14.06.1985
Efri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6576 í B-deild Alþingistíðinda. (5928)

456. mál, Byggðastofnun

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Hér er búið að mæla fyrir frv. til laga um Byggðastofnun. Það er hluti af frumvarpapakka sem hæstv. ríkisstj. flytur á þessu þingi og er látið að því liggja í athugasemdum við frv. að hér sé á ferðinni málatilbúnaður sem hafi orðið að fara fram vegna samkomulags milli stjórnarflokkanna. Er þar vitnað í hluta samkomulags frá s. 1. hausti þar sem sagt er: „Sett verði á fót sjálfstæð og öflug byggðastofnun sem stuðli að jafnvægi í byggð landsins.“

Þegar stjórnvöldum hefur mistekist í nokkra áratugi að stuðla að varanlegu jafnvægi í byggð landsins, þá kemur ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og finnur upp hjólið, þ. e. byggðastofnun sem eigi að vera sjálfstæð og öflug og stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það er rétt eins og þessir menn hafi ekki verið í pólitík sumir hverjir um áratugaskeið. Það er eins og þeir átti sig ekki á því að það sem fyrst og fremst hefur áhrif á byggðastefnu og jafnvægi í byggð landsins eru almennar aðgerðir ríkisvalds. Og ekki bara almennar aðgerðir ríkisvalds heldur aðgerðir stórra hópa, félagasamtaka. Þar á ég við atvinnurekendur og launafólk. Aðgerðir þessara hópa, ásamt með aðgerðum ríkisvalds, hafa miklu, miklu meiri áhrif á jafnvægi í byggð landsins heldur en einhver stofnun inni við Rauðarárstíggetur nokkurn tíma haft. Sannast sagna tek ég alveg undir það sjónarmið sem að nokkru leyti kom fram í máli hv. 5. landsk. þm. Hér erum við fyrst og fremst að tala um einhvers konar nafnabreytingu, skiltaflutning inni á Rauðarárstíg sem ekki kemur til með að hafa mikil áhrif raunverulega á afkomu fólks í landinu, aðstöðu þess eða það sem kallast jafnvægi í byggð landsins, heldur er hér nánast örvæntingarfull tilraun á ferðinni um einhvers konar samkomulag innan stjórnarinnar, sem endar í því til þess að allir verði sáttir að núverandi bákni er skipt upp milli valdaherranna þannig að nógu margar stöður skapist. Það er í raun og veru alveg tómt mál að tala um sértæka eða altæka byggðastefnu þegar þessum málefnum er stjórnað með þeim hætti, og miklu stórvirkari hætti af ríkisstj. heldur en stofnun eins og þessi getur nokkurn tíma, hvort sem maður hugsar sér að unnið væri á móti aðgerðum stjórnvalda með þeim hætti að aðstaða fólks úti á landsbyggðinni, eða þá í Reykjavík, verði bættari.

Þegar athugaðir eru eiginleikar þessarar stofnunar eins og frv. lýsir þeim þarf ekki lengi að lesa til þess að átta sig á því að það eina sem hefur raunverulega breyst er það að Byggðasjóður er kominn undir sömu stjórn og byggða- og áætlunardeild Byggðastofnunar og að komið verður upp sjö manna stjórnunarapparati þar, sem þó var látið nægja áður fyrir Framkvæmdastofnun alla. Og meðferð Byggðastofnunar þessarar nýju á Byggðasjóði verður nákvæmlega með sama hætti og var áður þegar hann var í höndum Framkvæmdastofnunar.

Hér segir í 11. gr. frv.: „Því aðeins er Byggðastofnun heimilt að veita óafturkræf framlög að þau séu ætluð til rannsókna og tilrauna í atvinnumálum sem samrýmast hlutverki stofnunarinnar...“

