18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6759 í B-deild Alþingistíðinda. (6042)

423. mál, viðskiptabankar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur af þskj. hef ég undirritað með fyrirvara það nál. sem hv. 1. þm. Suðurl. var einmitt að gera grein fyrir. Ég má kannske rifja það upp að við 1. umr. um þetta mál gat ég þess að ég teldi þetta frv., eins og það lá þá fyrir, til verulegra bóta, teldi það framfaraspor. Ég gerði þó ýmsar athugasemdir, að mig minnir í um 20 liðum, við skipan bankamála og bankamálalöggjafar hjá okkur, bæði að því er varðaði viðskiptabankana og aðra þætti, ekki síst það sem veit að Seðlabanka Íslands.

Í samræmi við þessi sjónarmið lagði ég síðar fram brtt. Bæði í þeim brtt. og því sem ég sagði við 1. umr. málsins lagði ég mjög þunga áherslu á eitt atriði, tryggingu innlánsfjár. Það var kannske veigamesta atriðið í þeim flokki athugasemda minna sem fjallaði um viðskiptabankana. Þessar brtt. mínar varðandi frv. til laga um viðskiptabanka hafa nú verið til umfjöllunar í fjh.- og viðskn. og það ánægjulega hefur gerst að ýmsar þeirra hafa hlotið hljómgrunn í nefndinni. Meiri hl. nefndarinnar stendur að ýmsum brtt. sem einmilt eru í samhljóðan við þær brtt. sem ég hafði flutt og ég hef ástæðu til að ætla að sumar þeirra séu þess eðlis að nefndin öll styðji þær í reynd.

En áður en ég vík að þeim brtt. sem nú hefur verið gengið frá vil ég rifja upp stuttlega hverjar þær brtt. voru sem ég flutti sérstaklega. Það var í fyrsta lagi að herða nokkuð ákvæðin að því er varðaði leyfisveitingu þegar settar væru á stofn umboðsskrifstofur. Um þetta atriði hefur tekist fullt samkomulag í nefndinni, hún hefur tekið þessa brtt. ef svo má segja, upp á sína arma. Ég vil því, herra forseti, leyfa mér að draga til baka þessa brtt. á þskj. 773, það er fyrsti liður, (Forseti: Fyrsta tillagan?) fyrsta tillagan, já, þar sem brtt. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. kemur í stað þessarar till., enda nær samhljóða.

Í öðru lagi gerði ég tillögu um að bankaráð ákvæðu innlána- og útlánaflokka þá sem í gildi væru hjá bankanum og hvaða reglur og ákvæði skyldu gilda um þá. Ég vil rifja upp í þessu sambandi að skv. fyrirliggjandi frv. er gert ráð fyrir því að innleiða aukið frjálsræði hjá viðskiptabönkunum til þess að ákveða kjör, þ. á m. vexti á inniánum og útlánum sínum. Í þessu sambandi þótti mér eðlilegt að það væri þá hlutverk bankaráðsins að ákveða hvaða kjör væru í boði og það lægi þannig opinberlega fyrir af hálfu bankaráðsins hvað hér væri um að tefla. Ætti það að gilda bæði að því er varðar innlán og útlán.

Ég er enn sömu skoðunar og þegar ég lagði fram þessa tillögu. Ég tel að í þessu felist ákveðið aðhald þegar við erum að stíga það frjálsræðisspor sem frv. gerir ráð fyrir að þessu leyti eins og það liggur nú fyrir. Þessi tillaga hefur ekki verið tekin upp í áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. og stendur hún því óhögguð frá minni hálfu.

