakrar þáltill. á Alþingi í sambandi við rannsóknar- og þróunarmálefni og það er því ekki seinna vænna af hálfu stjórnvalda að reyna að bæta þar eitthvað úr.

En það er annar atvinnuvegur sem margir hafa bundið miklar vonir við og það fjölþættur atvinnuvegur, þar sem er iðnaðurinn, og að málefnum hans og horfum og ákveðnum atriðum, sem snerta stefnu núv. ríkisstj., ætla ég að víkja sérstaklega næst í máli mínu.

Það fór ekkert á milli mála við aðdraganda þessarar ríkisstj. og í tíð hinnar fyrri stjórnar að Sjálfstfl. alveg sérstaklega batt miklar vonir við að hægt væri að brjóta í blað hér í sambandi við uppbyggingu iðnaðar og þá alveg sérstaklega orkufreks iðnaðar. Þær voru ófáar ræðurnar sem haldnar voru um það hér á hv. Alþingi og utan þings einnig að ónóg væri að gert í sambandi við undirbúning á þessu sviði og gagnrýnd mjög harðlega sú stefna sem ég stóð fyrir sem iðnrh. á sínum tíma í sambandi við athugun á orkunýtingu hérlendis, en þar var farið yfir sviðið mjög vandlega og kannaðir möguleikar og þróunarhorfur í hinum einstöku greinum orkunýtingar og hvað væri hugsanlega á færi okkar Íslendinga sjálfra að ráðast í í þeim efnum, a. m. k. með þeim hætti að við hefðum þar forræði mála fjárhagslega og eins varðandi rekstur fyrirtækjanna.

Ég minnist þess að hafa verið sakaður um það á þessum árum að hafa lagst á mikla kosti sem talsmenn Sjálfstfl. töldu að hægt væri að ná út úr orkufrekum iðnaði alveg sérstaklega, virkjunum og iðnfyrirtækjum sem reistar yrðu í krafti þeirra með erlendu fjármagni samkv. stefnu meiri hl. Sjálfstfl. Nú hefur Sjálfstfl. farið með þessi mál, iðnaðarmálin, í tvö ár samfleytt og að því var látið liggja þegar fyrir kosningar að ekki mundi líða langur tími frá því að sjálfstæðismenn fengju áhrif í ríkisstj., hvað þá að þeir fengju sjálft iðnrn., uns brotið yrði í blað í þessum efnum og hlutirnir færu heldur betur að hreyfast. Þannig var það varðandi fyrirtæki sem undirbúið hafði verið og lög voru sett um í tíð fyrri ríkisstj., kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, að því var haldið fram af núv. hæstv. iðnrh. að ekki mundu líða nema þrír mánuðir eða svo frá því að Sjálfstfl. fengi áhrif á stjórn landsins að framkvæmdir yrðu hafnar við þetta fyrirtæki. Honum þótti það heldur seint ganga hjá fyrrv. ríkisstj. sem aflaði lagaheimildar fyrir þessu fyrirtæki á vordögum 1982. en þau lög voru fyrir tilverknað sjálfstæðismanna á Alþingi og raunar framsóknarmanna skilin í sambandi við frekari athuganir og heimildir af hálfu Alþingis áður en ráðist yrði í þetta fyrirtæki. Nú, tveimur árum eftir að ríkisstj. var mynduð, standa mál þannig að enn hefur ekki verið ráðist í neinar framkvæmdir við þetta fyrirtæki og engar ákvarðanir hafa verið teknar, að því er upplýst hefur verið, um hvenær ráðist verði þar í framkvæmdir eða með hvaða hætti. Það hefur beinlínis komið fram að fullkomin óvissa ríki um hvenær til framkvæmda komi og jafnvel verið látið í veðri vaka að óvissa geti ríkt um að ráðist verði í fyrirtækið því það hefur verið margítrekað af núv. hæstv. iðnrh. að slíkt verði ekki gert nema til þátttöku fáist erlendir samstarfsaðilar og það helst aðilar sem vilji taka við rekstri fyrirtækisins alls sem eignar- og ábyrgðaraðilar.