Ef menn hefðu nú sett punkt þarna á eftir hefði verið hægt að samþykkja allavega þetta sem hlutverk þessa sjóðs í höndum byggða- og áætlunardeildar því að þá hefði það þó samræmst þeim almenna hugsunarhætti að lána- eða styrkjastarfsemi stofnunar af því tagi sem hér er verið að ræða um á náttúrlega að vera óaðskiljanlegur hluti af áætlanagerð. Það ættu aldrei að renna nokkur framlög úr sjóðum stofnunar sem þessarar öðruvísi en að það væri óaðskiljanlegur hluti af áætlanagerð. Og þá er ég að tala um að sú áætlanagerð sé þannig frá gengin að þeir aðilar sem kosnir hafa verið til að bera ábyrgð á þessari stofnun, það væri þá sú sjö manna stjórn sem hér er talað um, hefðu fjallað um og samþykkt þessa áætlun og í krafti þeirrar samþykktar væri þá hægt að lána eða styrkja starfsemi á sviði rannsókna og tilrauna í atvinnumálum sem samrýmdust þannig hlutverki þessarar stofnunar. Þá bæru þeir óafturkallanlega ábyrgð á þessari lánastarfsemi og þessum áætlunum og ef þær mistækjust væri hægt að draga menn til ábyrgðar fyrir það, en ef þær heppnuðust væri hægt að verðlauna þá fyrir það með þeim hætti sem gerist í pólitík. En það var ekki settur punktur þarna, heldur er haldið áfram og kemur þá sá óheppilegi hluti setningarinnar sem opnar þetta mál svo gersamlega upp á gátt að nákvæmlega enginn þröskuldur er lengur fyrir hendi í því hvernig með fjármuni þessa sjóðs verður farið. Þar segir nefnilega, með leyfi virðulegs forseta: „Því aðeins er Byggðstofnun heimilt að veita óafturkræf framlög að þau séu ætluð til rannsókna og tilrauna í atvinnumálum sem samrýmast hlutverki stofnunarinnar eða til að koma í veg fyrir neyðarástand í atvinnu- og byggðamálum.“

Þar með er í raun og veru búið að sleppa þessum sjóði og stjórnendum hans lausum á atvinnumál Íslendinga. Og þá fara að gerast jafnskringilegir hlutir eins og þeir sem eru að gerast uppi í Framkvæmdastofnun nánast alla daga, sem eru sumir hverjir svo fyndnir að þeir væru efni í áramótaskaup, eins og það þegar þm. sem er formaður stjórnar Framkvæmdastofnunar, viðriðinn stjórn fyrirtækis úti á landi; stjórnfyrirtækis sem aldrei hefur nokkurn tímá haft nokkurn rekstrargrundvöll, þar á ég við steinullatverksmiðjuna, sækir um lán. (Gripið fram í: Gleymdu ekki stálvölsunarverksmiðjunni.) Hv. þm. getur gengið þess fullviss til svefns á hverri nóttu áð ég gleymi heldur ekki stálvölsunarverksmiðjunni.

Þarna er á ferðinni fyrirtæki sem farið er af stað að byggja með heimild Alþingis. Til þess eru veittir fjármunir frá Alþingi og sú fjárveiting er náttúrulega samþykkt af þessum sama einstaklingi sem annars vegar situr í stjórn fyrirtækis og hins vegar í stjórn Framkvæmdastofnunar. Eins og ég sagði áður er þetta fyrirtæki dauðadæmt frá upphafi því að það getur því aðeins borið sig að Íslendingar hætti að einangra með nokkru öðru efni en steinull. Það þýðir það að þá færu á hausinn u. þ. b. 30–40 fyrirtæki í einangrunarframleiðslu á öllu landinu, þ. e. framleiðslu annars konar einangrunar en steinullar. Til þess að þetta fyrirtæki komi yfir höfuð frá sér afurðum sínum, sem eru mjög fyrirferðarmiklar í flutningi, hefur það gert samning við annað jafnilla statt fyrirtæki sem heitir Ríkisskip. Ríkisskip þarf að auka skipakost sinn um u. þ. b. 75%, líklega að auka við sig tveim til þremur skipum til að sinna þessum flutningum og flytur síðan farminn á afsláttarverði, langt undir helmingi kostnaðarverðs.

Þetta fyrirtæki er þannig statt núna að það vantar hlutafé. Stjórn fyrirtækisins fer þá fram á lán frá Framkvæmdastofnun, líklega upp á einar 10 milljónir, til þess að borga inn hlutaféð. Og næsti leikur í þessu máli verður náttúrlega sá, þegar kemur að gjalddaga þessa láns, að sama fyrirtæki fer fram á annað lán til þess að skuldbreyta því láni sem fyrst var fengið og þannig koll af kolli. Þannig er og verður farið með það ákvæði í þessum lögum sem svipað er því ákvæði sem fyrir hendi er í lögum um Framkvæmdastofnun, að Byggðastofnun sé heimilt að veita lán eða ábyrgðir eða óafturkræf framlög þegar verið er að afstýra neyðarástandi í atvinnu- og byggðamálum. Því að það má nánast flokka hvað sem er undir neyðarástand í atvinnu- og byggðamálum.

