07.11.1984
Neðri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

7. mál, stjórnarskipunarlög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég fyrir mitt leyti vil lýsa yfir stuðningi við 1. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir á þskj. 7. Hún fjallar um afnám réttar til þingrofs. Ég held að hvert það þing sem kjörið er verði að bera ábyrgð á stjórn landsins þau fjögur ár sem til er ætlast. Ég tel að þingrofsréttur geti verið ákaflega viðsjárverður. Að mínu mati er hægt að leika sér með hann hreinlega í pólitískum tilgangi eins og fram hefur komið. Ég hef hins vegar meiri efasemdir um algert afnám réttar til að setja brbl. Ég tel að slík staða geti hugsanlega komið upp að það sé alger nauðsyn að nota hann, en vissulega á miklu, miklu takmarkaðri hátt en gert hefur verið. Ég vil hins vegar aðeins fá að leggja orð í belg um starfsemi Alþingis og taka undir ýmislegt af því sem hv. 4. þm. Reykv. sagði hér í ræðustól.

Ég held að nauðsynlegt sé að taka upp nokkuð önnur vinnubrögð hér. Það er alveg augljóst að tíminn endist okkur ekki. Ég vil minna á að sú var tíðin að hér var unnið föstudaga sem aðra daga. Ekki veit ég hvenær það var afnumið að þingfundir væru á föstudögum. En sú breyting var vísast hugsuð til þess að þm. hefðu þá möguleika á að undirbúa mál og vinna að málum. Nú hefur sú þróun orðið að sérstaklega þm. sem búa utan Reykjavíkur eru fjarverandi úr bænum þennan dag. Það er auðvitað ósköp skiljanlegt frá mannlegu sjónarmiði. En það er alveg augljóst að fjögurra daga vinnuvika er ekki nægileg. Vel mætti hugsa sér að þingfundir stæðu lengur fyrstu fjóra daga vikunnar, en síðan færu nefndarfundir að meira eða minna leyti fram á föstudögum. Ég held að annaðhvort verði að gera þessa breytingu nú eða lengja þingtímann, en það kemur vissulega til greina.

Ég vil hins vegar. ekki síst vegna þeirra utanþingsmanna sem hér eru staddir, enn einu sinni leggja áherslu á það að ég held að of mikið sé gert úr þessu langa svokallaða leyfi þm. Persónulega hef ég a.m.k. ekki haft nein sex mánaða sumarleyfi, og satt að segja á þessu ári ekkert sumarleyfi. Ég er alltaf dálítið hrædd um að það valdi miklum misskilningi þegar talað er um þetta langa sumarleyfi. Vitaskuld eru þm. að vinna mestan hluta ársins. Spurningin er kannske meira um það hversu skipulega þeir eru að vinna.

Það er hárrétt, sem fram kom í máli hv. 4. þm. Reykv., að það er stundum ekki tími til að gera skil mikilvægum málaflokkum, svo sem eins og skýrslum ráðh. Ég vil leyfa mér að minna á að hér er lögð fram árlega skýrsla um starfsemi Norðurlandaráðs. Það hefur nákvæmlega engin umr. farið fram hér í þinginu þau fimm ár sem ég hef setið hér um Norðurlandaráð. Okkur sem þar sitjum sem fulltrúar þingsins er nánast falið sjálfdæmi í ákvörðunum sem varða norræna samvinnu. Þetta er auðvitað engan veginn heppilegt. Þar er verið að fjalla um mikilsverð mál, sem varða vissulega hag íslensku þjóðarinnar ekki síður en annarra norrænna þjóða, og vissulega gætum við þarfnast tíma til að fjalla um þessa starfsemi. Að ekki sé minnst á þá fulltrúa sem sitja þing Sameinuðu þjóðanna. Hér er afar lítið rætt um þau mál áður en þeir fulltrúar fara, og ekki öllu meira eftir að þeir koma. Sýnist mér að þar muni utanrrn. gersamlega segja þm. fyrir verkum, hver sem þar situr, og þeir geri allir sem einn eins og rn. skipar þeim. Slíkt er auðvitað ekki sæmandi fyrir þjóðkjörna fulltrúa, sem sitja á Alþingi Íslendinga, að starfa þannig á alþjóðlegum þingum.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist hér aðeins á gerð frv. sem er áhugavert að ræða líka. Það er öldungis rétt, sem hann sagði, að í mörgum tilvikum eru það embættismenn framkvæmdavaldsins sem meira eða minna semja frv. Ástæðunnar fyrir því er ekki síst að leita hér innan dyra. Vilji þm. gera drög að frv., vinna það, hafi þeir fengið hugmynd að einhverju sem þeir vilja breyta, þá er því miður ekki í neitt hús að venda hér innan stofnunar til að fá aðstoð við að búa þetta frv. til. Slíkt ætti auðvitað að vera hér á boðstólum. Þm. eru þess vegna oft neyddir til að leita aðstoðar embættismanna viðkomandi málaflokka úti í framkvæmdakerfinu til þess að setja saman frv.

Ég hef áður minnst á það hér í ræðustól að auðvitað er það einn af hornsteinum lýðræðisins, hins raunverulega lýðræðis, að hver sá sem kjörinn er inn á þing hafi alla aðstöðu til að fá hugsanir sínar um breytingar á einhverju sem varðar hag þjóðarinnar tæknilega orðaðar hér innan dyra. Það á hver einasta manneskja að geta skilað frv. en ekki að beinlínis sé komið í veg fyrir það af tæknilegum ástæðum. Hér vantar auðvitað starfslið, tæknimenn. Á meðan þeir eru ekki hér halda embættismenn þjóðarinnar áfram að búa til frv. handa sér til að framkvæma. Og ekki nóg með það. Þegar frv. hefur verið vísað til n. eru þessir hinir sömu embættismenn kallaðir til umsagnar um hvernig þm. eigi að afgreiða viðkomandi frv. Þetta benti margoft á hv. fyrrv. þm. Vilmundur Gylfason. Það var hárrétt sem hann sagði um þetta. Hann mótmælti því hvað eftir annað að sömu embættismenn og hann vissi að höfðu samið viðkomandi frv. væru svo til kvaddir að segja sitt álit á ágæti þess. Það segir sig sjálft að þetta getur auðvitað ekki gengið.

Þetta voru þau atriði sem ég vildi fá að koma hér á framfæri um leið og ég lýsi stuðningi mínum við fyrri gr. en efasemdum á 2. gr. frv. þeirra hv. þm. BJ.