18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6712 í B-deild Alþingistíðinda. (6014)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Mér þykir ólíklegt að ég geti svarað svo umfangsmiklu máli sem þessu á einum stundarfjórðungi, en mun hins vegar reyna að taka í það eins stuttan tíma og mér er nokkur kostur.

Það er út af fyrir sig ánægjulegt að þessi málefni skuli koma hér til umr. Það er vissulega nauðsynlegt. Það á ekki að koma neinum á óvart að íslenskur sjávarútvegur á í miklum erfiðleikum. Það lá fyrir þegar núv. ríkisstj. var mynduð, og var kannske aðalástæðan fyrir því hversu brýnt menn töldu að ljúka því verki á sínum tíma, að atvinnulífið stæði þá frammi fyrir hruni og það væri mjög óábyrg afstaða stjórnmálaaflanna í landinu ef ekki væri tekist á við þau vandamál.

Núverandi stjórnarflokkar gerðu það með ýmsum ráðstöfunum. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að Alþb. skuli viðurkenna að það hafi verið mikil ástæða til að grípa til róttækra aðgerða á sínum tíma og gengur jafnvel miklu lengra og telur að alls ekki hafi verið nóg að gert, þá sérstaklega í upphafi stjórnartímabilsins.

Það þarf ekki frá því að segja að fyrir tveimur árum geisaði hér óðaverðbólga, 130–140%. Það var komið á nýrri efnahagsstefnu, sem ég skal ekki rekja neitt frekar, sem skipti að sjálfsögðu sköpum fyrir sjávarútveginn í þröngri stöðu. Ég kemst ekki hjá því að rifja í stuttu máli upp hvað einkum hefur verið gert til þess að bregðast við þeim mikla vanda sem við horfðum þá framan í.

Í fyrsta lagi hefur verið farið í verulega fjárhagslega endurskipulagningu sjávarútvegsins. Það hefur tekið langan tíma og allt of langan tíma. Það hefur gerst með því að bætur úr Aflatryggingasjóði hafa verið verulega auknar, Fiskveiðasjóður Íslands hefur veitt mjög mikinn vaxtaafslátt og með þeirri skuldbreytingu, sem hefur átt sér stað í opinberum sjóðum, og vaxtaafslætti hefur greiðslubyrðin í Fiskveiðasjóði lækkað á árunum 1984 og 1985 úr 3500 millj. í u. þ. b. 1500 millj. Þá hefur átt sér stað mjög veruleg skuldbreyting á lausaskuldum sjávarútvegsfyrirtækja sem nú er nánast lokið. Þá hefur einnig verið ákveðið að endurgreiða sjávarútveginum uppsafnaðan söluskatt að upphæð 540 millj. kr. Allt eru þetta mikilvæg mál sem urðu þess valdandi að ekki fór verr en á horfði.

Í öðru lagi hefur verið tekist á við skipulagsvanda sjávarútvegsins og stjórnun fiskveiðanna. Það hefur oft komið til tals hér á Alþingi og ég skal ekki hafa um það mörg orð. Markmiðið með þeirri skipulagsbreytingu var að takmarka veiðar á mikilvægustu fiskistofnum við ákveðin hámörk til að vernda þá og skapa svigrúm til að byggja upp fyrir framtíðina. Það hefur að miklu leyti tekist. Það hefur tekist að standa við þau mörk, sem sett hafa verið, að langmestu leyti. Auðvitað væri freistandi að veiða enn meira og það væri áreiðanlega hægt að selja meira á okkar mörkuðum eins og nú standa sakir, en það er nú e. t. v. það sem skiptir meginmáli fyrir framtíð íslensks þjóðarbús að við stöndumst þær freistingar að ganga um of á fiskistofnana. Ég get ekki mælt með slíkum aðgerðum. Þá held ég að hljóti að vera betra að takast á við erfiðleikana innan skynsamlegra aflamarka.

