08.11.1984
Efri deild: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. hefur gert hér grein fyrir frv. því sem hann flytur fyrir hönd ríkisstj. um gerð nýs samnings milli Íslands og Swiss Aluminium til 20 ára um álbræðsluna í Straumsvík. Það hefur þegar komið fram í fjölmiðlum að við Alþb.-menn erum andvígir þessum samningi og teljum hann betur ekki gerðan. Ástæður fyrir því eru í meginatriðum þessar:

Í fyrsta lagi teljum við að verðið, sem samið er um á orkunni, verði áframhaldandi allt of lágt, bendum á að það er töluvert miklu lægra en kostnaðarverð á framleiddri orku í virkjunum Landsvirkjunar og verulega miklu lægra en það meðalverð sem Swiss Aluminium greiðir í álbræðslum sínum víða um heim.

Við teljum það í öðru lagi ekki til hagsbóta fyrir Íslendinga að hengja orkuverðið aftan í ríkjandi álverð á hverjum tíma, teljum það afar hæpinn ávinning að tengja þetta tvennt saman og óttumst að afleiðingin verði sú að orkuverðið verði í lágmarki um langt skeið.

Í þriðja lagi vörum við við því að gerður sé skuldbindandi samningur um nýtt orkuverð sem ekki er hærra en hér hefur verið lýst til 20 ára með jafnóljósum og flóknum endurskoðunarákvæðum eins og þar er að finna, enda ljóst að vonir um hækkun eftir hálfan áratug, eftir fimm ár, eru vægast sagt mjög hæpnar.

Í fjórða lagi teljum við fráleitt með öllu að kröfur vegna skattauppgjörs séu lagðar á hilluna. Við bendum á að verið er að fórna háum fjárhæðum með þessu. Við teljum þetta siðlaust réttarfar að skattgreiðanda sé sleppt við að bera ábyrgð á skattgreiðslum sínum og greiða þær ef honum ber að gera það skv. dómi. Við teljum þetta illt fordæmi fyrir framtíðina.

En í fimmta lagi andmælum við því alveg sérstaklega að þessu fyrirtæki sé veittur forgangsréttur að nýrri orku á næstu árum að 80 megawöttum til stækkunar álvers, til að auka afköst þess um 40 þús. tn.

Þetta eru þær fimm meginástæður sem við berum fram til rökstuðnings þeirri skoðun okkar að fella beri þetta frv. Álsamningurinn var mikið hitamál hér á Alþingi fyrir 18 árum þegar frv. um samninga við Swiss Aluminium var samþykkt veturinn 1966. Við Alþb.menn vorum algjörlega andvígir þessari samningsgerð, við vöruðum við henni. Í umr. hér á Alþingi, bæði hér í Ed. og Nd., bentum við á að í fyrsta lagi væri orkuverðið allt of lágt. Það var þá ákveðið 3 mill sem var þá þegar eitthvert lægsta orkuverð sem finnanlegt var í veröldinni. Hvergi hafði Swiss Aluminium á þeim tíma komist yfir slíkan happafeng að semja um svo lágt orkuverð sem þá var gert, árið 1966. Sérstaklega er mér minnisstætt að strax daginn eftir að samningurinn var undirritaður hélt forstjóri Swiss Aluminium fréttamannafund hér í Reykjavík og skýrði þá umbúðalaust frá því að þeir hefðu hvergi í veröldinni komist yfir samning um jafnlágt orkuverð eins og þarna var verið að gera. Hann hældist um og gat svo sannarlega haft efni á.

Við Alþb.-menn vorum einnig andvígir því að verksmiðja yrði reist hér á Íslandi sem væri alfarið í eigu erlends auðhrings. Við óttuðumst það að þetta fyrirtæki félli illa inn í íslenskt atvinnulíf. Hér væru á ferðinni risi sem mundi byggja sitt borgríki hér. Það voru einnig gagnrök okkar í þessu máli að í þessu borgríki áttu ekki að gilda íslensk skattalög. Í þessu borgríki áttu íslenskir dómstólar ekki að hafa dómsvald.

Í fjórða lagi andmæltum við því alveg sérstaklega að hér væri reist verksmiðja án nokkurra mengunarvarna. Það var satt best að segja þá þegar nokkuð einstætt í veröldinni að verksmiðja væri byggð án þess að nokkuð væri hugsað um mengunaráhrif frá henni. Þessu var alveg sérstaklega andmælt hér á Alþingi og einn af samþingsmönnum mínum í Alþb., Alfreð Gíslason læknir, hélt hér langa ræðu og varaði við því heilsutjóni sem menn gætu hlotið af verksmiðjurekstri þar sem ekki væri gætt mengunarvarna. En á aðvaranir hans var ekki hlustað. Það leið langur tími áður en annarra flokka menn, menn úr öðrum flokkum en Alþb., tóku undir þá kröfu að komið yrði upp fullkomnum mengunarvörnum við álbræðsluna í Straumsvík. Í kringum 1970 hafði þó tekist að sýna fram á með skýrslum bæði lækna og heilbrigðissérfræðinga að starfsmönnum í álverinu stafaði veruleg hætta af starfsemi þess. Þar reyndust veikindi tíðari en í öðrum verksmiðjum og komu fram greinilegir atvinnusjúkdómar.

Magnús heitinn Kjartansson, sem var iðnrh. sumarið 1971, tók þetta mál sérstaklega til meðferðar. Hann lét gera úttekt á heilsufræðilegum áhrifum á starfsemi verksmiðjunnar og á grundvelli hennar hótaði hann álbræðslunni að hann mundi taka einhliða ákvörðun, sem fæli í sér fyrirskipun til verksmiðjunnar að setja upp mengunarvarnir, ef ekki næðist samkomulag um þetta efni og ef þeirri fyrirskipun væri ekki hlýtt þá yrði verksmiðjunni lokað. Það fór svo að þá fyrst þegar þeim var sýnd full harka gáfu þeir sig og samþykktu að setja upp hreinsitæki við álverksmiðjuna í Straumsvík.

