14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6615 í B-deild Alþingistíðinda. (5946)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og fram kom m. a. í ræðu hv. síðasta ræðumanns líta menn mjög misjöfnum augum til landbúnaðarins og þýðingar hans fyrir íslenskt þjóðfélag, fyrir uppbyggingu okkar atvinnulífs. Ég verð að segja að í mínum huga blandast inn í þær umræður hvaða augum maður lítur á landið sjálft, gögn þess og gæði og spurningin um í hvernig þjóðfélagi maður eigi og vilji búa.

Ég vil í upphafi víkja örfáum orðum að því sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði áðan um þetta mál og er athyglisvert að sjónarmið hans skuli aðeins falla saman við sjónarmið hv. 5. þm. Reykv., Jóns Baldvins Hannibalssonar, því að báðir þessir hv. þm. vilja málið feigt, vilja að Alþingi taki ekki afstöðu til þess á þessu þingi. Hv. 4. þm. Norðurl. e. gerir það með þeim rökum að ekki hafi náðst samkomulag um ýmis þau atriði sem eru í frv. milli Neytendasamtaka og bændastéttar og svo var að heyra á honum, a. m. k. um skeið, í hans ræðu að hann teldi að til þess væru nokkur líkindi að til sameiginlegrar niðurstöðu gæti komið; að þessir tveir aðilar gætu sameinast í afstöðu sinni til þess hvernig búa ætti að innlendum landbúnaði.

Í nál. hans kemur fram að ekki hafi unnist tími til að senda frv. til umsagnar. Ég hygg þó að sannmæli sé að um fá mál hafi borist fleiri umsagnir en þetta. Sjálfur hafði hann með sér hingað í ræðustól bók eina og fjölmargar umsagnir aðrar bárust nefndinni, ábendingar, tillögur og leiðbeiningar þannig að það er ekki undan því að kvarta að menn hafi ekki verið reiðubúnir að gera athugasemdir eða láta í ljós skoðanir sínar um efnisatriði þessa frv. og er þm. því engin vorkunn að átta sig á málsgögnum og móta skoðun á því máli sem hér liggur fyrir.

Ég vil sérstaklega, vegna þeirrar áherslu sem hv. þm. lagði á Neytendasamtökin, vekja athygli á því áliti sem fram kemur í umsögn Neytendasamtakanna frá 6. maí 1985, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Neytendasamtökin benda á að þau geta með engu móti sætt sig við tvö af þeim atriðum sem sett eru fram sem tilgangur laganna, nánar tiltekið e- og f-lið.“

E- og f-liður hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„e) að innlend aðföng nýtist sem mest við framleiðslu búvara, bæði með hliðsjón af framleiðsluöryggi og atvinnu.

f) að stuðla að jöfnuði á milli framleiðenda í hverri búgrein hvað varðar afurðaverð og markað.“

Þessi tvö atriði eru einmitt þau atriði sem bændastéttin hefur lagt hvað þyngsta áherslu á þannig að ég held að sumarið muni ekki duga til þess að þessir aðilar geti þar náð samstöðu. Ég held líka að Alþingi geti ekki fallist á þau sjónarmið, sem fram hafa komið hjá Neytendasamtökunum beinlínis og ýjað er að í áliti Alþýðusambands Íslands, að rétt sé að fella niður alla markaðsstýringu hvað varðar t. d. kjúklingakjöt og svínakjöt.

