18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6728 í B-deild Alþingistíðinda. (6020)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Þessi umr., sem nú stendur yfir, er um hið mikilvægasta mál og undir venjulegum kringumstæðum hefði ekki hvarflað að okkur annað en taka okkur nægjan tíma og tíma sem þarf til þess að ræða þetta mál.

Hins vegar er það að við erum vanda bundnir vegna þess að það er haft í huga að næstu daga verði þessu þingi lokið. Og ef svo má verða er greinilegt að það eru mjög mikil takmörk fyrir því hvað við getum haldið þessari umr. lengi áfram.

Það var gert ráð fyrir því að þessi umr. væri einn klukkutíma, en hún er búin að standa núna í nálega einn klukkutíma og þrjú korter og sex eru enn á mælendaskrá. Það er nauðsynlegt að slíta þessum fundi þannig að deildarfundir geti hafist fyrir kvöldmat og það sé búið að vinna nokkurt verk fyrir kvöldmat. Nú vil ég mælast til með tilliti til þessa að þeir sem eftir eiga að tala og eru á mælendaskrá stilli nú máli sínu svo í hóf að það verði naumast um annað að ræða en athugasemdir. Þessi von er sett fram vegna þess að augljóst er að það færi miklu betur á því að ljúka umr. núna en fresta henni. En ef okkur tekst ekki að ljúka umr. á skömmum tíma eigum við ekkert ráð annað til en að fresta henni.