14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6631 í B-deild Alþingistíðinda. (5954)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Vegna spurningar hv. 3. þm. Reykv. vil ég segja þetta: Ég hygg að mönnum muni vera ljóst að það eru ekki vandræði með fullar greiðslur í sambandi við mjólkurafurðir sem greiðast mánaðarlega. Þar er um það að ræða að lán þarf út á birgðasöfnun á ostum sem eru ekki nema lítill hluti af mjólkurafurðum. Í þeirri vinnu sem unnin hefur verið hafa ekki verið talin nein vandkvæði á fullum greiðslum fyrir mjólkurafurðirnar. Það er hins vegar meiri vandi með sauðfjárafurðir en gert er ráð fyrir að bændur fái þær greiðslur að fullu fyrir áramótin.

Í þeirri athugun sem nú er unnin er gert ráð fyrir að flytja niðurgreiðslur sem nú eru greiddar á smásölustigi yfir á kjöt á frumstigi, þ. e. greiða niður strax og kjötið kemur frá bændum. Það er misskilningur hjá hv. þm. að verið sé að nota sömu peningana tvisvar. Það kemur vitanlega neytendum jafnt til góða hvort greitt er strax eða síðar.

Niðurgreiðslur á kjöt munu vera um það bil 200 millj. kr. Heildarframleiðsla á kindakjöti er rúmlega 12 þús. tonn. Ég skal viðurkenna að ég hef þessar tölur ekki nákvæmar, en ég hygg að verðmætið muni vera í kringum 1.5 milljarðar. Núna eru veitt 75% afurðalán út á þetta verðmæti. Þá eru það um það bil 350–400 millj. kr. sem þarna ber á milli til að um full lán út á kjötframleiðsluna verði að ræða. Nota má niðurgreiðslurnar upp í u. þ. b. helminginn af þessu með því að færa þær fram fyrir áramótin og þá þarf Seðlabankinn að gera viðskiptabönkunum kleift að standa skil á því sem eftir er, eins og reyndar var um samið við Seðlabankann þegar afurðalánin voru færð til viðskiptabankanna. Það munu vera um það bil 200 millj. kr. Á þetta reynir í haust. Við hæstv. viðskrh. höfum lýst þeirri samþykkt ríkisstj., sem nú er unnið að framkvæmd á, að þetta verði gert. Ef einhver efast um það hefur hann til þess leyfi. En ég endurtek: Þetta verður gert. Gengið hefur verið fullkomlega frá því á fundum ríkisstj. og Seðlabankinn er að kanna á hvern máta það verður best gert.

Það er alveg rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði áðan, að eigið fé hjá afurðastöðvunum er lítið sem ekkert. Þær þurfa að eiga eigið fé og að því þarf að stefna að þær geti, eins og frystihúsin, átt nokkurt eigið fé í birgðum. En til þess verður þá að taka tillit í verðlagningu landbúnaðarafurða og það tekur nokkurn tíma að eigin fé skapist. Meðan það er ekki til verður að brúa það með fyrirgreiðslu úr Seðlabankanum.