14.06.1985
Efri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6659 í B-deild Alþingistíðinda. (5985)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Þar sem ég á ekki sæti í hv. landbn., sem þetta mál fær til meðferðar, vildi ég með örfáum orðum láta mína skoðun í ljós á þessu mjög svo veigamikla máli, vandasama máli eins og hér hefur komið fram.

Þetta mál er vissulega búið að vera í brennidepli alllengi og raunar vissu menn miklu lengur hvað til stóð. Ég álít að það sé alger fyrirsláttur að þetta hafi komið mönnum alveg í opna skjöldu og að undirbúningur hafi ekki verið sem bestur að því leyti. Ég læt það ekki mikið á mig fá þó ýmsir telji að hafi verið fram hjá sér gengið við samningu þessa frv. Kynning á slíku máli er mjög vandasöm og stundum ekki til góðs fyrir framgang mála þar sem mjög auðvelt er að misskilja og snúa út úr. Og að sjálfsögðu eiga bændur ekki einir um að véla.

Í hinu svokallaða septembersamkomulagi formanna stjórnarflokkanna voru lagðar línur sem endurspeglast í frv. sem hér er til meðferðar. Auðvitað ber frv. merki málamiðlunar, en ég verð að segja að mér finnst það furðu gott miðað við aðstæður. Sú nefnd sem það samdi eða sá hópur manna hefur unnið gott starf og náð furðulega góðu samkomulagi og sanngjörnu.

Það er ekki hægt að fara nákvæmlega út í frv., en það má segja frá mínum sjónarhóli að helstu stefnumótandi atriði séu af þrennum toga.

Það er þá í fyrsta lagi að afurðarstöðvar, mjólkurbú, sláturhús og þess háttar, skulu kaupa og því sem næst staðgreiða afurðir af bændum á grundvallarverði sem ákveðið er í samræmi við tilkostnað. Skipting landsins í sölusvæði verður að nokkru leyti lögð niður og búvöruverð til neytenda háð almennum verðlagsákvæðum.

Í öðru lagi verður útflutningsbótum hagað þannig að árið 1990 verða þær ekki nema sem svarar 4% heildarframleiðslunnar. Það fé sem hingað til hefur verið notað til útflutningsbóta verður veitt til eflingar nýrra búgreina fyrst og fremst.

Það er ýmsum vissulega mikill þyrnir í augum að það skuli ekki eiga að afnema útflutningsbætur með öllu. En sé málið skoðað öfgalaust þýða þessi 4% í rauninni ekki annað en að ætíð séu til í landinu mjólkurafurðir og kjöt sem svara til ca. þriggja vikna neyslu okkar sjálfra. Nær finnst mér varla hægt að komast því markmiði að þessar afurðir svari til innanlandsneyslu. Þess má geta að ört vaxandi ferðamannastraumur gæti líka leitt til þess að búvöruframleiðslan yrði komin í jafnvægi fyrr en ætlað er. Við skulum venja ferðamennina á dæmigert íslenskt góðgæti, þ. e. lambakjöt og skyr og fisk náttúrlega, en það er öruggt að þeir fá bæði betri kjúklinga, betra svínakjöt og betri pakkasúpur heima hjá sér.

Þriðja atriðið, sem mér finnst markverðast í þessu frv., er það skref sem stigið er til að losa um innflutning á landbúnaðarvörum og einkaréttur Grænmetisverslunar landbúnaðarins er afnuminn. Að vísu verður búvöruflutningur enn þá háður leyfum og því að innlend framleiðsla fullnægi ekki neysluþörfinni. Auðvitað hefðu sumir ýtrustu frjálshyggjumenn viljað ganga enn lengra, en ég tel að þetta sé nóg í bili, enda er verslun með landbúnaðarvöru víðast hvar í heiminum háð þessum skilyrðum.

Það er auðvitað margt fleira markvert í þessu frv. og mér finnst það allt í frjálsræðisátt. Það er vissulega dregin burst úr nefi Framleiðsluráðs landbúnaðarins og völdin færð samtökum bænda undir yfirstjórn ráðh. Um það voru nokkur átök eins og menn hafa orðið varir við, en ég tel að það mál sé komið í örugga höfn.