Það var reynt að jafna þeim aflasamdrætti sem varð og það er engin ástæða til að gera lítið úr þeim aflasamdrætti eins og mér fannst að hv. fyrirspyrjandi gerði hér. Það er vissulega rétt að loðnuveiðin hefur komið upp aftur og komið í veg fyrir gjaldþrot loðnuflotans og vinnslustöðva loðnunnar, þ. e. fiskimjölsverksmiðjanna, en aflasamdrátturinn er mjög verulegur hjá botnfiskflotanum og þeim fiskvinnslustöðvum sem vinna úr þeim afla. Það var reynt að jafna þessum afla réttlátlega niður á bæði byggðarlög og skip til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og það hefur sem betur fer að mestu leyti tekist.

Það kerfi sem upp var tekið átti að hvetja sjómenn og annað starfsfólk í sjávarútvegi til að auka gæði og verðmæti þess afla sem veiða má hverju sinni og draga úr tilkostnaði við öflun hans. Það liggur fyrir að verulegur árangur hefur náðst í þessum efnum. en þó alls ekki nægilegur.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson tók eitt dæmi, vitnaði í erindi ungs manns, sem var ágætt dæmi um hvernig ekki á að standa að þessum hlutum. Hann nefndi dæmi um að togari kom að landi með 150 tonna afla og ekki réðist neitt við að vinna hann í viðkomandi frystihúsi. Þetta er alveg rétt og ber að harma að slíkt skuli koma fyrir. Hitt er svo annað mál að opinber stjórnvöld á hverjum tíma geta ekki ráðskast í einu og öllu með vinnubrögð manna úti um land. Þeir verða að finna sjálfir með hvaða hætti þeim hentar best að vinna úr þeim afla sem þeim er fenginn í hendur og fara með sinn kvóta.

Það verður ætlast til þess að hver og einn reyni að samræma veiðar og vinnslu þannig að sem mest verðmæti verði úr fiskinum. Það kom því miður allt of oft fyrir á s. l. sumri, og þá kannske ekki síst á Vestfjörðum og að nokkru leyti á Norðurlandi og Austurlandi, að togarar komu með allt of mikinn afla að landi. Það er ein aðalástæðan fyrir því hversu illa fór með afkomu frystihúsanna á þessu svæði á s. l. sumri. Það er vonandi að menn hafi lært af þeirri reynslu og slíkt muni ekki koma fyrir aftur. Þá verður að sjálfsögðu að geta náðst um það samkomulag á milli aðila, að takmarka afla í hlutfalli við afkastagetuna í landi. Hitt er svo annað mál að þetta er ekkert einfalt mál úrlausnar og betra um að tala en í að komast. Með þessum orðum er ég á engan hátt að leggja dóm á einstök tilvik í þessu sambandi, en bendi hins vegar á að það er enn meiri ástæða til að fara varlega í sumar, miðað við þann vinnuaflsskort sem fyrir hendi er, því ef það er ekki gert má gera ráð fyrir að það fólk sem við þessi störf vinnur hafi ekki afla á haustmánuðum til að vinna úr. Þetta hlýtur að verða viðkomandi vinnslustöðvum hvatning til þess að gera sem mest verðmæti úr þeim afla sem til ráðstöfunar er.

Það var einnig ákveðið að stemma stigu við frekari stækkun fiskiskipaflotans og hvetja útgerðarmenn til að beina skipum sínum í veiðar á vannýttum fiskistofnum og sjávardýrum. Þetta hefur að miklu leyti tekist. Það hefur orðið veruleg aukning á rækjuveiði. Og það hefur ekki verið heimilað að byggja ný skip. Hins vegar hefur verið reynt að beina fjármagni til orkusparandi aðgerða og ýmissa tæknibreytinga á flotanum og hefur verið gefin út reglugerð hjá Fiskveiðasjóði sem hvetur til slíkra fjárfestinga en því miður eru jafnvel nýjustu skip flotans ekki nægilega vel útbúin miðað við þær kröfur sem verður að gera.

