18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6697 í B-deild Alþingistíðinda. (6009)

Skýrsla fjmrh. um heildarendurskoðun lífeyrismála

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 77 er að finna beiðni um skýrslu frá fjmrh. um heildarendurskoðun lífeyrismála. Af hálfu þeirra er báðu um skýrslu þessa er þess sérstaklega óskað að vita hvaða áform séu helst uppi til að ná þeim markmiðum sem sett voru fram í samkomulagi Alþýðusambandsins og vinnuveitenda um lífeyrismál frá 28. febr. 1976, en þau voru þessi:

— að samfellt lífeyriskerfi taki til allra landsmanna,

— að lífeyrissjóðir og almannatryggingar tryggi öllum lífeyrisþegum viðunandi lífeyri er fylgi þróun kaupgjalds á hverjum tíma,

— að auka jöfnuð og öryggi meðal landsmanna sem lífeyris eiga að njóta,

— að lífeyrisaldur geti, innan vissra marka, verið breytilegur eftir vali hvers og eins lífeyrisþega,

— að reynt verði að finna réttlátan grundvöll fyrir skiptingu áunninna lífeyrisréttinda milli hjóna.

Einnig er óskað eftirfarandi upplýsinga:

a. Hver er fjárhagsstaða lífeyrissjóðanna og hversu vel eru þeir búnir undir að standa við skuldbindingar sínar?

b. Hvaða áhrif mun breytt aldursskipting hafa á skuldbindingar sjóðanna á komandi árum:

(i) 1984–1989,

(ii) 1990–1994,

(iii) 1995–2000?

c. Hvernig hefur tekist að samræma lífeyrisrétt og bótaákvæði í reglum sjóðanna?

d. Hver eru áhrif fullrar sjóðssöfnunar annars vegar og hins vegar gegnumstreymiskerfis á viðgang sjóðanna og iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga?

e. Hvaða áform eru uppi til að tryggja lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks?

f. Hvenær má gera ráð fyrir að upplýsingastreymi frá lífeyrissjóðunum verði með þeim hætti að sérhver sjóðfélagi fái árlega yfirlit sent yfir áunnin réttindi?

Hér hafa verið rifjuð upp markmið sem sett voru fyrir nær áratug. Ég ætla ekki að ræða þessi markmið sérstaklega, enda tel ég þetta ekki stund til sérstakra yfirlýsinga um áform eða stefnu í málum sem tengjast lífeyrissjóðunum.

Sérstök nefnd var skipuð árið 1976 til að fjalla um atriði þau sem ég hef rætt hér að framan. Sú hefur verið kölluð endurskoðunarnefnd lífeyriskerfis og þó oftar sautján manna nefndin. Reyndar hefur önnur nefnd starfað innan sautján manna nefndar, skipuð átta mönnum, og hefur fjallað sérstaklega um málefni lífeyrisþega á samningssviði ASÍ og VSÍ, Farmanna- og fiskimannasambandsins og Vinnumálasambands samvinnufélaganna.

Formaður endurskoðunarnefndar lífeyriskerfis, Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, hefur sent fjmrh. skýrslu um starfsemi nefndarinnar. Í sérprentaðri útgáfu hennar, sem dreift hefur verið til þm., er að finna svör við þeim fsp. sem fram eru bornar á þskj. 77 að svo miklu leyti sem hægt er að svara þeim á þessu stigi málsins.

Ég vil þó vekja athygli á því sem segir á bls. 4 í þskj. 957 um drög að.frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða sem samin hafa verið á vegum nefndarinnar. Í skýrslunni segir:

„Eitt meginverkefni endurskoðunarnefndarinnar hefur verið að láta gera drög að frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða og leita samstöðu aðila um slíkt frv.

Með tilkomu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda er það eðlilegt og raunar óhjákvæmilegt að sett verði löggjöf er kveði á um réttindi og lágmarksskyldur lífeyrissjóða, m. a. varðandi myndun lífeyrisréttinda, flutning réttinda milli sjóða, vörslu, tryggingu og ávöxtun iðgjalda. Enn fremur vantar í lög öll ákvæði um skipulag, reikningshald og eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða sem nú eru orðnir veigamikill þáttur í fjármálakerfi landsins.

