18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6775 í B-deild Alþingistíðinda. (6046)

423. mál, viðskiptabankar

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Við lok 2. umr. þessa máls vil ég leyfa mér að færa hv, fjh.og viðskn. Nd. þakkir fyrir störf hennar við afgreiðslu á þessu máli. Það hvarflaði ekki að mér að hér yrði afgreiðslan samhljóða. Hins vegar liggur það ljóst fyrir að að þessu máli hefur verið unnið með því hugarfari að koma fram sjónarmiðum nm., samræma þau eftir því sem mögulegt væri og reyna þannig að ná fram þeirri bestu afgreiðslu á málinu sem mögulegt væri.

Ég er ekki reiðubúinn að taka undir það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um undirbúning málsins. Ég vísa til þess að í ein fjögur ár hefur verið unnið að undirbúningi þessa máls af nefnd sem skipuð var af þáv. viðskrh. og áður höfðu viðskrh., eða nefndir á þeirra vegum, unnið að þessum málum og fulltrúar allra þeirra stjórnmálaflokka sem setu áttu á Alþingi haft tækifæri til þess að fylgjast með því að þeir tilnefndu fulltrúa í þessa nefnd. Ég hef auk þess reynt að tryggja að fulltrúar annarra flokka, sem á þingi eiga sæti nú, fengju tækifæri til þess að fylgjast með gangi málsins eftir að það tók á sig þá mynd sem það nú endanlega var lagt fram í hér á hv. Alþingi. En þetta er nú ekki til þess að deila hér um við meðferð málsins á síðasta stigi. Ég nefni það aðeins til þess að láta ummælum hv. þm. ekki ómótmælt.

Hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur brtt. á þskj. 1289. Ég get fyrir mitt leyti fallist á þær brtt. sem þar eru fluttar, þó að 3. brtt. undanskilinni. Ég hef flutt brtt. við þá brtt. á þskj. 1320. Í till. meiri hl. er gert ráð fyrir því að bankaráðin setji, að fenginni umsögn bankastjórnar og bankaeftirlits, almennar reglur um lánveitingar bankanna. Ég er ekki andvígur því að bankaráðin setji þessar almennu reglur að fenginni umsögn bankastjóranna, þeirra sem framkvæma eiga reglurnar. Hins vegar tel ég það ekki eðlilegt að til eftirlitsaðilans sé leitað, þ. e. þess aðila sem á að fylgjast með framkvæmd starfa þessara aðila, og hans umsögn fengin við mótun þessara reglna. Hér er um að ræða að mínum dómi að fela bankaeftirlitinu stefnumótun eða leiðsögn við útlánareglur. Ég met störf bankaeftirlitsins með þeim hætti að því beri að fylgjast með að yfirstjórnir bankanna starfi skv. þeim lögum og reglum sem þeim eru settar, hvort heldur það er Alþingi, stjórnarráðið eða þá bankaráð sem setur bankastjórum reglur. Mér finnst hins vegar eðlilegt að þær almennu reglur, sem bankaráðið setur í sambandi við lánveitingar, séu látnar bankaeftirlitinu í té, sendar því, og bankaeftirlitið meti hvort það gerir í upphafi athugasemdir eða ekki, og það hefur reglurnar til að styðjast við þegar það fylgist með starfsemi viðkomandi stofnunar, með hvaða hætti starfsemi hennar fer fram og hvort farið sé að þeim lögum og reglum sem settar hafa verið.

Ég tel þess vegna skynsamlegra að orða þetta eins og ég legg til á þskj. 1320. Ég geri mér ljóst að fyrir flm. vakir fyrst og fremst að tryggja eftirlit það sem bankaeftirlitið fer með, en ekki það að fela því einhver stjórnunarstörf í bönkunum, og ég tel að það sem fyrir þeim vakir sé fullkomlega tryggt í sambandi við þá brtt. sem ég flyt á þskj. 1320.