Þessi hreinsitæki áttu að koma árið 1973, árið eftir, en það dróst að þau væru sett upp. Býsna lengi létu menn kyrrt liggja vegna þess að á hverju árinu var því haldið fram að uppsetning hreinsitækjanna væri alveg á næsta leiti. Menn sýndu ótrúlegt langlundargeð, voru ótrúlega þolinmóðir, treystu á loforð álbræðslunnar. En hvað halda menn svo að hafi liðið mörg ár frá því að hreinsitækin áttu að vera komin upp samkvæmt loforði svissnesku álherranna og þangað til þeir efndu loforðið? Það leið tæpur áratugur, það liðu níu ár. Ég hef nefnt þetta hér í upphafi ræðu minnar sem dæmi, reyndar bara eitt af mörgum dæmum, um það hvernig viðskipti Íslendinga við þessa eigendur Swiss Aluminium hafa reynst.

Á fyrri hluta seinasta áratugs, áttunda áratugsins, var það ljósara með hverju árinu sem leið að samningurinn um orkuverðið varð óhagstæðari með hverju árinu sem leið og var hann þó býsna óhagstæður í öndverðu. Ástæðan var einkum sú að olíukreppa skall yfir á árinu 1973 og beint í kjölfar hennar veruleg alþjóðleg verðbólga, sem hafði í för með sér mikla verðrýrnun allra eða vel flestra mynteininga, vissulega mismunandi eftir því hvaða mynt átti í hlut. En sú myntin, sem hér skipti mestu máli, þ.e. dollarinn, varð ekki síst fyrir barðinu á þessari alþjóðlegu þróun og rýrnaði verulega með hverju misserinu og hverju árinu.

Raunverðið á orkunni var mjög lágt í upphafi en það snarlækkaði á þessum árum. Þá sannaðist það, sem við Alþb.-menn höfðum varað við, að það reyndist býsna erfitt fyrir Íslendinga að sækja rétt sinn samkvæmt þeim samningi sem gerður hafði verið. Þrátt fyrir þessa þróun var ekki veruleg sóknarstaða komin í málinu. Þáverandi iðnrh. Magnús Kjartansson hóf þó viðræður við Swiss Aluminium um endurskoðun orkuverðsins en ekki gekk vel að fá þá til að skilja nauðsyn þess.

Svo urðu stjórnarskipti á árinu 1974 og áfram héldu þessar viðræður undir forustu nýs iðnrh. dr. Gunnars Thoroddsen. Eftir býsna langar samningaviðræður fékkst þó að lokum niðurstaða í þessar viðræður hinn 10. des. 1975 þar sem varð samkomulag um hærra verð á orkunni. Orkuverðið hækkaði úr þeim 3 millum — en eins og kunnugt er er 1 mill þúsundasti hluti úr Bandaríkjadollar — í 6–61/2 mill. Sú hækkun varð á árabilinu frá því að samningurinn var gerður, en hann gekk í gildi 12. júní 1976, og var komin að fullu til framkvæmda á árinu 1980. Þetta þótti mönnum vafalaust býsna jákvæð þróun, að orkuverðið skyldi hækka úr 3 í 6–61/2 mill á þessum árum. En þeir vöruðu sig ekki á því að það fylgdi böggull skammrifi. Það reyndist sem sagt vera svo að enn einu sinni voru samningamenn Swiss Aluminium klókari og undirförlari en menn höfðu áttað sig á. Þessi samningur varð til lítils happs fyrir Íslendinga. Það var nefnilega ákveðið í þessum samningi að breyta samhliða ákvæðum um skattgreiðslur álversins. Afleiðing þeirrar samningsgerðar var bersýnilega þegar horft er til baka óhagstæðari skattareglur en áður höfðu gilt. Þessar óhagstæðu skattareglur gleyptu bókstaflega talað allan ávinninginn af þeirri orkuverðshækkun sem fékkst á árabilinu 1975–1981.

Í þessu sambandi nægir að benda á rauntölur um orkuverð og skattgreiðslur á þessu árabili. Staðreynd er að framleiðslugjaldið, sem Swiss Aluminium greiddi, minnkaði um upphæðir sem voru nokkurn veginn jafnháar á öllu þessu tímabili og nam allri hækkuninni á raforkuverðinu. Ef ég man rétt var þarna um 13 milljarða gamalla kr. að ræða.

Strax eftir að Alþb.-maður settist í sæti iðnrh. öðru sinni, haustið 1978, var hafist handa um rannsókn og úttekt á málefnum álversins. Vissulega þurfti að leggja í það gífurlega vinnu að komast til botns í þeirri svikamyllu sem álhringurinn hafði ástundað um árabil. En ég held að enginn geti haldið öðru fram en að þar væri um að ræða mjög vandaða rannsókn sem fram fór undir forustu Inga R. Helgasonar á vegum iðnrn. Þessi rannsókn beindist sérstaklega að verðlagningu álbræðslunnar á súráli og öðrum aðföngum til verksmiðjunnar og á þeim bókhaldskúnstum auðhringsins sem seinna hlutu nafnið hækkun í hafi. Ég held að í þessu sambandi sé ekki úr vegi að rifja upp fyrir hv. alþingismönnum í hverju svonefnd hækkun í hafi var fólgin.

