14.06.1985
Efri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6656 í B-deild Alþingistíðinda. (5984)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki tala lengi. Ég hef eins og aðrir hvorki haft geð í mér né allt of mikinn tíma til að kynna mér efni frv. og hef því sannast sagna ekki mikið að segja í þessari umr. a. m. k. um frv. í einstökum liðum, enda ekki sá hluti umr. hér í gangi.

Mér finnst reyndar nokkuð táknrænt að eitt þeirra þskj. sem fylgir þessu frv. hingað til Ed. ber töluna 1262. Þá gengu Íslendingar Noregskonungi á hönd. Ég held nefnilega að höfuðgalli þessa frv. liggi ekki endilega beint í þessu frv. heldur í sögu og þróun þessara mála. Með brbl. og lagasamþykktinni 1934 afsöluðu bændur sér frjálsum samningsrétti sem þegnar þessa lands og afkoma þeirra varð að ákvörðun opinberra aðila, auðvitað með íhlutun og þátttöku samtaka bænda, en bændasamtökin hafa síðan ekki haft og reyndar ekki viljað hafa þann rétt að knýja sín hagsmunamál í gegn með öðrum hætti en með stuðningi ríkisstj. og stjórnmálaflokka og löggjöf. Og hvernig er svo málefnum bænda komið í dag? Hv. 5. landsk. þm. lýsti því nokkuð áðan, og ég held að hann fari ekki mjög langt frá sannleikanum, að þó að framfarir hafi orðið í landbúnaði og þó að auðvitað horfi allt öðruvísi við á býlum en fyrir kannske 50 árum er fjárhagsleg staða bænda mjög slæm. Ég held að það felist í því að þeir eru sumpart í góðri trú og sumpart kannske hjálparlausir vegna þess að ég álít að Stéttarsamband bænda og Búnaðarþing séu ekki til þess bær að halda gersamlega á hagsmunum bænda þeim til heilla. Ég held að þau samtök horfi oft til annarra átta en eingöngu til bænda. Því er staða bænda orðin þannig að þeir skrimta og þeir fá að skrimta, en aðallega fá þeir þó að skrimta til að halda úti ákveðnum aðilum í þessari keðju framleiðslunnar sem hafa allt sitt á þurru, eins og sagt hefur verið. Þar á ég við afurðasölu og úrvinnslugreinar þessa iðnaðar. Ég skil að því leyti allar þær athugasemdir sem komið hafa fram frá samtökum bænda í þessu máli. Þegar enn einu sinni er verið að breyta framleiðsluráðslögunum verða þeir — eðlilega — hræddir um sinn hag rétt eina ferðina og geta kannske lítið að gert vegna þess, eins og ég sagði, að þetta er orðið svo innmúrað skipulag, sem þeir búa orðið við, þetta afsal samningsréttar, að þeir treysta sér ekki að breyta því í höfuðatriðum heldur reyna að klóra í bakkann. Til að mynda geta menn skemmt sér við — það er þó kannske einum of djúpt í árinni tekið að segja „skemmt sér við“ því frv. er ekki neinn skemmtilestur — að lesa 19. gr. frv. um verðmiðlun.

„Verðmiðlun á búvörum skal haga þannig að afurðastöðvum sé gert kleift að greiða framleiðendum sama verð fyrir sams konar búvörur.“

Þetta er afskaplega sakleysisleg setning. Síðan skal innheimta verðmiðlunargjald af þeim búvörum og þar fram eftir götunum.

Í c-lið sömu greinar segir, með leyfi virðulegs forseta, að þetta sé allt saman gert „til þess að jafna aðstöðu afurðastöðvanna til að koma framleiðsluvörum sínum á markað,“ þ. e. að staðsetning þessara stöðva á ekki að skipta neinu máli fyrir rekstur þeirra.

Þá segir í d-lið: „Til þess að greiða nauðsynlega flutninga á milli svæða þar sem vöntun kann að vera á einstökum atriðum.“

„Ég álít að sá hugsunarháttur sem fram kemur t. d. í 19. gr. stangist gersamlega á við þann hugsunarhátt sem gefið er í skyn að þetta frv. eigi að stuðla að. Þetta frv. á að stuðla að rosalega miklu. Þar segir í 40. gr.:

„Byggingu og staðsetningu afurðastöðva skal haga á þann hátt sem hagkvæmastur er fyrir heildarskipulag viðkomandi búgreina,“ þ. e. með skipulagi því sem þessu frv. er fyrirhugað að fullnægja eiga afurðastöðvar að vera staðsettar þannig að þær séu sem hagkvæmastar fyrir heildarskipulag viðkomandi búgreina, en síðan á að bæta úr þeim slysum sem verða við þetta ágæta og hagkvæma heildarskipulag með því að með 19. gr. verður hagkvæmni staðsetningarinnar að aukaatriði vegna þess að þeir fá óhagkvæmnina bætta skv. þessum lögum.