Í mikla fyrirhöfn hefur verið lagt og mikil leit hefur farið fram til að laða erlenda aðila til samstarfs um kísilmálmverksmiðju og ég veit að hæstv. forseti sem hér situr í stóli nú þekkir það mál betur en flestir aðrir, en fram hefur komið ítrekað, þegar leitað hefur verið frétta um þetta mál, að ekki hafi tekist að laða fram á þeim skilmálum sem núverandi stjórnvöld hafa sett aðila til þátttöku í þessu fyrirtæki. Það var raunar tekið inn í stjórnarsamninginn upphaflega, núv. ríkisstj., í sambandi við þetta mál að nýjum aðilum skyldi verða gefinn kostur á eignaraðild í kísilmálmvinnslunni og lögin sjálf kveða raunar á um að íslenska ríkið skuli eiga 51% . Það er skilyrði samkv. gildandi lögum, en að öðru leyti gert ráð fyrir þeim möguleika að aðrir aðilar geti orðið meðeigendur í fyrirtækinu. Allur undirbúningur þessa máls var við það miðaður að Íslendingar ættu þetta fyrirtæki. Það var metið svo í minni tíð sem ráh. og ég hef ekki breyt um skoðun á því, hvað snertir fjárfestingu og einnig hvernig háttað er öflun hráefna og markaðsfærslu, að það sé fyllilega á færi Íslendinga einna að veita því forstöðu og forustu alla, ekki stærra fyrirtæki en þetta, þar sé ekki tekin of mikil áhætta þó að ég hljóti að viðurkenna að það er auðvitað alltaf matsatriði í sambandi við stórfyrirtæki hvaða áhættu beri að taka af ekki stærri þjóð en okkur Íslendingum.

En því ræði ég um málefni þessa fyrirtækis að undirbúningur allur lá fyrir við stjórnarmyndunina. Þegar núv. ríkisstj. var mynduð var allur undirbúningur fyrirliggjandi og búið að ganga frá og undirbúa mjög hagstæða bindandi samninga um kaup á vélbúnaði og öðrum búnaði fyrir þetta fyrirtæki og halda þeir samningar raunar gildi sínu til loka þessa árs.

Þetta fyrirtæki, býsna stórt á íslenska vísu, hefði getað orðið verulegur búhnykkur fyrir okkur Íslendinga miðað við að þær forsendur standi sem menn hafa lagt í sambandi við áætlanir þar að lútandi. Það er því mjög miður, að mínu mati, að ekki hefur orðið úr framkvæmdum á grundvelli gildandi laga um fyrirtækið. Þetta varðar íslenskan þjóðarbúskap í heild sinni, en þetta varðar auðvitað alveg sérstaklega þann landshluta þar sem ráðgert var að stofna til þessa fyrirtækis og raunar lögfest, þ. e. á Reyðarfirði. Þannig var líka á málum haldið á undirbúningsstigi varðandi kísilmálmverksmiðju að sérstaklega var til þess hugsað að unnt væri að nýta þá verulegu fjárfestingu sem þarna er á ferðinni til þróunar í öðrum greinum iðnaðar, þ. e. að við Íslendingar gætum orðið þátttakendur í uppbyggingu fyrirtækisins í eins ríkum mæli og frekast væri unnt og réttlætanlegt væri út frá kostnaðarlegum sjónarmiðum. Það var lögð í það veruleg vinna á árunum 1980–1983 og alveg sérstaklega 1981–1982 að fara ofan í saumana á þessum möguleikum, bæði gagnvart fyrirtækjum á landinu öllu, en einnig varðandi hugsanlega þátttöku manna sem nálægt fyrirhugaðri verksmiðju búa í uppbyggingu hennar.