Eins og kunnugt er rekur Swiss Aluminium fyrirtæki og verksmiðjur víða um heim. Fyrirtækið græðir fé í mörgum löndum, mikið fé, og enginn fær gert við því. Það er ekki málið. En þetta fyrirtæki á dótturfyrirtæki hér á landi, svonefnt ÍSAL. Þetta fyrirtæki ásamt Swiss Aluminium er að sjálfsögðu skuldbundið til þess að upplýsa skattayfirvöld hér á landi um raunverulegan hagnað af rekstri ÍSALs og síðan að greiða skatta í samræmi við þennan hagnað. Í samningnum sem gerður var á sínum tíma var gert ráð fyrir því að Swiss Aluminium annaðist kaup á aðföngum til ÍSALs, þ. á m. á súráli, og keypti síðan alla framleiðslu ÍSALs aftur og seldi í öðrum löndum. Ég þarf ekki að segja neinum hv. alþm. að með þessu öðlast Swiss Aluminium alveg sérstaklega þægilega aðstöðu til að hagræða innkaupsverði á súráli og svo aftur söluverði á fullunnu áli frá álbræðslunni. Þetta var þægileg aðstaða fyrir Swiss Aluminium en ekki að sama skapi þægileg staða fyrir íslensk skattyfirvöld. En svona var það, þannig var um þetta samið. Þetta var að sjálfsögðu mjög gagnrýnt á sínum tíma.

En samkvæmt gildandi samningi bar Swiss Aluminium og álbræðslunni skylda til að upplýsa á hvaða verði súrálið væri raunverulega keypt. Og það er þarna sem svikin komu fram. Það er þarna sem þeir brugðust skyldum sínum. Þeir neituðu að gefa upp raunverulegar tölur. Það var þess vegna sem iðnrn. sendi fulltrúa sinn Inga R. Helgason í sérstaka ferð til Ástralíu til að komast á snoðir um það, hvert væri söluverð súrálsins þegar það færi frá Ástralíu. sem sagt að reyna að sannreyna hvernig þeir hagræddu innkaupsverðinu þaðan. Það var einmitt þetta, sem Ingi R. Helgason sýndi fram á og síðan margir sérfræðingar í kjölfar þess, að útsöluverðið í Ástralíu, verðið á vörunni þegar hún færi frá Ástralíu. var miklu lægra en verðið sem gefið var upp þegar varan kom hér til Íslands. Þetta er það sem kallað var hækkun í hafi.

Á tímabilinu frá 1974 til miðs árs 1981 borgaði ÍSAI. móðurfyrirtæki sínu Alusuisse 47 millj. dollara hærra verð fyrir súrálið en Alusuisse keypti það af Gove Aluminia Ltd. í Ástralíu. Ég bið menn að athuga að þetta var hærri fjárhæð en samanlögð raforkukaup álversins á þessum sama tíma. Hækkunin í hafi nam sem sagt hærri fjárhæðum en allt orkuverðið sem féll í hlut Landsvirkjunar á þessu tímabili.

Svo tala menn um það fyrr og nú eins og hér sé eitthvert smámál á ferðinni, eitthvert mál sem í raun og veru skipti engu máli í þessu sambandi og best sé bara að fá út úr heiminum sem allra fyrst. Þetta þýddi að ríkissjóður varð af miklum tekjum, álverið leyndi skattstofnum sem þessu nam og slapp við skatta að fjárhæð í kringum 10 millj. dollara. Það var þess vegna sem fjmrn. ákvað í minni tíð að endurákvarða framleiðslugjald ÍSALs aftur í tímann. Þetta var gert þrívegis fyrir tímabilið 1976–1980, í sept. 1981, des. 1982 og 18. apríl 1983.

Með þessari ákvörðun fjmrn. var krafist greiðslu á viðbótarsköttum. áföllnum vöxtum ásamt viðurlögum fyrir 1. maí, að viðlögðum lögtaksaðgerðum. Eins og hæstv. ráðh. hefur þegar rakið vísaði Alusuisse málinu í alþjóðlegan gerðardóm með bréfi dags. 29. apríl 1983. Íslensk stjórnvöld féllust þá á það — þetta var sem sagt í fyrri stjórn — fyrir sitt leyti að málið gengi til gerðardóms með bréfi dags. 9. maí 1983.

Ég vil í þessu sambandi minna á að það var ekki aðeins við kaup á súráli frá Ástralíu sem Swiss Aluminium beitti þessum óheiðarlegu aðferðum — það vil ég segja alveg afdráttarlaust að þær eru, vegna orða hæstv. iðnrh. hér áðan. Swiss Aluminium hefur allan tímann ástundað þá aðferð að selja sjálfum sér álið frá álbræðslunni á lægra verði en hægt hefur verið að fá það á á almennum markaði. Swiss Aluminium hefur beitt nákvæmlega sömu aðferðum við kaup á svonefndum anóðum sem er eitt dýrasta hráefni sem notað er í álbræðslunni. Ég minni á að hið virta breska endurskoðunarfyrirtæki Coopers & Lybrand hefur staðfest þetta. En ég minni líka á að í svari við fsp. Hjörleifs Guttormssonar fyrir tæpum mánuði síðan, þ.e. 23. okt. s.l., upplýsti hæstv. iðnrh. að endurskoðendurnir Coopers & Lybrand, sem eru sem sagt endurskoðendur iðnrn. hefðu komist að þeirri niðurstöðu nýlega við endurskoðun á ársreikningum ÍSALs fyrir árið 1983 að, eins og kom fram í svari ráðh., leiðrétta bæri ársreikning fyrirtækisins ÍSALs um 9.6 millj. Bandaríkjadala eða um 326 millj. íslenskra kr. fyrir þetta ár, árið 1983. Sem sagt. það eru bara fáeinar vikur síðan

hæstv. ráðh. upplýsti hér á Alþingi að samkvæmt útreikningum Coopers & Lybrand héldi Swiss Aluminium uppteknum hætti. Það lét ekki við það sitja að svindla á Íslendingum á árabilinu milli 1975 og 1981. Það lét ekki staðar numið eftir að málið hafði verið kært til alþjóðlegs gerðardóms. Það hefur haldið áfram, það heldur þessu áfram enn þann dag í dag og mun væntanlega halda þessu áfram enn um nokkurt skeið.