Ekki meira um það sem gert hefur verið þó að þar sé af mörgu að taka.

Ég vildi fara nokkrum orðum um þær fullyrðingar hv. þm. að orðið hafi stórkostlegt eignahrun í sjávarútveginum og það sé mikið áhyggjuefni. Ég vil ekki draga úr því að eigið fé í sjávarútveginum er allt of lítið og eigið fé hefur hlutfallslega farið minnkandi. Það eru uppi tvær stefnur um hvernig fjármagna skuli fyrirtæki. Í fyrsta lagi að það skuli gera sem mest með lánsfé og í öðru lagi að það skuli gera sem mest með eigin fé. Ef við tölum t. d. við ekta kapítalista á bandarískum fjármagnsmarkaði þykir þeim óeðlilegt að eigið fé sé undir 60% og telja að það sé miklu mikilvægara að koma eiginfjárhlutfallinu upp í það áður en ráðist er í frekari fjárfestingar. Þeir hætta oft við fjárfestingar af þeim sökum. Þetta gera þeir til að halda uppi verðgildi hlutabréfa sinna. Þau skilyrði hafa ekki verið á Íslandi. Hér hefur verið tiltölulega lokaður hlutabréfamarkaður og fyrirtæki hafa að mjög miklu leyti þurft að byggja uppbyggingu sína á lánsfé. Hér hefur nú orðið nokkur breyting á þannig að það er vaxandi áhugi fyrir því að auka eigið fjármagn fyrirtækja. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á þessar tvær stefnur, en hins vegar get ég sagt það sem mína skoðun að ég tel almennt mun heilbrigðara að byggja fyrirtæki upp með sem mestu eigin fjármagni.

Hv. þm. tók það fram hér að sjávarútvegurinn hefði verið rændur. Það stóð a. m. k. í grein sem hann ritaði í febrúar s. l. Ég held að hann hafi ekki endurtekið það nú, en ég held að þessa grein hafi hann skrifað í blað á Vestfjörðum þar sem hann segir að sjávarútvegurinn hafi verið rændur 6000 millj. kr. á tveimur árum og hefur það allt frá Seðlabanka Íslands.

Nú sagði ég það áðan að sjávarútvegurinn hefur misst hluta af sínu eigin fé. Ég hef hins vegar verulegar athugasemdir fram að færa við þá útreikninga sem hér eru gerðir og kom þeim athugasemdum á framfæri við Seðlabanka Íslands, bað um að starfsmenn bankans lykju sínum athugunum áður en þeir færu að birta upplýsingar úr þeirri athugun sem fram fer á þeirra vegum. Ég tel að þeir séu alls ekki búnir að gera það upp sem þeir ætla sér að gera og þær tölur. sem þegar hafa verið birtar, gefi villandi mynd. Það er verið að vinna að því í Seðlabankanum og ég hef rætt það við þá og vonandi verður næsta skýrsla lokaskýrsla, en ekki verði meira um að birtar séu ófullkomnar upplýsingar um mikilvæg verkefni sem verið er að vinna að.

Ég vil í því sambandi segja: Það er mjög vafasamt að semja uppgjör sem ekki er í neinu bókhaldslegu samhengi og það er þetta uppgjör Seðlabankans ekki. Það er ekki sambærilegt mat á eignum og skuldum. Þeir miða við eitthvað sem þeir kalla þjóðarauðsmat, sem er út af fyrir sig ágætt að hafa til hliðsjónar. en hins vegar er til margs konar annað mat og þar af leiðandi eru þessar upplýsingar, sem þegar hafa komið. ekki mjög nákvæmar.

Það skiptir t. d. mjög miklu máli hver tímasetningin er í slíku uppgjöri. Þeir velja tímann rétt eftir gengisbreytinguna síðast, færa sem sagt upp allar skuldirnar á réttu gengi, en hins vegar er ekki framkvæmt sambærilegt mat á eignunum. seðlabankinn gaf síðan eftir um 500 millj. af þeim skuldum sem hjá honum var og það kemur ekki heldur fram í þessu.