Í annan stað gerði ég ráð fyrir því að við 4. mgr. 21. gr. bætist ný mgr. á þá lund að þrátt fyrir ákvæði c-liðar 1. mgr. skuli ráðh. heimilt að fresta stofnsetningu allra nýrra útibúa um eins árs skeið ef hann telji nauðsyn þar til bera. Hér er um það að ræða að skv. þessu frv., ef að lögum verður, verður það á valdi bankaráðanna að ákveða hvar skuli stofnsett eða rekin útibú. Fram undir þetta og enn í dag er það ekki á valdi bankanna heldur er sótt um það. Hér fer fram leyfisveiting af hálfu Seðlabankans með blessun viðskrh. — eða öfugt um það hvort menn geti fengið að stofnsetja eða reka útibú. Skv. þessu frv. á að innleiða frjálsræði.

Af minni hálfu var þetta ákvæði hugsað sem öryggisatriði, um leið og menn væru að stíga það skref til frjálsræðis sem hér um ræðir, nefnilega að ef sérstakar aðstæður kæmu upp væri heimild til handa þeim ráðh. sem fer með bankamál að frysta, ef ég má svo segja, ástandið eins og það væri á ákveðnum tíma, að fresta stofnsetningu allra nýrra útibúa. Ég ætla ekki að fara út í útlistun á því hvaða aðstæður gætu leitt til þess að talið væri eðlilegt eða rétt að gera það en ég taldi skynsamlegt að ákvæði af þessu tagi væri í lögum og yrði þá eitt yfir alla að ganga. Ráðh. gæti ekki valið úr einstök útibú heldur yrði beinlínis um frystingu á ástandinu að ræða, um eins árs skeið hið mesta, meðan menn væru að átta sig á hlutunum. Þessi tillaga hefur sem sagt ekki verið tekin upp í álit meiri hl. fjh.- og viðskn. og stendur því óhögguð og ég óska eftir að hún gangi til atkvæða, herra forseti.

Í þriðja lagi flutti ég tillögu um starfsmannaráð. Hv. 1. þm. Suðurl., frsm. nefndarinnar, gat þess að meiri hl. hefði ekki talið ástæðu til þess að binda það í lögum, þó að hann væri að ýmsu leyti hlynntur því að starfsmannaráð gætu verið starfandi í bönkunum. Hér er ekki um víðtæk ákvæði að ræða, sem ég geri tillögu um að fari inn í lögin, aðeins eina grein stuttlega orðaða sem tryggir það að starfsmannaráð séu hvarvetna starfandi. Síðan geta menn ákveðið frekari verkaskiptingu að eigin vild. Ég er enn þeirrar skoðunar að eðlilegt sé og rétt að í lögum séu ákvæði af þessu tagi. Þessi tillaga stendur því óhögguð af minni hálfu.

Ég minni á í þessu sambandi að í ýmsum bönkum í grannlöndum okkar er það meira að segja svo að starfsmenn hafa æði víðtæk áhrif að því er þetta varðar og víða er það svo að menn setja upp starfsmannaráð. Ég held að í svo stórum stofnunum sem bankarnir eru sé nauðsynlegt að það sé fyrir hendi.

Í fjórða lagi lýsti ég þeirri skoðun minni við 1. umr., og það kemur fram í 4. tillöguliðnum í brtt. mínum, að ég teldi að viðskiptabankar ættu ekki að fá heimild til þess að kaupa hlutabréf í hlutafélögum sem ekki tengdust bankastarfsemi. Rökin voru ákaflega einföld. Í fyrsta lagi virtist mér augljóst að þá gæti komið upp hagsmunaárekstur innan bankastjórnarinnar milli þeirra fyrirtækja sem bankinn ætti hlut í og þeirra sem hann ætti ekki hlut í. Í annan stað eru þessi ákvæði af því tagi að einungis er heimilt að kaupa hlutabréf í stórum fyrirtækjum, svokölluðum almenningshlutafélögum, og þar er greinilega verið að mismuna milli stórra og lítilla fyrirtækja. Þessi tillaga stendur því óhögguð.