Á þskj. 1259 flytur hv. 3. þm. Reykv. 11 brtt. sem hann gerði hér grein fyrir áðan. Hann lagði fram fsp. til mín varðandi sér t lagi 2. brtt., varðandi erlendar skuldir banka og hvort það væri ekki rétt, sem hann héldi, að þær væru meiri en eiginfjáreign bankanna. Hér held ég að viðkomandi geri sér ekki nægjanlega vel grein fyrir því að þau erlendu lán sem bankarnir taka eru endurlánuð að langmestu leyti og það sem út af stendur er miklu, miklu lægri upphæð heldur en eigið fé viðkomandi peningastofnana. Það er óraunhæft að kanna hver erlenda lántakan er og gera samanburð á henni og eiginfjárstöðunni án þess að gera sér grein fyrir því að hér er í flestum tilfellum um að ræða erlenda lántöku sem er endurlánuð til aðila hér á landi.

Þá gerði hv. 3. þm. Reykv. grein fyrir brtt. sem hann flytur ásamt hv. 1. þm. Suðurl., frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. varðandi 5. gr. frv. Eins og fram kom í hans ræðu munu aðrir fjh.- og viðskn.-menn standa að baki þeirri till. Hann lagði þá spurningu fyrir mig hvort ég væri þeirri till. sammála og ég get mjög vel á hana fallist. Mér er ljóst hvað hér liggur að baki og ég get fyrir mitt leyti staðfest að þeir aðilar sem nú eru eigendur að bönkum geta aukið sitt hlutafé. Það er minn skilningur í sambandi við þetta.

Hv. þm. kom hér inn á bankaútibúin og vék að þeim ákvæðum sem í þessu frv. eru. Það er ljóst að þær reglur sem um þetta hafa gilt hafa gengið sér til húðar. Hér er verið að móta reglu sem að sjálfsögðu er ný og þess vegna liggur ekki nákvæmlega fyrir með hvaða hætti útfærsla þeirrar reglu yrði, en þegar talað er um fasteignir og annan búnað, þá er átt við það sem oft er nefnt varanlegir rekstrarfjármunir. Ég geri mér grein fyrir því að þetta þarf að athuga mjög vel, en það er fyrst og fremst sett hér ákvæði um að það húsnæði sem þessar stofnanir hafa á leigu skuli líka teljast með í þessu tilfelli til þess að fram hjá ákvæðinu verði ekki smogið með því að peningastofnanirnar eigi ekki fasteignir, sem þær starfa í, heldur leigi þær.

Þegar hv. 4. landsk. þm. gerði grein fyrir brtt. sínum hér áðan, sem sumar hverjar eru með þeim hætti að ég gæti fyrir mitt leyti á þær fallist þó að þær njóti ekki enn svo mikils stuðnings á Alþingi að meiri hluti næðist um þær, ræddi hann frá sínu sjónarmiði um fyrirkomulag á stjórnum opinberra stofnana. Af því að hann vék hér að einu ákveðnu fyrirtæki og einum ákveðnum banka og að þar hefði verið alþm. vil ég taka fram að ráðh. hefði að sjálfsögðu getað skipað formann fyrirtækisins formann í bankaráði og þá hefði Alþingi ekkert haft með málið að gera þó að í þessu tilviki hafi það verið alþm.

Hv. þm. vék að reikningum þessa ákveðna fyrirtækis og las út úr reikningunum ákveðna niðurstöðu sem ég skal ekki dæma um. En þar verðum við að gera greinarmun á útkomu fyrirtækisins annars vegar og svo þeim tryggingum sem bankinn hefur hins vegar. Nú hafa bankastjórar þessa banka opinberlega gert grein fyrir því að bankinn hafi tryggingu fyrir þeim lánum, sem hann hefur veitt, í eignum fyrirtækisins og eignum hluthafanna, þannig að reikningar fyrirtækisins þurfa ekki að sýna og sýna ekki skv. þessu þær tryggingar sem bankinn hefur fyrir þeim skuldum sem fyrirtækið er í.

Varðandi fsp. sem er framhald af fsp. frá því fyrr í vetur þá hafa, að ég best veit, þeir aðilar sem fara með eftirlit undir þessum kringumstæðum ekki talið ástæðu til að gera sérstaka athugun á því tilviki sem hér var að vikið.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri við þessa umr. Ég hef gert grein fyrir stuðningi við þær tillögur sem meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur flutt, þó með þeirri breytingu sem ég hef lagt til á sérstöku þskj., en hv. 1. þm. Suðurl., frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., gerði grein fyrir till. meiri hl. í framsöguræðu sinni áðan.

Ég endurtek þakklæti mitt til fjh.- og viðskn.-manna fyrir störf þeirra í sambandi við þetta.frv.