14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6623 í B-deild Alþingistíðinda. (5949)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka aftur til máls við þessa umr., taldi mig hafa komið á framfæri flestum þeim athugasemdum og ábendingum sem ég vildi gera við þetta frv. að þessu sinni, en þá kvaddi sér hljóðs hv. þm. Halldór Blöndal, 2. þm. Norðurl. e., og veittist að mér og þeirri ræðu sem ég hafði áður flutt við umr. með þeim hætti að ég tel óhjákvæmilegt að svara því nokkrum orðum. Þessi hv. stjórnarþm. er ugglaust að greiða fyrir þingstörfum með því að snúa út úr orðum annarra ræðumanna og gera það þannig óhjákvæmilegt að menn lengi orðræður hér meira en ella þyrfti. Ég hafði aftur á móti hugsað mér að taka tillit til þess að mér skilst að hæstv. stjórn sé mjög í mun að koma þessu máli áfram í dag og ég hagaði orðum mínum að sjálfsögðu í samræmi við það.

Ég ætla ekki að elta ólar í smáatriðum við þann útúrsnúning sem hv. þm. Halldór Blöndal viðhafði áðan. Hann taldi mig vera heldur lakan málsvara bænda að vilja ekki fagna því og taka undir það staðgreiðsluákvæði sem væri í þessu frv. Þetta er mikill misskilningur á minni afstöðu í þessum efnum, hv. þm. Ég gagnrýndi einmitt ákvæðið frá þeirri hlið að ekki væri nógu tryggt að við það yrði staðið og það kalla ég að lýsi sæmilega afstöðu minni í þessum efnum. Auðvitað vil ég það og tel að það sé til bóta að bændur fái hraðari greiðslur fyrir sínar afurðir en verið hefur hingað til. Ég gagnrýndi það hins vegar hvers vegna hæstv. ríkisstj. bindur þá ekki þannig um hnúta í frv. að það sé alveg ljóst að afurðasölustöðvunum verði gert kleift og mögulegt að greiða út afurðaverðið. Það kom hugmynd um það frá Framleiðsluráði og Stéttarsambandi að setja ósköp einfaldlega ákvæði inn í lögin, þ. e. inn í 29. gr., eitthvað í þá veru að þar sem fjallað hefur verið um greiðslu afurðaverðs til bænda kæmi ný setning svohljóðandi: „Enda verði þeim gert það kleift að standa við ákvæði þessarar greinar.“ Þetta hefði að sjálfsögðu verið ósköp einfalt og hefði þar með bundið hendur framkvæmdavaldsins til þess að standa við sínar skyldur í þessum efnum. Það vekur athygli mína að meiri hl. hefur ekki tekið slíkt ákvæði inn í frv. þetta. Ég hlýt því að spyrja: Hvers vegna ekki?

Ég tel einnig óhjákvæmilegt vegna þeirra umræðna sem orðið hafa um þennan kafla svo og um 30. gr. frv. að vekja athygli á því, af því að mér er ekki grunlaust um að einstöku þm. hafi e. t. v. ekki áttað sig á því til fulls, að í raun og veru tekur ríkisvaldið skv. þessu frv. einungis verðábyrgð á þeim hluta framleiðslunnar sem er til útflutnings. Það er alveg ljóst að ábyrgðin á því að standa við greiðslur til bænda hvað innanlandsframleiðsluna varðar er hjá afurðasölufélögunum, þeim stöðvum sem skylt er að kaupa þessa framleiðslu af bændum. Ef menn velkjast í vafa um að þetta sé svo vil ég biðja menn að fletta upp á 28. bls. frv. þar sem í skýringum við einstakar greinar er sagt svo um 30. gr., a-lið:

„Gert er ráð fyrir að ríkisstj. semji við Stéttarsamband bænda um það magn mjólkur- og sauðfjárafurða sem fullt grundvallarverð mun ábyrgst fyrir. Gengið er út frá því að inniendi markaðurinn skili fullu verði fyrir mjólk og kindakjöt til framleiðenda svo að hér verði um verðábyrgð á tilteknu afurðamagni til útflutnings að ræða.“

Ég spyr: Hvers vegna er þetta þá orðað svona ef ríkisvaldið ætlar að ábyrgjast fullt verð til bænda fyrir allan pakkann? Hvers vegna kjósa höfundar frv. þá að taka það sérstaklega fram að hér sé um verðábyrgð ríkisvaldsins á sérstöku magni til útflutnings að ræða, en ekki á öllum hinum umsamda pakka? Ég vil vekja athygli á þessu m. a. vegna þeirra umræðna sem hér hafa orðið um þennan hluta frv.

Ég hefði talið eðlilegra, til þess m. a. að hv. 2. þm. Norðurl. e. velktist ekki í vafa um minn vilja í þessum efnum, að inn í 29. gr. kæmi beinlínis ákvæði þar sem ríkisvaldið tæki á því ábyrgð, rétt eins og það gerir á beinu samningunum um ákveðið magn framleiðslu, að verðinu yrði skilað að fullu til bænda á öllum þessum pakka. Þá væru óþarfar setningar í greinargerð um að hér væri einungis um einhverja verðábyrgð á sérstökum hluta framleiðslunnar að ræða. Sömuleiðis hefðu menn þá getað hætt að ræða um afurðalán vegna þess að þar með væri ríkið orðið skuldbundið til þess að standa við allan samninginn eins og hann leggur sig.

