18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6753 í B-deild Alþingistíðinda. (6038)

457. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að ræða efnislega um þetta frv., heldur ætla ég að minnast hér á frétt sem kom í sjónvarpinu s. l. föstudag í framhaldi af því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ræddi um hér á laugardagsmorgun. Í frétt frá sjónvarpinu á föstudagskvöldið síðasta kom þessi frétt, með leyfi forseta: „Meðal annars var frv. um Framleiðsluráð afgreitt til Ed. og höfðu framsóknarmenn fallið frá flestum brtt. sínum.“

Ég reyndi á laugardaginn að ná í Ólaf Sigurðsson, sem flutti þessa frétt, og eftir mikla fyrirhöfn tókst mér loks að ná í hann og óskaði eftir því að þessi frétt yrði leiðrétt þar sem fyrir henni væri enginn fótur. Ég spurði hann hvort hann hefði ekki kynnt sér þau skjöl sem fram hefðu komið hér á Alþingi í sambandi við þessa afgreiðslu. Nei, hann hafði ekki gert það. Ég spurði hann hvernig stæði þá á því að hann hefði flutt þessa frétt. Trúverðugur maður sagði mér, var svarið. Ég spurði hann hvort hann vildi gefa mér upp nafnið á þessum trúverðuga manni. Nei, hann vildi það ekki. Ég endurtók ósk mína um að hann leiðrétti þetta. Hann sagði að það væri svo mikið af fréttum á laugardagskvöldið út af samningunum að hann gæti ekki komið því við. Ég sagði við hann að mér sýndist að væri hægt að gera þetta með tveimur setningum.

Nú eru liðin þrjú kvöld frá þessu atviki og sjónvarpið hefur ekki enn þá séð ástæðu til að verða við þessari beiðni. Ég verð að víta svona vinnubrögð,, víta fréttaflutning sem er settur fram á þennan hátt og síðan er þverskallast við að leiðrétta fréttina. Það getur öllum orðið á. En þeir eiga að leiðrétta og biðja afsökunar á svona fréttaflutningi. Það eru að vísu fleiri dæmi um slíkan fréttaflutning t. d. í sjónvarpi. Ég ætla þó ekki að fara frekar út í þau mál hér, en er tilbúinn að ræða þau síðar og hef fyrir mér sérstakar fréttir af tveimur málum sem eru á þann veg að það er afskaplega erfitt að liggja undir slíkum fréttaflutningi.

Ég ætla ekki að hafa þetta meira. En ég vonast til þess að Ríkisútvarpið, hljóðvarpið og sjónvarpið, sem á að vera hlutlaust í sínum fréttaflutningi vandi sínar fréttir betur en það virðist stundum gera og reyni að virða það hlutleysi sem því ber að ástunda.