14.06.1985
Efri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6573 í B-deild Alþingistíðinda. (5926)

456. mál, Byggðastofnun

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Um það frv. sjálft sem hér liggur fyrir er það að segja að það er skoðun mín að hér sé á ferðinni endurbót á gildandi fyrirkomulagi. Ég verð að viðurkenna það að ég hef stundum verið nokkuð efins um ágæti Framkvæmdastofnunar og talið að koma mætti þeim verkefnum sem þar eru leyst betur fyrir annars staðar eða með öðrum hætti. Allt um það álít ég þó að hér sé stigið skref í rétta átt. Það hefur verið mikið um þetta fjallað í allan vetur og menn hafa svo sem ekki verið á eitt sáttir. Ég býst við að það hafi ekki farið algerlega fram hjá hv. þm. stjórnarandstöðunnar hvað hér var í fæðingu þó að sumir telji að það hafi komið þeim mjög á óvart og í opna skjöldu nú síðast.

Á þskj. 1294 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds að bera fram till. um það að heimilt sé að Byggðastofnun skuli staðsett á Akureyri. Svipuð till. en ákveðnari, það eru nánast fyrirmæli, var felld í Nd. nýskeð. En við höfum nú sýnt það í þessari hv. deild að við erum algerlega óháðir því sem þeir gera í neðra, enda miklu sjálfstæðari menn að sjálfsögðu. Ef svo ólíklega færi að þessi till. yrði felld hér, þá get ég alltaf síðar flutt brtt. um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um staðsetningu Byggðastofnunar. Þannig væri hægt að komast hjá því að taka óvinsæla afstöðu þó menn langaði gjarnan til þess. Sérstaklega býst ég við að það eigi við um landsbyggðarþingmenn og stuðningsmenn ríkisstj.

Það virðist vera hafður uppi töluverður áróður um að allt efnahagslíf leggist í rúst ef þessi starfsemi fer af Rauðarárstígnum. Ég er aftur á móti sannfærður um það að þessi ófriður um Byggðastofnun verður hvað best kveðinn niður með því að staðsetja stofnunina utan Reykjavíkur. Sennilega væri þó best að hún væri á frekar afskekktum stað til þess að starfsmenn fengju starfsfrið. En hvað um það, allir hljóta að sjá að stofnun sem hefur það hlutverk fyrst og fremst að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu hlýtur að vera betur staðsett utan Reykjavíkur, á stað þar sem auðvelt er að greina byggðavandamál jafnt strjálbýlis og þéttbýlis. Einmitt slíkur staður er Akureyri. Allir landsbyggðarþingmenn hljóta að styðja það að Byggðastofnun hverfi af Rauðarárstígnum og út á land. Ég mun reyna að skýra það hér á eftir hvaða kosti Akureyri hefur umfram aðra staði úti á landi.

Það er þá fyrst að samgöngulega séð er Akureyri með beinu flugi til Ísafjarðar, Egilsstaða og Reykjavíkur auðvitað þægilegasti staðurinn og ég treysti því að þeir hv. þm. utan af landi, sem ekki eru svo heppnir að vera fulltrúar Norðurlands eystra, geti samþykkt þessi rök og stutt till. þess vegna. Þeir munu ekki sjá eftir því. Margir hv. þm. þéttbýlis af suðvesturhorninu hafa lengi haft horn í síðu Framkvæmdastofnunar og þeirrar starfsemi sem þar fer fram og viljað þá starfsemi feiga. Þessir sömu hv. þm. hljóta að vera hlynntir því að sá blóraböggull, sem þeir hafa séð í starfsemi þeirri sem fram fer í Framkvæmdastofnun, sé a. m. k. ekki daglega fyrir augunum á þeim. Sömuleiðis geta þeir þm. sem af hugsjónaástæðum vilja peningastofnunina Byggðasjóð feiga en áframhald áætlunarstarfseminnar, ekki haft neitt á móti því að sú starfsemi fari fram annars staðar. Það eru meira að segja vissar líkur til þess að þingkjörin stjórn væntanlegrar Byggðastofnunar yrði síður háð pólitísku valdi, þ. e. óháðari pólitískum ríkisstjórnum. Það gæti t. d. orðið minna eftirsótt eða eftirsóknarvert fyrir þm. að sitja í stjórn Byggðastofnunar ef hún er staðsett fyrir norðan. Það er sem sagt mjög margt sem mælir með því, séð frá mörgum sjónarhólum, að Byggðastofnun sé utan Reykjavíkur og að öllum stöðum ólöstuðum hlýtur Akureyri að vera ákjósanlegasti staðurinn.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara mörgum orðum um öll þau meðmæli ytri aðstæðna, umhverfis og þess háttar, sem Akureyri hefur með sér fyrir reyndar hvaða stofnun sem er. Fyrir þá sem sjá ofsjónum yfir velgengni Akureyrar umfram aðra staði á landsbyggðinni er rétt að hyggja að því að jafnvægi í byggð landsins verður hvað best tryggt með því að efla mótvægi við segulpólinn Reykjavík. Milli tveggja segulpóla myndast jafnan segulsvið krafta sem eru í jafnvægi hvor við annan. Tveir segulpólar á Íslandi sjálfu mundu skapa slíkt kraftajafnvægi innanlands. Pólar eru alltaf tveir og svo gæti farið, og vera má að þess gæti nú þegar, að póllinn til mótvægis við Reykjavík lægi erlendis og kraftarnir toguðu jafnt þangað.

Eins og sást í hv. Nd. þá er þetta mál ekki flokkspólitískt. Þar að auki er hér aðeins um að ræða heimild fyrir stjórn stofnunarinnar að setja sig niður utan Rauðarárstígs. Hæstv. forsrh. virtist mér á köflum, á vissum tímum a. m. k., vera málinu meðmæltur, en að mér skildist greiddi hann þó atkvæði gegn því þegar það kom til atkvæðagreiðslu. Það er sem sagt engin sérstök hætta fyrir hv. stjórnarþingmenn að styðja þetta mál.