15.06.1985
Neðri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6678 í B-deild Alþingistíðinda. (5996)

457. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér þætti vænt um ef hv. 3. þm. Reykv. yrði sóttur. (Forseti: Það verður gerður reki að því að hv. 3. þm. Reykv. verði viðstaddur.) Ég held að hann hafi sest niður í kaffistofu. (Forseti: Þess er óskað að hv. þm. Svavar Gestsson verði viðstaddur umr. og gangi í þingsalinn.)

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. átaldi mig fyrir að hafa látið fjölmiðlum í té upplýsingar um greiðslur úr ríkissjóði fyrir aðkeypta þjónustu. Mér þykir það undarlegt, satt að segja. Ég tel að slíkar upplýsingar eigi að liggja á lausu fyrir fjölmiðla. En ég skal upplýsa nánar um það mál allt.

Eftir að umr. urðu verulegar um greiðslur fyrir störf að svonefndum álsamningi tók ég það mál upp í ríkisstj. og var það síðan rætt þar í tvígang og að ósk minni var ákveðið að öll rn. tækju saman greiðslur fyrir aðkeypta þjónustu fjögur til fimm ár aftur í tímann. Ég vil fullvissa hv. þm. um það að þær upplýsingar verða ekki faldar, enda er ekki nokkur ástæða til slíks.

Jafnframt vil ég nefna það, sem þm. er að sjálfsögðu kunnugt, ég hygg að það hafi verið 12. þessa mánaðar í umræðu, að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson beindi spurningum til mín um greiðslur til þeirrar nefndar sem unnið hefur svonefnd sjóðafrumvörp. Ég taldi sjálfsagt að verða við því og lét taka þær upplýsingar saman. Hann beindi einnig ýmsum tilmælum um upplýsingar til iðnrh. sem ég kom á framfæri við hann. Þetta var að sjálfsögðu allt saman tilbúið, en ekki vannst tími til að koma þeim hér á framfæri. Fréttamenn hafa hins vegar spurt um þær daglega og reyndar um slíkar þóknanir í rn. eftir að umræða varð um það.

Þegar ég var að yfirgefa þinghúsið í gær kom til mín fréttamaður sjónvarpsins, Ólafur Sigurðsson, og tjáði mér að Morgunblaðið væri búið að fá þessar upplýsingar og óskaði eindregið eftir því að fá þær einnig Ég afhenti honum þá ljósrit af þeim gögnum sem ég var með um þetta. Í fyrsta lagi var um að ræða minnisblað til mín frá aðstoðarmanni mínum, Helgu Jónsdóttur. og sömuleiðis það sem ég hafði fengið frá iðnrn., en það er eina rn. sem er búið að taka saman slíkar upplýsingar, að nokkru a. m. k., frá árinu 1981 og til dagsins í dag.

Ég vil taka það fram að það sem kemur fram í Morgunblaðinu er ekki frá mér komið. Þar eru upplýsingar sem ég afhenti ekki, m. a. bréf sem hæstv. fyrrv. iðnrh. er sagður hafa ritað. Ég afhenti fjölmiðlum það ekki. Það var eflaust ákvörðun iðnrh. að það yrði afhent, enda hefur eins og ég segi verið mjög eftir því gengið og engin ástæða til að fela slíkt.

Í því minnisblaði sem til mín var ritað um greiðslur vegna þeirrar nefndar sem vann þessi frv. segir m. a.: „Til forsrh. frá Helgu Jónsdóttur.

Efni: Greiðslur vegna nefndar til endurskoðunar sjóðakerfisins.

Nefndin var skipuð hinn 24. október 1984 og í henni áttu sæti Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur, formaður, Friðrik Sophusson alþm., Stefán Guðmundsson alþm. og Valur Valsson bankastjóri, ritari nefndarinnar. Starfsmaður var Gunnlaugur M. Sigmundsson forstjóri.

