18.06.1985
Efri deild: 102. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6744 í B-deild Alþingistíðinda. (6031)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Í tíð seinustu ríkisstj. kom það fyrir að afgreiðsla lánsfjáráætlunar dróst nokkuð fram á veturinn. Þá var það fastur siður hjá stjórnarandstæðingum, einkum þm. úr Sjálfstfl., að kveðja sér hljóðs utan dagskrár og hafa uppi hin harðorðustu mótmæli yfir því að lánsfjárætlun skyldi ekki vera afgreidd fljótlega upp úr nýári. Ég minnist þess að á seinustu þingum fyrrv. ríkisstj. voru slíkar umræður nánast vikulegur viðburður og þetta var eitt helsta árásartilefni þáv. stjórnarandstæðinga á ríkisstj. Það hefur sannarlega dregist að þessu sinni að lánsfjárætlun yrði afgreidd. Ég minnist þess að í marsmánuði töluðu menn um það að líklega væri ástandið svo svart að ekki væri víst að lánsfjárætlun yrði afgreidd fyrr en rétt fyrir páska.

Menn höfðu af þessu miklar áhyggjur vegna þess að vitað er að stofnlánasjóðir geta ekki afgreitt lánsfjárloforð frá sér nema að fyrir liggi hvað sjóðirnir eiga í vændum. En frá páskum eru nú liðnir meira en tveir mánuðir og enn er ekki búið að afgreiða lánsfjárætlun. Mér er kunnugt um að bændur víða um land, sem hyggja á framkvæmdir á komandi sumri, hafa ekki getað fengið nein lánsloforð frá Stofnlánadeild landbúnaðarins vegna þess að stjórnendur stofnlánadeildarinnar hafa ekki talið sig geta gefið út neinar yfirlýsingar um væntanleg lán þar sem ekki væri búið að afgreiða lánsfjáráætlun.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvílíkt vandræðaástand hefur skapast um allt land af þessum ástæðum. Nú er komið fram í seinni hluta júnímánaðar og menn, sem hyggjast standa í framkvæmdum á jörðum sínum og fá til þess lán frá stofnlánadeild. hata ekki getað ákveðið sig, ekki getað ráðið menn til vinnu hjá sér síðar í sumar, engar áætlanir getað gert enn vegna þess hversu lengi hefur dregist að afgreiða þetta mál hér í þinginu.

Við Alþb.-menn greiddum ekki atkv. með þessu frv. þegar það var afgreitt frá Ed. fyrr í vetur, enda þótt við vildum gjarnan greiða fyrir sem hraðastri afgreiðslu málsins á sínum tíma. Við töldum frv. óábyrgt í ýmsum efnum, gert væri ráð fyrir allt of miklum orkuframkvæmdum, allt of miklum erlendum lántökum í þágu orkumála og yfirleitt allt of ört hækkandi skuldasöfnun erlendis. Við töldum að stinga bæri við fótum.

Eins og kunnugt er var það eitt fyrsta pólitíska lífsmarkið sem núv. ríkisstj. gaf frá sér á þessu ári þegar hún í janúarmánuði gaf þá yfirlýsingu að lánsfjáráætlun yrði lækkuð um 1000 millj. kr. Síðan sú yfirlýsing var gefin hefur lánsfjárætlun hækkað jafnt og þétt. Er ekki fjarri lagi að segja að lánsfjárætlun hafi hækkað um u. þ. b. 200 millj. kr. á mánuði hverjum síðan yfirlýsingin um væntanlega lækkun var gefin. Enn fáum við hér í hv. Ed. lánsfjáráætlun til umfjöllunar og enn er lánsfjáráætlunin að hækka. Þess er því ekki að vænta að við greiðum þessu frv. atkv. okkar því afstaða okkar er að sjálfsögðu óbreytt.