Það er vissulega rétt að eigið fjárhlutfallið hefur minnkað, en það eru ekki aðalskýringarnar að um svo stórkostlegt tap hafi verið að ræða í fiskvinnslunni. Við getum tekið eitt dæmi. Ágætis fiskvinnslufyrirtæki á Vestfjörðum kann að hafa átt eignir upp á 100 millj. 1981 og fjármagnað það eingöngu með eigin fé. Svo má vera, eins og oft vill verða, að komið hafi upp mikil bjartsýni í þessu fyrirtæki og það ákveðið að fjárfesta fyrir 400 millj. en ekki ein einasta króna hafi verið til í byggðarlaginu til að gera það og það fjármagn hafi þurft að taka allt að láni. Eigið fjárhlutfall þessa fyrirtækis fer allt í einu úr 100% í 20%. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að taka slíkt inn í útreikninga sem þessa.

Ég ætla ekki að fara með ákveðnar tölur um þær breytingar sem þarna hafa átt sér stað, þær eru nokkrar, en þær eru ekki í samræmi við þá útreikninga sem hv. þm. hér viðhafði, byggða á lauslegum upplýsingum frá Seðlabanka Íslands, sem hann túlkar sem ákveðna niðurstöðu bankans. Það er rangt. Bankinn hefur ekki komist að neinni ákveðinni niðurstöðu. Þar að auki gefur hann sér beinar forsendur um lausaskuldir fyrirtækjanna. Það er alveg rétt að opinberar skuldir hafa mjög aukist sem m. a. stafar af því að átt hafa sér stað verulegar skuldbreytingar, ekki bara núna heldur á undanförnum árum, sem hafa fært skuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna við einkafyrirtæki og ýmsa aðila í þjóðfélaginu yfir á opinbera sjóði. Það þýðir lítt að gefa sér ákveðnar forsendur í þeim efnum. Ég er afar lítið hrifinn af bókhaldi sem þessu, hvort sem það er komið frá Seðlabanka Íslands eða öðrum, og ég leyfi mér að átelja að svo mikilvægar niðurstöður skuli vera dregnar af jafnléttvægum gögnum. En ekki meira um það.

Ég vil ekki með þessu draga úr því að eiginfjárstaða fyrirtækjanna er mjög rýr og mjög slæm. Það hefur hins vegar verið unnið þannig að málum að skuldir fyrirtækjanna eru í mun meira mæli í skilum en áður var. Nú er aðalatriðið að sjávarútvegurinn verði þess umkominn að hagnast það mikið að hann geti staðið undir þessum skuldum og staðið undir þeim erfiðleikum sem hann hefur þurft að safna á sig á mörgum undanförnum árum. Það er ánægjulegt ef það er skoðun allra hér á hv. Alþingi, eins og hv. þm. taldi nánast öruggt, að menn telji eðlilegt að sjávarútvegurinn hafi slíkan hagnað á næstu árum. Ég fagna slíkri skoðun, en það er vissulega nokkuð nýtt fyrir mér. Ég hef ekki fundið hingað til að talið væri sjálfgefið að sjávarútvegsfyrirtækin hefðu eiginlega nokkurn verulegan hagnað, hvað þá hagnað til að standa undir þessum skuldbindingum. En það er vissulega forsenda þess að svo geti tekist.

Þá vildi ég koma að þeim miklu erfiðleikum sem fiskvinnslan stendur frammi fyrir og ástæðum þess hvað illa gengur að halda starfsfólki í fiskvinnslunni. Það er allt saman rétt og er mikið áhyggjuefni hvernig þau mál standa.