Því nefni ég þetta að ég tel að fjárfestingar af þessu tagi og stór verkefni af þessu tagi, sem aldrei geta orðið mörg á stuttum tíma miðað við smæð íslensks þjóðarbúskapar séu kannske ekki síst réttlætanleg ef þess er gætt að slík, fjárfesting verði lyftistöng fyrir annan iðnað í landinu, að aðrar greinar iðnaðar, í þessu tilviki málmiðnaður og rafiðnaður, geti orðið þátttakendur í slíkri uppbyggingu og byggt sig upp samfara henni til átaka á öðrum sviðum. Ég nefni í þessu sambandi sem ágætt fordæmi þau tök sem Norðmenn hafa tekið á sínum málum í tengslum við olíuiðnaðinn þar sem þeir hafa með mjög skipulegum hætti náð meiri hluta af fjárfestingunni inn í eigið land sem verkefni fyrir inniendar eða þarlendar iðngreinar. Síðast þegar ég vissi var staðan sú að um 60% af fjárfestingu í olíuiðnaði voru heimafengin hjá Norðmönnum, en þannig var það ekki í byrjun. Og þetta hefur ekki gerst fyrir neina tilviljun, heldur í krafti markvissrar stefnu sem við getum vel flokkað undir nýsköpun, heyrir undir það hugtak og þá hugsun sem talað er fyrir í sambandi við það frv. sem hér er til umr.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. eftir því í fjarveru iðnrh. hvort hann geti upplýst nokkuð hvað snertir málefni þessa fyrirtækis, Kísilmálmvinnslunnar hf., kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, hvort það sé nokkrar nýjar fregnir að færa í sambandi við væntanlegar framkvæmdir við það fyrirtæki og alveg sérstaklega spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann sé fylgjandi því að ráðist verði í þetta fyrirtæki hugsanlega af útlendingum sem meirihlutaeigendum.

Ég hef satt að segja verið mjög undrandi á því að ekki skuli hafa komið fram af hálfu þingflokks og framsóknarmanna í ríkisstj. fyrirvarar við þær hugmyndir, sem hæstv. iðnrh. hefur haldið mjög á loft, að reynt yrði að koma þessu fyrirtæki alfarið í hendur útlendinga. Ég hafði litið svo til að slíkt samræmdist ekki stefnu hins stjórnarflokksins og þess hefur hæstv. iðnrh. raunar stöku sinnum getið þegar hann hefur rætt þessi mál, en engu að síður hefur hæstv. iðnrh. margoft lýst þeirri stefnu sinni að vilja koma þessu fyrirtæki helst alfarið í hendur útlendinga. Því spyr ég hæstv. forsrh. þeirrar spurningar hvort hann mundi fallast á slíkt ef í boði væri og erlendir aðilar fyndust sem vildu taka við þessu fyrirtæki. Ég hef litið svo til að það samrýmdist ekki samþykktum Framsfl. í sambandi við uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu, sem nú er raunar mun minna talað um en gert var á árum áður, og það hefur vissulega dregið úr umtali um orkufrekan iðnað og erlenda stóriðju einnig af hálfu Sjálfstfl. vegna þess að þær óskir og sá málflutningur sem þeir héldu uppi í þessum efnum hafa í reynd ekki gengið eftir.

Það hefur í raun ekkert gerst á þessu sviði iðnaðar í landinu frá því að núv. ríkisstj. tók við völdum. Það hefur ekki verið um að ræða neina nýja fjárfestingu og ekki vitað til þess að neinum stoðum hafi verið rennt undir ný fyrirtæki þar umfram það sem undirbúið hafði verið og ákveðið í tíð fyrri ríkisstj. Þeir sem hafa efasemdir uppi um möguleika í þessum greinum, og það oft með réttu, geta út af fyrir sig fagnað því að ekki hefur verið gengið geystar fram í þessum efnum en raun ber vitni, að í rauninni hefur þar ekkert gerst af hálfu stjórnvalda, og alveg sérstaklega getum við Alþb.menn fagnað þeirri stöðu miðað við þá stefnu sem hæstv. iðnrh. hefur haft í sambandi við erlenda stóriðju. Þó hefur hann ekki vantað viljann í þeim efnum því mikið hefur verið á sig lagt til að ná þarna fram ákvörðunum í gegnum og í samvinnu við erlend stórfyrirtæki, þá fremst í flokki Alusuisse í sambandi við þá ósk ríkisstj., sem raunar var fram komin á vegum Sjálfstfl. áður en ríkisstj. var mynduð, að ráðist yrði í verulega stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík, raunar talað þar um tvöföldun á því fyrirtæki.