Settur var á laggirnar sérstakur starfshópur til þess að vinna að samningu lagafrv. um þessi efni og voru fyrstu frumvarpsdrögin dagsett í apríl 1981. Voru þessi drög tekin til umfjöllunar í endurskoðunarnefndinni og í ljósi þeirra sjónarmiða sem þar komu fram voru drögin endurskoðuð af starfshópnum og var síðasta gerð þeirra dagsett 12. apríl 1983. Fylgja þau hér með sem fskj. 3.

Í frumvarpsdrögunum er kveðið á um skilyrði sem lífeyrissjóðir verða að uppfylla til þess að með iðgjaldagreiðslum til þeirra verði innt af hendi sú kvöð um skyldutryggingu sem felst í lögum nr. 55/1980. Jafnframt þeim sjóðum sem hér um ræðir og nefndir eru skyldusjóðir er gert ráð fyrir heimild til starfrækslu svonefndra frjálsra sjóða sem einungis yrði ætlað það hlutverk að veita viðbótarréttindi við hið tvíþætta skyldukerfi lífeyristrygginga, almannatryggingar og skyldulífeyrissjóði.

Auk ákvæða um eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða, starfsleyfi, stjórn, gerð ársreikninga o. fl. er í frumvarpsdrögunum lagt til að lágmarksiðgjald til skyldusjóða verði tiltekinn hundraðshluti af heildaratvinnutekjum. Þá eru og ákvæði um verðtryggingu lífeyris, lágmark elli- og örorkulífeyris og réttindi þeirra sem hætta iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóðs, en láta iðgjöld sín standa inni.

Í aths. með frumvarpsdrögunum er gerð grein fyrir þeim ávöxtunarforsendum sem miða þarf við ef hið tilgreinda lágmarksiðgjald á að geta staðið undir þeim lágmarksréttindum sem kveðið er á um.

Í umræðum um þessi drög í endurskoðunarnefndinni kom fram að þeir hagsmunaaðilar sem aðild eiga að nefndinni töldu sig þurfa verulegan tíma til þess að taka afstöðu til þeirra og er ljóst að enn mun nokkur tími líða þar til afstaða aðila liggur fyrir. Einkum er um tvö mál að ræða sem fjalla verður nánar um áður en von er til þess að allir geti tekið afstöðu til málsins.

Í fyrsta lagi er hér um að ræða þau ákvæði frumvarpsdraganna sem fjalla um réttindi og lágmarksskyldur lífeyrissjóðanna og iðgjaldagreiðslur til þeirra. Hafa flestir fulltrúar aðila í nefndinni talið nauðsynlegt að skýr ákvæði væru um þessi efni í frumvarpsdrögunum, en jafnframt lagt áherslu á að um slík mál væri nauðsynlegt að fjalla í samningum milli aðila vinnumarkaðarins.

Í öðru lagi þarf samhliða lagasetningu af þessu tagi að vera fyrir hendi greinargerð fyrir því hvaða áhrif almenn löggjöf um lífeyrissjóði hefur á starfsemi þeirra lífeyrissjóða sem stofnaðir hafa verið með sérstökum lögum.

Stjórn BSRB svo og átta manna nefndin hafa lagt fram athugasemdir og greinargerðir um afstöðu sína til og sjónarmið gagnvart frumvarpsdrögunum. Engir fulltrúar annarra aðila endurskoðunarnefndarinnar hafa hins vegar gert henni grein fyrir afstöðu sinni og sjónarmiðum.“

Í skýrslunni er greint frá reiknilíkani sem gert hefur verið og gefa á mönnum kost á að meta þróun þess lífeyriskerfis, er við búum við, í framtíðinni. Sömuleiðis hefur verið reynt að meta gildi gegnumstreymiskerfis. Niðurstöður þessara athugana er að finna á bls. 8 á þskj. 957 og segir þar, með leyfi forseta:

„Þessar athuganir sýna tvímælalaust að framtíðarhorfur núverandi lífeyrissjóðakerfis eru verri en menn höfðu almennt gert sér grein fyrir. Jafnframt er ljóst að heildarstaða lífeyrissjóðanna í dag gagnvart skuldbindingum, sem þegar hefur verið stofnað til, er miklu lakari en margir höfðu áttað sig á.

Í greinargerð átta manna nefndarinnar á fskj. 6 er borið saman iðgjald í söfnunarkerfi fyrir allan mannfjöldann annars vegar og fyrir einn árgang hins vegar. Niðurstöður þess samanburðar gefa vísbendingu um kostnað vegna ónógra eigna í dag og hversu iðgjald þeirra, sem lifa í dag, þyrfti að hækka ef þeir ættu einir að greiða. Endanleg niðurstaða um kostnað vegna fyrri skuldbindinga hlýtur hins vegar að byggjast á uppgjöri hvers sjóðs fyrir sig.

