14.06.1985
Efri deild: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6565 í B-deild Alþingistíðinda. (5918)

532. mál, útvarpslög

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Undir tvíhjólaðan vagn ríkisstj. er nú komið þriðja hjólið og kemur sér ekki illa þar sem eiginlega má segja að sprungið sé á öðru og orðið lint í hinu ef miðað er við hvernig stjórnarflokkarnir koma almenningi fyrir augu núna. En hv. þm. Bandalags jafnaðarmanna eiga alla mína samúð óskipta. Það versta sem hægt er að gera þeim er að biðja þá að reyna að skýra út stjórnkerfishugmyndir sínar. Ég bað reyndar ekki um þá skýringu. Hún kom óumbeðið af öðru tilefni. Það er nefnilega með ýmsar hugmyndir þessa ágæta flokks sem hann hefur sett á oddinn eins og ágætur maður eitt sinn sagði þegar honum var bent á að tilteknar tillögur væru ekki framkvæmanlegar: Ég veit það, en þetta hljómar vel.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum 1983 voru fulltrúar Bandalags jafnaðarmanna beðnir að skýra hugmyndir sínar um frjálst fiskverð. Það var ekki hægt. Það kom ekki nein skýring. Stjórnkerfishugmyndirnar eru byggðar á misskilningi á franska stjórnkerfinu. Það er heldur ekki hægt, a. m. k. ekki með skaplegum hætti, að skýra þetta. Þetta er allt saman einn misskilningur frá upphafi til enda. Það er leiðinlegt til þess að vita að menn skuli halda uppi löngu málrófi um tillögur sem fá ekki staðist þegar þær eru skoðaðar ofan í kjölinn. En það verður hver að eiga um það við sig og sína samvisku.

Ég sé ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að hafa um þetta fleiri orð að sinni.