Það hefur hins vegar, sem betur fer, ekki gengið eftir því að ég tel að fátt væri óráðlegra miðað við allar aðstæður í íslenskum þjóðarbúskap en að ætla að hleypa af stað þeirri stækkun sem gert var ráð fyrir samkv. bráðabirgðasamkomulagi sem ríkisstj. gerði við Alusuisse í septembermánuði 1983. Það hefur hins vegar ekki vantað viljann, eins og ég gat um, af hálfu hæstv. iðnrh. í þessu efni og lengi vel var reynt að láta lita svo út sem þessi ósk, þessi draumsýn um stækkun álversins í Straumsvík um 50% til að byrja með og síðan um 100% væri nánast að verða að veruleika. Þegar um þessi efni var spurt nú ekki alls fyrir löngu hér á Alþingi varð hins vegar minna um svör af hálfu hæstv. iðnrh. en margir hefðu líklega búist við. Í rauninni gerði hann þó ráð fyrir þar samkvæmt því sem stendur í þingtíðindum að gera mætti ráð fyrir því að fyrsti raunverulegi samningafundurinn um stækkun álversins gæti hafist „í lok þessa mánaðar“. Þar var um að ræða maímánuð sem nú er liðinn því svar hæstv. ráðh. var gefið þann 14. maí s. l. Ég hef hins vegar ekki heyrt neitt af slíkum samningafundi um stækkun álversins í Straumsvík og hefur þó yfirleitt ekki verið legið á því að greina frá vonum og horfum í því efni.

Það hefur greinilega dofnað mjög verulega yfir þessu máli frá því í aprílmánuði að Morgunblaðið hafði það eftir hæstv. iðnrh. að hann gerði ráð fyrir að unnt væri að ganga frá samningum um 50% stækkun álversins fyrir mitt þetta ár og ríkisstj. sá sérstaka ástæðu til að taka upp í frv. til lánsfjárlaga sérstaka viðbótarheimild fyrir Landsvirkjun upp á 82 millj. kr. til að heimila slíka stækkun og herða á virkjunarframkvæmdum í þágu hennar á seinni hluta þessa árs. Hæstv. iðnrh. upplýsti það sérstaklega í þessu samhengi að um væri að ræða sérstakt fjölskyldurennilásafyrirtæki í Japan sem gert væri ráð fyrir að yrði þátttakandi í þessari stækkun með Alusuisse, en sem kunnugt er er verið að leita að þriðja aðila sem þátttakanda í þessari stækkun, þ. e. þriðja aðila til viðbótar við Alusuisse og Íslendinga. Þriðji aðilinn hefur hins vegar, að því er fram hefur komið, aðeins fundist á pappírnum og í yfirlýsingum hæstv. iðnrh. því ekkert hefur enn gengið eftir í þessum efnum og ekki er vitað til þess að neinar raunverulegar samningaviðræður séu hafnar af hálfu Alusuisse við væntanlegan þriðja aðila um þessa stækkun.

