18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6754 í B-deild Alþingistíðinda. (6039)

457. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka hæstv. forsrh. fyrir svör við þeim fsp. sem ég rifjaði hér upp og hann hafði ekki séð ástæðu til að svara áður í umr. m. a. um þróunarfélag. Ég hefði fagnað því ef hann hefði haft sama hátt á varðandi það mál sem hér hefur borið á góma sérstaklega, í sambandi við og í tengslum við álmálið sem svo er kallað. Ég hef margítrekað það að ég er ánægður með að upplýsingar komu fram um öll þau efni sem einhverju varða innan stjórnkerfisins. Ég tel að þær eigi að vera sem aðgengilegastar og reyndi fyrir mitt leyti sem ráðh. að koma upplýsingum á framfæri bæði við alþm. og fjölmiðla um þau verk sem verið var að vinna innan iðnrn., og var raunar talsvert undan því kvartað sums staðar að það bærist allmikið á borð manna af upplýsingum. En það tel ég raunar vera eina af skyldum framkvæmdavaldsins að tryggja það að löggjafarsamkoman hafi sem gleggstar upplýsingar um það sem er að gerast þar á bæ. þó að vissulega hljóti það að vera matsatriði hverju sinni varðandi stöðu mála hversu hratt slík upplýsingamiðlun fer fram.

Talsvert vantar á það í okkar stjórnkerfi að til séu ákveðnar reglur um það t. d. hvenær skjöl séu aðgengileg öllum. Um það þyrftu að vera mun ákveðnari reglur. Raunar eru engar reglur mér vitanlega um það hvenær skjöl eru aðgengileg og birt varðandi alla þætti mála, einnig það sem á hverjum tíma er flokkað undir ríkisleyndarmál. Menn gætu tekið sér til nokkurrar fyrirmyndar t. d. bandaríska löggjöf og venjur að því leyti, þar sem sitthvað sem varðar utanríkisstefnu og utanríkismál Íslands hefur loksins verið dregið fram í dagsljósið vegna upplýsingaskyldu og reglna þarlendis í sambandi við birtingu á gögnum eftir ákveðinn tíma. Mig minnir að aðalreglan sé 25 ár.

Hér kom af hálfu hæstv. forsrh. fram ákveðið það sjónarmið að lánskjaravísitala væri ekki eðlileg viðmiðun í framreikningi eins og haldið hefur verið á málum af núv. hæstv. ríkisstj. Var það út af fyrir sig athyglisverð játning. Það kom líka fram varðandi fiskeldisnefnd, sem ég hélt að væri að störfum. að sú nefnd hefur aldrei verið skipuð. Engin slík nefnd er að störfum til að móta opinbera stefnu í fiskeldismálum. Þá vitum við það. En margt er þar að gerast sem hefði átt að vera stjórnvöldum hvatning til þess að taka fast og ákveðið á málum af sinni hálfu í sambandi við þennan umrædda vaxtarbrodd í íslensku atvinnulífi, þar sem verulegum upphæðum er ráðstafað til uppbyggingar á fyrirtækjum. Sama gildir um rannsóknarfé, 50 millj. Það er greinilega ekki einu sinni farið að auglýsa. þó komið sé bráðum fram á mitt ár, eftir umsóknum í þetta fjármagn, sem ríkisstj. hefur heitið til rannsóknar- og þróunarstarfa. Það ásamt fleiru sýnir okkur hversu illa er á málum haldið í rauninni af stjórn sem á síðasta sumri blés í herlúðra í sambandi við nýsköpun í atvinnulífinu, að við skulum hér í júnímánuði vera enn þá að fjalla um frv. sem eiga að vera undirstaða aðgerða á þessu ári.