Ég vil því segja að þeir, sem eru nú að semja við svissneska álhringinn um nokkra hækkun á orkuverði til álbræðslunnar, eru fyrst og fremst að hirða uppskeruna af starfi iðnrh. í fyrri stjórn og samverkamanna hans. Þeir eru að hirða uppskeruna af því sem Hjörleifur Guttormsson sáði til á sínum tíma. En gallinn er bara sá að akurinn hefur verið harla illa hirtur seinasta eitt og hálfa árið, tíminn hefur verið illa nýttur og uppskeran er því harla léleg og aðeins hálf að vöxtum miðað við það sem gæti verið ef vel hefði verið á málum haldið.

Það er það hörmulegasta við þennan samning að hið gífurlega starf sem fólst í því að afhjúpa hækkun í hafi er að engu gert. Auðhringurinn á að sleppa með að borga ákveðna upphæð, 100 millj. kr. í eitt skipti fyrir öll, en það er aðeins brot af þeirri fjárhæð sem honum ber að greiða skv. niðurstöðum endurskoðunarfyrirtækisins Coopers & Lybrand.

Ég hef sagt í fjölmiðlum að upphæðin 100 millj. sé aðeins 1/3 af þeim kröfum sem gerðar voru fyrir gerðardómi. En ég vil vekja á því athygli að til viðbótar koma svo kröfur sem hefði átt að gera vegna áranna 1983 og 1984. Hæstv. ráðh. hefur einmitt nýlega upplýst að þar eru engar smáupphæðir á ferðinni til viðbótar. Eins og ég var að enda við að lesa áðan ber að leiðrétta ársreikninga fyrirtækisins ÍSALs um tæpa 10 millj. Bandaríkjadala til viðbótar. Þá væri heildarleiðréttingin komin upp í 60 millj. Bandaríkjadala og þá er eftir að telja með árið 1974.

Hæstv. ráðh. upplýsti áðan, og raunar kemur það fram í frv., að þessa upphæð, eitt hundrað millj. kr., ætti að færa á skattreikning fyrirtækisins. Sem sagt, þegar fyrirtækið er búið að hafa aðstöðu til þess í átta ár að safna innistæðum á skattreikningi með blekkingum í bókhaldi þá er aðeins tekið brot af því sem fyrirtækið skuldar okkur raunverulega vegna þessara skattablekkinga og það er fært inn á þennan stóra skattreikning með þeim afleiðingum að sjálfsögðu að hann lækkar lítillega. En sennilega verður aldrei um að ræða að þessi upphæð komi nokkurn tíma í kassann hjá hæstv. fjmrh. Albert Guðmundssyni.

Þessi afgreiðsla málsins er þeim mun furðulegri þegar fyrri yfirlýsingar hæstv. iðnrh. eru hafðar í huga. Við þurfum ekki að fara lengra aftur í tímann en bara fram á s.l. vor þegar umr. urðu hér á Alþingi um álmálið. Það mun hafa verið í maímánuði 1983 — (Gripið fram í.) — eða marsmánuði, ég sé það ekki alveg í hendi mér, en það skiptir ekki öllu máli, það er á síðari hluta þings í fyrra. Ég heyri að hæstv. ráðh. kannast við hvað ég ætla að fara að lesa upp. Hann kannast við hvað hann hefur sagt í þessu máli og er það gott að honum er ekki alls varnað. Ég hygg, hæstv. ráðh., að þetta hafi verið 10. maí í utandagskrárumr. á Alþingi. Þá sagði ráðh., með leyfi virðulegs forseta:

„Og til þess að taka af allan vafa strax liggur það fyrir — og það veit hv. þm. — að kröfur okkar nú, mínar eða ríkisstjórnarinnar skulum við segja, eru óbreyttar um að endurákvörðun framleiðslugjaldsins verði staðfest.“ Þetta sagði hæstv. ráðh. fyrir bara nokkrum mánuðum síðan hér á Alþingi. Og hann bætti við:

„Það lá alveg ljóst fyrir að ég gat aldrei sætt mig við neina niðurstöðu í þessum málum nema þá sem gæti talist dómur eða dómsígildi, það vil ég leggja áherslu á. Það kom aldrei til greina þótt eftir væri leitað að ég væri til viðræðna um samninga um þessi deiluatriði.“

Það eru bara örfáir mánuðir síðan hæstv. ráðh. gefur þessa yfirlýsingu hér á Alþingi. Og nú er hann búinn að selja öll deilumálin á einu bretti fyrir eina litla upphæð. Er von að ég spyrji hæstv. ráðh.: Hvað kom yfir hann? Hvað hefur gerst í millitíðinni sem hefur snarsnúið ráðh., eins og ég hef hér lýst? Það er sannarlega ofar mínum skilningi með jafnágætan mann og hæstv. ráðh. er þrátt fyrir allt.

Ráðh. ákveður að veita Alusuisse syndakvittun á einu bretti og er þar með að sjálfsögðu að mælast til þess að svikamyllan fái að halda áfram, ekkert verði gert í málum sem snerta árið 1983 eða 1984. Hann fer meira að segja fram á að Alþingi leggi blessun sína yfir það. Í öðrum lið sáttargjörðar ríkisstj. við Alusuisse segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

Ríkisstj. samþykkir að leysa Alusuisse og ÍSAL, og leysir þau hér með, frá öllum kröfum, hverju nafni sem nefnast, að lögum, eðli máls eða í öðru tilliti, þ. á m. öllum kröfum þegar gerðum fyrir dómnefndunum, sem ríkisstj. hefur nokkru sinni átt, á nú eða getur hér eftir átt eða mundi eiga gegn Alusuisse eða ÍSAL af hvaða atvikum eða orsökum sem er, sem nú eru fyrir hendi eða hafa gerst fram á þann dag, sem greinir hér í upphafi, að undanskildum sérhverjum kröfum sem ríkisstj. kann að eiga í tengslum við framleiðslugjaldsskyldu ÍSALs fyrir árið 1984.“