Horfurnar eru því í þessu efni allt aðrar en ríkisstj. hafði ætlað sér samkv. því samkomulagi sem hún stóð að þegar haustið 1983 og sem enn var ítrekað með sérstöku bréfi og bókun í sambandi við samninga sem undirritaðir voru 5. nóvember s. l. og lögfestir síðan í lok nóvembermánaðar s. l. Það fylgdi því þeirri samningsgjörð, sem haldið var á með þeim hætti, að í stað þess að gera málin upp í heild sinni við Alusuisse var aðeins tekið á hluta af dæminu sem kunnugt er, samið um hækkun á raforkuverði til fyrirtækisins upp í 12.5 mill að lágmarki og slakað til í skattamálum gagnvart fyrirtækinu í fjölmörgum greinum til stórfellds tjóns fyrir íslenska hagsmuni, en skilinn eftir einn stór þáttur í deilumálum við fyrirtækið, þ. e. breyting á fyrirkomulagi skattlagningar ÍSALs sem var þó eitt af þeim atriðum sem ákveðið var með bráðabirgðasamkomulagi frá 23. sept. 1983 að gengið skyldi frá í einum pakka. Áformin voru þau að ganga frá þessum málum öllum í einum pakka. En hinum slynga mótaðila íslensku ríkisstjórnarinnar, Alusuisse, tókst á miðju síðasta sumri að gerbreyta afstöðunni sér í vil í þessu stóra máli og fá íslenska samningamenn og síðan íslensk stjórnvöld til að skipta pakkanum og skilja eftir skattamálin, spurninguna um breyttar skattareglur, sem ákveðið hafði verið að taka fyrir, og einnig stækkunina á álverinu.

Þessi niðurstaða, sem innsigluð var í nóvember með samningunum sem samþykktir voru af meiri hl. á Alþingi, voru auðvitað mikil ótíðindi fyrir okkur Íslendinga og hefur sýnt sig í framhaldinu að ekkert hefur gengið eftir af því sem um var talað að ætti að rætast á næstu mánuðum á milli aðila. Þannig var það bókað sérstaklega að gert væri ráð fyrir því að ljúka samningum varðandi skattamálefni fyrir 1. júní á þessu sumri, 1. júní sem nú er liðinn án þess að nokkur samningafundur hafi átt sér stað um þau efni, en aðeins sérfræðingar hist til þess að bera saman bækur sínar.

Stækkunin er sem sagt úti í vindinum. Það er ekki farið að hilla undir hana við sjóndeildarhring, ekki einu sinni samningslega, og guð láti á gott vita, stendur þar. Sannarlega harma ég ekki þá stöðu sem þar er uppi. En því er ég að rekja þessi efni hér og ræða að hér er um einhver stórfelldustu áform að ræða í sambandi við fjárfestingar í tengslum við íslenskan þjóðarbúskap sem uppi eru meðal stjórnvalda, langsamlega stórfelldustu áform og áform sem vega þungt inni í íslenskan þjóðarbúskap því að þó að fjármagnið í stækkun verksmiðjunnar yrði erlent að öllu leyti verða áhrifin samt að koma inn í íslenskan þjóðarbúskap, þensluáhrif sem slíkum fjárfestingum fylgja, og að sjálfsögðu hinn hluti dæmisins, fjárfestingin í virkjunum sem til þarf, og þar er áhættan sannarlega ekki minni en í iðnaðinum eins og dæmin sanna í módelinu Straumsvík/Búrfell á liðinni tíð þar sem Íslendingar hafa farið halloka varðandi viðskipti svo að skiptir stórfelldum upphæðum og dæmið er jafnað með því að sækja það sem á vantar í vasa íslensks almennings og íslenskra atvinnurekenda í mun hærra og síhækkandi orkuverði sem við gefum með þessu fyrirtæki. Það er því ástæða til að vara enn sterklega við þessum áformum í fyrirætlunum ríkisstj., áformum sem hún að líkindum flokkar undir nýsköpun í atvinnulífi.