Ég get tekið undir það, og mér er nær að halda að það sé rétt, að sauðfjárbændur séu tekjulægsta stétt landsins. Sauðfjárbændur með lítil bú hafa ekki nálægt því verkamannalaun til að lifa af. Hér er í flestum tilfellum um að ræða eldra fólk sem gerir bókstaflega engar kröfur og eyðir engu. Þessum búum hlýtur að fækka á næstu árum. Ég minnist þess að Halldór heitinn Pálsson sagi einhvern tíma að bændum hefði fækkað um tvo á viku allan þann tíma síðan hann fór að fylgjast með. Það er einfaldlega vegna þess að meðalaldur bænda er orðinn nokkuð hár og það að byggja nýbýli nú með öllum byggingum og bústofni er einfaldlega orðið allt of dýrt. Það getur ekki með nokkru móti borið sig. Ég veit dæmi um nýbýli þar sem skuldirnar eru nú um 30 millj. kr., en árstekjur brúttó voru um 3 milljónir. Það dæmi getur aldrei gengið upp. Það sjá allir.

Ef þessi þróun, sem Halldór heitinn Pálsson hafði fylgst með, gengur eftir er hætt við að byggðaröskun gæti orðið óæskilega mikil. Það má svo sem segja að í ýmsum harðbýlum og afskekktum byggðarlögum hljóti fyrr eða síðar að verða að hætta búskap, en ef við teljum skynsamlegt að halda byggð í einhverju jafnvægi og nýta landið allt hljótum við að vilja hafa hönd í bagga með þeirri byggðaþróun.

Ég var að lesa um daginn samþykktir landsfundar Sjálfstfl. frá 1948. Þar er lýst miklum áhyggjum af fólksflótta úr sveitunum og samdrætti í landbúnaði og margt af því sem þar var sagt árið 1948 gæti verið úr ræðum manna við þessar umr. Þá var bölsýni og þar voru útfararstef bændastéttarinnar kveðin. Þessar 37 ára gömlu samþykktir bera með sér svipaðan ugg og hér hefur verið látinn í ljós um að samdráttur í landbúnaði mundi leiða til hins versta ófagnaðar. Við þekkjum nú allir, sem fylgst höfum með síðan, hvað gerst hefur. Það er hætt við því að þeir sem stóðu að samþykki árið 1948 hefðu ekki viljað hugsa þá hugsun til enda ef þeir hefðu hugsað sér þann bændafjölda sem nú sér okkur fyrir öllum landbúnaðarafurðum sem við þurfum á að halda og meira til.

Ég sagði áðan að byggðaþróun gæti orðið óæskileg eða stjórnlaus, skipulagslaus og óhagkvæm og að því leyti dýr. Meðal þeirra stjórntækja sem við eigum völ á til að hafa stjórn á byggðaþróun eru efling nýrra búgreina eins og loðdýraræktar og aðstoð við unga menn sem vilja taka við góðum jörðum með húsum og fénaði sem eru vel í sveit settar. Það er synd ef slík fjárfesting nýtist ekki. Það er miklu hagkvæmara og skynsamlegra að halda slíkum jörðum í byggð en ýmsum afdalakotum og harðbýlum jörðum sem nú er haldið við.

Ég skal ekki orðlengja þetta mikið meir. Ég hef, þvert við ýmsa að mér skilst sem talað hafa á undan, marglesið þetta frv. og ég hef rætt við mjög marga bændur. Ég fullyrði að nú, eftir að menn hafa lesið frv. og velt því fyrir sér hvað margar þessar frvgr. þýða, er mjög mikill meiri hl. fylgjandi því að málið nái fram að ganga. Það eru auðvitað ekki allir á eitt sáttir og auðvitað þarf að hyggja að breytingum þegar menn sjá hvernig verður að starfa eftir þessum lögum, en það er sannfæring mín að þetta sé tiltölulega skynsamlegt frv. og þær breytingar sem orðið hafa á því eru ekki til bölvunar.