Á hvað minnir svona texti einna helst? Ég verð að segja alveg eins og er, þegar ég les þennan texta þá minnir hann mig skuggalega á gamlar særingarþulur sem þeir menn fóru með sem gerðu viðskipti við ónefndan mann á ónefndum stað. (Gripið fram í: Þetta er lögfræðingatal.) Ef um lögfræðingatal væri að ræða í heiðarlegum viðskiptum er ég hræddur um að orðalagið væri með eitthvað öðrum hætti. Eða svo ég lesi hér aðeins áfram:

„Alusuisse samþykkir að leysa ríkisstj., og leysir hana hér með, frá öllum kröfum, hverju nafni sem nefnast, að lögum, eðli máls eða í öðru tilliti, sem Alusuisse og/eða ISAL getur hér eftir átt eða mundi eiga gegn ríkisstj. af hvaða atvikum eða orsökum sem er, sem nú eru fyrir hendi eða hafa gerst fram á þann dag, sem greinir hér í upphafi, að undanskildum sérhverjum kröfum, sem Alusuisse og/eða ÍSAL kunna að eiga í tengslum við framleiðslugjaldsskyldu ÍSALs fyrir árið 1984.“

Svo kemur hér seinna:

„Hvorki þessi sáttargerðarsamningur eða neinir af skilmálum hans né neinar samningaviðræður eða málarekstur í sambandi við hann skulu vera eða verða túlkuð sem sönnun um viðurkenningu af hálfu Alusuisse eða ÍSALs eða ríkisstj. um neina ábyrgð af nokkru tagi, eða um gildi neinna krafna, staðhæfinga eða röksemda, þ. á m. þeirra, sem fram hafa verið færðar fyrir dómnefndunum, eða um haldleysi neinna varna eða andsvara sem höfð hafa verið uppi gegn þeim. Eigi heldur skal sáttargerðarsamningur þessi eða nokkur af skilmálum hans, né neinar samningaviðræður eða málarekstur í sambandi við hann, vera færð fram eða við þeim tekið í sönnunarskyni eða til annarrar notkunar í neinum málaferlum gegn öðrum hvorum aðilanum, nema varðandi gildistöku og framkvæmd sáttargerðarsamnings þessa.“

Það er sannarlega munur á því hvort menn heita Jón eða séra Jón. Það sýndi sig þegar hæstv. ráðh. tók sér fyrir hendur að útskýra hvers vegna lög og réttur ættu ekki að ganga yfir þetta fyrirtæki eins og venjulega þegna þjóðfélagsins. Það er svo sannarlega ástæða til að spyrja í framhaldi af þessu: Geta íslenskir skattþegnar fengið eitthvað hliðstæða meðferð hjá hv. ríkisstj. og Swiss Aluminium hefur nú fengið, að skulda milljónir kr. árum saman vaxtalaust og sleppa svo með að greiða brot af heildarskuldinni? — Og það á að heita greiðsla í eitt skipti fyrir öll og fyrir alla framtíð.

Ljóst er að það var Swiss Aluminium mikið keppikefli að losna úr þessum málaferlum. Því gerði hæstv. ráðh. sér góða grein fyrir lengst af. Þess vegna gaf hann yfirlýsingar af þessu tagi sem ég var að vitna til áðan. Hann var sjálfur sannfærður um að síst af öllu mættum við sleppa frá okkur því stóra trompi sem þessi málaferli eru, þeirri sóknaraðstöðu sem í þeim var fólgin. Málareksturinn var undirstaða þess að við gátum hafið þá sókn gegn Swiss Aluminium sem nú hefur dottið niður á miðri leið. Þessi málarekstur var fleinn í holdi hins alþjóðlega auðhrings. Það er ekki sérlega hagstætt fyrir alþjóðlegan auðhring að vera hýddur á almannafæri fyrir bókhaldsblekkingar og undirheimaaðferðir í viðskiptum.

Það er nokkuð ljóst miðað við fyrri reynslu að þessi harðvítugi auðhringur hefði aldrei samið um neina hækkun á raforkuverði ef þessi höggstaður hefði ekki verið fundinn á honum. En þeir kaupa sig sem sagt frá frekari málarekstri með hækkun raforkuverðs og 100 millj. kr. syndakvittun.

Nú spyrja menn kannske: Er það ekki ávinningur að fá hækkun raforkuverðs? Er hægt að vera á móti því að raforkuverðið sé hækkað? Auðvitað er svarið það að Landsvirkjun bætir hag sinn með hækkuðu raforkuverði og var svo sannarlega kominn tími til. En þar skilur á milli mín og hæstv. ráðh., eða okkar Alþb.manna og ríkisstj., að við hefðum viljað nota tímann talsvert öðruvísi en gert hefur verið seinustu 17 mánuði. Við hefðum viljað hraða sókn á hendur auðhringnum, við hefðum viljað reka auðhringinn á enn frekara undanhald. Við hefðum viljað knýja hann til þess að samþykkja a.m.k. 17–18 mill á kwst. í orkuverð. Í því skyni hefðum við verið reiðubúnir, á sama hátt og Magnús Kjartansson hótaði álhringnum lokun ef hann setti ekki upp hreinsitæki á sínum tíma, að hóta einhliða hækkun orkuverðs og framkvæma þá hækkun ef nauðsynlegt hefði reynst.