Það mætti sannarlega margt um þau efni segja. Það er t. d. vert að rekja það aðeins í tengslum við þetta mál hvernig þróunin á þeim fáu mánuðum sem liðnir eru frá því að endurskoðaðir samningar við Alusuisse voru ræddir hér á Alþingi í nóvember s. l., hvernig forsendurnar sem þar voru lagðar fram hafa breyst eða réttara sagt ekki gengið eftir varðandi þann þátt sem menn töldu af hálfu ríkisstj. helstu réttlætingu þessara samninga um hækkun raforkuverðsins. Þar var því haldið fram að gera mætti ráð fyrir að raforkuverð til álversins hækkaði í nær 14 mill á þessu ári. Í áætlunum Landsvirkjunar fyrir þetta ár var gert ráð fyrir því að meðalverð, sem álverið greiddi á árinu 1983, yrði 13.8 mill. Þeir höfðu nú dregið úr þessu þegar kom fram í aprílmánuð, meðan verðið stóð enn í 12.5 mill, dregið úr því svo og breytt áætlunum og miðað við að meðalverðið á árinu yrði aðeins 13.2 mill eða réttara sagt að verðið yrði fyrst undir árslok komið upp í 13.2 mill, eftir því sem ég hef skrifað hjá mér á ársfundi Landsvirkjunar þann 18. apríl 1985. Það verður sannarlega fróðlegt að fylgjast með því hvernig þróunin verður hvað snertir þá þætti sem settir voru fram sem aðalréttlæting þess að þessir samningar voru gerðir og voru réttlættir og sumir stjórnarliðar dregnir að því er virtist sárnauðugir til fylgilags við þessa samningsgerð. Slík áform, sem uppi eru um að tvöfalda umsvif Alusuisse hér á landi og annarra auðhringa sem þeim tækist að lokka til samstarfs með sér um stækkun álversins, sem enn eru ekki komnir fram í dagsljósið, eru svo viðsjárverð, miðað við aðra þróunarmöguleika í íslenskri atvinnuuppbyggingu, að um það væri hægt að hafa hin sterkustu orð.

Hvað halda menn að það þýddi ef þessar óskir ráðamanna gengju eftir og nú væri t. d. að hefjast stækkun álversins í Straumsvík um 50%? Hvaða áhrif skyldi það nú hafa á aðrar atvinnugreinar í landinu, á viðhorf fólks sem er að leitast við að halda það út í láglaunastörfum í frumvinnslugreinum vítt um landið, í fiskiðnaði þar sem menn hafa tæplega til lífsframfæris þó að lögð sé nótt við dag, svo lágt er kaupið í þessum greinum? Hvaða áhrif skyldi það hafa á bændurna sem eru nú margir hverjir að leita eftir tækifæri til þess að komast frá jörðum sínum eftir að búið er með stjórnarstefnunni að halda þannig á málum hinna hefðbundnu greina í landbúnaði að við mörgum blasir ekkert annað en gjaldþrotið eitt? Það er hætt við því að umsvif fjárfestingar í Straumsvík við 50% stækkun álbræðslunnar yrðu til þess að ýta undir þessa aðila að stíga nú skrefið og koma hérna suður, reyna að koma undir sig fótum á nýjum slóðumpar sem betra væri í boði. Er það þetta sem aðstæður á Íslandi kalla á? Eru það umsvif í atvinnulífi af þessu tagi hér við Faxaflóa?

Við höfum einmitt verið að ræða hér byggðamál, málefni Byggðastofnunar, og þar hafa komið fram áhyggjur okkar út af stöðu mála. Það voru ekki dregnir inn í þá umræðu sem vert hefði verið þeir þættir sem ég er nú að nefna, þær stórframkvæmdir sem þarna eru til umræðu. Og þrátt fyrir þetta er einnig bætt við umræðum sem nú standa yfir við Elkem um möguleika á því að það gerist meðeigandi í kísilmálmvinnslu, ekki á Reyðarfirði heldur hér við Faxaflóa, þ. e. að koma fótum undir slíkan rekstur, standa að slíkum rekstri sem viðbót við verksmiðjuna á Grundartanga. Þetta eru atriði sem virðast vera rædd af alvöru hjá núv. ríkisstj. og maður spyr: Er mönnum sjálfrátt sem þannig standa að málum?