Í raun og veru ætti alls ekki að vera þörf fyrir Byggðasjóð. Ef ríkið ætti einhverju hlutverki að gegna á þessu sviði þá væri því eðlilegast þannig fyrir komið að til væri ábyrgðasjóður ríkisins og hann hefði það einfalda hlutverk að ábyrgjast lántökur manna í eigin heimabönkum, bönkum síns eigin sveitarfélags eða héraðs. Hann ábyrgðist lán sem tekin væru til endurnýjunar, til fjárfestingar eða rekstrar í atvinnulífi, hann ábyrgðist þau að hálfu leyti eða svo, drægi úr áhættu bankans og jyki þannig áhuga bankans á því að taka þátt í áhættuverkefnum heima fyrir. En að ríkissjóður tæki ekki þessa ábyrgð alla á sig heldur aðeins að hálfu leyti, þannig að bankinn sem um væri að ræða tæki sína ákvörðun í þessu máli alltaf með tilliti til þess að viss hluti ábyrgðarinnar félli á hann ef ekki væri rétt að málum staðið. Þannig væri í raun og veru búið að fá tryggingu fyrir arðseminni því að bankinn, hver svo sem hann er, sem er ábyrgur gagnvart sínum sparifjáreigendum mundi náttúrlega vega og meta sína áhættu í ljósi þess að hann yrði hugsanlega að bera 50% af áhættunni.

Menn verða nefnilega að horfast í augu við það að hversu göfug sem þessi hugmynd um Byggðastofnun er, og ég held reyndar að mönnum hafi upphaflega gengið gott eitt til og talið sig hafa komist þarna að mjög hagkvæmri lausn þessara mála, þá hefur það miklu meiri áhrif á líf fólks hvar sem er í landinu hver stefna viðkomandi stjórnvalda er í húsnæðismálum, hver stefna viðkomandi stjórnvalda er í menntamálum, hver raunveruleg stefna stjórnvalda er í atvinnumálum og hvaða peningamálastefnu er fylgt, það hefur miklu meiri áhrif hvaða orkuverð er hverju sinni og á hvaða stað, heldur en það að veita einhver lán eða styrki úr Byggðasjóði. Byggðasjóður getur bjargað einu fyrirtæki og hefur oftsinnis gert það. En það er ekki atvinnustefna. Það er ekki byggðastefna og það hefur afskaplega lítið að gera með jafnvægi í byggð landsins.

Það eru stjórnvöld sjálf fyrst og fremst sem þurfa að hafa byggðastefnu, reka einhverja þá pólitík sem viðheldur jafnvægi í byggð landsins, ef það er vilji stjórnvalda. Þess vegna eru það, eins og ég sagði áðan, allt önnur atriði sem hafa áhrif á líf fólks í landinu heldur en einhver byggðapólitík eða byggðastefna sem rekin er eða fundin upp inni við Rauðarárstíg. Ég held að áður en menn setja hér á langar tölur um það hvaða hlutverki Byggðastofnun eigi að skila og Byggðasjóður og hvernig ætlunin sé að búa til hverja stofnunina á fætur annarri til þess að viðhalda jafnvægi í byggð landsins eigi þeir miklu frekar að líta til hinna almennu og stórvirku aðgerða stjórnvalda. Ein gengisskráning, rétt eða röng, hefur miklu stórtækari áhrif á líf fólks úti á landi en nokkur skrifstofumaður inni við Rauðarárstíg getur nokkurn tíma haft, hversu vel sem hann vill vinna og hversu fús sem hann er til að sinna vandamálum fólks hinna dreifðu byggða. Ef menn hafa virkilegan áhuga á því að fólk geti lifað mannsæmandi lífi nánast hvar sem er á þessu landi, þá þurfa þeir að huga að aðgerðum sem miða að því að þetta fólk þurfi ekki að lifa nánast í gegnum póstlúgur miðstýringarinnar hér í Reykjavík.