Ég bað Þjóðhagsstofnun í morgun að gefa mér upplýsingar um hvernig meðalkaup hafi breyst á þessu tímabili og hvaða ástæður kynnu að vera fyrir þessari þróun. Ef við lítum á hlutfall af meðalkaupi allra verkamanna á 4. ársfjórðungi 1984 var meðaltímakaup verkamanna í fiskvinnslu sem hlutfall af meðalkaupi allra verkamanna á 4. ársfjórðungi 1981 99.6% af meðaltímalaunum, en á 4. ársfjórðungi 1984 105.7. Hins vegar var hreint tímakaup fiskvinnslufólks, þ. e. verkamanna í fiskvinnslu, 90% 1981, en 92.5% á 4. ársfjórðungi 1984. Í sjálfu sér er þetta ekki nægileg skýring. Hér er hins vegar aðeins um samanburð innan verkamannastéttarinnar að ræða, en ekki samanburð við aðrar stéttir.

Ef við lítum á fiskvinnslu eða verkakonur er þetta hlutfall þannig að meðaltímakaup var 109.5% á 4. ársfjórðungi 1981, en 111.3 á 4. ársfjórðungi 1984. Ef við miðum hins vegar við hreint tímakaup var það 97.3% 1981 á 4. ársfjórðungi og 94.7% 1984 í sambandi við hreint tímakaup. Það er sama hér: Eingöngu er um samanburð að ræða innan verkamannastéttarinnar.

Ég tek undir það með hv. þm. að áreiðanlega má rekja þessa þróun að nokkrum hluta til spennu á ýmsum öðrum sviðum þjóðlífsins, spennu í þjónustustarfsemi og annarri atvinnustarfsemi sem hefur dregið óeðlilega til sín, en enginn getur hins vegar að lokum staðið undir nema sjávarútvegurinn sjálfur.

Nú er ég ekki að fara með þessar tölur til að halda því fram að ekki þurfi að bæta kjör fiskvinnslufólks. Það er ekki mín skoðun því að ég er þeirrar skoðunar að svo þurfi að verða.

Við í sjútvrn. höfum rætt þessi mál allnokkuð við forustumenn Verkamannasambands Íslands. Ég átti með þeim í upphafi árs 1984 mjög góðan fund þar sem rætt var um þessi vandamál af mikilli hógværð og menn reyndu að líta á hvernig ætti að bregðast við þeim vandamálum sem þá voru komin upp. Sá fundur leiddi til þess að ákveðið var að skipa starfshóp sem skyldi undirbúa frekari verkmenntun fólks í fiskvinnslunni með það í huga að það fólk sem færi í gegnum slík námskeið, slíka verkmenntun, næði meiri réttindum en aðrir og þeirra þjálfun og þeirra þekking væru metin einhvers í launum.

Ég get ekki farið að rekja það sem gert hefur verið. Vissulega hefði það mátt taka skemmri tíma eins og oft vill verða. Það hefur þó verið unnið verulegt starf í þessu sambandi í ágætu samstarfi rn. og hagsmunaaðila og þá ekki síst í samstarfi við Verkamannasamband Íslands. Það var haldið fyrst tilraunanámskeið 18. og 19. febrúar s. l. Það námskeið sóttu 30 manns frá 20 frystihúsum í landinu. Það var samdóma álit þeirra, sem þar komu, að mikil þörf væri á fræðslu sem þessari. Nú hafa verið gerðar breytingar á þessu námskeiði með tilliti til reynslunnar á fyrsta tilraunanámskeiðinu og var ákveðið að standa fyrir grunnnámskeiðum í sumar í tvo til þrjá daga. Það er markmið slíkra námskeiða að kynna starfsfólki fiskvinnslustöðvanna mikilvægi sjávarútvegsins fyrir íslenskt þjóðarbú og hversu mikilvægt er að afurðir séu ávallt í hæsta gæðaflokki. Á þessum námskeiðum mun fyrst og fremst vera lögð áhersla á eftirfarandi: Sjávarútveginn og þjóðarbúið eins og ég sagði áðan, hráefnið, fiskgæði, hráefnisgeymslur, ferskfiskmat, vélavinnu við fisk, snyrtingu, vigtun og pökkun á fiski, gæðaeftirlit innan frystihúsanna, gæðaeftirlit sölusamtakanna, frystitækni, gerlastarfsemi, fiskmarkaði og starfsemi sölufyrirtækjanna erlendis.