Morgunblaðið lætur af því að hina síðustu daga ríki gott andrúmsloft á fundum Íslendinga og Alusuisse þó að ekki megi ráða hvort þar sé stækkunin á ferðinni nema í litlu sé. En ekki sér þó fyrir endann þar á neinni samningsgerð, ekki heldur í sambandi við skattamálin margumræddu. Nei, það er sannarlega ekki nýsköpunarstefna sem felst í aukinni erlendri stóriðju á Íslandi. Það ætti reynslan af álverinu í Straumsvík að vera búin að sanna mönnum. Þar var því haldið fram í upphafi að margt mundi upp spretta í tengslum við þetta stórfyrirtæki, nýjar greinar, úrvinnsla, aukin tækni og þróun í öðrum greinum iðnaðar. Nánast ekkert hefur gengið eftir í þessum efnum. Og það er nákvæmlega sama gatan í iðnþróun sem hæstv. iðnrh. vill feta með þeirri stefnu sem hann mælir fyrir, aukinni erlendri stóriðju hérlendis. Það er ekki minnsta viðleitni svo að vitað sé af hálfu íslenskra stofnana á vegum iðnrn. eða annarra til þess einu sinni að gera íslenskan iðnað hlutgengan eða þátttakanda í þessari uppbyggingu erlendrar stóriðju og með því þá nánast bitið höfuðið af skömminni.

Það er langt frá því að þeir sem með málefni iðnaðar fara og það sem honum tengist hafi haldið þannig á málum í tíð núv. ríkisstj. að það veki von um að í iðnaðinum komi sú nýsköpun sem þyrfti til þess að sjá þeim fjölmörgu ungu Íslendingum fyrir störfum sem koma inn á vinnumarkaðinn á næstu árum, enda er það svo að það er ekki ástæða til að gæla við þá hugsun lengi að það verði stóriðjan sem leysi þann vanda. Það eru lítt sjáandi menn sem hafa horft til hennar á liðnum árum sem lausnarorðsins, hins helsta lausnarorðs í íslenskri atvinnuuppbyggingu, en sá var lengi málflutningur talsmanna Sjálfstfl., alveg fram á síðustu ár. Hæstv. iðnrh. situr nú með sárt ennið, það sárt að hann er hættur að hafa yfir lestur af því tagi sem heyra mátti hér fyrir fáum misserum. Hann er þó farinn að átta sig á því að ekki er allt sem sýnist í þessum efnum og ekki munu allar óskirnar rætast. Þó að hann hafi lofað Eyfirðingum fyrir einu ári og þrem mánuðum betur einu stykki álveri innan tíðar til þess að leysa þeirra vanda er flestum orðið ljóst að þar var um að ræða hókus pókusmálflutning sem ekkert lá að baki í rauninni og síst er til þess fallinn að beina mönnum inn á úrlausn annars brýnna vandamála í atvinnumálum byggða við Eyjafjörð.

Það er á allt öðrum sviðum iðnaðar sem þess er að vænta að okkur reynist unnt að fjölga atvinnufærum á komandi árum. Það er fyrst og fremst í uppbyggingu smáfyrirtækja í iðnaði, smáfyrirtækja a. m. k. á afþjóðlegan mælikvarða og jafnvel á íslenskan mælikvarða, og vissulega er það slík atvinnuuppbygging sem fellur mun betur að byggðamynstri en uppbygging stórfyrirtækjanna. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar að það væri réttlætanlegt fyrir okkur Íslendinga að gera ráð fyrir fjölþættri iðnþróun, gera ráð fyrir uppbyggingu nokkurra en ekki margra stórfyrirtækja sem væri á okkar eigin færi að reisa og standa fyrir, en þess yrði þá jafnframt gætt að slík fyrirtæki tengdust öðrum iðnaði í landinu og staðsetningu þeirra yrði þannig háttað að þau yrðu liður í skynsamlegri byggðaþróun í landinu, þ. e. að þau risu ekki á aðalþéttbýlissvæði landsins við Faxaflóa nema þá í undantekningartilvikum. Slík fjárfesting yrði notuð sem liður í byggðaþróun. Sama var uppi á teningnum í tíð síðustu ríkisstj. þegar farið var yfir þessi mál varðandi virkjanir og þar sem það tókst í fyrsta sinni í rauninni að ná landi í sambandi við ákvörðun um uppbyggingu allstórrar virkjunar utan Suðurlands. Að baki þeirri stefnu var bæði öryggissjónarmið, vissulega öryggissjónarmið í sambandi við orkuöflun, en einnig sú hugsun að dreifa slíkum virkjunum á einstaka landshluta til að tryggja orkuafhendingu utan Suður- og Suðvesturlands þar sem flestar virkjanirnar voru fyrir.