Það mætti enn fremur út frá þessum umræðum velta svolítið fyrir sér samningsstöðu bænda þegar kemur að því að nýta sér þann rétt sem þeir hafa til samninga við ríkisvaldið skv. þessu frv. Eru menn trúaðir á að samningsstaða bænda verði sérstaklega sterk ef innanlandsmarkaðurinn heldur áfram að þróast eins og hann hefur gert allra síðustu árin? Ég held því miður að hún verði það ekki. Það vekur einnig athygli að meiri hl. hefur ekki tekið inn í þetta frv. ábendingar Framleiðsluráðs og Stéttarsambands um að miða umsamið magn við undanfarandi neyslu ákveðið tiltekið árabil. Menn hafa ekki kosið að fara þá leið sem hefði auðvitað virkað til ákveðinnar jöfnunar og til ákveðins stöðugleika í þessum efnum.

Hv. þm. Halldór Blöndal taldi að ég vildi með minni afstöðu málið feigt og það væri nú heldur lítilmannleg afstaða. Ég flyt beinlínis um það tillögu að þetta verk verði unnið, en það verði unnið á skynsamlegan og skikkanlegan máta, hv. þm., í stað þess að hnoða því í gegn með þeim bolabrögðum og olnbogahætti sem raun ber vitni. Ég geri það að tillögu að það verði sett niður nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka í landinu með samráði við hagsmunaaðila sem hér eiga hagsmuna að gæta og síðan verði þetta mál þannig unnið að eins fljótt og kostur er á næsta þingi liggi hér fyrir nýtt og betra frv. sem vonandi væri þá betra andrúmsloft í kringum en raun ber vitni um þetta.

Ég er ekkert sérstaklega trúaður á það frekar en hv. þm. Halldór Blöndal að það sé auðvelt og létt verk að ná fullum sáttum sjónarmiða hinna ýmsu aðila sem hér eiga hagsmuna að gæta. Ég tók það beinlínis fram í minni ræðu að ég teldi að svo væri ekki. Mér þykir það nokkuð sérkennilegur útúrsnúningur á mínu máli þegar ég hef beinlínis tekið þetta fram að tala svo um að ég tali eins og ég geri því skóna að það sé nánast handavinna að sætta öll þessi ólíku sjónarmið. Þvert á móti lýsti ég því að auðvitað eru uppi mjög deildar meiningar í þessum efnum. Það er þó engu að síður, hvaða trú sem menn hafa á því að slíkt samkomulag næðist, skylt að reyna, hv. þm., og ég er á því að það sé yfirleitt til góðs að menn ræði saman og beri saman bækur sínar og greini það þá a. m. k. í hverju þeir eru ósammála og slíkt sé yfirleitt vænlegra til árangurs og vænlegt til meiri skilnings en ella ríkir um þetta mál þó að menn nái ekki fullum sáttum. Auðvitað færi þá aldrei nema svo að löggjafinn yrði við slíka lagasetningu að höggva á ákveðna hnúta. Það er alveg morgunljóst. En ég vil spyrja þá menn sem halda að það sé einhver sérstök andúð við bændur að telja að það eigi að ræða við neytendur og við verkalýðshreyfinguna og við aðra slíka aðila: Halda menn að það sé landbúnaðinum í hag og halda menn að það hafi unnið með landbúnaði á Íslandi undanfarin ár hvernig andrúmsloftið hefur verið í garð hans meðal þessara aðila? Ættu menn ekki að líta í eigin barm, m. a. forsvarsmenn bændastéttarinnar á undanförunum áratugum, og hugsa um hvort þeir hafi alltaf haldið rétt á málum í þessum efnum? Væri það ekki hugsanlegt að landbúnaður á Íslandi væri betur staddur og byggi við meiri skilning en hann gerir ef öðruvísi hefði verið að þessu unnið? Það er á þessum forsendum sem ég segi: Það er skylt að skoða að hvaða leyti er hægt að sætta þessi sjónarmið og menn geri sér þá grein fyrir því í hverju óhjákvæmilegur ágreiningur liggur. Það hefur ekki verið gert við vinnu þessa frv. Ég fullyrði það.

Ég vil taka það skýrt fram að lokum að við í Alþb. erum þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að taka framleiðslu- og sölumál landbúnaðar til endurskoðunar. Við höfum lýst því bæði fyrr og nú að svo þurfi að gera. En við viljum raunar standa að því með ákveðnum hætti og við það miðast okkar málflutningur.

Ég vil svo taka það fram, herra forseti, að ef hv. þm. Halldór Blöndal sér sér óhjákvæmilegt að koma enn í ræðustól og snúa út úr orðum mínum eins og hann gerði hér áðan áskil ég mér fullan rétt til þess við 3. umr. þessa máls að segja við hann nokkur vel valin orð. Ég er þó ekkert viss um að ég geti komið þeim frá mér á eins stuttum tíma og ég hef nú reynt að gera af tillitssemi við það að ríkisstj. vill hnoða þessu máli í gegn.