15.06.1985
Neðri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6668 í B-deild Alþingistíðinda. (5993)

457. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í fyrrinótt beitti hæstv. forseti Nd. sér fyrir því að samkomulag gæti tekist á milli flokkanna í þinginu um meðferð mála, m. a. á þá leið að frv. til l. um framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða færi hér í gegnum deildina þó að mörgum væri það óljúft að því máli yrði haldið áfram með þeim hætti sem gerðist. En ég tek það fram að það var m. a. fyrir orð hv. formanns landbn. Nd. sem við beittum okkur fyrir því að samkomulag gæti tekist um að þetta mál færi til meðferðar í Ed.

Jafnframt var um það rætt að tvö frv. færu til Ed., þ. e. frv. til l. um þróunarfélag og frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands. Niðurstaðan varð sú, aðallega fyrir handvömm í stjórnarliðinu, aulahátt í vinnubrögðum og innbyrðis sundurlyndi, að til Ed. fór frv. til l. um þróunarfélag, en frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands er hér til meðferðar, enda er það vel, herra forseti, að svo fór. Í þetta skipti ber að þakka fyrir það að ríkisstj. skuli hafa haldið á málum eins og hún gerði í gær með handvömm, klaufaskap og skipulagsleysi vegna þess að hæstv. forsrh. taldi sig knúinn til þess í gærkvöldi að halda áfram þeirri umr. sem hófst um þessi mál í fjölmiðlum. Hann gerði það með þeim hætti að hann kom athugasemd á framfæri við fjölmiðla vegna þeirrar umr. sem hér hafði farið fram með einstaklega lúalegum hætti og sagði þannig frá öllu samkomulagi um þinghaldið. Þess vegna er óhjákvæmilegt að þetta mál verði rætt hér, herra forseti.

Ég fagna því alveg sérstaklega að frv. um Framkvæmdasjóð Íslands skuli vera hér á dagskrá. Við lýsum ánægju okkar með það, Alþb.-menn, að geta hér í Nd. rætt við hæstv. forsrh. um hans vinnubrögð og það sem fram hefur komið af hans hálfu við fjölmiðla.

Ég mun ekki fara út í einstök atriði í þeim efnum heldur halda mig í ræðu minni við frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands og fylgifrv. þess sem nú eru komin til Ed. Ég vil hins vegar segja, þannig að af verði tekin öll tvímæli um það: Það voru hæstv. forseti Nd. og hv. formaður landbn. sem beittu sér fyrir því að reyna að ná einhverju samkomulagi um þinghaldið. Þar var ekki um að ræða hæstv. forsrh., sem sýndi í rauninni engan lit í þeim efnum, heldur voru það þessir tveir hv. þm. Framsfl. sem gegna trúnaðarstörfum hér í Nd., sem beittu sér fyrir þessu samkomulagi. Það ber að harma að hæstv. forsrh. skuli hafa tekist að eyðileggja þessa tilraun samflokksmanna sinna um leið og við Alþb.menn fögnum því að fá tækifæri til að ræða ítarlega um þessi mál.

Frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands, herra forseti, er 457. mál Nd. og gerir ráð fyrir að búa til enn eina ríkisstofnun úr Framkvæmdastofnuninni. Við meðferð málsins hér við 1. umr. gerði ég grein fyrir athugasemdum mínum við þetta frv. og ég hef í samræmi við þær athugasemdir flutt brtt. við þetta frv. á sérstökum þskj. Þær athugasemdir sem ég gerði við frv. voru einkum þessar, herra forseti:

Í fyrsta lagi gerði ég athugasemd við 3. gr. frv.. en þar segir:

Forsrh. skipar sjóðnum stjórn þriggja manna, einn skv. tilnefningu Seðlabanka Íslands, einn skv. tilnefningu fjmrh. og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnarinnar.“

Ég benti á það við 1. umr. málsins að hér væri verið að auka embættismannavaldið og auka miðstýringu í höndum ráðh., hér væri verið að víkja Alþingi. hinni lýðræðislega kjörnu stofnun, til hliðar þannig að þingið fengi ekki að hafa hönd í bagga með stjórn þessa sjóðs eins og er nú um að ræða skv. lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins. Ég tel að hérna sé um að ræða mjög háskalega tilraun til að setja þennan mikilvæga sjóð undir embættismenn og miðstýringu eins ráðh.

