18.06.1985
Sameinað þing: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6696 í B-deild Alþingistíðinda. (6005)

508. mál, Íslandssiglingar Rainbow Navigation

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Við erum að ræða um mikið hagsmunamál, íslenskt hagsmunamál andspænis erlendum öflum. Ég skildi fsp. líka á þann veg að það væri verið að vekja máls á þessu til að leggja áherslu á að Íslendingar fylgdust vel með málinu og stæðu fast á sínum rétti. Þess vegna finnst mér það stangast nokkuð á við tilgang þessarar fsp. að draga skrif í Dagblaðinu Vísi inn í þær umr.

Að gefnu tilefni skal ég upplýsa hv. 5. landsk. þm. um að ég ber ekki ábyrgð á öllu því sem stendur í Dagblaðinu Vísi, enda er það stórt blað. Hins vegar er frá því að segja að því er varðar forustugreinar og skrif sem eru á ábyrgð ritstjórnar að Dagblaðið Vísir hefur ekki mælt með því að bandarískt skipafélag nyti einokunar á farmflutningum milli Íslands og Bandaríkjanna. Dagblaðið Vísir hefur ávallt lagt áherslu á að í skipaflutningum til Íslands ætti að ríkja frjáls samkeppni, bæði að því er varðar flutninga fyrir varnarliðið sem og fyrir aðra. Reyndar tók hv. 5. landsk. þm. fram í sinni ræðu að lögð hefði verið áhersla á að íslensku skipafélögin ættu að hlíta samkeppni. Það er meginefni þess frv. sem ég var að skírskota til áðan og sem ég hef í huga þegar ég tek til máls nú og legg áherslu á að þá leið skuli fara að samkeppni ríki, en ekki verði að sætta sig við einokun af hálfu bandarískra stjórnvalda.