14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6623 í B-deild Alþingistíðinda. (5948)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Vegna þess sem hér hefur verið sagt um 29. gr. frv. og það ákvæði hennar að bændur skuli fá fulla greiðslu sem næst við afhendingu vil ég taka það fram að þetta er byggt á samkomulagi stjórnarflokkanna frá 6. september s. l. og er þar undirstrikað, eins og þar segir, að enda verði vinnslustöðvum gert slíkt kleift með hækkun afurðalána. Ríkisstj. hefur gert ráðstafanir til að þetta verði, eins og fram hefur komið í því bréfi sem hér hefur verið hygg ég tvílesið og ég skal ekki endurtaka, enda er ljóst að ef það yrði ekki er þetta marklaust. En þetta verður gert og er nú í lokaundirbúningi í nefnd sem hæstv. viðskrh. hefur skipað. Ég þarf ekki að taka það fram að ég styð þetta að sjálfsögðu í þeirri fullvissu að staðið verði við útvegun fjármagnsins.