Með því að hér er jafnframt gert ráð fyrir að stjórnin verði skipuð þannig að einn stjórnarmanna verði skipaður af Seðlabanka Íslands og einn skv. tilnefningu fjmrh. er bersýnilega verið að reyna að ná samkomulagi með þessari grein innan ríkisstj., þar sem heiftarlegur ágreiningur var um hver ætti að stjórna þessum stofnunum. Forsrh. fékk undir sig þróunarfélagið, sem hefur með að gera 500–700 millj. kr., og síðan fær hann einnig undir sig Byggðastofnun með þeim hætti sem hér hefur þegar verið rætt um. Íhaldsmönnum blöskraði að láta hann líka hafa Framkvæmdasjóðinn 1001 og lögðu til að sjóðurinn yrði settur undir fjmrh. Ég verð að taka það fram að ég tel að það hefði að mörgu leyti verið mjög eðlilegt. En í staðinn fyrir að setja þennan sjóð undir fjmrh. er reynt að búa til hér eins konar fjölskipað stjórnvald yfir þessum sjóði með tilnefningu fulltrúa frá forsrn., fjmrn. og í rauninni viðskrn. líka.

Aðalatriðið er þó ekki það, heldur hitt að Alþingi er algjörlega ýtt til hliðar. Á þeim forsendum. herra forseti, hef ég flutt 1. brtt. mína sem gerir ráð fyrir að Alþingi kjósi þriggja manna stjórn þessa sjóðs, eða eins og segir á þskj. 1073 í brtt. frá 2. minni hl. fjh.- og viðskn.:

„3. gr. orðist svo:

Alþingi kýs þrjá menn í stjórn sjóðsins, og jafnmarga til vara, til fjögurra ára í senn. Forsrh. skipar formann sjóðsstjórnarinnar.“

Um þetta mál er einnig fjallað í nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 1072 og kem ég nánar að því síðar.

Annað atriði sem ég gerði athugasemdir við í frv. á þskj. 776 var að ríkisstj. gerði ráð fyrir að setja inn í lögin ákvæði um að eignarhaldsfyrirtæki ríkisins tæki við stjórn þessa sjóðs frá 1. jan. 1986 eða eins og hér stendur í 3. mgr. 4. gr. í frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Hinn 1. jan. 1986 skal eignarhaldsfyrirtæki ríkisins taka við allri hlutafjáreign Framkvæmdasjóðs og eignarráðum sjóðsins í viðkomandi hlutafélögum.“

Hér mun vera á ferðinni skepna sem ríkisstj. hefur verið að reyna að koma á lappirnar undanfarna mánuði, eignarhaldsfyrirtæki ríkisins. Það hefur gengið til með þeim hætti að nú mun hafa verið ákveðið í ríkisstj., a. m. k. í bili, að slátra þessari skepnu. Mér skilst að það hafi jafnvel verið hæstv. iðnrh. sem hafi stöðvað þessa hugmynd ásamt hæstv. fjmrh. Þess vegna var þessi undarlega vitleysa í frv. um Framkvæmdasjóð ríkisins, að eignarhaldsfyrirtæki ríkisins tæki við honum um áramót, felld niður.