Í útreikningunum kemur mjög skýrt fram að vegna þróunar mannfjöldans og breytingar á aldursskiptingu þjóðarinnar munu lífeyrisgreiðslur aukast verulega á næstu áratugum og mun aukningin verða sérstaklega ör milli 2010 og 2030. Upp frá því mun hægja mjög á aukningunni, enda tekur þá að gæta áhrifa minnkandi frjósemi undanfarinna áratuga.

Miðað við óskerta frjósemi á árunum 1981 og 1982 ætti aldursskipting þjóðarinnar að verða nokkuð stöðug upp úr 2030. Gegnumstreymiskerfi nær því jafnvægi upp úr 2030. Miðað við 70 ára ellilífeyrisaldur og reglur SAL-sjóðanna yrði nauðsynlegt iðgjald þá um 17% . Við 65 ára ellilífeyrisaldur þyrfti iðgjald að vera 23% þegar jafnvægi kæmist á, en 30% við 60 ára ellilífeyrisaldur. Til samanburðar má nefna að í þessum forsendum þyrfti nauðsynlegt iðgjald skv. réttindakerfi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (65 ára ellilífeyrisaldur) að vera rúmlega 29% þegar jafnvægi næðist.

Frjósemi íslenskra kvenna hefur minnkað verulega undanfarna áratugi og bendir m. a. alþjóðleg reynsla til að enn muni draga úr frjóseminni á næstu árum. Í reikningunum hefur verið gert ráð fyrir að frjósemin muni minnka um annars vegar 2% árlega næstu 20 árin og hins vegar um 1.5% árlega. Afleiðing þess er... að iðgjald þyrfti því að vera enn hærra. Skv. réttindakerfi SAL og miðað við 70 ára ellilífeyrisaldur færi iðgjald upp í 26% í jafnvægi sem yrði vart fyrr en upp úr 2070 ef frjósemi lækkaði um 1.5% árlega. Við árlega lækkun frjóseminnar færi iðgjald upp í 31%.“

Í lok skýrslunnar segir svo:

„Enn er mikið verk óunnið til þess að lokið verði þeirri endurskoðun lífeyriskerfisins sem endurskoðunarnefndinni var falið að vinna að árið 1976.

Meginverkefnið er að ljúka og ná sæmilegri samstöðu um frv. til l. um starfsemi lífeyrissjóða. Nokkrir nm. telja frv. þegar nógu vel unnið til þess að það geti orðið grundvöllur ákvörðunar um lagasetningu um starfsemi lífeyrissjóða, enda þótt í þeim séu aðeins takmörkuð ákvæði um iðgjald og réttindi. Hins vegar er það skoðun flestra fulltrúa hagsmunasamtaka í endurskoðunarnefndinni að nauðsynlegt sé að hafa í þeim lögum skýr ákvæði um iðgjöld og samræmd lágmarksréttindi. Til undirbúnings samningum og ákvörðunum um þessi efni hafa að undanförnu verið gerðar veigamiklar fjárhagslegar athuganir á framtíðarþróun í lífeyriskerfinu sem ætlað er að verði grundvöllur slíkra ákvarðana. Nauðsynlegt er að halda þessari vinnu áfram svo og að kynna niðurstöður hennar sem best fyrir almenningi í landinu. Slík kynning og umræða er þegar hafin í stærstu hagsmunasamtökunum sem aðild eiga að nefndinni. Síðan mun að því koma að afstaða verður tekin til þess, bæði með samningum milli hagsmunaaðila og á vettvangi stjórnmála, hvaða lágmarksréttindum skuli stefna að á komandi tímum og hvernig undir þeim skuli standa með greiðslu iðgjalda og ávöxtun myndaðs sjóðs. Þeir reikningar sem þegar hafa verið gerðir sýna ótvírætt að í þessum efnum eru fram undan stærri vandamál en menn hugðu þar sem ekki verður komist hjá verulegri hækkun iðgjalda í framtíðinni ef halda á þeim réttindum sem þegar hafa verið ákveðin, ýmist með samningum eða með lögum.“

Herra forseti. Ég vona að skýrsla þessi skýri stöðu mála nokkuð. Hún verður send til allra lífeyrissjóða og berst væntanlega öllum stjórnarmönnum sjóðanna.