Ég vil í þessu sambandi minna á að hæstv. iðnrh. hefur unnið að þessu máli með talsvert öðrum hætti en fyrrv. iðnrh. Fyrrv. iðnrh. lagði áherslu á samstöðu um málið og í öllu falli að allir flokkar fengju tækifæri til að fylgjast með því. Flokkur Sverris Hermannssonar, hæstv. iðnrh., fékk allan tímann að eiga fulltrúa í þeim nefndum sem um málið fjölluðu og fylgdist mjög vel með hverju einu sem gert var í þessu máli. En eftir að hæstv. iðnrh. tók við þessum málum hafa önnur vinnubrögð verið viðhöfð. Þingflokkur Alþb. hefur t.d. hvergi komið nærri þessu máli, ekki átt fulltrúa í neinni þeirri nefnd sem undirbúið hefur málið og fengið fréttir af málatilbúnaði með höppum og glöppum. Ég hygg að eitthvað svipað eigi við um fleiri þingflokka, ég þekki það ekki svo nákvæmlega.

Staðreyndin er auðvitað sú að það voru núverandi stjórnarflokkar, Framsfl. og Sjálfstfl., sem rufu samstöðuna í þessu máli. Það var Framsfl. sem lét fulltrúa sinn í álviðræðunefndinni segja sig úr nefndinni vegna ágreinings. Það var Guðmundur G. Þórarinsson sem sagði sig úr nefndinni og olli þannig friðslitum um þetta mál. Í kjölfar þess beitti Sjálfstfl., sem var í stjórnarandstöðu, áhrifum sínum á Framsfl. til þess að hér var flutt þáltill. um að taka málið úr höndum þáv. iðnrh. Hjörleifs Guttormssonar. Till. var í raun og veru um það að setja hæstv. iðnrh. af. Upp á þessa till. skrifuðu nokkrir þm. þáv. stjórnarflokks, Framsfl. illu heilli.

Ekki tókst þessi ásetningur tillögumanna á sínum tíma. En friður var rofinn, samstaða var rofin um málið og það var sannarlega illt spor sem þá var stigið. Við Íslendingar höfum auðvitað fyrst og fremst þurft á því að halda að sköpuð væri sem best samstaða um þetta mál og við stæðum sameinaðir í baráttu við þennan alþjóðlega risa á sama hátt og við reyndum a.m.k. löngum að standa sameinaðir í landhelgisdeilunni á sínum tíma.

En þegar ljóst var að Sjálfstfl. hafði lokkað Framsfl. í samvinnu við sig í þessu máli þótti okkur þm. Alþb. við hæfi að við birtum stefnu okkar í þessu máli. Því fluttum við þáltill. hér á Alþingi um leiðréttingu orkuverðs til Íslenska álfélagsins. Í þessari till. var gert ráð fyrir að orkuverðið til álhringsins yrði hækkað einhliða til bráðabirgða upp í 12.5 mill og fyrir árslok 1983 í 15–20 mill eftir nánari ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar og að loknum frekari viðræðum við Swiss Aluminium. En það var að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að ef ekki næðust samningar um endurskoðun raforkuverðsákvæðisins fyrir ákveðinn tíma yrði farið í hart og um einhliða ákvörðun yrði að ræða á bilinu 15–20 mill á kwst. sem orkuverðið yrði ákveðið eftir nánari ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar.

Við lítum því svo á að sú niðurstaða í sambandi við orkuverð, sem hér er verið að semja um og ég ætla að ræða hér svolítið betur á eftir, þ.e. 12.5–14 mill, sem er hið raunverulega innihald þessa samnings fyrst um sinn að því er manni virðist, sé uppgjöf. Það er gefist upp á miðri leið. Við lítum svo á að íslenska ríkisstj. sé nánast að þiggja það sem að henni er rétt. Við lítum svo á að ríkisstj. leggist líka býsna lágt þegar hún lætur hafa sig í það að þiggja það sáttafé sem svo er nefnt og ég hef hér gert að umtalsefni þá makalausu syndaaflausn sem hún hefur samþykkt.

En ekki nóg með þetta. Þessi alþjóðlegi auðhringur hefur sannarlega leyft sér að féfletta Íslendinga um árabil. Hann hefur þráast við það árum saman, eins og ég hef hér lýst, að viðurkenna nokkur sanngirnissjónarmið í þessu máli eftir að dollarinn fór að rýrna og beit sig fastan í samningana frá 1966 og 1975 og vildi aldrei tapa einni einustu krónu sem hann hafði náð til sín með samningunum 1966, þrátt fyrir að augljóst væri hverju mannsbarni að allar forsendur fyrir samningunum 1966 voru löngu, löngu brostnar og það viðurkennt út um allan heim. Auðhringurinn varð þar að auki uppvís að stórfelldum bókhaldsblekkingum og fékkst ekki, eins og nú er komið í ljós, til að hækka raforkuverðið raunverulega fyrr en búið var að afhjúpa hann opinberlega. Hann sveikst um að setja upp hreinsitæki í níu ár eins og ég lýsti hér áðan. Þessi mesti syndaselur í íslenskri atvinnusögu fyrr og síðar, sem hefur sannarlega reynst Íslendingum verr en nokkurt annað erlent fyrirtæki sem þeir hafa átt viðskipti við - og er þá mikið sagt þegar rifjuð er upp saga fyrri ára — á, auk þess sem ég hef nú talið, að fá alveg sérstök aukaverðlaun fyrir frammistöðu sína með því að hann fái forgangsrétt að íslenskri orku fram yfir öll önnur fyrirtæki nú næstu árin, allt að 80 mw. til þess að geta aukið afköst verksmiðju sinnar um 50%.

Það er vissulega mál út af fyrir sig hvort við eigum að auka erlenda stóriðju í landinu, hvort við eigum að auka við veldi erlendra auðhringa, hvort það sé skynsamlegt og eðlilegt að byggja atvinnulíf Íslendinga upp með þeim hætti. Einhverjir munu nú spyrja þegar stækkun álversins kemur til tals hvaða verð við eigum að fá fyrir orkuna í þetta sinn, hvort enn einu sinni á að láta Íslendinga greiða með væntanlegri orkusölu um langa framtíð.

Þegar við erum nú að lofa 80 mw. af orkuforða íslenskra fallvatna erum við þá að endurtaka gömlu söguna frá 1966 sem svo mjög hefur kostað íslenska skattgreiðendur og orkunotendur á liðnum árum? Það á allt eftir að koma í ljós. Nú er mikið talað um erlendar skuldir. Menn hafa þungar áhyggjur af skuldahlutfalli Íslendinga út á við, sem komið er upp í 61%, og menn eru í óða önn ár eftir ár að skera niður allra nauðsynlegustu lántökur með öllum ráðum og með þeim rökum að erlendar skuldir séu orðnar allt of miklar. Menn eiga jafnvel ekkert lánsfé handbært til að lána í annars konar stóriðju, eins og stóriðju í laxeldi, svo ég nefni dæmi, af því að erlendar skuldir eru orðnar svo miklar. Er ekki á slíkum tímum gott að rifja það upp og hafa það í huga að við framleiðum ekki 80 mw. til viðbótar í þágu erlendrar álbræðslu með engum tilkostnaði. Það kostar mikið fé að byggja orkuver sem framleitt getur 80 mw. Ég minni á að Blönduvirkjun sem er 150 mw. er talin kosta um 4 þús. millj. kr. í stofnkostnaði, þ.e. um 26 millj. á hvert mw. 80 mw. mundu þá þýða skuldasöfnun Íslendinga erlendis upp á rúmar 2 þúsund millj. kr.

Eins og ég hef þegar minnt á eru erlend lán Íslendinga, langtímalán, komin yfir 60%. Þau voru í árslok 1983 komin í 60.6% og voru þá talin vera um 36 milljarðar kr. Miðað við það skuldahlutfall er það einfaldur þríliðureikningur að þessi nýja fyrirgreiðsla íslensku ríkisstj. við Swiss Aluminium, að lofast til að selja þeim 80 mw. til viðbótar, það eitt mun auka skuldabyrði Íslendinga út á við bersýnilega um a.m.k. 3–4%.

Að lokum ætla ég hér að víkja að nokkrum staðreyndum í sambandi við raforkuverðið. Hvers vegna er það að okkar dómi ófullnægjandi? Samningurinn hljóðar upp á 12.5–18.5 mill. En verðið á að breytast í hlutfalli við heimsmarkaðsverð á áli eins og hæstv. ráðh. hefur hér lýst. Vísitala álverðs er hins vegar sett á 100 miðað við meðalverð á tímabilinu 1. jan. 1983 til 30. júní 1984, en það verð er talið hafa verið — og er þá auðvitað um meðalverð að ræða — 64.75 cent á Ibs.

Svo einkennilega er til orða tekið í þessu sambandi að talað er um grunnverðið 15 mill. En hvað skyldi álverðið vera núna þegar samningurinn er gerður? Og hvað skyldi orkuverðið vera í samræmi við það? Rétt er að benda á að álverðið núna nær ekki einu sinni þessari vísitölu 100 sem er meðalverðið sem miðað er við í þessum samningum. Það er langtum lægra, sennilega innan við 50 cent á Ibs., ef það er reiknað eftir sama mælikvarða og gert er í þessum samningi. Enda er það staðreynd að orkuverðið, sem á að greiða skv. þessum samningi miðað við þessa nýju viðmiðun, nær ekki einu sinni 13 millum, það er innan við 13 mill, sennilega nær 12.5.

Talið er að meðalverðið á orku skv. þessum samningi næstu árin verði alls ekki þessi 15 mill sem menn tala um sem grunnverð og eru að reyna að flagga í tíma og ótíma. Það er viðurkennt hér í þessum plöggum að á næstu árum muni meðalverðið sennilegast vera í kringum 13.7 mill og er sem sagt eins og nú standa sakir innan við 13. Ég vil upplýsa það hér að álverðið þarf að hækka um 100% frá því sem nú er til þess að því marki sé náð að verðið komist upp í 18.5 mill. Miðað við þetta meðalverð, sem gefur álvísitöluna 100, þarf verðið að hækka um 55% til að ná 18.5 millum.

Íslendingar eru ekki þeir einu sem stríða við alþjóðlega auðhringa. Það er alþjóðlegt vandamál sem margar þjóðir stríða við. En það er bæði þjóðleg og alþjóðleg réttarregla að allir samningar eru byggðir á ákveðnum forsendum. Þessar forsendur geta brostið við breyttar aðstæður. Hvað er það þá sem hefur breyst frá því að samningar voru gerðir um þessi mál 1966 og 1975? Hvað er það sem gefur okkur vald til þess að segja ef þessir menn neita að ganga að samningaborðinu með okkur: Við breytum orkuverðinu einhliða. Hvaða réttur er það sem veitir okkur þetta vald? Jú, það er sá réttur sem felst í því að samningurinn standist ekki lengur vegna brostinna forsendna. Þessar brostnu forsendur stafa af því að orðið hefur gífurleg hækkun á verði orkugjafa, fyrst og fremst á olíu, og mynteiningar um víða veröld, og þá ekki síst Bandaríkjadollar, hafa verulega fallið í verði, þegar á lengra tímabil er litið, vegna alþjóðlegrar verðbólgu. Í þessu sambandi má ekki rugla því saman þótt dollarinn hafi nokkuð styrkt sig á seinustu árum í hlutfalli við aðrar mynteiningar sem vissulega skiptir máli í þessu sambandi en kemur þó ekki í veg fyrir það að hann, eins og allar aðrar mynteiningar, fellur jafnt og þétt í verði vegna alþjóðlegrar verðbólgu. Enda þarf engum að segja það að þrátt fyrir þessa styrkingu dollarans nú á seinni árum er gífurlega mikill munur á verðgildi hans nú og þess sem var fyrir t.d. 10 árum síðan, að maður tali ekki um fyrir 20 árum.