Þessi till. er auðvitað ein af mörgum til marks um að þessi frv. voru öll tæknilega mjög illa úr garði gerð. Starfsmenn Framkvæmdastofnunar ríkisins og Framkvæmdasjóðs komu á fund n. og gerðu fjölmargar tæknilegar athugasemdir við þessi frv. vegna þess að þeir töldu að þau væru svo illa úr garði gerð, beinlínis frá tæknilegu sjónarmiði, að þau væru með öllu óbrúkleg sem löggjöf. Til sannindamerkis um það var m. a. þetta endemisákvæði á þskj. 776:

„Hinn 1. jan. 1986 skal eignarhaldsfyrirtæki ríkisins taka við allri hlutafjáreign Framkvæmdasjóðs og eignarráðum sjóðsins í viðkomandi hlutafélögum.“

Núna er búið að lóga þessari skepnu sem hét eignarhaldsfyrirtæki ríkisins. Það mun hafa verið gert núna á vordögum. Þar með er það fallið út. En ekki er allt búið enn því að í greininni eru fleiri en ein mgr. Þær eru þrjár. Og 2. mgr. er svona:

„Nú verður sett á stofn Byggðastofnun í eigu íslenska ríkisins og skal Byggðastofnun þá eignast helming af fasteign Framkvæmdasjóðs, Rauðarárstíg 25, Reykjavík. Skal fasteignin eftir það vera óskipt sameign Framkvæmdasjóðs og Byggðastofnunar. Þó skal þessum aðilum heimilt að skipta með sér nefndri fasteign með eignaskiptasamningi.“

M. ö. o. var hér greinilega gert ráð fyrir því af ríkisstj. að Byggðastofnun fengi hálfa fasteignina að Rauðarárstíg 25 í Reykjavík sem tannfé í upphafi starfsferils síns. Þegar málið kom svo til meðferðar í fjh.- og viðskn. Nd. töldu forráðamenn Framkvæmdasjóðs ríkisins að hérna væri um óeðlilegt lagaákvæði að ræða vegna þess að með því væri verið að skerða sjóðsstöðu Framkvæmdasjóðs Íslands og þar með að breyta stöðu hans gagnvart lánardrottnum og öðrum viðskiptaaðilum. Þess vegna fór það svo að ríkisstj. ákvað líka að slátra 2. mgr. Hún slátraði fyrst þeirri 3. og síðan 2. mgr. og eftir stendur þá að lokum ein mgr. af þremur.

Því hefur verið lýst yfir að Byggðastofnun muni fá hálfa fasteignina að Rauðarárstíg 25 og frá því hafi verið gengið að hún muni fá þessa fasteign. Ég vil því inna hæstv. forsrh., ef hann er hér í salnum, eftir því hvernig ríkisstj. hyggst ganga frá því að Byggðastofnun fái þá hálfu eign tafarlaust og undanbragðalaust og ekki verði gerð tilraun til að selja Byggðastofnun þessa hálfu fasteign á neinum okurkjörum. Það er bersýnilega og var bersýnilega ætlun ríkisstj. að Byggðastofnun fengi þennan hálfa húshluta án endurgjalds sem er auðvitað eðlilegt vegna þess að byggðadeild og Byggðasjóður hafa verið helmingurinn af Framkvæmdastofnun ríkisins. Þess vegna væri auðvitað óeðlilegt með öllu að Byggðastofnun neyddist til að kaupa helminginn af þessari fasteign af Framkvæmdasjóði þó að Framkvæmdasjóður hafi verið skráður fyrir fasteigninni eins og um hefur verið að ræða.

Ég tel þess vegna ástæðu til að mótmæla þeim vinnubrögðum sem höfð eru varðandi Byggðastofnun að þessu leyti til. Og ég vil ganga eftir því og fá að vita undanbragðalaust hver er ætlun ríkisstj. varðandi þessa hálfu húseign Framkvæmdastofnunar Íslands að Rauðarárstíg 25. Menn geta auðvitað sagt sem svo að þetta skipti varla öllu máli, en staðreyndin er sú og ég er sannfærður um það að ef ekki verður gengið hreinlega frá þessu nú þegar, við meðferð málsins á Alþingi, er hætta á að Byggðastofnun verði af Framkvæmdasjóði Íslands látin sæta afarkostum í þessu efni. Þess vegna óska ég eftir því að þetta mál verði hér hreinsað upp.