Ég vitnaði fyrr í máli mínu, herra forseti, til orða Vilhjálms Lúðvíkssonar sem hann viðhafði á aðalfundi eða ársfundi Rannsóknaráðs ríkisins 8. og 9. febrúar s. l. Vilhjálmur ræddi þar einmitt þau efni sem ég hef verið hér að gera að umtalsefni og dró þau saman með skilmerkilegum hætti og ég vildi, með leyfi forseta, fá að vitna hér til nokkurra þátta úr máli hans þar sem hann dregur saman svör við spurningunni „Hvað er fram undan?“

„Í því samfélagi smáfyrirtækja og smástofnana sem hér ríkir,“ segir Vilhjálmur, „og vegna hinna fjölmörgu verkefna sem sjálfstætt þjóðfélag þarf að fást við er brýnni nauðsyn hjá okkur en flestum öðrum að leita okkar eigin aðferða til að samhæfa kraftana og ná a. m. k. hluta af þeim styrk sem aðrir fá af stærð sinni. Ég vísa aftur til þess sem ég sagði hér á undan um forsendur samkeppnishæfni í nútíma tækniþjóðfélagi þar sem álit færustu manna er að hinn mannlegi þáttur, hæfileiki til aðlögunar, góð menntun og framar öllu öðru góð stjórnun á flóknu samspili tækni, fjármagns og markaðar verði ráðandi. Í þessu sambandi vil ég nefna nokkur atriði sem ég held að skipti miklu í þróun okkar samfélags á komandi árum.

1. Koma þarf á nýrri tegund samskipta milli samtaka atvinnulífsins, launþega og atvinnurekenda og þess opinbera um markvissa sókn eftir aukinni framleiðslu og framleiðni í þjóðfélaginu. Slík samvinna getur aðeins grundvallast á samkomulagi um réttláta skiptingu þess afraksturs sem verða kann af aukinni framleiðni og framleiðslu. Það er mál til komið að hætt verði að rífast um skiptingu á minnkandi köku og að atorka manna fari í það að auka það sem til skiptanna er,“ segir Vilhjálmur Lúðvíksson.

„2. Breyta þarf tímaviðmiðun ákvarðana í þjóðfélagi okkar þannig að horft sé fram á við, sett skýr og skiljanleg markmið og kraftarnir sameinaðir að því að vinna að slíkum markmiðum.“

(Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Ég gæti, virðulegi forseti, reiknað með að vera vel hálfnaður með mitt mál eða svo. (Forseti: Það er ætlun forseta að ljúka þessum fundi nú. Við höfum verið á fundi núna í Nd. í ellefu klukkustundir og samtals hefur þingið verið að störfum tólf og hálfa stund, virðist mér. Það er ætlun forseta að þessum fundi ljúki nú.) Já, virðulegi forseti. Alls ekki hef ég á móti því þó ég gæti vissulega haldið áfram máli mínu. Ég verð fúslega við þeim tilmælum forseta. Mér finnst það skynsamlegt út af fyrir sig, miðað við að ljóst er að menn ætla að halda þinghaldi áfram í sumar, að dreifa störfum með skynsamlegum hætti milli daga og get látið máli mínu lokið í bili.