Þetta eru þær breyttu forsendur sem valda því að við getum leyft okkur að standa á því, eins og margir aðrir aðilar, að viðsemjandi okkar sé skyldugur til að hækka orkuverðið. Í þessu sambandi er líka rétt að hafa í huga að margar þjóðir hafa staðið frammi fyrir þessu vandamáli og niðurstaðan hefur yfirleitt orðið að orkuverðið hefur hækkað verulega miklu meira en hér er gerður samningur um. Ég minni á að ríkisstjórn Ghana samdi nýlega við álhring í þeirra landi um hækkun orkuverðs í 17.5 mill. Þar var miðað við álverðið 76 cent pr. pund. Grikkir fengu ákvörðun fyrir gerðardómi s.l. sumar um 20.5 mill. Bandarískar rafveitur, sem knúnar eru með vatnsafli, selja áliðnaði orkuna á 22–27 mill.

Hvert er svo það verð sem Swiss Aluminium þarf að greiða í öllum álbræðslum sínum? Ég hef þegar nefnt þá tölu. Það eru 19.7 mill skv. seinustu upplýsingum. Það var greinilega á misskilningi byggt, sem fram kom hjá hv. þm. Guðmundi Einarssyni í sjónvarpsviðtali hér fyrir nokkrum dögum síðan, að talan væri 16.5 mill. Þar held ég að sé um rangar upplýsingar að ræða, enda hef ég þessar upplýsingar eftir óyggjandi heimildum.

Það er líka vert að velja því fyrir sér hver er framleiðslukostnaður virkjana Landsvirkjunar. Ég heyrði ágætan þm. Kvennalistans segja í sjónvarpinu í gær að framleiðslukostnaður virkjana Landsvirkjunar sé 16 mill. Ég veit að það er skv. upplýsingum Landsvirkjunar og ég hef séð þá útreikninga. En ég vil leyfa mér að benda á að ef við ósköp einfaldlega tökum ársreikninga Landsvirkjunar og ársskýrslu fyrir s.l. ár, árið 1983, þá kemur þar fram að heildarframleiðslukostnaður Landsvirkjunar var 1551 millj. kr. Meðalgengi á árinu 1983 á Bandaríkjadollar er talið hafa verið 25.032 kr. Heildarframleiðslukostnaður, ef hann er umreiknaður í Bandaríkjadali, er þá 61999 millj. Bandaríkjadala og heildarsalan í gwst. 3280.7 gwst. Það er mjög einfalt reikningsdæmi, út frá þessum tölum sem ég hef hér rakið, að reikna út hver er meðalframleiðslukostnaður Landsvirkjunar úr öllum sínum virkjunum, gömlum — sumum afgömlum — og nýjum. Skv. þessu reikningsdæmi er kostnaðurinn 18.9 mill á kwst. Þetta er á árinu 1983. Ég hygg að miðað við þær og þá þróun sem orðið hefur síðan, þar sem ár er liðið, þá hljóti þessi tala frekar að vera hærri en lægri á árinu 1984 og væntanlega á árinu 1985. Það er með þessum rökum sem ég segi að framleiðslukostnaður virkjana Landsvirkjunar sé um og yfir 20 mill. Ég hef hins vegar séð þessa meðaltalsútreikninga Landsvirkjunar, þar sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að meðalverðið hjá þeim sé 16. Ég hygg að það megi mjög deila um ýmsar forsendur sem þeir gefa sér í þessum útreikningum. En þannig er reikningsdæmið eins og ég set það upp og ég hygg að það sé síst fráleitara en aðrir útreikningar í þessu sambandi.

Virðulegi forseti. Ég skal nú fara að ljúka máli mínu þó ég verði að viðurkenna að margt á ég eftir órætt í þessu sambandi. En ég hef fallist á það að reyna að flýta afgreiðslu þessa máls og reyna að tryggja að málið komist til nefndar í dag þannig að hægt sé að vinna að nefndarstörfum yfir helgina. Ég verð að viðurkenna að við Alþýðubandalagsmenn ættum að hafa flein tækifæri en þetta til þess að gera grein fyrir sjónarmiðum okkar og læt því bíða til betri tíma frekari rökstuðning fyrir því að við höfnum þessu samkomulagi.

En ég minni að lokum á meginatriðin í sambandi við orkuverðið. Þau meginatriði eru að orkuverðið er bersýnilega aðeins 12.5–14 mill á þessu og næstu árum og þó sennilega frekar nær fyrri tölunni, en ætti að vera 17–20 að okkar áliti. Það er mikil óvissa um frekari hækkun orkuverðsins skv. þessum samningi. Það er talsverð hætta á því að orkuverðið verði í þessum botni, 12.5 mill, um langt skeið. Þar að auki er orkuverðið fast í dollurum og verður að sæta verulegri verðrýrnun dollarans á komandi árum eins og verið hefur á undanförnum árum.

Áður en ég lýk máli mínu kemst ég ekki hjá því að nefna bara sem dæmi í þessu sambandi að miðað við 5% alþjóðlega verðbólgu á ári, þ.e. 5% verðrýrnun dollarans, mundi verð, sem í dag væri talið vera 18.5 mill, þýða lækkandi raunverð orkunnar niður í 14.5 mill á fimmta árinu. Þetta nefni ég bara til að minna á að menn verða að taka þetta inn í myndina, þessa stöðugu verðrýrnun mynteininga sem ekki aðeins skiptir máli fyrir liðinn tíma heldur einnig fyrir þau ár sem í hönd fara. Það verð, sem nú er verið að semja um og virðist í reynd vera einhvers staðar í kringum 13–14 mill, á bersýnilega eftir að rýrna á næstu árum. Það má gott heita ef það lafir í því að halda yfir 10 mill að fjórum. fimm árum liðnum.

Ég tel að ég hafi fært næg rök fyrir því hér að verðið á orkunni er algjörlega ófullnægjandi. Ég ítreka að þetta er vondur samningur og að við Alþýðubandalagsmenn hljótum að greiða atkvæði gegn honum.