Og þá erum við komnir að allt öðru máli sem aðeins hefur reyndar verið drepið á hér í umr., sérstaklega af hv. 2. þm. Austurl., hugsanlegri gerbreytingu á skipulagi stjórnkerfis byggða hér á landi. Þá er ég að tala um þá frægu byggðanefnd sem nú er að störfum og á að skila tillögum um aukið lýðræði og valddreifingu. Þar er komið mjög glögglega í ljós að almennt eru menn nokkuð sammála um að þess gerist orðið þörf að skipta framkvæmdavaldi með þeim hætti að færa hluta þess út til hinna dreifðu byggða. Og þá erum við komnir að tillögu og hugmynd hv. 5. þm. Norðurl. e. um að þessi stofnun sitji ekki inni við Rauðarárstíg heldur á Akureyri. Ég get tekið undir þessa hugmynd. Til þess liggja tvær ástæður. Fyrri ástæðan er kannske því miður dálítið óskammfeilin, allavega að láta hana uppi. Ég hef ekki neina oftrú á þessu fyrirtæki, eins og fram hefur komið í máli mínu, og álít að það gæti verið ágætis aðferð til að fela stofnunina að flytja hana til Akureyrar. Þar með væri hún komin úr augsýn og maður þyrfti ekki að skammast sín eins mikið fyrir hana. Þá er það hin ástæðan. Ef við gerðum ráð fyrir því að mál gætu skipast þannig í þessari stofnun að starfsemi hennar væri með einhverju viti, þá á ég við að dregið yrði úr fjárveitingarvaldi hennar sem mest en hlutverk hennar í áætlanagerð aukið og sú áætlanagerð síðan hugsanlega tengd fjárlagagerð með þeim hætti að stjórnin fjallaði um og samþykkti þær áætlanir sem gerðar væru, og það væri síðan stjórnar þessarar stofnunar að bera ábyrgð á því gagnvart þeim sem áætlanagerðin fjallar um að fá fjárveitingar til hennar á fjárlögum og þá rynnu þessar fjárveitingar til þess verkefnis sem skýrt væri og afmarkað í áætluninni, ef við gengjum út frá því að þetta væri verkefni og yfirbragð þessarar stofnunar, þá held ég að ég geti líka tekið undir þá hugmynd hv. 5. þm. Norðurl. e. að flytja þessa stofnun af Rauðarárstígnum til Akureyrar, vegna þess að það mundi óneitanlega hjálpa til að toga í miðstýringuna hér í Reykjavík með þeim hætti sem hann lýsti. Hv. þm. notaði reyndar samlíkingu úr annars konar starfsemi en þeirri sem hér fer fram. Hann notaði nokkuð myndræna lýsingu úr eðlisfræðinni eða aflfræðinni til að skýra þessa hugmynd sína fyrir okkur og ég get alveg tekið undir hana, enda mun nú þegar og sérstaklega í þjóðfélagi framtíðarinnar, sem við horfum á, skipta afskaplega litlu máli samskiptalega hvar stofnanir sem þessar eru settar niður.

Svo er annað mál sem ég held að gæti líka orðið til þess að hvetja mann til að samþykkja þessa till. hv. 5. þm. Norðurl. e. Það tengist reyndar loðinni umræðu sem fór hér fram á fyrra fundi um þingræði og lýðræði. Ef við hugsuðum okkur að búið væri að taka allar stofnanir og flytja þær út á land, ekki endilega allar til Akureyrar heldur dreifa þeim víðs vegar um landið, þá drægi mjög mikið úr raunverulegri þörf þeirra þm. sem hvað nánast tengjast miðstýringu til þess að dvelja hér. Það drægi kannske svo mikið úr áhuga þeirra að það endaði með því að þeir fengju áhuga á því að koma upp einhvers konar öðruvísi stjórnskipulagi en við búum við nú. Þá er ég kannske frekar að hugsa til þeirrar útfærslu framkvæmdavaldsins sem ég minntist á áðan í sambandi við vinnu byggðanefndarinnar þar sem mjög greinilegt er að menn tala í fullri alvöru um það að leggja til með einhverjum hætti að koma á þriðja stjórnsýslustiginu milli sveitarstjórna og ríkisvalds.

Auðvitað er hægt að leggja fram frv. eins og þetta sem hér er fjallað um. Ég tel mig engan spámann þó að ég fullyrði að þetta frv. á ekki eftir að breyta nokkru, a. m. k. til betri vegar, um jafnvægi í byggð landsins né um þróun eða framgang atvinnulífs, ekki frekar en sannast hefur enn með neinum hætti, þó að gerðar hafi verið ítrekaðar og vísindalegar tilraunir til þess, samhengið milli starfsemi Byggðastofnunar, eða Framkvæmdastofnunar sem nú heitir, og þróunar í íslensku atvinnulífi. Það hefur ekki tekist að finna neitt samhengi nema á einu sviði: þar sem farið hefur fram ákveðin áætlanagerð og ráðgjöf á sviði iðnaðar og þá aðallega af hendi byggða- og áætlanadeildar. Ekki ýkjamikil fjárframlög. Fjárframlögin hafa aðallega runnið til annarra atvinnugreina. En séu skoðuð útlán og styrkir Framkvæmdastofnunar og þróun þessara atvinnugreina, aðallega landbúnaðar og sjávarútvegs, þá er ekki hægt að sanna með vísindalegum hætti — og þó hefur það verið reynt — neitt samhengi þar á milli. Og ég spái því að eins verði um þessa byggðastofnun að þegar menn standa upp að tíu árum liðnum eða svo og meta áhrif hennar og þessa frv. muni þeir komast að sömu niðurstöðu og menn hafa komist í dag, að það var ekki þessi stofnun sem hafði áhrif á jafnvægi í byggð landsins. Það voru stjórnvaldsgerðir eins og ég nefndi áðan. Ein gengisskráning, röng eða rétt, hefur miklu, miklu meiri áhrif í á það hvernig er að búa á Vestfjörðum heldur en öll þau lán eða styrkir sem koma úr þessari stofnun.