Fimmti töluliðurinn varðaði það að ársreikningi skyldi fylgja sundurliðað yfirlit yfir launagreiðslur, bifreiðakostnað, risnukostnað o. fl. Um þetta gilda nýsamþykkt lög frá Alþingi, líklega tveggja frekar en þriggja ára gömul, en skv. frv. eins og það liggur nú fyrir er gert ráð fyrir að nema þetta úr lögum. Að vísu hafa verið gefnar yfirlýsingar um að eitthvað hliðstætt yrði sett í reglugerðir, en með því að lögin hafa svo nýlega verið sett og hér er í raun um almannaaðhald að ræða, þá tel ég eðlilegt að þetta haldist í lögum eins og það nú er.

Sjötti liðurinn varðaði það að í hlutafélagabanka skyldi ráðh. skipa einn skoðunarmann rétt eins og hann gerir í ríkisviðskiptabanka. Í grannlöndum okkar ýmsum er það svo að ríkisstj. eða ráðh. sá sem fer með bankamál tilnefnir í stjórnir bankanna einn fulltrúa alveg án tillits til þess hver eigandinn er. Það er hluti af almannaaðhaldinu, það er hluti af því aðhaldi sem hið opinbera telur nauðsynlegt, og ég vitna m. a. til Noregs í þessum efnum. Ég vildi ekki ganga svo langt en ég taldi að það gæti verið eðlilegt og ekkert því til fyrirstöðu að einn af endurskoðendum allra banka væri tilnefndur af ráðh., en ekki einungis að því er ríkisviðskiptabankana varðar. Ég er enn sömu skoðunar og þessi tillaga stendur því óhögguð.

Í sjöunda lagi koma allmargar tillögugreinar sem varða tryggingarsjóð hlutafélagsbanka. Það eru tillögur um að bæta við allmörgum greinum um þennan tryggingarsjóð. Eru það nýjar 51., 52., 53., 54., 55., 56., 57., 58., 59. og 60. gr. í þetta frv. eins og það liggur hér fyrir.

Nú hefur það ánægjulega gerst eftir umræður í nefndinni, sem er þó reyndar allt of óvenjulegt, að skynsemin hefur orðið ofan á, þannig að þessi hugmynd hefur verið tekin upp í till. meiri hl. fjh.- og viðskn. í styttra formi, og ekki hef ég á móti því að formið sé styttra. Fyrir því hefur 1. þm. Suðurl., frsm. meiri hl., gert grein. Þetta ákvæði er mjög einfalt. Það er beinlínis um það að tryggingarsjóður af þessu tagi skuli vera starfandi, hvaða greiðslur skuli til hans renna og hvaða hlutverk hann hafi, nefnilega það markmið að tryggja full skil á innlánsfé þegar skipti á búi viðskiptabanka ber að vegna þess að hann sé gjaldþrota, og jafnframt að setja skuli reglur til að tryggja sem skjótasta endurgreiðslu innlána þegar þetta ber upp á. Ég vil nú vona að það að þetta skref skuli verða stigið verði til þess að til þess þurfi aldrei að grípa að nota þennan sjóð. Öryggi innlánsþega og traust þeirra á innlánsstofnunum muni vaxa svo mjög að til þess þurfi ekki að koma.

En þess vegna, herra forseti, dreg ég til baka allar þær tillögur sem eru undir þessum 7. lið a, og fjalla um 51.–60. gr. (Forseti: Brtt. 773,7?) Brtt. 7. a er sú sem ég hef verið að lýsa, já. En jafnframt hefur þá verið gert ráð fyrir ákvæði til bráðabirgða um það að viðskrh. skuli setja reglugerð um þennan tryggingarsjóð innan eins mánaðar frá gildistöku laganna. Ég tel satt best að segja að hér hafi mjög mikið áunnist sem ástæða sé til að fagna alveg sérstaklega.