Það er ástæða til að spyrja: Hvar er formaður Framkvæmdastofnunar Íslands? Er hann hér á fundinum? Ef hann er það ekki óska ég eftir því að hann verði kallaður hingað á þennan fund, þannig að hægt verði að gera grein fyrir þessu máli og að hann komi þá inn í þá umr. með skilmerkilegum hætti. (Forseti: Má ég aðeins gera athugasemd við ræðu hv. þm. Þannig stendur á að hv. þm. Stefán Guðmundsson óskaði eftir því við mig að fá að vera fjarverandi á þessum fundi. Hann mun vera staddur á Sauðárkróki í dag.) Þá ræðum við þetta bara við hv. þm. við framhaldsumræðu málsins á þriðjudaginn eða miðvikudag.

Þá vík ég að 1. mgr. 4. gr., en þar segir: „Framkvæmdasjóður tekur við öllum eignum Framkvæmdasjóðs Íslands og Mótvirðissjóðs skv. lögum nr. 9711976, sbr. þó 2. og 3. mgr., svo og skuldbindingum þeirra.“

Ég innti talsmann Framkvæmdastofnunar eftir því: Hvar er Mótvirðissjóður? Hvernig er með bókhald Mótvirðissjóðs? Er hægt að fá einhverjar upplýsingar um það? Starfsmaður Framkvæmdastofnunarinnar tjáði mér að þær greiðslur sem Mótvirðissjóður fengi af lánum sem hann hefði veitt gengju sjálfkrafa inn í Framkvæmdasjóð og þess vegna væri ekki hægt að greina þar á milli í bókhaldi.

Þá spurði ég starfsmann Framkvæmdasjóðs að því hvernig á því stæði að Mótvirðissjóður væri ekki einfaldlega lagður niður og tekin um það ákvörðun að eignir hans gengju inn í Framkvæmdasjóð Íslands. Og þá kom mjög athyglisvert svar frá starfsmanni stofnunarinnar. Hann sagði: Nei, það er ekki hægt að leggja Mótvirðissjóð niður nema að tala við þá fyrir vestan. Það voru ekki menn vestur á fjörðum, til að fyrirbyggja allan misskilning og af því að ég sé hv. skrifara Ólaf Þ. Þórðarson, heldur voru það menn lengra í vestri. (ÓÞÞ: Hvaðan er fjármagnið komið?) Það mun vera komið af Marshall-fé, svo ég upplýsi þennan hv. þm. um það. Það er bersýnilega ekki gert ráð fyrir að Íslendingar ráði yfir þessu að einu eða neinu leyti. Ekki má taka ákvörðun um að færa til þetta apparat öðruvísi en að biðja um leyfi í Bandaríkjunum hjá Bandaríkjastjórn. Það var það sem þarna kom fram.

Það er þetta sem ég vil vekja athygli á, herra forseti, að starfsmenn Framkvæmdastofnunar ríkisins, og þá meiri hluti Alþingis væntanlega líka, telja að Bandaríkjastjórn eigi að ráða yfir þessum hluta Framkvæmdasjóðs Íslands. Þannig er staðan. Það er ekki hægt að hreinsa þennan sjóð upp vegna þess að eftir er að tala við yfirvöld í Bandaríkjunum.

Þá hef ég, herra forseti, farið yfir 1., 2. og 3. mgr. 4. gr. Þannig er nú að málum staðið.