Meiri hluti Alþingis er ekki þessarar skoðunar. Þvert á móti hefur meiri hl. Alþingis, og ég veit að þessi hv. þm. hefur það líka, áhyggjur af þeirri miklu breytingu sem hér er að verða í búskaparháttum vegna neysluvenjubreytingar þjóðarinnar. Frv. sem hér liggur fyrir er einmitt til þess að auðvelda bændum að bregðast við þessari miklu breytingu og það felur í sér mikilsverð atriði til þess að því marki megi ná. Ég vil þar fyrst benda á 37. gr., en þar eru ákvæði um að mjög verulegu fé, sem verður að telja í ekki aðeins hundruðum milljóna kr., heldur væri nær að miða við milljarð þegar við tölum um það fé, verði ráðstafað til eflingar nýrra búgreina, markaðsöflunar og til fjárhagslegrar endurskipulagningar búrekstrar í sveitum. Með hliðsjón af þessum skýru ákvæðum get ég í fyrsta lagi ekki tekið undir þau orð að menn reyni ekki að gera sér grein fyrir hvaða fjárfestingum sé verið að kasta fyrir róða út um sveitir landsins. Þvert á móti er hér beinlínis um það rætt að verja til þess fé og reyna að stuðla að því að þessar byggingar megi nýtast til annars konar búrekstrar, eins og loðdýraræktar. Ég get ekki heldur undir það tekið að ekki sé með þessu frv. komið til móts við bændur í þeirri erfiðu stöðu sem þeir nú eiga í. Ég held þvert á móti að umsagnir um frv., blaðaskrif og fundasamþykktir sem gengið hafa sýni að engin breið samstaða getur á þessu stigi málsins náðst annars vegar á milli bændastéttarinnar og hins vegar á milli verkalýðshreyfingarinnar, hvað þá milli Neytendasamtakanna eins og þau eru upp byggð og bændastéttarinnar. Alþingi verður að höggva á þennan hnút og ég held að það sé best að höggva á þennan hnút strax og draga ekki bændur á því hvernig að málefnum landbúnaðarins verður staðið.

Hv. þm. talaði um 7. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að stjórn Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja tilnefni menn í verðlagsnefnd búvara. Það er rétt hjá hv. þm. að báðar þessar stjórnir hafa lýst því yfir að þær vilji ekki að svo stöddu skipa menn í verðlagsnefndina og gefa raunar enga von um að þeirra afstaða breytist á meðan landbúnaðurinn er í þeim erfiðleikum sem hann er í nú, en ég held á hinn bóginn að nauðsynlegt sé að hafa þetta ákvæði inni í lögunum til þess að Alþýðusambandið eða Bandalag starfsmanna ríkis og bæja geti á síðara stigi sett menn inn í verðlagsnefndina ef þeir telja það þjóna sínum hagsmunum. Von mín stendur til þess að þegar þessi lög fara að verka muni þessir aðilar sjá að hagsmuna þeirra umbjóðenda er betur gætt með því að taka þátt í verðlagningunni og hafa þannig áhrif á þróun búvöruframleiðslunnar hér á landi.

Hv. þm. hafði um það mörg orð að ekki væri nógu vel frá því gengið að staðgreiðsla afurðaverðs gæti átt sér stað og vitnaði mjög til bankamanna í því sambandi. En við vitum náttúrlega allir þm. að bankastjórar eru síðustu menn sem líklegir eru til að taka undir það að bankarnir geti veitt landbúnaðinum betri fyrirgreiðslu um lán en verið hefur um hríð. Þeir eru þess vegna kannske ekki réttu mennirnir til að leggja dóm á það. Það sem öllu varðar og öllu skiptir er að sú ríkisstj. sem nú situr hefur lýst því yfir að hún vilji koma þessu kerfi á. Ég vil því til staðfestingar lesa, með leyfi hæstv. forseta, yfirlýsingu, bréf hæstv. viðskrh. til Davíðs Ólafssonar bankastjóra Seðlabankans, dags. hinn 2. apríl s. l. :

„Í samræmi við samþykkt ríkisstj. frá 21. fyrra mánaðar hefur verið ákveðið að skipa nefnd á vegum viðskrn. til þess að gera tillögur um framkvæmd á því ákvæði samkomulags stjórnarflokkanna frá 6. sept. 1984 er gerir ráð fyrir því að bændur geti svo fljótt sem við verður komið fengið fullnaðargreiðslu fyrir afurðir sínar. Markmiði þessu skal nefndin ná með endurskoðun á reglum um veitingu afurðalána, tímasetningu á niðurgreiðslum úr ríkissjóði og reglum um lágmarksfjármögnun birgða af eigin fé vinnslustöðva. Jafnframt skal á það bent að endurskoðun á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins er að ljúka og þykir rétt að höfð sé hliðsjón af þeim markmiðum sem þar koma fram um nánara fyrirkomulag þessara mála. Hér með eruð þér skipaður formaður þessarar nefndar. Ásamt yður í nefndinni eru Helgi Bachmann, Ketill Hannesson, Ingi Tryggvason og Stefán Pálsson.“

