18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6751 í B-deild Alþingistíðinda. (6037)

457. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Vegna spurninga hv. þm. vil ég í fyrsta lagi taka fram að það bréf sem hann nefndi hér og Morgunblaðið vísar til m. a. var ekki afhent af mér. Ég var ekki með það hér s. l. föstudag, en hef fengið það í hendur nú.

Í öðru lagi vil ég taka það fram, sem ég hafði áður reyndar nefnt, að ég afhenti þessi gögn aðeins eftir að ég var fullvissaður um að eitt dagblaðið væri þegar búið að fá þessi gögn og þá sá ég ekki ástæðu til að neita öðrum um þau.

Í þriðja lagi vil ég taka það fram að ég er hv. þm. sammála um það að samanburður á grundvelli lánskjaravísitölu er ekki eðlilegur. Ég tel hins vegar eðlilegt í þeirri vinnu sem ráðuneytin eru nú að láta vinna að þetta sé framreiknað á einhverjum eðlilegum grundvelli. Ég skal ekki segja hver hann á að vera.

Ég hef aðeins reynt að gera mér grein fyrir því hvort einhver annar samanburður væri eðlilegur og hef að vísu engar óyggjandi upplýsingar um það, en mér er sagt að hann sé erfiður t. d. á taxta lögfræðinga sem miði yfirleitt taxta sinn við hagsmuni þeirra aðila sem þeir starfa fyrir. Mér er þó sagt að til sé einn taxti og það er sá tímataxti sem þeir nota þegar þeir flytja mál fyrir Hæstarétti. Það er út af fyrir sig fróðlegt að sá taxti var 1. júní 1981 311 kr. á klukkutímann en er nú 1380, eða hefur hækkað um 443% eða 1 á móti 4.43, en lánskjaravísitalan 1 á móti 4.59 svo að það er bitamunur en ekki fjár á lánskjaravísitölunni og þessum taxta, sem sagt klukkutíma taxta hæstaréttarlögmanna. En ég endurtek að ég er alls ekki viss um að það sé heldur eðlilegur samanburður.

Út af þeim öðrum spurningum sem hv. þm. nefndi vil ég svo segja það um fiskeldisnefndina að ég ákvað að bíða með hana þar til sú vinna, sem Rannsóknaráð hefur verið að vinna, lægi fyrir, þ. e. skýrslan lægi fyrir. Ástæðan var sú að ég átti síðla vetrar og núna í vor viðtal við marga aðila, sem að þessum fiskeldismálum koma, og mér varð ljóst að það eru mjög skiptar skoðanir um alla skipan þeirra mála.

Ég kynnti mér einnig starf Rannsóknaráðs og eftir að mér var ljóst að þar var mikil vinna í gangi ákvað ég að bíða eftir skýrslunni sem ég hef nú fengið á mitt borð. Ég gat því miður ekki sótt fund sem um hana átti að vera og var haldinn eftir því sem ég best veit. En ég geri ráð fyrir því að unnt verði að skipa þessa nefnd nú mjög fljótlega.

Hins vegar vil ég taka fram út af þessu máli að mér varð ljóst, bæði eftir þessi viðtöl og reyndar fyrr, að það er ekkert í lögum sem hindrar að fiskeldisstöðvar séu settar á fót. Það gilda um þær reglur skv. svokölluðum veiðilögum, þ. e. lögum um veiði vatnafiska. Slíkar stöðvar þurfa að fá samþykki veiðimálastjóra og það hefur ekki staðið á því þegar ákveðnum skilyrðum, sem fisksjúkdómanefnd setur, er fullnægt. Ég er fullviss um að það er í raun og veru ekkert í gildandi lögum sem stendur í vegi fyrir framkvæmd þessara mála.

Hins vegar er ljóst að það eru önnur atriði sem hindra. Þau eru kannske fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis. Mjög mikils fjármagns er þörf til þessara mála og það var af þeirri ástæðu m. a. sem ég bað Seðlabanka, Jóhannes Nordal að athuga sérstaklega þessi mál og fékk frá honum greinargerð í síðustu viku.

Um 50 millj. kr. til rannsókna. Þegar lánsfjárlög verða nú samþykkt, sem ég geri ráð fyrir í Ed. í kvöld, þá eru þessar 50 millj. til ráðstöfunar og ég vil taka það fram, að fyrir liggur tillaga frá Rannsóknaráði ríkisins um skipan sérfræðinefndar til að meta umsóknir o. s. frv. Þetta var lagt fyrir ríkisstj. í vetur, ég held ég megi segja í febrúarmánuði, og engar athugasemdir gerðar við þessar hugmyndir og hefur framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs, eftir því sem ég best veit, verið tjáð að ekkert væri til fyrirstöðu af ríkisstj. hálfu að þetta verði framkvæmt eins og þar var lagt til. Það er hins vegar menntmrh. að ákveða hvenær auglýst verður eftir umsóknum. Ég lýsi minni persónulegu skoðun, að ég hef ekkert talið því til fyrirstöðu að gera það jafnvel fyrir nokkru þótt fjármagnið sé ekki til ráðstöfunar fyrr en lánsfjárlög hafa verið samþykkt. Og í frv. til lánsfjárlaga nú er gert ráð fyrir því að ríkissjóður taki þetta 50 millj. kr. lán og veiti Rannsóknaráði það í þessu skyni.

Ég vil taka það fram að ég lít svo á að í framtíðinni sé óhjákvæmilegt að koma á fót rannsóknasjóði, eins og reyndar hefur æðilengi verið talað um, hjá Rannsóknaráði þannig að sá sjóður geti tekið formlega við fjármagni. Þetta er ætlað til rannsókna, til nýsköpunar í atvinnulífi eins og menn þekkja.

Frv. um stjórnarráðið er tilbúið á mínu borði, en sú ákvörðun var tekin að leggja það ekki fram á þessu þingi því að áliðið var orðið þings og næg verkefni fyrir þinginu. Ég geri fastlega ráð fyrir því að það verði lagt fram í haust. Mikið hefur verið í því unnið en því miður ekki náðst samstaða verð ég að segja um ýmsar breytingar, sem ég taldi æskilegar í stjórnarráðinu, þótt mikilvægar breytingar séu í þessu frv.

Um álsamningana, bæði um skattamálin og stækkunina, ef ég leyfi mér að svara því því að ég hygg að ég sé eins inni í því eins og hæstv. viðskrh., er það að segja að þeir samningar hafa verið í fullum gangi en þó miðað seint. Ég hygg að þeir sem hafa komið nálægt slíkum viðræðum þekki það að þær eru tímafrekar og því miður hefur ekki náðst niðurstaða eins og gert var ráð fyrir að yrði um mitt þetta ár. Hún liggur ekki fyrir í dag.

Um afstöðu Framsfl. til stóriðjumála, þá er hún óbreytt. Framsfl. leggur áherslu á að við Íslendingar höfum virk yfirráð yfir stóriðju og leggjum á það áherslu að þegar um er að ræða stóriðju af stærð eins og t. d. kísilmálmfyrirtækið er, þá eigi Íslendingar að hafa meiri hluta þegar í upphafi. Við teljum koma til greina í einstökum tilfellum að þannig sé gengið frá málum að Íslendingar eignist öruggan meiri hluta á ákveðnum tíma. Þetta er óbreytt okkar stefna eins og hún hefur verið undanfarin ár. Og mér er ekki kunnugt um það út af fyrir sig að neinn ágreiningur sé um þetta innan ríkisstj. þó að einstakir ráðherrar kunni að hafa lýst öðrum persónulegum skoðunum.