Það hefur þegar verið ákveðið að halda slík námskeið á Ísafirði, í Stykkishólmi, á Sauðárkróki, Dalvík, Hafnarfirði, Egilsstöðum, Húsavík, Vestmannaeyjum og Hafnarfirði. Í framhaldi af því er þess vænst að hægt verði að koma upp sérnámskeiðum, sem er ætlað að vera bæði verkleg og bókleg námskeið, í einstökum greinum fiskvinnslunnar. Námskeiðin verði 10–15 daga löng og haldin á þeim stöðum þar sem aðstaða er fyrir hendi. Þegar fram líða stundir verður að teljast eðlilegt að grunnnámskeiðin séu aðfararnám að (iðrum sérnámskeiðum. Á báðum þessum námskeiðum er ætlast til að þátttakendur hafi reynslu af starfi í fiskvinnslustöð þegar þeir koma á námskeiðin.

Ég er ekki að rekja þetta, þó ástæða væri til að rekja gang þessara mála í miklu fleiri orðum, til að halda því fram að hér sé nóg að gert, en það er enginn vafi á að bæta þarf aðstöðu þess fólks sem vinnur við fiskvinnslu allt árið um kring og hefur hlotið þar gífurlega þjálfun og sérþekkingu. Og þetta fólk á rétt á hærri launum en það fólk sem aðeins stundar slík störf um stundarsakir. Það er orðið því miður allt of algengt, eins og fram hefur komið, að fólk vilji sækja til annarra starfa en ekki hafa þessi störf að langtímastörfum.

Það er því miður svo líka að farið hefur vaxandi ákveðið virðingarleysi fyrir fiski og fiskvinnslu í þessu þjóðfélagi og hefur oft og tíðum verið rekinn heldur óskemmtilegur áróður gagnvart þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarbúsins. Við skulum vona að það snúist við og menn sjái að það sem skiptir máli er að þessari atvinnugrein farnist vel.

Að því er lýtur að framtíðinni er á margt hægt að benda í sambandi við það sem gera þarf og verður unnið að. Ég vil í fyrsta lagi taka fram að ég tel nauðsynlegt að halda áfram svipaðri stefnu í fiskveiðistjórnun og þar með skapa möguleika fyrir samræmingu á vinnslu og aflabrögðum. Við erum búnir að ganga í gegnum eitt ár, þ. e. árið 1984, sem lofar nokkuð góðu og ég tel fulla ástæðu til að ætla að árið í ár verði hagstæðara í þessu sambandi. Við þurfum að halda áfram að tæknivæða bæði skipin og fiskvinnsluna. Það hefur verið reynt innan sjávarútvegsins að beina fjármagni sem þar er til ráðstöfunar fyrst og fremst í þá átt, en reynt að sneiða hjá nýfjárfestingu. Þar má vissulega miklu meira gera, en þar er takmarkað fjármagn fyrir hendi og ég tek undir það með hv. þm. að það skiptir náttúrlega meginmáli að sjávarútvegurinn hafi góða afkomu þannig að hann geti fjárfest fyrir eigið fé að allverulegu leyti.

Það er alveg nýtt fyrir mér að heyra þær raddir að gott sé að sjávarútvegsfyrirtæki hagnist. Það er allt að því að slegið hafi verið upp stórfyrirsögnum í blöðum ef það hefur komið fyrir að eitthvert sjávarútvegsfyrirtæki hefur grætt og menn segja: Þetta gengur bara ekki. En það er að sjálfsögðu nauðsynlegt og mjög mikilvægt að slík umræða eigi sér stað. Hv. þm. Kjartan Ólafsson á þakkir skilið fyrir það að benda á þessa sjálfsögðu staðreynd.