Hér er þessari nefnd m. ö. o. falið að vinna á grundvelli þeirra laga sem við stefnum að að sett verði í lok þessa þings og hefur nefndinni verið falið að finna lausn á þessu máli. Hitt segir sig sjálft, og það vita allir þm., að vitaskuld mun landbrh. ekki gera bindandi samning við bændasamtökin á grundvelli a-liðs 30. gr. um staðgreiðsluna nema þá liggi fyrir hvernig að þeirri staðgreiðslu verði staðið. Það er auðvitað alveg útilokað fyrir nokkurn landbrh. að gera slíkan samning nema áður liggi fyrir að hægt verði við hann að standa. Þetta gera allir menn sér ljóst og menn vita að ríkisstj. hefur það í hendi sér, sem ég hygg að ekki komi til og er fullviss um að ekki komi til, að bregðast í þeim málum.

Það urðu mér raunar nokkur vonbrigði að þessi hv. þm., sem er einmitt manna skilningsbestur á hag landbúnaðarins, skyldi ekki vera harðari af sér í kröfunni um staðgreiðsluna en ræða hans bar vitni um og ég skyldi finna í máli hans að hann væri eftirgefanlegur á þessum punkti.

Þá vil ég vekja athygli hv. þm. á því, og svara með því ræðu hv. síðasta ræðumanns þegar hann talaði um nauðsyn þess að bændur gætu gert sér grein fyrir því hvar þeir stæðu í sambandi við sínar afurðir, að það er einmitt kjarni þessa frv. að gerður verði sérstakur búvörusamningur um sölu á magni mjólkur- og sauðfjárafurða og er heimilt að gera þann samning til lengri tíma en eins árs í senn. Það er einmitt þessi samningur, sem verður byggður á búmarki jarðanna, sem verður sá grunnur sem bændur geta byggt framleiðslu sína á og miðað rekstur bús síns við. Þetta er sú mikla breyting sem orðin er og ef rétt verður á haldið, sem ég leyfi mér að vona, mun Stéttarsambandinu og landbrh. takast að komast að þeim samningum á þessu sumri sem eiga að geta leitt til þess að landbúnaður verði rekinn með minni tilkostnaði, miðað við afurðir og fyrirhöfn, kostnað, en verið hefur um sinn.

Ég vek athygli á því að í þessu frv. er gengið út frá því næstu fimm ár að 9% af heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar skuli annars vegar varið til útflutningsbóta og hins vegar til þess, eins og ég sagði áðan, að auðvelda bændum endurskipulagningu síns búrekstrar og til sérstakrar markaðsöflunar erlendis og til eflingar búvara. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði í þessu frv. og ég ætla að hér sé myndarlega að verki staðið. Ég held að aðrar ríkisstjórnir hafi ekki tekið myndarlegar á þessum málum en sú ríkisstjórn sem nú situr. (Gripið fram í: Hvað er svo um húsnæðismálin?) Ég skal ræða húsnæðismálin við hv. þm. síðar, en ekki við þetta tækifæri nú og skorast ekki undan því.

Síðast en ekki síst felast í þessu frv. víðtækar heimildir til framleiðslustjórnunar þar sem gert er ráð fyrir að bændasamtökin, bæði heildarsamtök bænda og sérgreinasambönd, geti haft mikla stjórn á afurðamálum sínum, sölumálum sínum. Ég skírskota til reynslu sjávarútvegsins af kvótakerfinu í því sambandi. Ég held einmitt að það sé rétt staðið að málum þegar bændum eru gefnar víðtækar heimildir í þessu sambandi þannig að þeir geti sjálfir unnið að því að koma sínum framleiðslumálum í það horf sem þeir helst kjósa og að áhrif þeirra verði sem mest á stjórn búvöruframleiðslunnar.