14.06.1985
Efri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6581 í B-deild Alþingistíðinda. (5931)

456. mál, Byggðastofnun

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar mál sem virðist hafa valdið nokkrum deilum. Löng umræða varð um það í hv. Nd. og að sjálfsögðu hér líka. Það virðist svo sem hv. stjórnarandstæðingar, sem hér hafa rætt um þetta mál, telji það til lítilla bóta þó að hér sé kveðið fastar að og sett markvissari stefna að mínu mati til að styðja við byggðir á landinu. Það er ekki nóg að segja að sjálfstæðismenn hafi hrópað: „Báknið burt“ og tala um „stuttbuxnadeild“ o. s. frv., eins og heyra mátti hjá einum hv. þm., því að frá þeim koma ekki neinar hugmyndir um það hvernig bregðast skuli við þeim mikla vanda sem er víðast hvar við að etja á landsbyggðinni.

Ég tek það fram að landsbyggðin er ekki að biðja um að gefa sér eitt eða neitt. Hún vill aðeins fá sinn skerf úr þeirri köku sem hún skaffar á þjóðarborðið. Sú kaka virðist vera stærst skömmtuð hér á Reykjavíkursvæðinu í gegnum þjónustugreinarnar. Þess vegna er það viss vörn fyrir landsbyggðina að hafa stofnun eins og hér er lagt til að endurskipulögð verði, nefnd Byggðastofnun í staðinn fyrir Byggðasjóður, til þess að taka fastar á þessum málum en gert hefur verið.

Ég skal taka undir það að oft hefur verið ástæða til að gagnrýna margar ráðstafanir sem Byggðasjóður sem slíkur hefur gert. Hann hefur ekki unnið undir svo þröngum lögum eða reglugerðum að honum hafi ekki verið heimilt að gera ýmislegt sem við höfum talið gagnrýnivert. Þessu er ég ekki að óska eftir. Ég sé ekki betur en í þessu frv. sé kveðið allfast að orði og stefnan mörkuð í því að hlúa að, ekki í formi gjafa heldur með lánum, þeirri starfsemi sem þarf á því að halda víða á landsbyggðinni svo að snúið verði við þeim flótta sem þegar er brostinn á það lið sem þar er. Þar ætla ég engum um að kenna, það hafa orðið miklar breytingar í okkar þjóðfélagi nú síðustu árin.

Það kom mikill fjörkippur í alla atvinnustarfsemi á landsbyggðinni þegar togararnir komu til landsins upp úr 1972 og á því hefur landsbyggðin lifað fram undir tvö síðustu ár á meðan hún var að koma sér fyrir við þessa nýju atvinnutækni. Nú hefur þetta stöðvast, þessi bylgja er um garð gengin og það var kannske farið of geyst um tíma að koma ýmsu í framkvæmd. Nú hefur komið í ljós að það er brostinn á flótti frá landsbyggðinni og hann verðum við öll að sameinast um að reyna að stöðva. Ég held að það hljóti að vera einn sterkur hlekkur í þeirri stöðvun að haldið sé uppi stofnun sem er til þess að þjóna fyrst og fremst hinum dreifðu byggðum, ég er ekki að tala um með gjöfum eða styrkjum, að efla það atvinnulíf sem þau sveitarfélög sem þar eiga hlut að máli eru ekki í stakk búin til að sinna.

