15.06.1985
Neðri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6680 í B-deild Alþingistíðinda. (5997)

457. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er til umr. þýðingarmikið mál, frv. til laga um Framkvæmdasjóð Íslands, lagt fram af hæstv. forsrh. sem á að fara með stjórn þessa sjóðs sem ábyrgðaraðili, skipa honum stjórn til þriggja ára, gefa árlega skýrslu til Alþingis um starfsemi hans og eins og segir í 10. gr.:

Forsrh. staðfestir reikninga sjóðsins að fengnum úrskurði endurskoðenda. Ársreikninga sjóðsins skal birta í Stjórnartíðindum.“

Hér hefur a. m. k. af hálfu eins talsmanns minni hl., hv. 4. landsk. þm., verið lagt til að Framkvæmdasjóður og meðferð hans verði falið öðrum ráðh. til forsjár. Ekki skal ég segja um rökin fyrir því eða gera þau hér að sérstöku umtalsefni. En það hlýtur að vera mjög traustvekjandi fyrir menn að horfa til þess að sjálfur hæstv. forsrh., ekki síst sá núverandi, skuli vera sá sem fari með reikningshald þessa sjóðs.

Það var í umr. um 2. mál, sem hefur verið kennt við Framkvæmdastofnun sem nú er hugmyndin að leggja niður, frv. til l. um sérstaki þróunarfélag, að ég tók til máls og beindi nokkrum spurningum til hæstv. forsrh. — sem ég kynni betur við að væri í þingsal við umr., virðulegur forseti. (Forseti: Þess er óskað að hæstv. forsrh. sé í þingsal meðan hv. þm. flytur ræðu sína.) Einnig óskaði ég eftir því við fyrri hluta míns máls við þá umr.hæstv. iðnrh. væri viðstaddur. (Forseti: Ef forseti má aðeins grípa inn í ræðu, þá hef ég skv. sérstakri beiðni þess hv. þm. sem nú er í ræðustól kannað hvort iðnrh. sé hér. Hann er ekki í húsinu. Hann mun vera utanbæjar ef ekki erlendis. Það er því ekki kostur á því fyrir forseta að knýja þennan ráðh. til setu á fundi í dag.) Virðulegur forseti. Hefur hæstv. iðnrh. fjarvistarleyfi frá fundum? (Forseti: Hæstv. iðnrh. hefur ekki óskað eftir fjarvistarleyfi við forseta.) (SvG: Hvað ætli sé eftir af stjórnarliðinu hér?)

Ég vil halda áfram máli mínu að þessum upplýsingum fengnum. Ég hafði sem sagt óskað eftir því við fyrri hluta ræðu minnar um þróunarfélag að hæstv. iðnrh. yrði viðstaddur, en hann strunsaði úr þinghúsi um það bil sem ég hóf mál mitt og var ekki fáanlegur til fundar. Umr. um þetta mál var síðan fram haldið á öðrum fundi hv. Nd., tekið til umr. kl. 01.30 í gær, og þá óskaði ég eftir því jafnframt, sem fram hafði komið áður, að hæstv. iðnrh. yrði viðstaddur umr. Því var harðneitað af hæstv. þáv. forseta, Birgi Ísl. Gunnarssyni, að eftir því yrði leitað og hann til kvaddur og raunar upplýst að hann væri fjarverandi af þessum fundi, og yrði ekki sóttur, enda hæstv. forsrh. viðlátinn, sem bæri mál þetta fram.

Nú kemur hér annað mál þessu skylt fram og ég hefði talið eðlilegt, vegna þess að hluti af því máli sem nú er til umr. varðar hæstv. iðnrh., að hann yrði viðstaddur þessa umr. málsins, enda sýnist mér að hann hafi ekki tilkynnt forföll og reyndar hefur hæstv. forseti upplýst það. (Forseti: Mætti forseti aðeins grípa inn í ræðu hv. þm.? Hæstv. viðskrh. kom að borði forseta og tilkynnti að hann gegndi störfum iðnrh. um stundarsakir.) Virðulegur forseti. Ekki vantreysti ég hæstv. viðskrh. til að vera staðgengill hæstv. iðnrh., en nokkuð er það sérkennilegt ef það fer svo dult þegar skipti verða á ábyrgðarstörfum hjá ráðh. að það liggur ekki fyrir um fjarvistir viðkomandi ráðh. af fundum og þar með ekki um slík verkefnaskipti. En ég mun láta mér það lynda á þessum fundi að hæstv. viðskrh. taki við þeim erindum sem ég á vantalað við um hæstv. iðnrh., en þau eru í rauninni mun færri en þau sem ég á við hæstv. forsrh. sem er sá ráðh. sem leggur hér mál fyrir og ég mun fyrst og fremst beina máli mínu til. Ég hefði hins vegar talið eðlilegt að hæstv. iðnrh. fylgdist hér með vegna vissra þátta málsins. sem ég mun víkja að í tengslum við þessa umr. í ræðu minni nú eða síðar.

Það var í fyrrinótt, bjartri fyrrinótt kl. rúmlega hálfþrjú, að hæstv. forseti þessarar deildar óskaði eftir því að ég gerði hlé á máli mínu í ræðu um þróunarfélagið. Ég varð að sjálfsögðu við því og mér var í framhaldi af því greint frá því að fram hefðu farið þá um nóttina undir minni ræðu viðræður milli talsmanna þingflokka hér í hv. Nd. um möguleika á því að ósk ríkisstj. eða talsmanna ríkisstj. að greiða hér fyrir framgangi mála. Eins og mér var greint frá þessu samkomulagi var það í því fólgið að reynt yrði að stefna að þinglausnum seinni hluta næstu viku, og til þess að það gæti orðið mundi stjórnarandstaðan, og Alþb. að sínu leyti, stuðla að því að á fundi hv. Nd. í gær gætu fram gengið frv. til l. um framleiðslu á landbúnaðarafurðum o. fl. út úr deildinni til Ed. og einnig þau frv. sem deildin var búin að greiða atkv. um eða ekki voru útrædd varðandi Framkvæmdastofnun og þau lagafrv. þrjú er því tengdust. Við tókum undir þetta og hétum því að standa að því fyrir okkar leyti að svo gæti orðið og það fylgdi að þingfundi lyki um kvöldmatarleytið eða gert var ráð fyrir að ljúka umr. milli kl. 7 og 8 í gærkvöld.

Nú vita hv. þdm. það og ég þarf ekki að rekja það hvernig þingstörfum var háttað í gær. Mér höfðu verið gefnar vonir um að geta rætt um þróunarfélagið og fengið svör frá ráðh. á allrúmum tíma eftir kl. hálfsex eða sex þannig að hægt væri að taka á því máli og ég gæti lokið minni ræðu. En af ýmsum ástæðum. sem ég ætla ekki að rekja hér í einstökum atriðum, gekk þetta ekki fram og um kl. hálfátta í gærkvöld lauk fyrst atkvgr. hér um framleiðsluráðsfrv. svokallaða. Það var því alveg ljóst að ef átti að halda það samkomulag sem gert hafði verið um þinghaldið nóttina áður var ekki svigrúm til frekari umræðna um þróunarfélagið. en ég hafði ætlað mér að bera fram og bæta þar við fsp. til hæstv. ráðh., þ. á m. til hæstv. iðnrh. sem var á þessum fundi. Til þess að greiða fyrir þingstörfum og þessu samkomulagi ákvað ég í þessari stöðu að falla frá því að halda ræðu minni áfram og málið fór til atkvgr.

Ég hélt af þingfundi til míns heima og opnaði fyrir sjónvarpið, sem hafði nýlega hafið fréttalestur, og þar voru fluttar fréttir frá Alþingi og ekki frá Alþingi. Aðalfrétt sjónvarpsins í gærkvöld var um fréttir sem ekki höfðu komið fram á Alþingi og ég held að það sé rétt upp á samhengi þessa máls að ég lesi hér til að halda því til haga í þingtíðindum frásögn sem fréttamaður sjónvarps, Ólafur Sigurðsson, flutti landsmönnum, en hún var svofelld, með leyfi forseta:

„Á Alþingi í dag var haldið áfram afgreiðslu mála og var fundur enn fyrir fáum mínútum. M. a. var frv. um Framleiðsluráð afgreitt til Ed. og höfðu framsóknarmenn fallið frá flestum af brtt. sínum. En það sem var fréttnæmast á Alþingi í dag kom ekki fram á fundi.

Á öðrum fundi Nd. lá fyrir fsp. Hjörleifs Guttormssonar um þau laun sem Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur og nefnd sem hann stjórnaði hefðu haft fyrir að endurskoða sjóðakerfið. Þar sem Hjörleifur Guttormsson féll frá orðinu í umr. kom ekki til að forsrh. svaraði. Hann sagði hins vegar aðspurður að þessi nefnd hefði haldið 40 fundi í 140 klukkustundir og starfað að hálfu í dagvinnu, en að hálfu í helgidaga- og næturvinnu. Samið var við Guðmund G. Þórarinsson á sama grundvelli og gert hefur verið í iðnrn. undanfarin ár og fékk hann í þóknun 173 þús. kr. Aðrir nm. eru í fullu starfi, þeir Friðrik Sophusson og Stefán Guðmundsson alþm. og Valur Valsson bankastjóri, og fengu í þóknun 25 þús. kr. að ákvörðun þóknananefndar. En til að gera samanburð á þessum greiðslum og þeim sem áður hafa tíðkast fékk forsrh. samantekt frá iðnrn. um kostnað við verk á þess vegum. Greiðslur til samningamanna í stóriðjunefnd hafa vakið mikla athygli, en þeir hlutu í þóknun í fyrra mest á fimmta hundrað þús. kr. Þessi athugun leiddi hins vegar í ljós að greiðslur til starfsmanna fyrrv. iðnrh. voru mun hærri og fékk t. d. Ingi R. Helgason 156 þús. kr. 1981 eða sem nemur 718 þús. kr. á núvirði. Árið 1982 voru hæstu greiðslur til Ragnars Aðalsteinssonar 1300 þús. á núverandi verðlagi. en mun minni til annarra. Þessar greiðslur eru ákveðnar skv. bréfi Hjörleifs Guttormssonar iðnrh. frá 17. maí 1983. fáum dögum áður en hann lét af embætti. Það er því ekki nýtt að embættismönnum og öðrum starfsmönnum séu greidd laun fyrir nefndarstörf sem okkur almenningi þykja himinhá.“

Hann greinir frá því. hv. fréttamaður, sem við þekkjum um árabil af störfum við sjónvarpið, að fundur hafi staðið hér á Alþingi fyrir fáum mínútum. En hann afrekaði það á stuttum tíma að komast með þá frétt sem hann hafði fengið frá hæstv. forsrh. upp í sjónvarpið og koma henni þar á framfæri við alþjóð sem aðalfrétt dagsins og lagði ekki mikið á sig til að greina frá þeim sérstöku umr. sem hér fóru fram um málefni landbúnaðarins og atkvgr. þar að lútandi. T. d. fór það algjörlega fram hjá viðkomandi fréttamanni að formaður þingflokks Framsfl. tók ekki þátt í atkvgr. nema við nafnakall og greiddi þá ekki atkv. Það var að sjálfsögðu ekki nein frétt.

Þetta voru þær kveðjur sem ég fékk frá hæstv. forsrh. út úr sjónvarpinu í gærkvöldi. Ég fékk að sjálfsögðu í framhaldi af því upphringingar frá fjölmiðlum. Þar á meðal hringdi til mín blaðamaður frá NT og innti mig eftir áliti á þeim fréttum sem komið höfðu fram í sjónvarpi og hann hafði reyndar fengið í hendur frá hæstv. forsrh. Hann sagði. og ég tel rétt að hafa það eftir þótt í einkasamtali hafi verið, að sú túlkun hefði komið hér fram hjá ákveðnum þm. á Alþingi undir lok fundarins í gær að ég hefði fallið frá orðinu á Alþingi í umr. um þróunarfélagið til að koma í veg fyrir að forsrh. kveddi sér hér hljóðs til að svara fsp. af minni hendi. Ég nefni þetta hér vegna þess að þetta eru mál sem ástæðulaust er að liggi í þagnargildi þegar stjórnarliðið stendur þannig að samkomulagi að sínu leyti.

Hæstv. forsrh. verður að sjálfsögðu að meta það hverju sinni hvernig hann stendur að málum og það má segja um hann eins og aðra að lengi má manninn reyna. Ég tel það út af fyrir sig ánægjuefni að hæstv. forsrh. skuli gefa tilefni til þess og telja það vera á dagskrá að ræða um störf á vegum iðnrn. á árunum 1981–1983 sérstaklega og kannske lengra aftur í tímann og þau störf sem m. a. tengjast hinu svokallaða álmáli sem þá var á dagskrá og hefur verið á dagskrá síðan. Það er velkomið af minni hálfu að ræða þau mál hér á hv. Alþingi og ég hefði talið það farsælla fyrir hæstv. forsrh. að hann hefði séð ástæðu til þess, af því að honum var svo brátt í brók að koma upplýsingum um þetta tímabil á framfæri, að kveðja sér hljóðs undir þeim dagskrárlið sem ég hafði borið upp fsp. við hann undir, en hæstv. ráðh. sá ekki ástæðu til þess. Hann hafði tilbúin fjölrituð gögn til útbýtingar til fréttamanna hér, kom þeim á framfæri en ekki við fyrirspyrjanda. Þetta gagn fékk ég í hendur boðsent frá hæstv. forsrh. undir kl. 11 í gærkvöld og það er svar við spurningu HG „afhent fréttamönnum sem eftir því gengu“, undirritað af hæstv. forsrh. Virðulegur forsrh. taldi ekki ástæðu til að koma þessum svörum, sem svo mikið lá á að koma út í ljósvakann, á framfæri við þann þm. sem hafði að hans mati gefið tilefni til þess og hluti af svörum hans varðaði fsp. sem ég kom hér á framfæri á sínum tíma. Þetta er rétt að fyrir liggi og svo meta menn hvort þeir telja þetta eðlileg vinnubrögð, þingleg vinnubrögð eða ekki.

Ég vil að það komi fram hér strax að ég er afar ánægður yfir því að hér skuli vera af ríkisstj. hálfu og af hálfu hæstv. forsrh. talin ástæða til að ræða þessi mál á sumarþinginu sem hér stendur yfir og það skal ekkert standa á mér að taka þátt í þeim umr. og eiga orðastað við hæstv. forsrh. um þetta tímabil og fyrri tíma og afskipti hans af þessum málum því að svo vill til að hæstv. forsrh. á lengri sögu en nokkur annar þm., ég vil nú ekki segja núlifandi Íslendingur, en nokkur annar þm., í sambandi við álmálið. Það er hin merkasta saga sem þar liggur fyrir varðandi hlut hæstv. forsrh. í þessu máli.

Vegna þess að hæstv. ráðh. upplýsir það nú að hann sé að óska eftir því við einstök rn. að þau dragi fram reikningshald sitt varðandi þóknanir til nefnda og sérráðinna starfsmanna hinna rn. fjögur til fimm ár aftur í tímann, finnst mér það nú dálítið skammt leitað hjá hæstv. forsrh. Ég held að það væri þörf á því að fara miklu lengra aftur í tímann og ekki skemmra en 20 ár og ég hefði óskað eftir því við hæstv. forsrh. að hann færi og léti sín rn. nú á meðan sumarþingið stendur yfir fara yfir reikninga rn. að þessu leyti 20 ár aftur í tímann og framreikna allar þóknanir og greiðslur til manna á þeirra vegum, framreiknað á lánskjaravísitölu eins og gert hefur verið af hæstv. iðnrh. á þeim gögnum sem forsrh. dreifði til fjölmiðla í gær. Það er allt framreiknað á þeirri vísitölu sem hæstv. forsrh. telur eðlilegt að miða laun við og launasamanburð, þ. e. lánskjaravísitölu.

Ég tel einnig eðlilegt að hæstv. forsrh. láti ekki aðeins staðar numið við reikninga hjá rn. sjálfum, heldur finnst mér eðlilegt að hann láti einnig fara yfir sambærilega hluti hjá einstökum stofnunum sem undir rn. heyra. Ég tel t. d. vegna þáttar hæstv. forsrh. í þessum málum sjálfsagt að hann færi yfir stofnun eins og t. d. Iðntæknistofnun Íslands, svo að dæmi sé tekið, svo að maður taki eitthvað af vettvangi iðnaðarmála, og að hann léti fara yfir stofnanir í heilbrigðiskerfinu. Hann gæti jafnvel litið á, óskað eftir að taka, ef um úrtak væri að ræða, eitthvað sem heyrir undir menntmrn., eins og t. d. Rannsóknaráð ríkisins, og draga fram reikninga og gögn frá því á árinu 1965 og til þessa dags sem snerta Rannsóknaráð ríkisins. Hæstv. forsrh. var framkvæmdastjóri þeirrar stofnunar um tíma og það er ekki óeðlilegt, finnst mér, að hæstv. ráðh. sýni mönnum í reynd hvernig hann hefur staðið að málum í sambandi við bókhald, greiðslur og reikningsfærslu. (ÓÞÞ: Hvaða mál er á dagskrá, forseti?) Það mál sem er á dagskrá — ég skal svara hv. þm. (ÓÞÞ: Forseti væri nú fær um það.) f. h. forseta — er Framkvæmdasjóður Íslands. Það er gert ráð fyrir að forsrh. fari með málefni hans, þar á meðal reikningsfærslur allar og áriti reikninga.

Tilefni þess að ég innti hæstv. forsrh. eftir því um daginn hvernig hagað hefði verið greiðslum til þeirra manna sem unnu að þeim frumvörpum sem hér hafa verið til umr. að undanförnu var sú og ég greindi frá því við upphaf umr.hæstv. forsrh. hafði séð ástæðu til að snupra hæstv. iðnrh. sérstaklega opinberlega í fjölmiðlum fyrir meðferð hans og greiðslur til svonefndrar viðræðunefndar um stóriðju og stóriðjunefndar. Eftir hæstv. forsrh. er þannig haft í DV þann 31. maí á forsíðu undir fyrirsögninni „Áltekjurnar: Steingrímur heimtar skýringar“:

„Ég tók þetta mál upp á ríkisstjórnarfundi í morgun og óskaði eftir skýringum, jafnframt að samræmis gætti frá einni nefnd til annarrar að það yrði einföld regla í þessum málum,“ sagði Steingrímur Hermannsson forsrh. í gær.

Hann var þá spurður um kostnað vegna samninganefndar um stóriðju sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum. Upphæðirnar hafa komið fólki á óvart. Fólki hefur blöskrað.

Í skýrslu iðnrh. var ekkert minnst á viðræður vegna Kísilmálmverksmiðjunnar. Vegna þeirra hækka t. d. laun Guðmundar G. Þórarinssonar um 115 þús. kr., í um 630 þús. kr.“

Þetta snertir nú ekki málið, en á bls. 2 í sama blaði er nánari tilvitnun í mál hæstv. forsrh.:

„Steingrímur sagði að á sínum tíma hefði hann verið formaður stóriðjunefndar. „Það kom fyrir að einstaka menn væru kannske beðnir um að vinna ákveðin verk gegn þóknun, en slíkt var óvenjulegt.““

Þarna er hann að vitna til liðins tíma, sem ég er hér að óska eftir frekari upplýsingum um, frá 1965 a. m. k. Það voru þessar opinberu snuprur af hálfu hæstv. forsrh. sem voru tilefni þess að ég óskaði eftir þessum upplýsingum um þóknanir og laun til manna sem undirbúið hefðu þessi frv., þar sem hæstv. forsrh. er að tala um nauðsyn samræmingar, og þá var ekki óeðlilegt að fram kæmi af hans hálfu hvernig hann héldi á málum fyrir sitt leyti hvað þetta snertir. Það varð tilefni þess að ég bað hæstv. forsrh. um þær upplýsingar sem hann hefur þegar fram reitt um þessa nefnd sérstaklega.

Þegar litið er á málsmeðferð hæstv. forsrh. er kannske rétt að víkja að þeim gögnum sem hann dreifði til fréttamanna. Þar er að finna í fyrsta lagi yfirlit um þóknanir til sjóðanefndarinnar svokölluðu, samtals upp á eitthvað á níunda hundrað þús., sem hefur verið greitt vegna þess máls. Síðan fylgir yfirlit eða grg. til iðnrh. tekin saman af embættismanni í iðnrn., dags. 8. 12. 1983, yfir kostnað við álmálið, mengunarrannsóknir í Straumsvík og samninga við Alusuisse árin 1981–1983.

Þetta er fært og skipt milli áranna 1981–1982 og 1983 og raunar er árinu 1983 skipt í tvö tímabil, annars vegar til loka maímánaðar og hins vegar frá byrjun júní til loka októbermánaðar. — Þessu heildaryfirliti sem ég sé að Morgunblaðið hefur lagt saman og reiknar í heild þessar upphæðir frá þessum árum upp á eitthvað um 34 millj. kr., ég hef það ekki fyrir framan mig þessa stundina, en það var eitthvað nálægt því, vegna álmálsins og mengunarrannsóknanna við álverið. Það fylgir síðan yfirlit um almennan kostnað, skrifstofukostnað og launatengd gjöld og risnu sem þessu tengist, sérfræðiþjónusta innlend, tilgreindar stofnanir og einstaklingar og greiðslur til þeirra, sérfræðiþjónusta erlend til ýmissa aðila, ferðakostnaður og akstur og síðan heildarkostnaður. Þetta er sundurliðað frá ári til árs og árinu 1983 skipt í tvennt með þeim hætti sem ég hér rakti. En það eru ekki aðeins þær upphæðir sem greiddar voru sem hér er að finna, heldur hefur hæstv. iðnrh. nýverið, væntanlega að ósk hæstv. forsrh., látið framreikna þessar tölur. Og hvernig er staðið að þeim framreikningi? Hvaða vísitala er nú notuð í þeim framreikningi? Jú, það er sú vísitala sem greinilegt er að hæstv. iðnrh. og forsrh. telja að eigi að ráða kaupum og kjörum í landinu. Það er lánskjaravísitalan, 1144 stig í júnímánuði 1985. Ég er alveg viss um það að þessi framreikningur hæstv. forsrh. og iðnrh. gæti orðið tilefni í frétt dagsins. Það væru nú ekki lítil fagnaðartíðindi fyrir launafólk í þessu landi eftir að það liggur fyrir að þessir hæstv. ráðh. telja eðlilegt að framreikna kaup og kjör manna í landinu frá árunum 1981, 1982 og fyrri hluta árs 1983 með lánskjaravísitölu. Ég er viss um að þessi yfirlýsing frá hæstv. forsrh. gæti greitt fyrir samningum á vinnumarkaði ef hann útfærði hana svolítið víðar en á því yfirliti sem ég hef hér undir höndum og hann hefur veitt fréttamönnum aðgang að.

Nú er ég síst að lasta það að slíkur samanburður sé gerður, en hitt hlýtur að skipta máli á hvaða grundvelli það er gert. Og hér kemur fram vilji virðulegs forsrh. sjálfs í þessum efnum og iðnrh. í gögnum sem hann hefur afhent forsrh.

Í þriðja lagi er að finna í þessu yfirliti minnisblað um greiðslur iðnrn. til Rafteikningar, sem svo er kölluð, fyrirtækisins Rafteikningar, svo til eingöngu fyrir störf Tryggva Sigurbjarnarsonar fyrir rn., eins og segir í þessu bréfi. Þær greiðslur eru þar tíundaðar árið 1981 og 1982 og segir, með leyfi forseta:

„Störf Tryggva voru reiknuð skv. gjaldskrá Félags ráðgjafarverkfræðinga að frádregnum 10% magnafslætti.“

Þær upphæðir sem þarna eru tíundaðar, sem ekki hafa komið fram, a. m. k. ekki í sjónvarpinu, eru: Árið 1981 greitt til Rafteikningar 292 697. Framreiknað á verðlagi í dag, eins og hér segir, væntanlega er það lánskjaravísitala, 1 millj. 340 þús. kr. Árið 1982. stendur hér einnig, voru greiddar til Rafteikningar 195 597 þús. kr. eða á verðlagi í dag 601 000 kr.

Þetta eru þau gögn sem hæstv. forsrh. afhenti fréttamönnum sem eftir því gengu.

Nú má ýmislegt segja um þær upplýsingar sem hér liggja fyrir. Ég ætla ekki að gera það í löngu máli að þessu sinni né taka almennt til umræðu svo sem vert er aðstöðu Stjórnarráðs Íslands til starfa, starfsaðstöðu þess og ráðningu manna til sérverkefna, störf á vegum nefnda og þóknanir til þeirra. En ég tel skylt, vegna einstaklinga sem hér eiga í hlut og hæstv. forsrh. hefur séð ástæðu til að draga inn í umr., að fram komi leiðréttingar á þeim tölum sem hæstv. iðnrh. hefur látið forsrh. í té og varðar það fyrst og fremst tölur sem snerta greiðslur til Inga R. Helgasonar lögmanns og nú forstjóra Brunabótafélags Íslands. Ég hef fengið frá honum upplýsingar skv. reikningum sem hann framvísaði og fékk greidda af hálfu iðnrn. á árinu 1981 sem sérstaklega var gert að umtalsefni sem hæsta greiðsla vegna álmálsins til einstaklings á þessu ári. Þar er skv. upplýsingum hæstv. iðnrh. og forsrh. nefnd talan 156 372 kr. eða framreiknað miðað við lánskjaravísitölu 1144 718 432. Þetta eiga að vera störf sem tengjast álmálinu.

Ingi R. Helgason hefur greint mér frá eftirfarandi: Störf hans á vegum iðnrn. 1981 voru:

1. Lögfræðistörf og ráðgjöf sem tengjast öðru fremur álmálinu. Vegna súrálsmálsins eingöngu: 73 877. Vegna súrálsmáls og annarra verkefna, ósundurliðað: 41 425.

Samtals 115 302 í staðinn fyrir 156 372 sem kemur fram í yfirliti hæstv. iðnrh.

2. Fyrir nefndarstörf fékk Ingi R. Helgason greitt vegna starfa í þágu jarðhitamála, m. a. undirbúningur að frv. um eignarhald á jarðhita, 4 362 kr.

3. Vegna svokallaðrar „Hafnarfjarðarnefndar“ sem starfaði á vegum fjmrn. og tengdist skiptingu á framleiðslugjaldi ISALs m. a. og er gamalt deilumál sem hæstv. núv. viðskrh. kannast vel við, virðulegur hæstv. þm. og ráðh. Matthías Á. Mathiesen. Þar var greiðslan um 5 400 kr.

Samtals fyrir slík nefndarstörf 9762 kr., en í heildargreiðslur, heildarlaun þetta ár 125 064 í staðinn fyrir 156 372 sem tíundaðar eru í yfirliti frá iðnrn.

Það sem kann að valda þessum mismun, mismunandi færslum er reikningur, sem varðar árið 1980 og snerti ferð Inga R. Helgasonar til Ástralíu það ár og vinnu sem henni tengdist, upp á 42 500 kr. og kom til greiðslu á árinu 1981. Skv. vísitölu kauptaxta, ef notuð væri vísitala kauptaxta en ekki lánskjaravísitala, næmu þessar heildargreiðslur vegna ársins 1981 til Inga R. Helgasonar 574 043, þar af vegna álmálsins 409 959.

Á reikningum frá nefndum lögmanni er alltaf tilgreindur vinnustundafjöldi og hver stund verðlögð á 175 kr. allt árið 1981, en meðaltaxti verkfræðinga á því ári var 250 kr. á tímann.

Í öðru lagi var ferðadagafjöldi tíundaður og hver dagur verðlagður á 1500 kr. allt árið 1981 og reiknað með átta stunda vinnutíma á ferðalögum. Þetta tel ég skylt að hér komi fram vegna viðkomandi einstaklings þar sem þær upplýsingar sem fram hafa verið framreiddar eru ekki réttar.

Ég get nefnt það vegna annars aðila sem upplýsingar eru fram reiddar af hæstv. forsrh. um, þ. e. Rafteikningar sf., vegna starfa Tryggva Sigurbjarnarsonar aðallega, að þar er meðaltal útseldrar vinnu á árinu 1981 250 kr. og meðaltal útseldrar vinnu árið 1982 372 kr. Þetta er rétt að fram komi varðandi þessar upplýsingar sem þarna hafa verið afhentar fjölmiðlum og hér eru til umræðu.

Ég tel líka rétt vegna Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns að taka það fram sérstaklega að ég hef ekkert rætt við hann um þær greiðslur sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, en ég veit að hann vann störf fyrir iðnrn. sem lögfræðingur og á taxta lögfræðinga á sínum tíma og ég held að enginn þurfi að kvarta undan vinnu þessa hv. lögmanns, enda hefur það út af fyrir sig ekki verið gert að umtalsefni. Hann reyndist a. m. k. á þeim tíma sem hann starfaði í mína þágu. og mér er ekki kunnugt um að þar hafi orðið breyting á, afar traustur starfsmaður og ég tel að þær þóknanir sem til hans gengu, miðað við taxta lögmanna, hafi vel staðið fyrir sínu, sú vinna sem þar var lögð fram.

Sjónvarpið gerði í frétt sinni í gær með einhverjum hætti, lítt skiljanlegum, að umtali sérstaki bréf sem ég hefði undirritað 17. maí 1983 og tengir það bréf þeim greiðslum sem greint var frá í fréttum sjónvarpsins. Ég næ ekki endum saman í þessum efnum hvað þennan fréttaflutning varðar og þetta bréf er ekki heldur að finna í þeim gögnum sem hæstv. forsrh. afhenti og ég fékk í hendur um ellefuleytið í gærkvöld. Bréf þetta, sem ég hef ekki heldur undir höndum en minnist vel að hafa undirritað og gengið frá í maímánuði 1983, var samningur við Ragnar Aðalsteinsson lögmann sem væntanlegan aðalmálafærslumann Íslands í þeim réttarhöldum sem fram undan voru að kröfu Alusuisse fyrir Alþjóðastofnuninni um lausn fjárfestingardeilna í New York. Alusuisse hafði þá tekið um það ákvörðun, í lok aprílmánaðar eða byrjun maí 1983, að vísa innheimtukröfu íslenska ríkisins um 10 milljón dala viðbótargreiðslu á framleiðslugjaldi vegna vantalins hagnaðar ISALs á nokkru árabili, upphæð sem er nokkuð á fimmta hundrað millj. kr. skv. núverandi gengi, fyrir þessa stofnun. Fjmrn. og iðnrn. höfðu fyrir sitt leyti á það fallist og voru að undirbúa þessa málsmeðferð fyrir ICSID-gerðardómnum, Afþjóðastofnuninni til lausnar fjárfestingardeilum í New York, á þessum vikum. Liður í því var að ráða málafærslumann af Íslands hálfu. Það var niðurstaða mín að höfðu samráði við ýmsa aðila að fela Ragnari Aðalsteinssyni það verkefni. Því fylgdi að sjálfsögðu að ganga frá kaupum og kjörum honum til handa í sambandi við það væntanlega starf. Og að athuguðu máli var það tillaga embættismanna sem ég féllst á, einnig að athuguðu máli, að Ragnari Aðalsteinssyni yrðu ætluð hliðstæð kjör þá daga sem hann flytti mál fyrir ICSID-gerðardómnum og öðrum málafærslumönnum þar væru ætluð eða 600 Special Drawing Rights á dag, þ. e. sú mynt sem þannig er er framreiknuð og skammstöfuð SDR, að hann hlyti sem sagt sömu þóknun þá daga sem málarekstur færi fram fyrir gerðardómnum.

Hins vegar var undanskilið — og ég bið menn að taka eftir því — að hann fengi nokkra þóknun á ferðalögum nema greiðslur fyrir ferðareikninga frá Íslandi til New York og ekki gert ráð fyrir neinni þóknun þá daga sem færu í ferðalög. Þá daga sem lögmaðurinn hins vegar ynni að undirbúningi mála hér heima fengi hann greiðslur sem næmu 2/3 af nefndri upphæð, 600 SDR, þ. e. 400 SDR.

Ég lét sannfærast um það, eftir að embættismenn höfðu skýrt þessi mál fyrir mér, að ekki væri óeðlilegt, miðað við umfang málsins og stærð og ábyrgð, að ganga frá samningi við Ragnar Aðalsteinsson að þessu leyti hvað þetta snerti og m. a. í ljósi þess að þessir taxtar hjá ICSID-gerðardómnum, sem um 100 ríkisstjórnir eru aðilar að og það að verulegu leyti þróunarlönd, fátæk þróunarríki, eru taxtar lögmanna í lægri kanti að mér er tjáð, og það margfalt lægri en það sem almennt mun vera greitt við lögfræðistörf í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið. Þannig hygg ég að sá lögmaður sem í gerðardómsnefnd var settur af núv. hæstv. viðskrh., Surrey heitinn, því að hann mun hafa látist áður en sáttargerð lauk, hafi fengið umsamdar greiðslur eins og gagnaðili frá Alusuisse, eitthvað á bilinu 1500–1800 Special Drawing Rights á dag, svo menn hafi þetta til hliðsjónar og samanburðar þegar verið er að vega og meta mál af þessu tagi.

Hins vegar gerðist það eftir að núv. ríkisstj. tók við að hæstv. iðnrh. sá ástæðu til þess að fallast á kröfur Alusuisse um það að breyta málsmeðferðinni, brjóta upp þann gerðardóm sem málið var að festast í skv. aðalsamningi milli íslensku ríkisstjórnarinnar og ÍSAL frá 1966 og skipta því niður á þrjá „panela“ sem svo eru kallaðir á ensku eða gerðardómsnefndir, búa til þrjá hópa lögmanna sem hver færi með sinn þátt málsins. Ég veit ekki með hvaða hætti gengið var frá samningum að þessu leyti, en þó hygg ég vera að mál hafi verið endurskoðað varðandi greiðslur og þóknanir í ljósi þess að þarna var málið sett í allt annan farveg en gerðardóminn.

Nú fóru með þetta mál t. d. fyrir gerðardómsnefnd í New York, en ekki umræddum ICSID-gerðardómi, þrír lögmenn tilkvaddir af iðnrn. og íslenskum stjórnvöldum, þeir Ragnar Aðalsteinsson, sem áfram hélt starfi í þágu iðnrn. skv. ákvörðun núv. hæstv. iðnrh., Eiríkur Tómasson og Halldór J. Kristjánsson. Þessir þrír lögmenn fylgdu eftir aðaldeiluefninu um vantalinn hagnað ÍSALs og skattkröfu íslenska ríkisins upp á á fimmta hundrað millj. kr. fyrir þessari gerðardómsnefnd. Þar var það mál til meðferðar þangað til á liðnu ári að ríkisstj. sá ástæðu til að fallast á kröfur Alusuisse um sérstaka svonefnda sáttargerð í þessu máli og þiggja úr hendi auðhringsins 3 millj. dala sem ótilgreinda sáttargerðargreiðslu vegna krafna íslenskra stjórnvalda í stað kröfu upp á 10 millj. bandaríkjadala. Þetta var ákvörðun íslenskra stjórnvalda þrátt fyrir það að íslensku lögmennirnir, sem störfuðu fyrir gerðardómnum í New York, höfðu haldið þannig á máli Íslands og málstaður Íslands reynst með þeim hætti fyrir þessum gerðardómi að Alusuisse var þar sannað að sök fyrir stórfellt yfirverð, engu minna en það sem fram hafði komið af hálfu íslenskra stjórnvalda varðandi hækkun í hafi hvað súrálið snerti í flutningi frá Ástralíu til Íslands. Það er á miðju síðasta sumri, í júlímánuði s. l., þegar staðan í gerðardómnum í New York er þannig að Alusuisse stendur uppi berstrípað fyrir gerðardómnum, að íslensk stjórnvöld sjá ástæðu til þess að fallast á upptöku málsins eftir óskum auðhringsins, fallast á sérstaka sáttargerð og þ. á m. að skipta málinu upp í frumparta, eins og raun reyndist verða þegar mál lágu hér fyrir í nóvember s. l., og semja við auðhringinn um einn þáttinn, raforkuverð, upp á 12.5 mill þegar framleiðslukostnaðarverð raforku út úr íslenska raforkukerfinu er a. m. k. 50% hærra, að falla jafnframt frá mikilvægum skattkröfum, að breyta svo mikilvægum skattaákvæðum í gildandi samningi milli aðilanna sem færði auðhringnum til baka stórar fjárfúlgur þá þegar og þar var fallist á allar óskir auðhringsins um breytingar á skattareglum sér í hag. Skv. mati Ríkisendurskoðunar, sem kom fram í iðnn. Alþingis um þetta efni, munuðu greiðslurnar miðað við árið 1980, breytingarnar sem gerðar voru á afskriftarreglum og fleiri þáttum, um 80 millj. kr. á því eina ári. En hitt var ekki reiknað til tekna, sem hæstv. iðnrh. lét hafa sig í að gera. að láta auðhringinn beygja sig aðfaranótt 5. nóv. s. 1., stilla sér uppi fyrir úrslitakröfum um það að út úr samningum aðila yrðu tekin ákvæði, svokölluð „bestukjaraákvæði“. sem voru ein skársta trygging íslenskra stjórnvalda í sambandi við skattkröfur og skattgreiðslur af hálfu álversins í Straumsvík. Þarna munar ekki um aurana þegar Alusuisse á í hlut og spurningin er um að bjarga þessum viðskiptavini núverandi stjórnvalda, og mjög kærum viðskiptavini núverandi stjórnvalda, frá því að hljóta opinberlega dóma fyrir svik sín og yfirtroðslur gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Þá er hlaupið upp til handa og fóta, þá er ekkert of dýru verði keypt og vinnu þeirra starfsmanna. lögmanna og annarra, sem unnu að þessu máli, allir með ágætum að ég tel vera, kastað að verulegu leyti út í vindinn, bæði þeirra sem störfuðu 1980–1983 í minni tíð sem iðnrh. og í framhaldi af því.

Það er ástæða til að ræða þessa þætti miklu nánar, virðulegur forseti, og ég mun gera það eftir því sem tilefni gefast til síðar við þessa umr. Ég tel þó rétt að það komi fram sem ráð var fyrir gert í sáttargerðarsamningnum milli ríkisstj. og Alusuisse — ætli það hafi ekki verið 9. liður í fskj. V. við breytingarnar á aðalsamningi:

„Hvorugur aðila skal gefa út neina fréttatilkynningu eða aðra svipaða tilkynningu varðandi sáttargerðarsamning þennan án samþykkis hins aðilans.“

Það var rifjað upp hér við umræðu í nóvember hvernig ÍSAL og Alusuisse hefðu fyrir sitt leyti staðið við þetta ákvæði. Hæstv. iðnrh. lýsti því nú svo yfir í þeirri kastþröng sem hann var í þá að þetta atriði væri bara markleysa og gilti ekki lengur, hann mundi ekki láta tjóðra sig með þessum hætti og þetta skyldu ekki vera lög á Íslandi þó að hann væri búinn að undirrita það og stjórnarliðið allt rétti upp hendina án breytinga á þessu ákvæði.

En hvernig skyldi Alusuisse túlka viðskipti við núv. hæstv. ríkisstj. í sínum frásögnum, t. d. á aðalfundi auðhringsins suður í Zürich í aprílmánuði s. l., ef marka má það sem kallað hefur verið virtasta borgarblað Svisslands, og það er málgagn sem Morgunblaðið helst vill líkjast þegar það vill reisa merkið hátt, Neue Zürieher Zeitung, sem ver heilli síðu undir frásögn af aðalfundi Alusuisse þann 4. apríl s. l. undir fyrirsögninni „Auftauehen der Alusuisse aus ihrem rotem Meer,“ sem gæti útlagst á íslensku: „Alusuisse er að koma upp úr kafi rauðu talnanna“? — Það er betri afkoman, það er hagnaðurinn sem verið er að greina þar frá í fyrirsögn.

Þar er síðan greint frá því í frásögn blaðsins eftir talsmönnum Alusuisse á aðalfundi að lokið væri nú óskemmtilegum málarekstri við íslensk stjórnvöld og sitthvað um það sagt. Þar segir að „hlutlausir, alþjóðlegir gerðardómar“ hafi í millitíðinni staðfest „Haltlosigkeit“, segir á þýskunni, staðfest rökleysu eða haldleysi þessara ásakaka. Það eru ásakanir þess sem hér stendur og er nafngreindur í þessari grein sérstaklega sem hinn fyrrverandi hatursfulli — það stendur nú ekki í blaðinu — andstæðingur Alusuisse hér uppi á Íslandi. En alþjóðlegir gerðardómar hefðu staðfest haldleysi þessara ásakana.

Síðan segir — og það er best að sletta einu sinni þýsku úr þessum ræðustól, það er oftar að enskan heyrist, af því að ég hef ekki löggilta skjalaþýðingu:

„Die isländische Regierung hat ausdrücklich davon Kenntnisse genommen was nach diplomatischen Geflogenheiten einer Entschuldigung nahekommt.“

Íslenska ríkisstjórnin hefur ákverð — ausdrücklich — hefur ákveðið tekið tillit til þessa sem skv. diplómatískum venjum nálgast afsökun.

Þetta er túlkunin frá Alusuisse á úrslitum viðskiptanna við núv. ríkisstj. og þeim samningum sem gerðir voru á Alþingi í nóvember s. l. Ég tel rétt að hv. alþm. geri sér ljóst hvernig sá gjörningur er túlkaður. þrátt fyrir ákvæði fskj. V. tölul. 9., um að aðilar skuli ekki gefa út neina fréttatilkynningu eða svipaða tilkynningu varðandi sáttargerðarsamning þennan án samþykkis hins aðilans. — Kannske hefur það samþykki verið gefið. Ég á hins vegar ekki von á því sérstaklega að eftir því hafi verið leitað.

Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. geti tekið þátt í frekari umr. í dag og ég ætla að stuðla að því að svo geti orðið með því að gera senn hlé á minni ræðu hér. Ég vil aðeins nefna það hér í lok hennar að þegar ég horfði á sjónvarpið í gær heima hjá mér kom mér í hug ekki alveg ósvipaður atburður sem gerðist fyrir tveimur og hálfu ári. Þá skaust ég heim í kvöldmat og horfði á sjónvarpið og fékk þar sérstök skilaboð frá Framsfl. í sambandi við álmálið. Þau voru flutt, þessi skilaboð, í samtali Ólafs Sigurðssonar fréttamanns og Guðmundar G. Þórarinssonar sem verið hafði þá fulltrúi Framsfl. í álviðræðunefnd sem svo var kölluð. Hv. þáv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson valdi þá sjónvarpið sem vettvang til að segja sig úr álviðræðunefnd og lýsa sérstöku vantrausti á mig sem ráðh. í sambandi við þau mál. Hlutur fréttamannsins af þessu tilefni var út af fyrir sig nokkuð sérstakur og gæti orðið tilefni til upprifjana. Ég ætla ekki að nefna margt, ekki annað en orðalag eins og það sem þessi fréttamaður Ríkisútvarpsins þá viðhafði í nóv. 1982: „Barst hins vegar mjög jákvætt bréf frá Alusuisse þar sem boðið er upp á samningaviðræður sem m. a. fjalli um nýtt orkuverð“ og fleira kemur þar fram. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Nei. (Forseti: Þessum fundartíma er nú lokið. Það var ekki ætlunin að halda fundi áfram lengur en til tólf í dag. Nú verður þetta mál tekið út af dagskrá og því frestað og öll önnur dagskrármál. Ég vænti þess að hv. þm. geti haldið áfram ræðu sinni þegar málið kemur aftur fyrir.)