Þetta er allt í tómri vitleysu eins og þessi mál koma frá ríkisstj. og þingflokkum stjórnarinnar sem voru að veltast með þetta mál í fleiri mánuði. Svo þegar þessi mál eru loksins lögð fyrir þingið eru þingflokkar stjórnarinnar þannig á sig komnir að þeir geta ekki afgreitt þau vegna þess að það er bullandi ósamkomulag um málin. Þannig er það í hverju málinu á fætur öðru. Stjfrv. eru lögð fram sem reynast svo ekki vera stjfrv. Þm. stjórnarflokkanna koma í nefndum þingsins og segja: Ég samþykki ekki þetta, ég er á móti þessu, ég vil breyta þessu og hinu ákvæðinu. Þetta eru nefnilega ekki raunveruleg stjfrv. Þetta eru pappírar sem koma frá einstökum ráðh. án þess að á bak við þá sé neinn pólitískur vilji. Það er þess vegna sem þinghaldið hefur tafist hér fram eftir öllu sumri. Verkstjórnarleysið í núv. ríkisstj. er svo yfirgengilegt að ekki er gengið frá nokkru einasta máli fyrr en allt er orðið um seinan. Það eru tafirnar í þingstörfunum sem eru notaðar til að koma málum í gegn. Það er vegna tímaleysis en ekki vegna þess að menn taki ákvörðun og afstöðu með eðlilegum hætti sem málum er þröngvað áfram. Ég fullyrði, herra forseti, að aldrei hefur nokkur ríkisstj. staðið að stjfrv. með öðrum eins handarbakavinnubrögðum og núverandi stjórn hefur gert. Það kemur fram í þessu frv. og fleiri frv. sem hér hafa legið fyrir.

Gleggsta dæmið um það er auðvitað lánsfjárlögin. (Gripið fram í: Voru þau afgreidd í Ed. í gærkvöld?) Í gærkvöld, 14. júní 1985, og voru búin að velkjast hér frá því í desember vegna þess að ekki varð samkomulag um eitt eða neitt í stjórnarflokkunum. Þegar málin komu inn í nefndir þingsins sögðu þm. stjórnarliðsins: Ég samþykki ekki þetta. Ég vil láta breyta þessu. Svo þegar samið er um að reynt verði að láta mál ganga í gegnum deildir þingsins, eins og landbúnaðarfrv. í gær, kemur það fram að formaður þingflokks annars stjórnarflokksins stendur ekki einu sinni að því samkomulagi sem gert hefur verið á milli stjórnarflokkanna. Þannig eru vinnubrögðin og óheilindin á milli manna í þessum efnum svo ótrúleg að ég hef ekki orðið vitni að öðru eins á hv. Alþingi þann tíma sem ég þekki til.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja nokkuð að 6. gr. frv., en þar segir:

„Stjórn sjóðsins ræður forstöðumann til að annast daglega stjórn Framkvæmdasjóðs. Forstöðumaður ræður sjóðnum annað starfsfólk.“

Ég geri tillögu um að forstöðumaður þessi verði ráðinn til sex ára í senn og þannig miðað við þá reglu sem tekin er upp í frv. til laga um viðskiptabanka sem er hér á dagskrá og ætlunin var að ræða hér eins og frv. um sparisjóði, en það verður sjálfsagt snúið að koma þeim málum verulega áleiðis á þessum fundi, eins og að málum er staðið af ríkisstj.

Ég vil í þessu sambandi benda sérstaklega á frv. um Byggðastofnun sem er farið hér í gegn. Þar er gert ráð fyrir að ráðinn verði forstjóri og gefið í skyn í orðalagi að alveg eins geti verið tveir forstjórar Byggðastofnunar. Ég spurði fyrir nokkru: Er þetta ekki vegna þess að stjórnarflokkarnir vilja koma þarna inn hvor sínum manninum, þeir vilja tryggja að báðir helmingaskiptaflokkarnir fái mann í stjórn Byggðastofnunarinnar? Ég spurði: Hvaða þm. í stjórnarliðinu eru það sem ríkisstj. vill losna við og koma þarna fyrir og „parkera“ í Byggðastofnun? Eru það hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson eða hvaða menn eru það sem eiga að fá þessa bitlinga?