Við formann nefndarinnar var gert sérstaki samkomulag um þóknun á verkfræðingstaxta fyrir þann tíma sem hann þurfti að taka frá stofu sinni. Námu heildargreiðslur til hans 173 945 kr. Ég vil taka það fram að áður en ég samþykkti það kynnti ég mér hvernig hefði verið háttað slíkum greiðslum fyrir menn sem ekki eru í fastri vinnu og mér var tjáð að a. m. k. í allmörg ár hefði sá verið siðurinn. Ég samdi hins vegar um það við Guðmund að ekki yrði reiknað sérstaklega þótt vinna væri t. d. utan dagvinnutíma eða þess háttar.

Þóknunarnefnd ákvað hins vegar þóknun til annarra nefndarmanna og starfsmanns og var sú þóknun ákveðin 25 000 kr. til hvers.

Þess má geta að skv. þeim upplýsingum sem ég hef fengið hélt nefndin alls 40 bókaða fundi sem stóðu alls í 140 klst. og segir hér að skipst hafi nokkurn veginn til helminga að unnir voru í dagvinnu og utan dagvinnu og þá mest um helgar, hygg ég. Auk þess voru haldnir fjölmargir óformlegir fundir með hagsmunaaðilum og mikil vinna lögð í gagnaöflun milli funda.

Að auki réð nefndin sér lögfræðinga til ráðgjafar og samningar lagafrv. Fengu þeir greitt skv. taxta eins og tíðkast hefur í rn. og ég lýsti fyrr. Baldur Guðlaugsson fékk 305 525 kr., Eiríkur Tómasson 222 925 kr. og Heimir Hannesson 22 500 kr. Ég vil taka undir það, sem fram hefur komið, að greiðslur úr ríkissjóði fyrir aðkeypta þjónustu eru mikið umhugsunarefni. Staðreyndin er sú, eins og ég veit að hv, þm. Hjörleifur Guttormsson getur mjög vel borið af sinni reynslu, að starfskraftar eru takmarkaðir í ráðuneytunum og því hafa rn. orðið að ráða færa menn sem utan rn. eru starfandi. Í þeim tilfeilum hefur, eins og fram hefur komið í upplýsingum frá iðnrn. og birst hafa í Morgunblaðinu, þeim mönnum verið greitt skv. þeim taxta sem gildir á hverjum tíma.

Ég tel hins vegar að allt þetta þurfi að endurskoða og athuga hvort ríkisvaldið getur ekki náð viðunandi samningum um slíkt, enda má líka segja að það er gífurlega mikið misræmi í því sem þóknunarnefnd ákveður og kom fram í því sem ég sagði áðan og töxtum hinna, þ. e. ráðgefandi manna utan ríkiskerfisins. Þess vegna hef ég ákveðið að óska eftir því að öll rn. taki saman slíkar upplýsingar og reyndar liggja þegar fyrir frá iðnrn. meiri upplýsingar um þessi mál sem iðnrh. ákveður að sjálfsögðu hvernig hann fer með. En ég endurtek að þegar slíkar upplýsingar liggja fyrir mun hvert rn. ákveða hvort þær verða lagðar fram fyrir almenning, en það tel ég sjálfsagt því að það er ekkert að fela í þessu og fjölmiðlar spyrja um þetta daglega nú. Þeir munu fá þær upplýsingar eins og viðkomandi ráðh. telja rétt. Iðnrh. taldi rétt að ekki væri legið á þeim upplýsingum sem hann hafði látið taka saman, enda höfðu þegar verið birtar upplýsingar um tvö síðustu árin og því full ástæða til að birta upplýsingar lengra aftur í tímann.

Hv. þm. ræddi það frv. sem hér liggur fyrir. Hann óskaði upplýsinga frá mér um 4. gr. frv., fyrst og fremst um það hvort tryggt væri að Byggðastofnun fengi hálft það hús sem Framkvæmdasjóður á nú við Rauðarárstíg. Það er rétt hjá hv. þm. að í meðferð málsins var ákveðið að hafa annan hátt á en fyrst var gert ráð fyrir vegna þess að samkomulag varð um að stjórn Framkvæmdastofnunar gengi frá því máli alveg á næstunni. Ég get fullyrt að það verður gert á þann máta að húseignin verður ekki seld á háu verði til Byggðasjóðs. Byggðasjóður mun fá helming af húsinu til fullra afnota með mjög góðum kjörum.