Þá skiptir einnig mjög miklu máli hver verður framtíðin á íslenskum mörkuðum. Það liggur t. d. ljóst fyrir að eftir síðustu fiskverðssamninga var áætlað að hagnaður fiskvinnslunnar væri, miðað við 6% ávöxtunarkröfu, um það bil 1.7% , ég held að ég fari rétt með það, en ef miðað er við aðeins 3% ávöxtunarkröfu er hagnaðarprósentan 2.6%. Miðað við þá kjarasamninga sem nú hafa verið undirritaðir má telja fullvíst að þessi prósenta verði um það bil 0. Þ. e. ef miðað er við 6% vexti í ársgreiðslu verði hagnaður fiskvinnslunnar um það bil 0.

Það er einnig rétt að taka það fram að gert er ráð fyrir enn allmiklu tapi á flotanum. Eftir fiskverðsákvörðun var gert ráð fyrir 5% tapi á bátaflota á loðnu, 1.4% tapi á eldri togurum sem eru skráðir fyrir 1977, en 11.6% á yngri togurum skráðum eftir 1977. Þeir kjarasamningar sem leiddu til lausnar á sjómannaverkfallinu höfðu að sjálfsögðu í för með sér verri afkomu fyrir flotann. Það má gera ráð fyrir að það nemi um 3% á bátaflotanum og um það bil 1.4% á eldri togurunum og þá yngri togurunum líka. Ef slíkir kjarasamningar hefðu ekki verið gerðir má gera ráð fyrir að afkoma þeirra skipa hefði verið á núlli. Hins vegar er það óraunhæfur samanburður því ef ekki hefðu verið gerðir þessir kjarasamningar hefðu skipin væntanlega ekki farið af stað.

Það sem mun skipta sköpum í þessari stöðu er hvað gerast mun á okkar mörkuðum erlendis. Vissulega er of snemmt að spá um það. Það benda þó allar líkur til þess að fiskneysla muni fara vaxandi í Bandaríkjunum og jafnvel geti orðið verðhækkun á blokk þar einhvern tíma á næstunni, án þess að ég geti neitt um það fullyrt. Það liggur fyrir að þær mikilvægu upplýsingar, sem hafa komið frá rannsóknastofnunum og birst í læknatímaritum um mikilvægi þess að borða fisk og er jafnvel talið að fiskneysla tvisvar í viku geti komið í veg fyrir alvarlega hjartasjúkdóma og jafnvel aðra sjúkdóma, munu verða fiskneyslunni mikil lyftistöng ef rétt verður á haldið. Vonandi sjáum við þessa þróun einhvern tíma á næstu mánuðum. Ég legg áherslu á að ef svo mundi verða og það kæmi einhver hækkun á fiskverði fram þarf sjávarútvegurinn á því að halda. Hann getur ekki starfað lengi við þau skilyrði að hafa engan hagnað.

Vonandi fellur einhver slík guðsgjöf okkur í skaut þannig að við getum bærilega réttir staðið upp frá þessu borði.

Auðvitað skiptir þarna máli margt annað. T. d. sá gífurlegi kostnaður og það vandamál sem við stöndum nú frammi fyrir varðandi orm í holdi, sem hefur skert stöðu sjávarútvegsins verulega, og margt mætti til telja. Það er mikilvægt að menn leggist á eina ár um að bæta það ástand.

Það er margt annað, herra forseti, sem ég vildi sagt hafa varðandi fsp. hv. þm. Kjartans Ólafssonar, en ég áskil mér rétt til að koma upp aftur til að koma að viðbótarupplýsingum ef hann vill spyrja mig einhvers frekar um þetta mál eða vill fá nánari útlistanir á því sem ég hef í huga eða hef sagt. Ég viðurkenni fúslega að það mætti verða mun ítarlegra, en til þess að verða við tilmælum hæstv. forseta læt ég ræðu minni lokið.