Ég er sannfærður um að einhver vildi koma hæstv. fjmrh. þangað, en ég er jafnviss um að enginn í hans flokki — eða fáir — mundi treysta honum fyrir því að fara í Byggðastofnun eins og ástandið er þar. Ég er hins vegar sannfærður um að margir gætu hugsað sér að koma honum í einhverja stofnun eins og staðan er núna.

Þannig er staðan og þess vegna hef ég lagt til að þessi forstöðumaður Framkvæmdasjóðs verði ráðinn til sex ára í senn, tekin yrði upp sú regla að menn væru aðeins ráðnir í þessa stofnun til takmarkaðs tíma.

Herra forseti. Það frv. sem hér er um að ræða er aðeins tólf greinar og í sjálfu sér er meginhlutinn af þeim greinum tæknilegs eðlis. En ég hef gert hér athugasemdir við allar helstu efnisgreinar frv. og ég hygg að það sjáist af þeim athugasemdum hvað þetta frv. og önnur stjfrv. í vetur eru illa undirbúin og illa á þeim haldið af þeim ráðh. sem flytja þau, í þessu tilfelli hæstv. forsrh.

Herra forseti. Á þskj. 1072 er álit 2. minni hl. fjh.- og viðskn. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur á mörgum fundum fjallað ítarlega um frumvörpin þrjú sem gerðu ráð fyrir því að breyta Framkvæmdastofnun í þrjár stofnanir. Frumvörpin eru öll illa undirbúin frá tæknilegu sjónarmiði. Sést það best á því að meiri hl. n. neyðist til þess að flytja sjálfur margar brtt. við frumvörpin. Í nál. um frv. til l. um Byggðastofnun gerir 2. minni hl. grein fyrir áliti sínu á frumvörpunum í heild. Hér verður því ekki um ítarlega efnisumfjöllun að ræða í þessu nál. enda eru frumvörpin í raun til meðferðar samtímis.

Frv. um Framkvæmdasjóð gerir ráð fyrir því að sjóðurinn starfi áfram með sjálfstæðum hætti. Hér er því ekki verið að leggja niður starfsemi ríkisstofnunar eða að draga úr henni á nokkurn hátt eins og talsmenn ríkisstj. hafa látið í veðri vaka.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir aukinni miðstýringu embættismannavaldsins. Þar segir að embættismenn eigi að annast alla stjórn sjóðsins, þ. e. sérlegir fulltrúar fjmrh., forsrh. og Seðlabankans. Þessu ákvæði mótmælir 2. minni hl. sérstaklega. Þess vegna flytur hann brtt. um að sjóðnum verði kosin stjórn á Alþingi.

Þá bendir 2. minni hl. á að eðlilegt sé að ráða forstöðumann Framkvæmdasjóðs til takmarkaðs tíma í samræmi við önnur lagaákvæði sem hafa verið afgreidd á síðustu þingum um forstöðumenn ríkisstofnana (sbr. nú frv. til l. um viðskiptabanka sem mun vera til 2. umr. einhvern tíma síðar á þessu þingi).

Fluttar verða brtt. um þetta efni af undirrituðum. Fallist meiri hl. þingsins hins vegar ekki á þessar brtt. mun 2. minni hl. ekki taka þátt í atkvæðagreiðslum um frv. þetta.

Meiri hl. hefur lagt fram nokkrar brtt. M. a. gerir hann ráð fyrir því að felld verði niður úr frv. 2. mgr . 4. gr. sem fjallar um húseign Framkvæmdastofnunar ríkisins. Meiri hl. n. hefur fullyrt að ríkisstj. hafi viljað og vilji ganga svo frá hnútunum að Byggðastofnun fái örugglega helming húseignar Framkvæmdastofnunar. Gengur minni hl. út frá því að það sé tryggt eftir yfirlýsingar formanns n.