Í 7. lið b gerði ég ráð fyrir nýrri grein, 61. gr., um að ríkisviðskiptabankarnir greiði sérstaka þóknun til ríkissjóðs vegna þess að tryggingarsjóðurinn, eins og ég hafði sett hann upp, sneri einungis að hlutafélagabönkunum en þóknunin til ríkissjóðs væri vegna ríkisábyrgðar þeirrar sem ríkisviðskiptabankarnir njóta. Þessi grein er þá líka óþörf, herra forseti, og b-liðurinn jafnframt dreginn til baka.

Þá gerði ég ráð fyrir XI. kafla sem varðaði endurskoðun fjárhæða. Þetta efnisatriði hefur líka verið tekið upp í tillögur meiri hl. fjh.- og viðskn., reyndar í 1. tölulið þeirra tillagna. Það varðar heimild og skyldur ráðh. til þess að endurskoða fjárhæðir í samræmi við almennar verðlagsbreytingar í landinu. Hér er fyrst og fremst um að ræða þá fjárhæð sem ætlast er til að gildi sem lágmarkshlutafé ef stofnsetja skal banka. Þessi tillaga er þess vegna líka dregin til baka, c-liður undir 7. tölulið, ný 62. gr.

Í áttunda lagi gerði ég tillögu um það að Alþingi skyldi skera úr um það að Útvegsbanki og Búnaðarbanki yrðu sameinaðir í einn banka. Það hefur oft verið um þetta rætt. Ég tel að ekki sé hægt að leysa úr því öðruvísi en með samþykkt Alþingis. Sú tillaga stendur, herra forseti. Hins vegar er 9. liðurinn, varðandi ákvæði til bráðabirgða um aðild að tryggingarsjóði, dreginn til baka þar sem ég tel að það form sem nú sé að komast á geri þá tillögugrein jafnframt úrelta.

Í þessu máli flutti hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir tvær brtt. Önnur varðandi 19. gr., um að þar bættust við orðin „að fengnu samþykki ráðh.“ Þetta varðar launakjör bankastjóra. Má vera að það geti verið til bóta og var þetta þó ekki ítarlega rætt í nefndinni.

Í öðru lagi flutti Jóhanna brtt. um að á eftir 27. gr. kæmi ný grein á þá lund að heildarskuldbindingar eins viðskiptaaðila við viðskiptabanka mættu ekki nema meira en 35% af bókfærðu eigin fé bankans og sama skyldi gilda um heildarskuldbindingar skyldra aðila. Hér er um að ræða málefni sem hv. 1. þm. Suðurl. gerði mjög að umræðuefni hér áðan og sagði að rætt hefði verið ítarlega í fjh.- og viðskn. Það var reyndar rætt mjög ítarlega líka í bankamálanefnd á sínum tíma, en hvorki í bankamálanefndinni né heldur í fjh.- og viðskn. gátu menn sameinast um það að finna hinar réttu prósentutölur eða treystu sér til að binda þetta svo fast sem þarna er ráð fyrir gert við ákveðna prósentutölu þó að það væri að ýmsu leyti mjög æskilegt til þess að fá skýrar línur.

Þess vegna var leitað annarra leiða til að koma þessum sjónarmiðum á framfæri og það atriði kemur fram í 3. tölul. brtt. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 1289. Þar er gert ráð fyrir því að bankaráð móti stefnu bankans í vaxtamálum og setji að fenginni umsögn bankastjórnar og bankaeftirlits almennar reglur um lánveitingar bankans. Hér er bankaráði fengið það hlutverk og eins og fram kom í máli hv. 1. þm. Suðurl. þá hafa ýmsir bankar hér gert þetta. Þetta mun líka vera viðtekið víða erlendis eftir því sem ég best veit. Þessar reglur yrðu síðan að mótast í tímans rás og til þess að móta þær mundu fara fram skoðanaskipti milli bankanna, sparisjóðanna reyndar líka, og bankaeftirlitsins. Aðstæður eru mismunandi í hinum ýmsu bönkum og á hinum ýmsu þéttbýlisstöðum en ég er sannfærður um það að menn munu finna góða lausn á þessu máli. Og að því leyti er með þessari tillögugrein, eins og hún stendur hér frá meiri hl. fjh.- og viðskn., komið til móts við þau sjónarmið sem birtast í brtt. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þó að ekki sé hér eins fast að orði kveðið og í tillögum Jóhönnu þá er þó komið til móts við það sjónarmið, og ekki bara hennar sjónarmið að því er þetta varðar, heldur sjónarmið sem hafa verið uppi í bankamálum um langa hríð, sjónarmið sem hafa verið rædd mjög í sambandi við bankalöggjöf og bankastarfsemi.