Ég tel að þetta eina atriði, sem ég gríp niður í, sé mjög táknrænt fyrir stöðu bænda annars vegar og neytenda hins vegar sem einnig hefur verið minnst á í umr. og þess vegna óþarft að fara að gera mikið mál úr því. Þeirra sjónarmið og þar með hagsmunir voru lítið skoðuð bæði við samningu þessa frv. og afgreiðslu þess, en þó má ítreka þá spurningu, sem fram hefur komið í sambandi við breytingar á greiðslum til bænda, þ. e. í VI. kaflanum, hvernig eigi að standa skil á þessu og hvað kostar ríkið að uppfylla ákvæði 28. og 29. gr. Eins er í 36. og 37. gr. gert ráð fyrir ákveðnum lækkandi framlögum til útflutningsbóta annars vegar og hins vegar framlögum til að mæta áhrifum samdráttar í framleiðslu mjólkur og sauðfjárafurða. Það væri gott að fá upplýst — ég á á ekki sæti í landbn. — hvaða upphæðir menn áætla að hér sé um að ræða á árinu 1986 þar sem annars vegar er gert ráð fyrir hámarki útflutningsbóta um 7% af heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar og 2% framlagi til að mæta áhrifum samdráttar af heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar.

Eftir að hafa lesið lögin yfir þá kemur maður á bls. 17 að grg. Þar segir:

„Grundvöllinn að starfi hópsins,“ það er hópurinn sem samdi þessi lög, „er m. a. að finna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá 26. maí 1983, en þar segir svo um stefnumörkun varðandi landbúnað.“

Ég hirði ekki um að lesa allt það sem þar segir, virðulegi forseti, en með leyfi forseta vil ég lesa hér tölulið 1, 2 og 3 í grein 3.2.:

„Lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins verði endurskoðuð meðal annars með tilliti til eftirfarandi atriða:

1) Skipulagningar búvöruframleiðslunnar eftir héruðum eða framleiðslusvæðum, þar sem tekið er tillit til framleiðsluskilyrða, markaða, landgæða og hóflegrar landnýtingar.“

Þegar ég las þetta á sínum tíma í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. hélt ég að hér væri verið að höfða til hugsunar sem skotið hefur öðru hvoru upp kollinum m. a. hjá byggða- og áætlunardeild Framkvæmdastofnunar og þar komist held ég m. a. s. á þrykk, um að menn gerðu á vissan hátt upp á milli svæða á þessu landi í þeim skilningi hvort eitt landsvæði hentaði betur til sauðfjárframleiðslu en annað og annað landsvæði betur til mjólkurframleiðslu en hitt og að hér ætti að skoða og skipuleggja búvöruframleiðslu með tilliti til þessara atriða. Ég sé ekki að það komi fram í þessu frv. Nú kann vel að vera að þessi minn skilningur byggist á misskilningi og þá bið ég um að hann sé leiðréttur.

„2. Breytinga á verðlagningarkerfinu.“ — Það verður reyndar ekki annað sagt en að breytingar hafi verið gerðar á verðlagningarkerfinu í ýmislegum framkvæmdaatriðum, en ég held að þær breytingar nái ekki til neinna grundvallarbreytinga á verðlagningarkerfinu, heldur má frekar kalla þetta úrbætur.

„3. Meiri hagkvæmni í verslun með garðávexti.“ Það kann að vera að menn telji að það felist í því að hætta rekstri Grænmetisverslunar ríkisins.

Þá er liður 3.3.: „Lögð verði áhersla á nýjungar í vinnslu og sölustarfsemi landbúnaðarafurða og hagræðingu til að draga úr vinnslu- og dreifingarkostnaði.

3.4. Nýjar búgreinar, svo sem loðdýrarækt, fiskeldi o. fl. verði efldar og stærri hluti fjárveitinga til landbúnaðar renni til þeirra.

3.5. Með þessum og öðrum nauðsynlegum ráðstöfunum verði unnið gegn byggðaröskun og hagur bændastéttarinnar tryggður.“ Svo stór voru þau orð.

Ég verð að viðurkenna að eftir að hafa lesið þessi markmið fæ ég ekki séð að frv. skili þessum markmiðum að öðru leyti en því að það er minnst á þessa hluti hérna, en ég fæ ekki séð á samanburði frv. við það gamla, núgildandi, þá gífurlegu áherslubreytingu sem mætti ætla að ætti að vera að finna eftir þá markmiðasetningu sem segir frá í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá 26. maí 1983. Þannig held ég að þetta frv. fullnægi ekki heldur tilsettum upphaflegum markmiðum.

Ég mætti kannske, með leyfi virðulegs forseta, kynna brtt. sem hér hefur verið dreift, en reyndar er ekki búið að taka formlega á dagskrá. Hún er við þetta frv. Hún var upphaflega flutt á síðasta þingi og var þá við 12. gr. þágildandi laga. Með því að í frv. er ekki gert ráð fyrir sömu afskiptum Framleiðsluráðs af öllum þáttum þessarar starfsemi átti ég sannast sagna í nokkrum vanda með tillgr., en sá það ráð einna best að skjóta henni inn á eftir 57. gr. Þar komi þá ný grein er orðist svo:

„Þeim, sem annast sölu á útfluttum landbúnaðarvörum, er ekki heimilt að taka meira í sölulaun en sem nemur 2% af söluverðmæti þeirra.“

Mönnum er kunnugt að hingað til hafa menn tekið sölulaun sín af svokölluðu útflutningsverðmæti, sem er söluverðmæti plús uppbætur, en í þannig fyrirkomulagi felst engin hvatning til söluaðila að reyna að ná sem hagstæðu verði erlendis, þar sem hann fær alltaf sinn skerf hvað sem á dynur. Ég er ekki alveg sammála hv. 5. landsk. þm. um að þetta eigi hugsanlega að vera hærri prósenta. Með því að halda þessari prósentu þetta lágri og þá í samræmi við algenga þóknunarprósentu við sölu fjármuna sé ég í því felast ákveðna hvatningu til söluaðila að reyna að ná sem allra hagstæðustu verði erlendis fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir.