15.10.1984
Efri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

10. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu óþarfi að teygja þessar umr., en það var einkum út af orðum hv. þm. Helga Seljan sem mér fannst eðlilegt að ég kæmi skýringum mínum á framfæri.

Hann leitaðist við að bjarga sér út um bakdyrnar frá þeim samanburði sem ég gerði á starfstilhögun fyrrv. og núv. ríkisstj. með því að leiða rök að því að annaðhvort væri um að ræða þáltill. eða frv. Það sem skiptir máli er að í ákvæðum stjórnarsáttmála beggja ríkisstj., fráfarandi og núverandi, var kveðið á um með hvaða hætti skyldi farið með afgreiðslu á landbúnaðarmálum. Fyrrv. ríkisstj. setti það inn í sinn stjórnarsáttmála að stefnan í landbúnaði skyldi ákveðin með þál. frá Alþingi. Hún var, eins og við vitum, samin af nefndinni sem ég vitnaði í og var einmitt fengið það hlutverk. Núv. ríkisstj. ákvað hins vegar í sínum stjórnarsáttmála að stefnan í landbúnaði skyldi mótuð með endurskoðun á framleiðsluráðslögunum. Hér er þess vegna um sama efni að ræða. Það hlýtur að vera öllum mönnum ljóst, eins og ég hef þegar tekið fram, að þótt stjórnarflokkarnir komi sér niður á meginstefnu í landbúnaðarmálum í frv.-formi er eftir öll umfjöllun úti í þjóðfélaginu og hér á Alþingi. Það er því ekki eins og það sem þar kemur fram verði eitthvert leyniplagg og fjarri því að ég hafi andúð á að um þau mál verði nákvæmlega fjallað hér á Alþingi, eins og hv. þm. tók reyndar fram.

Ég sé ekki ástæðu til að fara efnislega út í umr. um þessi mál. Það komu ýmsar ágætar ábendingar fram hjá hv. þm. Helga seljan sem ég er honum alveg sammála um. Það er m.a. spurningin um hvernig þetta verður fléttað saman þannig að ekki hljótist af röskun byggðar. Það er skilmerkilega tekið fram í endurnýjuðum stjórnarsáttmála að séð verði fyrir því að inn í landbúnaðinn komi atvinnutækifæri til móts við þann samdrátt sem orðinn er. Hins vegar má segja að samdrátturinn eins og hann er í dag sé orðinn nægur. Það er annað mál að fallið hafa út úr landbúnaðarframleiðslunni mikil verðmæti sem stórlega hafa rýrt og rýra tekjur sveitafólks eins og er. Það er mjög stórt mál og blandast inn í þessa umr. Það er ekki svo ýkjamikið sem út af stendur um þessar mundir að hafa þurfi sérstakar áhyggjur af, ef ekki þyrfti að hugsa fyrir öðru en því sem þar er um að ræða. Hins vegar er staðan í landbúnaðinum þannig og verðmætasamdrátturinn, sem þar hefur orðið, með þeim hætti að hyggja þarf líka að fortíðinni. Þetta vona ég að verði hægt að ræða hér og helst sem fyrst.

Ég tek heils hugar undir þau ummæli hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar að það beri að hraða frágangi að tillögum um endurskoðun á framleiðsluráðslögunum og þótt annasamur tími sé fram undan hér á þingi, eins og gjarnan er fram að áramótum vildi ég leggja mitt af mörkum til að þeim störfum yrði hraðað þannig að sem fyrst lyki og annar þáttur þeirrar umræðu gæti hafist, bæði í samtökum bænda og reyndar víðar í þjóðfélaginu og eins á hinu háa Alþingi.