14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6611 í B-deild Alþingistíðinda. (5944)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu á þessu máli. Það kom fram í máli frsm. meiri hl. nefndarinnar að þar hefur verið unnið mikið starf. Það hafa verið kallaðir til viðræðu allir þeir sem komið hefur fram ósk um að fá til viðræðna af hálfu nefndarinnar og jafnframt tekið á móti þeim sem óskað hafa eftir að koma skoðunum sínum á framfæri. Jafnframt hefur nefndin fengið fjölda umsagna. Þarna virðist þess því hafa verið gætt vel að öll sjónarmið gætu komið fram.

Ég vil reyna í örfáum orðum að víkja að þeim spurningum sem til mín hefur verið beint.

Ég tel sjálfsagt að athuga óskir um breytingu á gjaldi til Búnaðarmálasjóðs ef óskir koma fram um það frá Stéttarsambandi bænda og öðrum samtökum búvöruframleiðenda, en þarna er um vandasamt mál að ræða þar sem afstaða búgreinanna er nokkuð misjöfn og til þess hlýtur að þurfa að taka tillit við breytingu á því ákvæði.

Ég tel mjög gott að landbn. skyldi leita álits færra lögfræðinga á mörgum spurningum sem nefndin beindi til þeirra. Skýr svör fengust við öllum nema einni, um eignarrétt á Grænmetisverslun landbúnaðarins. En það kom fram hjá frsm. meiri hl. nefndarinnar að einnig er væntanlegt svar við þeirri spurningu. Ég tel sjálfsagt, þegar það liggur fyrir, að ræða það mál við Framleiðsluráð landbúnaðarins og reyna þá að komast að niðurstöðu um hvernig rétt sé að halda á því máli áfram til þess að það þurfi ekki að vera deilumál lengur.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. bar fram allmargar spurningar sem vissulega voru eðlilegar margar hverjar. Það var m. a. spurt um samráð sem haft hefði verið við Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og þá möguleika að fá þessi samtök til að taka þátt í verðlagningu eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég átti viðræður við fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands fyrir um það bil ári um möguleika á slíku, og enn fremur var haft samband við þá á s. l. vetri þegar drög voru að myndast að þessu frv. Þeir lýstu því yfir að þeir mundu þá skoða þetta mál og taka afstöðu í ljósi þess hvernig þeim litist á. Ég hafði vænst þess að þeir mundu treysta sér til að vera aðilar að þessu vegna þess að í frv. er á ýmsan hátt komið til móts við þau viðhorf sem komu fram í frv., sem þeir áttu aðild að, um ný framleiðsluráðslög árið 1979, en eins og í ljós hefur komið á bréfi sem barst frá Alþýðusambandi Íslands mun það ekki tilnefna menn til að taka þátt í verðlagningu og telur rökréttara að ríkisstj. eigi þar hlut að máli. Ég tel samt sem áður eðlilegt að þessum ákvæðum sé ekki breytt og þau verði að lögum því að — ég vil þá taka undir orð hv. 4. þm. Norðurl. e. — það sé mikilvægt að um þessi mál geti tekist sem víðtækust samstaða.

Það kom fram í máli hv. frsm. meiri hl., 3. þm. Norðurl. e., að framkvæmd laganna skiptir vitanlega miklu máli. Ég býst við að sú tortryggni, sem kemur fram í svörum margra aðila og athugasemdum við frv., sé vegna þess að menn geri sér ekki að fullu ljóst hvernig það muni reynast í framkvæmd. Það er von mín að reynslan verði sú að frv. verði öllum til hagsbóta, jafnt framleiðendum og neytendum, þjóðfélaginu í heild, og þegar sú reynsla liggur fyrir muni viðhorfin breytast og því sé æskilegt að hafa þennan möguleika inni í lögunum.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. gat um athugasemdir frá mörgum aðilum og jafnframt kom fram hjá honum, og ég býst við enn þá betur í umsögnunum sjálfum, að sjónarmiðin eru ákaflega mismunandi. Það er augljóst að það væri alveg sama hve lengi væri setið yfir þessu máli, það væri aldrei hægt að samræma þau öll því að sum þeirra stangast gersamlega á. Því tel ég að það hefði takmarkaða þýðingu að sitja lengur yfir frv. Hitt skiptir þó meira máli í mínum huga hvað brýnt er að afgreiða frv. sem fyrst vegna þeirrar stöðu sem nú er í landbúnaðinum. Ég tel að frv. muni ekki hafa neikvæðar afleiðingar fyrir íslenskan landbúnað, eins og hægt var að skilja á máli hv. 4. þm. Norðurl. e., heldur muni frv. þvert á móti stuðla að því að hjálpa okkur að komast fram úr þeim erfiðleikum sem við búum við núna. Það eru einmitt núverandi aðstæður sem eru íslenskum landbúnaði erfiðar en ekki þessi lagasetning nema síður sé. Það þýðir ekki annað en að viðurkenna þær staðreyndir sem við blasa og það verður að reyna að snúast þar til varnar, en fyrst og fremst þó til sóknar til að bæta úr.

Ég hygg að það hafi komið í ljós hjá bændum að þegar þeir fóru að kynna sér betur frv., hafi viðhorfin nokkuð breyst.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. vitnaði m. a. í fundarsamþykkt frá Blönduósi 3. maí s. 1., en í Eyjafirði var fyrir fáum dögum haldinn fundur fulltrúa af öllu Norðurlandi og þar virtist álitið vera orðið nokkuð annað á frv. Hann las einnig upp samþykkt frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar.

Það er vissulega rétt að erfitt er að fullyrða hvernig tekst að byggja upp fleiri atvinnumöguleika í byggðum landsins. Þess vegna var m. a. sett inn það ákvæði að eðlilegt væri að breyta framleiðslurétti í samræmi við það hvernig til tækist að gera það og færa til miðað við hvernig það gengi í einstökum byggðarlögum.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. benti sérstaklega á Kópasker, Núpasveit og Öxarfjörð sem munu vera í hópi bestu sauðfjárhéraða landsins. Vissulega sýnist eðlilegt að þar verði reynt að halda uppi sauðfjárræktinni. Það á þá að rýmka fyrir þeim ef hægt er að byggja upp og láta koma í staðinn annan atvinnurekstur í öðrum héruðum. Hins vegar vil ég benda hv. þm. á að í sama byggðarlagi að kalla er hafið öflugt fiskeldi sem þegar hefur haft áhrif

fyrir byggðarlagið og áform eru um meiri framkvæmdir þar. Vitanlega hefur slíkt áhrif á allt héraðið. Sem betur fer eru einhverjir slíkir möguleikar mjög víða.

Ég reikna með að hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. muni gefa yfirlýsingar í sambandi við fjármagnið til greiðslu á afurðaverði til bænda og tel því ekki ástæðu til að ræða það að öðru leyti en því að ríkisstj. hefur unnið að undirbúningi þessa máls og tekið ákvörðun um að fjármagnið verði tryggt.

Ég held ég hafi vikið að flestum þeim spurningum sem til mín var beint. Ég vil endurtaka þakklæti mitt til hv. landbn. fyrir það ágæta starf sem hún hefur hér leyst af hendi og lýsi yfir stuðningi mínum við þær brtt. sem meiri hl. hefur borið fram.