Ég vil svo aðeins minnast á það sem hv. síðasti ræðumaður, 8. þm. Reykv., talaði um. Hann var mjög að fílósófera um það hvort ekki væri hægt að láta sparisjóða- og bankakerfið á þessum landsvæðum útvega þar meiri peninga, að mér skildist með ábyrgð viðkomandi sveitarsjóða. Það er óhætt að fullvissa hv. þm. um það strax að því miður eru flestir sveitarsjóðir á landsbyggðinni, sem hafa verið að berjast við að halda sínum atvinnumálum uppi, krossveðsettir vegna hinna ýmsu lána sem þeir hafa orðið að ábyrgjast til sinna byggðarlaga til þess að halda þar uppi atvinnu. T. d. í sjávarútvegssveitarfélögunum vitum við að sveitarsjóðirnir hafa verið gjörsamlega á kúpunni vegna þess að atvinnufyrirtækin, hvort sem þau hafa verið í eigu hreppsfélaganna sjálfra eða einstaklinga, hafa ekki getað staðið skil á þeim gjöldum sem þau hafa átt að greiða skv. öllum lögum og reglum. Þetta óttast ég mjög. Ef slík þróun heldur áfram kemur uppgjöf í fólkið og það flýr þessa staði, kannske í þennan fjarlæga ljóma hér á suðvesturhorninu sem laðar fólk til sín. Og ég lái því það ekki þó það hugsi sér til hreyfings ef það hefur ekki eitthvað sem stuðlar að því að það festi verulega rætur á þessum stöðum. Þess vegna mæli ég mjög með því að við eflum stofnun eins og Byggðastofnun á eðlilegan og hagkvæman hátt, þetta sé lánasjóður sem á að fara vel með, ég tek það fram, til þess að menn geti leitað til hans til þess að fjármagna frekari uppbyggingu úti á landsbyggðinni. Því miður höfum við víðast úti á landsbyggðinni ekki þá aðstöðu að geta fengið þar það fyrirkomulag á lánagreiðslum í litlum lánastofnunum, sparisjóðum og útibúum bankanna, sem við þyrftum á að halda.

Ég er líka sammála hv. 8. þm. Reykv. um að það er óskemmtilegt fyrir fólk úti á landsbyggðinni að þurfa að bíða eftir póstinum og taka á móti peningum frá einhverju miðstýringarvaldi hér í Reykjavík svo það gefi verið kyrrt á sínum stað. Að þessu lét hann liggja hér í orðum sínum áðan. En án þess að orðlengja um þetta vildi ég aðeins benda hv. þm. á það að ég held að hann hafi ekki kynnt sér þá breytingu sem gerð var á frv. við 2. umr. í Nd. Hann lagði nokkra áherslu á 11. gr. í framlögðu frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Því aðeins er Byggðastofnun heimilt að veita óafturkræf framlög að þau séu ætluð til rannsókna og tilrauna í atvinnumálum sem samrýmast hlutverki stofnunarinnar eða til að koma í veg fyrir neyðarástand í atvinnu- og byggðamálum.“

Þessari grein var breytt við 2. umr. í Nd. á þennan veg, með leyfi forseta:

„Byggðastofnun getur, í samræmi við hlutverk sitt, stuðlað að stofnun nýrra fyrirtækja skv. ákvörðun stjórnar stofnunarinnar.“

Ég vildi aðeins benda á að þarna er orðin reginbreyting á. Það er ekki talað um sérstaka styrkjapólitík þarna í 11. gr., eins og hv. þm. vildi láta að liggja, heldur er greinin orðin afdráttarlaus eins og hún er nú eftir breytingarnar í Nd.

Í 12. gr. er einnig gerð breyting frá upphaflega frv. Í frv. segir, með leyfi forseta, í 12. gr.:

„Byggðastofnun getur, í samræmi við hlutverk sitt, stuðlað að stofnun nýrra fyrirtækja skv. ákvörðun stjórnar stofnunarinnar.“

Eftir breytinguna hljóðar greinin svo. með leyfi forseta:

„Með tilliti til hlutverks Byggðastofnunar, sbr. 2. gr. þessara laga, er stjórn stofnunarinnar heimilt að ákveða að stofnunin taki þátt í fjárfestingar- eða þróunarfélögum. Þá skal stofnunin hafa samstarf við fjárfestingarsjóði og lánastofnanir, eftir því sem við á, um fyrirgreiðslu til verkefna sem samrýmast hlutverki hennar.“

Þessa grein tel ég góða því að á hinum minni stöðum vantar iðulega aflið til þess að hrinda af stað ákveðnum verkefnum sem oft eru ekki mjög þung til framkvæmda. En þessir minni aðilar hafa ekki bolmagn eða fjármagn til þess að koma slíku af stað nema með vissri fyrirgreiðslu frá stofnun sem þeirri er mér finnst Byggðastofnun gefa fyrirheit um.