Hæstv. viðskrh. hefur svo aftur flutt tillögu um annað orðalag á þessari grein sem ég tel alls ekki eins farsælt og það sem meiri hl. n. hefur gert tillögu um. Hæstv. viðskrh. gerir ráð fyrir því að ekki skuli fengin umsögn bankaeftirlitsins, heldur skuli ákvarðanir bankaráðsins sendar bankaeftirlitinu eftir að þær hafa verið teknar.

Eins og tillögugreinin er nú orðuð af hálfu fjh.- og viðskn. eru bankaráðin vitanlega að öllu leyti ábyrg fyrir því hvaða reglur þau setja. Þau eiga að fá umsagnir m. a. frá bankaeftirlitinu, leiðsögn, skulum við segja, en þau bera hina endanlegu ábyrgð. Að því leyti eru þessar tillögur samhljóða. En ég tel nauðsynlegt, ekki síst með tilliti til reynsluleysis okkar í þessum efnum og þess að bankaráðin hafa mörg hver ekki vanist því að setja sér slíkar reglur, að þau fái að njóta þess að bankaeftirlitið láti í té umsögn áður en frá málunum er gengið, að þau njóti leiðsagnar. Ég vil einmitt leggja til að bankaeftirlitinu sé skylt að veita slíka umsögn um þær hugmyndir sem uppi eru af hálfu bankaráðsins um það hverjar reglurnar skuli vera. Ég vil ekki að bankaeftirlitið sé gjörsamlega stikkfrí og geti svo komið á eftir og sagt: Þetta var allt saman ómögulegt hjá ykkur. Það finnst mér að liggi í tillöguflutningi hæstv. viðskrh. þar sem í hans tillögu felst að bankaeftirlitinu sé ekki skylt að veita umsögn. Ég tel að hér sé ekki um neinn árekstur að ræða milli leiðbeiningar- og eftirlitshlutverks þess sem bankaeftirlitið hlýtur að eiga að hafa.

Ég skal ekki fara öllu fleiri orðum um þetta á þessu stigi, en eins og meiri hl. gekk frá þessari tillögu tel ég að hún sé til verulegra bóta og muni verða til þess að hér komist á góðar reglur í þessu efni og menn muni vinna sig fram úr því. Og ég legg áherslu á það að ábyrgðin hvílir á bankaráðinu en bankaeftirlitinu er ætlað skv. þessum tillögum að láta bankaráðin vita hvar þau í rauninni standa, veita þeim leiðbeiningu, og að bankaráðin þurfi ekki að óttast þann dóm að þeim reglum, sem þau samþykkja, verði meira og minna hafnað af bankaeftirlitinu eftir á. Þannig á ekki að vinna.

Herra forseti. Ég tel mig hafa gert grein fyrir málinu af mínum sjónarhóli. Eins og fram kemur í nál. og eins og fram hefur komið væntanlega í máli mínu hér eru ýmis atriði í þessu frv. sem ég vildi hafa nokkuð á aðra lund en gert er ráð fyrir af hálfu meiri hl. fjh.-og viðskn. Ég tel samt að náðst hafi mjög ánægjulegir áfangar og verulegar umbætur sem ég met mikils í ýmsum þáttum. Veigamest í þeim efnum er það að upp skuli vera tekin trygging á innlánsfé eins og gert er ráð fyrir í tillögum meiri hl. eins og þær liggja fyrir.