Herra forseti. Ég spurði hér áðan um hv. þm. Stefán Guðmundsson sem er formaður stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins. Ég vil inna eftir því hvort formaður fjh.- og viðskn. hv. Nd. er viðstaddur þessa umr. þannig að við getum átt nokkur orðaskipti um mál sem lúta að Byggðastofnun. (Forseti: Það gildir víst sama um þann hv. þm. Báðir eru þeir staddir norður í landi, annar í Húnaþingi og hinn í Skagafirði. Þetta tilkynntu þeir forseta í gær.) Mér þykir vænt um að hæstv. forseti getur greint okkur frá því nokkuð nákvæmlega hvar þeir eru þó að það komi ekki fram hvor er í Húnaþingi og hvor í Skagafirði. En þó er ljóst að umr. um þessi mál hlýtur að fara fram einhvern tíma seinna, í næstu viku, ef þeir skildu koma aftur til löggjafarstarfa, þessir tveir hv. þm. Ég innti eftir þessu til þess að fram kæmi hvernig staðan væri varðandi þetta mál. Reyndar sýnist mér að ef þm. stjórnarliðsins eru flestallir fjarverandi á þessum morgunfundi sé engin ástæða til eða möguleiki að afgreiða nokkurt einasta mál og bersýnilegt sé að ekki hefur verið nein alvara með þessum morgunfundi af hálfu stjórnarliðsins. Þeir hafa aðeins ætlað að nudda örlítið áfram einhverjum málum í umr. Það er greinilega ekki nokkur vegur að koma einu einasta máli áfram á milli umr., hvað þá á milli deilda. vegna þess að heilu hlekkirnir í þingmannahópi Framsfl. eru fjarverandi, láta ekki sjá sig hér, láta ekki svo lítið að vera viðstaddir þegar verið er að afgreiða mál eins og þau sem hér er um að ræða og snerta þó báða þessa þm. með mjög ákveðnum hætti þar sem annar er formaður fjh.- og viðskn. og hinn formaður stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Síðar segir hér í nál 2. minni hl. fjh.- og viðskn. á þskj.1072:

„Þá gerir meiri hl. ráð fyrir því að 3. mgr. 4. gr. falli niður. en þar segir svo:

„Hinn 1. jan. 1986 skal eignarhaldsfyrirtæki ríkisins taka við allri hlutafjáreign Framkvæmdasjóðs og eignarráðum sjóðsins í viðkomandi hlutafélögum.“

Skv. upplýsingum frá stjórnarliðinu virðist ríkisstj. nú hafa fallið frá öllum hugmyndum um eignarhaldsfyrirtæki ríkisins. Er þetta undarlega frumvarpsákvæði því fellt niður.

Loks skal þess getið að spurt var um eignir Mótvirðissjóðs í n. Engar upplýsingar komu fram um heildarstöðu sjóðs þessa sem upphaflega var stofnaður með Marshall-fé. En hins vegar greindi starfsmaður Framkvæmdastofnunar frá því að sjóðinn væri ekki hægt að leggja niður né heldur að sameina hann Framkvæmdasjóði nema spyrja Bandaríkjamenn leyfis. Hlýtur þetta að vera mál sem Alþingi verður að taka til sérstakrar athugunar.“

Ég hef hér lokið, herra forseti, að gera grein fyrir áliti 2. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. um frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands á þskj. 776, 457. mál þingsins. Ég bendi á að nefndin klofnaði í fjóra hluta. Það á eftir að gera grein fyrir þeirri afstöðu sem 1. og 3. minni hl. taka, en hv. þm. Kjartan Jóhannsson leggur til að frv. verði fellt og hv. þm. Guðmundur Einarsson gerir ráð fyrir að þessi sjóður verði eins konar deild í fjmrn. Þess vegna er bersýnilegt að margt er að ræða í þessu máli, víða er komið við. Þetta tengist líka tveimur stórum málum sem reyndar eru þegar komin til Ed., en sem betur fer er kostur á því hér í hv. Nd. að ræða nokkuð ítarlega um þetta mál.